21.11.2016 | 13:06
Ný ríkisstjórn tekur við í Eistlandi
Eins og ljóst var orðið fyrir nokkru tekur ný ríkisstjórn við völdum í Eistlandi í dag. Þingið mun ræða og greiða atkvæði um ríkisstórn undir forsæti Jüri Ratas, formanns Miðflokksins (Keskerakond). Atkvæðagreiðslan er formsatriði, enda meirihluti þingmanna að baki ríkisstjórnarflokkunum.
Auk Miðflokksins standa að ríkisstjórninni Sósíaldemokratar og Föðurlands- og lýðveldisfylkingin (IRL).
Hver flokkur fær 5 ráðherra og það vekur athygli að IRL fær í sinn hlut bæði fjármála og varnarmálaráðuneytið.
Sú skipan er líklega ætlað að róa öldurnar, IRL er sá eini af flokkunum sem getur talist til hægri. Margir hafa lýst yfir áhyggjum af þátttöku Miðflokksins í ríkisstjórn, enda hefur sá flokkur haft náin tengsl við flokk Putins Rússlandsforseta.
Utanríkisráðuneytið verður í höndum Sósíaldemókrata sem og innanríkisráðuneytið.
Stærstu breyingarnar sem væntanlega verða munu eiga sér stað í skattamálum.
Skattleysismörk hækka líklega verulega, vaxtafrádráttur mun hverfa, hækka á álögur á áfengi, fjármagnstekjuskattur mun lækka (en vaxtatekjur skattlagðar, sem hefur ekki verið), og bifreiðaskattur mun hækka verulega. Skattur á þá sem hafa yfir 2000 euro í mánaðartekjur munu hækka og skattar á fjármálafyrirtæki munu einnig aukast verulega.
Jafnframt á að ráðast í mikla innviðauppbyggingu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja (ýmist að hluta eða fullu).
Ríkisstjórnin boðar jafnframt að auknar lántökur komi vel til greina, en Eistland er eitt af þeim löndum sem hafa hvað lægstar skuldir/GDP. Það hlutfall hefur jafnan verið vel undir 10%.
Að mörgu leyti má líkega segja að Miðflokkurinn beri skarðan hlut frá borði sé miðað við þingstyrk flokkanna, Miðflokkurinn hefur 27 þingmenn, Sósíaldemokratar 15 og IRL 14. En til hins ber einnig að líta að enginn flokkur hefur viljað starfa með Miðflokknum um all langa hríð, og svo hefur hann vissulega forsætisráðuneytið.
Það má því ef til vill segja að hann hafi viljað leggja mikið í sölurnar til þess að komast í ríkisstjórn og það hefði verið ómögulegt, nema fyrir formannsskiptin sem urðu fyrir fáum vikum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.