12.12.2016 | 14:16
Svarta Pétri laumað yfir til VG
Það er ekkert undarlegt að illa gangi að færa viðræður 5 flokka frá því að vera "óformlegar" yfir í það að vera "formlegar". Það þarf óneitanlega að sætta mörg sjónarmið áður en hægt er að ræða málin formlega.
Líklega eru allir væntanlegir þátttakendur að pressa fötin og bursta skóna áður ef koma skyldi til "formlegra" viðræðna.
En það er ljóst að í "forspilinu" hafa hinir flokkarnir sammælst um að lauma Svarta Pétri yfir til Vinstri grænna.
Síðast var það Viðreisn að "kenna" að ekki var haldið áfram, en nú virðast flestir vera á þeirri skoðun að það sé VG að kenna, ef ekki tekst að færa umræðurnar á "formlegt" stig.
Það setur nokkra pressu á Vinstri græn.
Annars vegar eiga þeir kost á því að sitja uppi með Svarta Pétur. Hins vegar að viðurkenna að það gefist betur að Píratar leiði samstarf þessara 5 flokka heldur en þau sjálf.
Hvorugur kosturinn er góður, allra síst fyrir formann Vg, Katrínu Jakobsdóttur.
Telja VG vera vandamálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Hæðni | Facebook
Athugasemdir
Ósköp finnst manni Samfylkingin sérkennileg í þessu, flokkur sem gjörsamlega er búið að hafna í kosningum ætti að hafa vit á því að halda sig gersamlega til hlés, enn sérkennilegra er þegar Össur Skarphéðinsson sem situr uppi með persónulega höfnum úr sömu kosningum og ætti að láta sem minnst á sér bera er að senda VG sneið um að þeir séu kvótaflokkur, hvað eru þá Össur og leifarnar af Samfylkingunni?
Hrossabrestur, 12.12.2016 kl. 21:22
Vinstri græn er eini flokkurinn sem kemur vel út úr þessum fimm flokka viðræðum enda kom í ljós að hann var eini flokkurinn sem vildi i raun leggja fé í að bæta innviðina þrátt fyrir að hinir flokkarnir höfðu það einnig á stefnuskrá sinni.
Hinir flokkarnir reyndust því allir vera hægra megin við miðju. Þetta hefði því aldrei orðið vinstri stjórn eins og sumir vildu kalla hana. Hægri stjórn væri nær lagi.
Birgitta segist ekki vera búin að gefast endanlega upp á þessum viðræðum þó að nú sé gert hlé á þeim. En það þýðir ekkert að halda áfram nema að viðurkenna fyrst nauðsyn á hærri sköttum á tekjuhæsta fólkið og stóreignamenn.
Ásmundur (IP-tala skráð) 13.12.2016 kl. 18:38
Já það er er sérkennilegt þegar minnst er á að auka tekjur ríkissjóðs með stóreignasköttum, þá fór hér nánast allt á hliðina ekki alls fyrir löngu þegar fréttist af verulega ríflegum bankabónusum, þá hneyksluðust flest allir pólitíkusarnir og létu í það skína þverpólitískt að réttast væri að gera bónusana upptæka með háum sköttum um og yfir 90%, nú eru flest allir búnir að steingleyma þessu.
Hrossabrestur, 13.12.2016 kl. 23:02
@Hrossabrestur Þakka þér fyrir þetta. Samfylkingin er eins og blaðra sem mest allt loftið hefur lekið úr. Það breytir í sjálfu sér ekki þeirri staðreynd að 3. þingmenn eru samt sem áður fulltrúar ákveðins hóps kjósenda, þó að hann sé vissulega lítill.
Eru ekki allir flokkar "kvótaflokkar", ég hef ekki heyrt neinn af þeim lýsa því yfir að þeir vilji leggja af kvótakerfið.
En hitt er svo að það má vissulega deila um álögur á útgerðina, enda fyrirsjáanlegt að þar mun verða verulegur tekjusamdráttur, vegna gengisbreytinga, ekki bara vegna krónunnar, heldur ekki síður vegna annarra gjaldmiðla.
Það er vissulega hægt að "markaðstengja", sem getur vissulega verið skynsamlegt, en af það verður gert að fullu, verða Íslendingar að gera sér grein fyrir því að samþjöppunin eykst líkleg til muna.
Össur vonast að sjálfsögðu eftir Samfylkingunni í stjórn. Hvað á hann að gera í "ellinni"? Það getur varla allt Samfylkingarfólk "horfið" inn í verkalýðshreyfinguna?
"Baráttan gegn bankabónusum" var fyrst og fremst lýðskrum. Enda lítið út á það að setja að þeir sem hafi unnið vel sé umbunað. Hefði verið betra að erlendir kröfuhafar hefðu tekið með sér meira fé?
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Persónulega held ég að enginn flokkur komi verulega vel út úr þessum viðræðum. Það er ljóst að hinir flokkarnir reyndu að lauma Svarta Pétri til VG, en spurning hvað vel það tókst.
Vinstri og hægri eru vissulega teigjanleg hugtök. Það eitt að einn flokkur kunni að vera minna til vinstri en annar, gerir hann ekki að hægriflokki.
Það má deila um hvort að hægri flokkur finnist á Íslandi en það er vissuleg önnur ella, svo má að orði komast.
Háir skattar þurfa ekki endilega að þýða svo mikið af auknum tekjum. Einstaklingar flýja einfaldlega með fé sitt í skattaskjól Evrópusambandsins, það verður ekki svo flókið eftir að fjármagnshöftin linast.
Það er meira að segja einfaldara og einfaldara að búa einfaldlega einvers staðar annars staðar jafnvel þó að verið sé með umfangsmiklar fjárfestingar á Íslandi.
G. Tómas Gunnarsson, 14.12.2016 kl. 06:54
Viðreisn er í raun eini hægri flokkurinn á Íslandi.
Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur sérhagsmuna og spillingar og líkist þannig að vissu leyti mörgum kommúnistaflokkum.
Einstaklingar sem búa á Íslandi greiða alla skatta hér, þar á meðal fjármagnstekjuskatta af eignum erlendis.
Þeir geta að vísu stofnað eignarhaldsfélög sem greiða skatta erlendis en arður til eigenda af slíkum félögum er skattlagður hér.
Þeir sem geta hugsað sér að búa erlendis til að greiða lægri skatta eru mjög fáir enda margt annað sem þarf að taka tillit til en skattar.
Fæstir myndu fá jafn góð störf og hér auk þess sem hagmunir fjölskyldunnar felast í flestum tilvikum í að búa á Íslandi.
Það eru miklar líkur á að tekjur sem myndu innheimtast með hærri sköttum á hátekjufólk og stóreignamenn myndu að öðrum kosti hverfa úr landi, ekki síst vegna ónýts gjaldmiðils.
Ávinningur af slíkri skattheimtu yrði þá gífurlegur.
Ásmundur (IP-tala skráð) 14.12.2016 kl. 10:21
@Ásmundur þakka þér fyrir þetta. Þetta er allt skilgreiningaratriði og misjafnt hvernig litið er á málin. Viðreisnarfólk skilgreinir sig margt sem krata.
Kratar hafa s.s. verið á ýmsu róli í gegnum tíðina.
Aðrir myndu sjálfsagt segja að það sé engan hægri flokk að finna á Íslandi.
Sjálfstæðisflokkurinn er í sjálfu sér ekkert spilltari en aðrir flokkar, en vissulega er það svo að eftir því sem flokkar eru lengur við völd eru það fleiri ákvarðanir sem verða umdeildar, það segir sig líka sjálft að það eru fleiri einstaklingar í stórum flokkum.
Það eru líklega nú þegar orðnir all margir "Íslendingar" sem búa erlendis. Þeir eru ekki að sækjast eftir störfum þar, enda hafa þeir stóran hluta tekna sinna á Íslandi. Þeir þurfa einfaldlega að vera 183 daga erlendis, það er ekki svo flókið fyrir marga þeirra og þeir þurfa ekki að bæta mörgum dögum við hvort sem er.
En slíkt myndi líklega stóraukast ef skattar yrðu hækkaðir upp úr öllu valdi.
Það var t.d. ekki út af engu sem Hollande bakkaði með sína ofurskatta.
En ef til vill myndi það "laga" gengið ef fjárflótti yrði verulegur.
Þeir sem eru launamenn myndu auðvitað ekki sleppa, það yrðu ekki síst sjómenn, læknar og auðvitað stöku ríkisstarfsmenn í bönkunum.
Læknar myndu líklega taka því fagnandi, því hægt væri að auka framlög til Landspítalans og jafnvel hækka launin þeirra.
G. Tómas Gunnarsson, 14.12.2016 kl. 11:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.