14.12.2016 | 06:39
Bjórlíki og trúarlíki
Þegar undarleg lög og skattar gilda er algengt að viðbrögð einstaklinga verði nokkuð skrýtin, en einstaklingar eru hugmyndaríkir grípa til ýmissa ráða til að sniðganga eða milda áhrifa undarlegra ákvarðana hins opinbera.
Þannig varð hið "sér íslenska" bjórlíki til þegar Alþingi þverskallaðist lengi við að aflétta banni við sölu áfengs bjórs á Íslandi.
Bjórlíkið dró fram fáranleika bannsins og átti án efa þátt í því að banninu var á endanum aflétt.
Þar fóru Sjálfstæðismenn í fararbroddi, eðlilega, enda sjálfsagt að aflétta banninu og treysta einstaklingum til að ákveða sjálfir hvort að áfengi sem þeir kjósa að innbyrða sé í formi bjórs eða annars, kjósi þeir á annaðborð að neyta þess.
Nú er hins vegar farið að bera nokkuð á því sem mætti kalla "trúarlíki".
Vegna undarlegra ráðstafana hins opinbera, sem hefur fellt "sóknargjöld" inn í almenna skattheimtu þannig að þeir sem standa utan trúfélaga þurfa að greiða jafnt gjald og þeir sem "telja" í afhendingu "sóknargjalda", hafa einstaklingar komið á fót trúfélögum og til þess að "endurheimta" fé sem þeir telja í raun sitt.
"Lífsskoðunarfélög" (hvað sem það svo þýðir) hafa einnig fengið stöðu trúfélaga og og fá sama "sóknargjald" og trúfélögin.
Rétt eins og bjórlíkið, dregur þetta fyrirkomulag fram fáranleika þess kerfis sem hið opinbera hefur byggt upp.
Annars vegar má halda því fram að um ekkert "sóknargjald" sé að ræða, einungis sé um að ræða "styrk á hvern haus", og þá má spyrja hver vegna hið opinbera á að standa í slíkri styrkveitingu?
Hins vegar er að um "sóknargjald" sé að ræða, hvers vegna þeir sem standa utan trú, lífskoðunar og trúarlíkisfélaga eigi að greiða gjaldið?
Réttast væri að að fella styrkveitinguna niður og lækka skattprósentuna samsvarandi, eða jafnvel hækka skattleysismörkin um "sóknargjaldið".
Hitt er svo einnig möguleiki, að breyta "sóknargjaldinu" í nefskatt, þar sem framteljendum væri boðið upp á þann möguleika að "haka í reit" þar sem framteljandi samþykkti að af honum væri dregið "sóknargjald" samkvæmt skráningu hans í Þjóðskrá.
Þannig fengist upplýst samþykki framteljanda, þeir sem svo kysu greiddu, aðrir ekki.
Að sjálfsögðu ætti flokkur sem kennir sig við frelsi einstaklingsins að vera í fararbroddi í slíkum breytingum, það segir sig eiginlega sjálft.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Mannréttindi, Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Það er náttúrlega ljóst að hvor breytingin sem er kæmi verst (og nánast eingöngu illa) niður á Þjóðkirkjunni og þar á eftir hugsanlega fríkirkjusöfnuðunum (sérstaklega þeim stærri eins og í Reykjavík og Hafnarfirði). Auðvitað myndu margir borga, en þeir eru líka rosalega margir sem sæu ekki ástæðu til þess, sérstaklega ef fyrri leiðin sem þú nefnir yrði farin.
Siðmennt mynndi örugglega eitthvað finna fyrir þessu (en ekki barma sér yfir því samt), þó ekki eins illa og eihver gæti haldið vegna þess að þar er talsverður fjöldi með sama viðhorf og þeir sem næst eru taldir upp.
Söfnuðir hverra félagsmenn eru upp til hópa trúaðir og áfram um að söfnuðurinn gangi og alveg til í að halda sínum söfnuði gangandi (eins og félagsmenn ýmissa annarra samtaka og félaga sem sjá til þess með félagsgjöldum og alls kyns fjáröflunum að félagið þeirra gangi).
En hvar þetta kæmi verst niður er ástæðan fyrir að þessu er ekki breytt og eiginlega algerlega útilokað að fyrri leiðin verði farin. Og sem stendur er Sjálfstæðisflokkurinn ekki líklegur til að hafa forgöngu um breytingar, nema þá með einhverskonar samkomulagi við Þjóðkirkjumenn.
ls (IP-tala skráð) 14.12.2016 kl. 09:02
@ls Þakka þér fyrir þetta. Ég þekki í sjálfu sér ekki mikið til trúarhreyfinga á Íslandi, en ég ímynda mér að álíka niðurstaða og þú gefir þér sé ekki ólíkleg.
En hvort það er viljandi eða óviljandi, áttu eina lýsandi setningu í þínu innleggi:
Söfnuðir hverra félagsmenn eru upp til hópa trúaðir og áfram um að söfnuðurinn gangi og alveg til í að halda sínum söfnuði gangandi (eins og félagsmenn ýmissa annarra samtaka og félaga sem sjá til þess með félagsgjöldum og alls kyns fjáröflunum að félagið þeirra gangi).
Er þetta ef til vill kjarni málsins? Að þeir sem eru trúaðir myndu halda sínum söfnuðum gangandi.
Er það ekki tilfellið með þjóðkirkjuna sömuleiðis? Eða er hún að stórum hluta rekin fyrir fé einstaklinga sem ekki eru trúaðir?
Samanstendur hún af einstaklingum sem eru upp til hópa ekki trúaðir?
Ég er ekki viss um að það væri slæmt fyrir þjóðkirkjuna að þurfa að endurskoða sína stöðu og vinna markvisst að því að meðlimir hennar virkilega vilji vera í þjóðkirkjunni.
Sjálfsagt eru einhverjir á öndverðum eiði.
En vissulega yrði hún ef til vill að hafa eitthvað minna umleikis og velta um einhverjum borðum.
En ég er þeirrar skoðunar að þetta eigi fyrst og fremst að vera ákvörðun einstaklinganna.
Það þarf ekkert að greiða neitt þjóðaratkvæði, hver og einn ákveður þetta einfaldlega fyrir sig.
Það er lýðræði.
G. Tómas Gunnarsson, 14.12.2016 kl. 09:50
Rétt hjá þér, tilvísuð orð eru útskýring á því hvers vegna breyting af þessu tagi kæmi verst við Þjóðkirkjuna.
Ég nenni hins vegar ekki sjálfur að ergja mig á þessu eða hafa skoðun á hvernig þetta ætti að vera (nema að trúfrelsi er eitt af grundvallarmannréttindum sem menn vilja víst halda í heiðri) og enn síður hef ég skoðun á hvað Þjóðkirkjan eigi að gera.
ls (IP-tala skráð) 14.12.2016 kl. 10:29
@ls Þakka þér fyrir þetta. Klagar í sjálfu sér ekkert upp á mig. Hef enda ekki búið á Íslandi um all nokkurt skeið. Dreif mig þó í því að segja mig úr þjóðkirkjunni á meðan ég bjó á Íslandi.
En ég er sammála því að trúfrelsi er eitt af grundvallarmannréttindunum. En það á ekki bara að þýða að þú megir skipta um trúfélag, heldur einnig að þú eigi ekki að þurfa að borga til trúfélaga sem þú kærir þig ekki um.
Það gildir ekki bara um þjóðkirkjuna, heldur alla söfnuði, því að ríkið greiðir fyrir meðlimi safnaða burt séð frá því hvort að viðkomandi greiði skatt eður ei.
Lýðræði á ekki bara að snúast um atkvæðisrétt, heldur sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga eins víða og því verður komið við.
G. Tómas Gunnarsson, 14.12.2016 kl. 11:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.