Stórmerkileg niðurstaða í fyrri umferð forkosninga Franska Lýðveldisflokksins

Niðurstaða fyrri umferðar forkosninga Lýðveldisflokksins kemur á óvart með afar skemmtilegum hætti

François Fillon sigrar með yfirburðum sem "engin" átti von á. Allra síst gáfu skoðanakannanir sigur hans til kynna, enda má líklega fara að segja að það sé frekar að verða regla en undantekning að þær séu nokkuð á skjön. Ég held að sú könnun sem ég hef séð gefa honum bestu útkomuna hafi verið í kringum 25%.

En það verður að vísu að hafa í huga að forkosningar sem þessar eru líklega með mjög erfitt forspárgildi, enda afar erfitt að fá gott úrtak, þegar alls óljóst er hverjir munu kjósa á endanum.

En ef marka má fréttir er talið að um 4.3 milljónir hafi tekið þátt í forkosningunum, sem er stórkostlegur sigur út af fyrir sig (aðeins 2.5 milljónir tóku þátt hjá Sósialistaflokknum árið 2011), auk þess að gefa góða innspýtingu í peningakassann (allir sem tóku þátt þurftu að borga 2. euro).

Franskir fjölmiðlar hafa verið uppfullir af fréttum af kjósendum annara flokka sem hugðust ætla að greiða atkvæði hjá Lýðveldisflokknum eigi að síður.

Þannig var talað um að stuðningsfólk Sósialistaflokksins hefði í hyggju að styðja Juppe vegna þess að honum myndi fylgja minnst "óbragð" þegar þau neyddust til að kjósa Lýðveldisflokkinn í síðari umferð forsetakosninganna.

Það var einnig talað um að kjósendur Þjóðfylkingarinnar ætluðu sér að styðja sinn "óskaframbjóðenda" gegn Marine Le Pen, og var sagt að það yrði Sarkozy.

En hvort að þessi stuðningur skilaði sér ekki á kjörstað eða fór á aðra frambjóðendur er erfitt að fullyrða, en ljóst er að Sarkozy er alla vegna úr leik.

Hvort að stuðningsfólk Sósíalistaflokksins eigi eftir að skila sér af auknum krafti í síðari umferðinni og lyfta Juppe, er sömuleiðis opin spurning.

En Fillon hefur verið talinn mest "pro business" af öllum frambjóðendunum og vill fækka ríkisstarfsmönnum um 5 til 600.000, lengja vinnuvikuna í 39 stundir (gefa vinnustöðum þó meira frelsi hvað varðar vinnustundir) og sagði að Frakkland væri í raun "gjaldþrota".

Ég held að ég fari rétt með að hann hafi verið kosinn á þing í kringum 1980, og hefur gengt ráðherraembættum bæði í forsetatíð Chirac og Sarkozy.

Hann er yfirlýstur aðdáendi Margaretar Thatcher, telst "anglophile" og er giftur welskri konu (ekki ólíklegt að alls kyns spekúlasjónir eigi eftir að verða í kringum Brexit út frá því sjónarhorni).

En það verður fróðlegt að fyljgast með hvernig leikar fara næsta sunnudag. Mun þátttakan aukast og hverjir mæta á kjörstað?  Munu sósíalistar fjölmenna á kjörstað og lyfta Juppe?

Hvor verður talin sterkari frambjóðandi gegn Marine Le Pen, sem flestir telja að verði mótherji frambjóðanda Lýðveldisflokksins í forsetakosningunum.

Og svo er líka spurning hvort að Sósíalistaflokkurinn eigi einhverja möguleika á því að komast inn í "hringinn"?

En ef að baráttan í lokin verður á milli François Fillon, sem þykir hallur undir "engilsaxneska frjálshyggju" og hins "franska sósíalisma" sem Marine Le Pen boðar, er hætt við að fylgjendur Sósíalistaflokksins nagi neglur sínar meira en ella.

Líklega má segja að sigur Fillon hafi "opnað" frönsku forsetakosningarnar upp á gátt - ekki síst vegna þess að efasemdir um skoðanakannanir munu fá byr undir báða vængi.


mbl.is Sarkozy heltist úr lestinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband