Íslensk verslun stendur frammi fyrir stærstu prófrauninni

Það er mikið barið á versluninni þessar vikurnar. Sumpart er það auðvitað gott og æskilegt, enda henni nauðsynlegt eins og öllum öðrum að viðskiptavinir sýni henni aðhald og sýni í verki, bæði ánægju sína og óánægju.

En þegar talað er um að verslunin hafi ekki skilað að fullu, eða jafnvel engu af gengistyrkingu og tollalækkunum, er gagnrýnin að ýmsu leyti ekki sanngjörn.

Í fyrsta lagi er innkaupsverð ekki nema hluti af því sem myndar verðið. Að sjálfsögðu spilar launakostnaður þar inn í og sem betur fer hafa laun á Íslandi hækkað nokkuð myndarlega undanfarin misseri og kaupmáttur aukist verulega.

Húsnæðiskostnaður spilar einnig verulega rullu og eftir því sem mér hefur skilist hefur húsaleiga á Íslandi hækkað verulega á undanförnum árum.

En það sem þarf ef til vill ekki hvað síst að taka með í reikninginn, er að tala um meðalstyrkingu krónunnar segir ekki nema afar takmarkaða sögu.

Mikið nær er að líta til styrkingu krónunnar gagnvart bandaríkjadollar, því það er sú mynt sem ræður langmestu í viðskiptum í heiminum, burtséð frá því í hvaða mynt varan er svo greidd.

Þannig er eins og flestir vita olía verðlögð í dollurum.  Það sama gildir í raun um allar hrávörur, matarkyns sem aðrar.

Flutningar eru verðlagðir í dollurum. Segja má að flest öll rafmagnstæki, hverju nafni sem þau kunna að nefnast séu verðlögð í dollurum.  Framleiðsla á þeim fer að miklu leyti fram í Asíu, og þó að þau kunni að vera samsett annars staðar, eru íhlutirnir næstum undantekningarlaust verðlagðir í dollurum og hafa þannig bein áhrif á verðið.

Það sama gildir að miklu leyti um fatnað, þó að líklega megi segja að það gildi síst um dýrari hluta fatnaðar.

Það er líka vel þekkt að bæði heildsalar og framleiðendur verðleggja vörur sínar eftir því hvað þeir telja "markaðssvæðið" bera. Þar hafa Norðurlöndin oft haft þann vafasama heiður að vera í hæsta flokki.

Það er því býsna margt sem þarf að taka með í reikninginn áður en við fullyrðum að "verslunin" sé að hlunnfara neytendur, þó að ég efist ekkert um að ýmsir söluaðilar geti gert betur.

En auðvitað er tilhneyging hjá verslunaraðilum að verðleggja vörur á því verði sem þeir telja sig geta selt þær á, og er í raun ekki hægt að segja að slíkt sé með öllu óeðlilegt.

Það er líka þekkt staðreynd að lægra verð skilar sér ekki nauðsynlega í meiri sölu, sérstaklega á vörum sem sæta "huglægu" mati.

En það er aðeins samkeppni og árvekni neytenda sem mun til langframa geta skilað neytendum betra og sanngjarnara verði.

Þar mun íslensk verslun fljótlega standa frammi fyrir einni af sínum stærstu prófraunum.

Tvær risastóra verslunarkeðjur munu innan skamms hefja starfsemi á Íslandi. Costco og H&M. Það sem er athyglisvert við þessar fyrirhugðu opnanir, er að verslanirnar verða reknar af hinum erlendu eigendum, en ekki íslenskum umboðsaðilum eða einkaleyfishöfum.

Ég held að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist, en þó er það sjaldgæft og það er sömuleiðis þarft að taka með í reikninginn að um er að ræða sannkallaða risa á sínum sviðum.

Það verður því fróðlegt að fylgjast með hvernig verðþróun á Íslandi verður og hvernig markaðshlutdeild hinna nýju aðila mun þróast.

Því enn og aftur munu það verða neytendur sem stjórna hvernig málin æxlast.

Það er sömuleiðis vert að gera sér grein fyrir því að þessi fyrirtæki eru óhrædd við íslensku krónuna, en talað er um að það sem hafi ráðið miklu um að þau töldu Ísland vænlegan markað, væri einföldun á viðskiptaumhverfinu, niðurfellingar á tollum og vörugjöldum.

Þar stóð fráfarandi ríkisstjórn sig afar vel, og er óskandi að sú sem tekur við haldi áfram sömu braut og taki engar U-beygjur.

En takist þessum erlendu aðilum vel upp, eru allar líkur á að fleiri slíkir muni hassla sér völl á Íslandi og samkeppni aukast, öllum til góða.

Þessi samkeppni mun einnig leiða í ljós hvernig íslenskir kaupmenn hafa staðið sig og hvort þeir geti staðist hana.

Það eru því áhugaverðir tímar framundan hjá bæði íslenskri verslun og neytendum.

 

 


mbl.is Sterkt gengi ekki skilað sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband