17.12.2016 | 16:57
Það hlýtur að vera eitthvað að varðandi lambakjötið
Það er skrýtið að lesa að það þurfi 100 milljónir aukalega til að markaðssetja íslenskt lambakjöt í fjarlægum löndum núna.
Að slíkt þurfi nú hlýtur að benda til þess að endurskoða þurfi lambakjötsframleiðslu Íslendinga - frá upphafi til enda. Ef til vill einnig markaðssetninguna.
Ef ég man rétt minnkaði innalandsneysla á lambakjöti (per íbúa) ár frá ári, nokkuð svo lengi sem elstu menn muna (þó að það sé vissulega teigjanlegt). Engu virðist skipta að metfjöldi ferðamanna streymir til Íslands ár hvert, lambakjötið virðist ekki ná að rísa í sölu.
Því blasir við að annaðhvort hefur neysla "innfæddra" hrunið, eða að ferðamennirnir sem mælast brátt í 2. milljónum, ef marka má spár, hafa lítinn áhuga á lambaketinu. Rétt er að hafa í huga að sá fjöldi erlendra ferðamanna sem fer um Keflavíkurflugvöll er mikið hærri.
Ef ég hef skilið rétt er reiknað með að yfir 6.5 milljón farþegar fari um flugvöllinn á þessu ári.
Vissulega er það svo að með rísandi gengi, er lambakjötið eins og margar aðrar íslenskar afurðir orðnar ansi dýrar.
En ég hygg að þetta sé markaðurinn sem ætti að einblína á.
Þess utan, held ég að einstaklingar sem hafa smakkað íslenskt lambakjöt sem ferðamenn, séu mun líklegri til að láta slík kaup eftir sér, þegar heim er komið, en aðrir.
P.S. Sjálfur borðaði ég íslenskt lambalæri í gærkveldi. Það er frábær kvöldverður og kitlaði bragðlauka allra viðstaddra, ásamt því að læða fram heimþrá hjá sjálfum mér.
Öndvegis matur og slær öllu öðru lambakjöti við. Ekki keypt í búð hér, heldur kom það með góðum vini mínum sem átti leið hér um. Komið örfáa daga fram yfir síðasta söludag, en það kom alls ekkert að sök, lungmjúkt og meyrt.
Lambakjötsala í lægð vegna deilu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Matur og drykkur, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Væri ekki klókara að koma þessu ofan í þessa milljón + ferðamenn sem koma hingað á ári hverju?
Hrossabrestur, 17.12.2016 kl. 19:32
Að mínu mati þarf að endurskoða búvörusamninginn. Það þarf að draga úr styrkjum smátt og smátt til að neyða/ hvetja bændur til hagræðingar í greininni og ýta þeim út sem nota fornaldarlegar aðferðir og fylgjast ekki með tímanum. Bendi á frétt RÚV í gær eða fyrradag þar sem bóndi var að mæla þessari fjárveitingu bót og sýnt var þegar hann var að gefa á garðann handvirkt eins og var gert fyrir 50 árum síðan.
Jósef Smári Ásmundsson, 18.12.2016 kl. 10:24
Hef lengi velt vöngum yfir því, hvernig stendur á, að ekkert gengur að selja lambakjötið erlendis, á góðu verði.
Árið 1975 var ungt fólk sem ég þekki á bakpoka ferðalagi um Evrópu, þegar þau voru stödd í Belgíu, höfðu verið undanfarna daga með skrínukost og sáu þar matsölustað, með hvíta dúka á borðum og þjóna í kjól og hvítt.
Þau fóru inn,þjónninn leit þau hornauga, bakpokafólk, hann setti þau við borð afsíðis. Þegar þau skoða matseðilinn, þá er fyrst og langdýrast, Íalensks lambakjöt. Þau kalla í þjóninn og spyrjs nánar um kjötið, hann fullyrðir að það sé Íslenskt, þau panta það. Þá tekur þjónninn bakpokanna orðalaust og fer með þá að borði þa besta stað við glugga.
Þetta er 1975 og þetta veitingahús í Belgíu setur lambið efst á matseðilinn og langdýrast.
Er ekki eitthvað að útfluttnings kerfinu.?
Haukur Árnason, 18.12.2016 kl. 12:06
Kjöti umfram innanlandsneyslu var skylt að selja erlendis á því verði sem bauðst þar til upp úr hruni. Þá var þessi skylda afnumin líklega í þeirri trú að gengi krónunnar yrði lágt um langa framtíð. En gengið hækkaði og ekki borgaði sig að flytja út kjöt fyrir nokkurn pening þannig að fátt kom í veg fyrir að þetta umframkjöt færi á innanlandsmarkað.
Vandi sauðfjárbænda nú felst semsagt í því að búið var að leggja niður framleiðslustýringuna á innanlandsmarkað.
Slíkt gengur náttúrulega ekki til lengdar, hvað þá að niðurgreiða kjöt í útflutning.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.12.2016 kl. 12:35
@Hrossabrestur Þakka þér fyrir þetta. Það var nú það sem pistillinn snerist um, hvernig stæði á því að neysla lambakjöts á Íslandi drægist stöðugt saman, á meðan ferðamönnum fjölgaði ár frá ári.
Annað hvort nær lambið ekki til ferðmanna, eða "innfæddir" eru orðnir því afhuga, nema hvorutveggja sé.
En ég hygg að betra sé að "herja" á fólkið sem kemur til Íslands, en að herja á erlenda markaði, þó hvortu tveggja sé nauðsynlegt. En ferskt lambakjöt, hangikjöt ásamt skyr og fiski eru eru hornsteinar íslenskrar matarmenningar og helst ætti engin að koma til Íslands án þess að smakka slíka rétti.
@Jósef Þakka þér fyrir þetta. Vissulega má nútímavæða og stækka flest bú á Íslandi, hvort það er höfuð vandamálið efast ég þó um. Sauðfjárbúskapur er í eðli sínu ekki mjög mannfrekur þó að álagstímar séu. Því er tæknivæðing líklega síður nauðsynleg þar en víða annars staðar.
@Haukur Þakka þér fyrir þetta. Sjálfsagt má deila mikið um markaðssetningu á lambakjöti, en það má líklega segja að hún hafi ekki skilað miklu á, þó að drjúgu hafi verið kostað til
Og vissulega er það verðið sem ræður miklu þegar upp er staðið. Einstaklingar hugsa um budduna, líka þeir sem eru vel stæðir, og veitingastaðir ýta því fram sem gefur mesta framlegð.
Víða um Evrópu er kjöt í afar lágu verði um þessar mundir, og mörg ríki að samþykkja alls kyns neyðaraðstoð til bænda. Það er að hluta til þess vegna sem ég tel að það gæfist betur að herja á þá sem koma til Íslands.
@Bjarni Gunnlaugur Þakka þér fyrir þetta. Ef ég hef skilið rétt er hluti af vandamálinu að innanlandsneysla dregst stöðugt saman, þrátt fyrir metfjölda ferðamanna.
En slík sprengins í fjölda þeirra, ætti að geta nýst sauðfjárbændum jafnt sem öðrum landbúnaði. Nema auðvitað að hún sé að gera það og neysla almennings hafi einfaldlega hrunið.
En því er ljóst að endurskoða þarf framleiðsluna og markaðssetninguna, því að til lengdar lætur hefur íslenskur almenningur engan áhuga á því að niðurgeiða lambakjöt fyrir neyslu erlendis, sem hann hefur þó verið að gera með beinum og óbeinum hætti undanfarna áratugi.
G. Tómas Gunnarsson, 18.12.2016 kl. 17:48
Finnst ykkur ekki skrýtið að milliliðirnir sem ákveða einhliða verð til bænda (það lækkaði frá 5 til 12 prósent siðasta haust) skuli fá þessar 100 m.? Er það ekki umhugsunarvert að þegar sláturhúsin ráða sjálf verðinu fyrir kjötið til sín að þau geti ekki selt kjötið án aðkomu ríkisins? Kannski vantar hvatann til að þau sinni sínu markaðsstarfi sjálf þegar bæði er hægt að svelta bændur og ganga í sjóði ríkisins. Svo vil ég ekki heyra minnst á lengur að þetta séu fyrirtæki bænda, það sem bændur eiga í þessum fyrirtækjum er oftast hluti afurðaverðs sem sláturhúsin halda eftir hvort sem bændum líkar betur eða verr.
Þorsteinn Jónsson (IP-tala skráð) 18.12.2016 kl. 19:57
@Þorsteinn Þakka þér fyrir þetta. Ég er alveg sammála því að þetta hlýtur að vera eitt af því sem þarf að taka fyrir í endurskoðun á sauðfjárrækt.
En það hlýtur að vera fyrst og fremst bændurnir sjálfir sem þurfa að leiða þá breytingu. Ef ég hef skilið rétt er hún hafin, bændur selja afurðir sínar í vaxandi mæli sjálfir.
En það er alveg rétt að þetta fyrirkomulag er ekki hvetjandi fyrir einn né neinn, en líklega má segja það um landbúnaðarkerfið í heild.
Og á köflum starfi "kerfið" meira fyrir kerfið heldur en einstaklingana í því, en það má segja að verði oft raunin með flest "kerfi".
G. Tómas Gunnarsson, 19.12.2016 kl. 05:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.