Nokkrir molar um bandarísku forsetakosningarnar

Úrslit bandarísku forsetakosninganna komu mér eins og svo mörgum öðrum verulega á óvart. En það þýðir ekki að í úrslitunum felist fjölmargir athyglisverðir punktar og jafnvel sumir jákvæðir og aðrir ekki eins slæmir og getur litið út fyrir.

Í fyrsta lagi er alger óþarfi að ganga út frá því sem vísu að D.J. Trump, frekar en nokkur annar stjórnmálamaður, efni öll þau loforð sem hann gaf í kosningunum. Það finnst mér bera vott um að margir beri til hans allt of mikla tiltrú.

En vissulega mun skipta miklu máli hvaða loforð hann mun efna.

En tínum nokkra mola úr kosningunum.

Trump sýndi það og sannaði að það er ekki hægt að "kaupa" kosningar. Hillary Clinton eyddi og safnaði umtalsvert meira um fé en Trump (lang leiðina í tvöfallt, ef ég man rétt). En allt kom fyrir ekki.

Stuðningur fjölmiðla og gott gengi í skoðanakönnunum er ekki ávísun á sigur.

Af þessu ættu allir stjórnmálamenn að draga lærdóm af.

Á endanum er það alltaf almenningur sem kýs.

Á leið sinni í Hvíta húsið mætti D.J. Trump tveimur pólítískum "dýnastíum", Bush og Clinton.  Hann sigraði bæði.

Mikið er talað um "vegginn" sem Trump lofaði að byggja á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.  Nú þegar er eru "veggir" á þeim landamærum sem í heild sinni um eða yfir 1000 km, eða í kringum 1/3 af leiðinni. 

Það jafngildir því að veggur sé langleiðina frá Íslandi til Skotlands.

Þeir kaflar sem ekki hafa "vegg" eru oft kaflar sem verður mjög erfitt að byggja vegg á, en það þýðir ekki að þeirra sé ekki gætt.

Yfir 400.000 einstaklingar voru "gripnir" á landamærunum árið 2015. Enginn veit hvað margir náðu að komast til Bandaríkjanna.

Það má líka velta því fyrir sér hvort að verra sé að byggja "vegg", og reyna að koma í veg fyrir að ólöglegir innflytjendur komist yfir landamærin, eða að halda þeim í fangelsi.  Það er ekki óvenulegt að í kringum 30.000 ólöglegir innflytjendur séu í haldi í Bandaríkjunum 'aá hverjum tíma (yfirleitt í stuttan tíma).

All nokkuð var gert úr "afmæli" falls Berlínarmúrins og áformum Trumps líkt við hann.

Reginmunur er á því að byggja múr til að halda erlendum ríkisborgurum úti, eða að byggja múr til að halda sínum eigin ríkisborgurum inni.

Ein af frumskyldum stjórnvalda er að tryggja öryggi eigin þegna.  Hluti af því eru örugg landamæri.

Margir hafa furðað sig á því að áætlað sé að Trump hafi hlotið mun meira af atkvæðum innflytjenda, ekki síst "latinos" eða "hispanics" en reiknað hafði verið með.

Það kemur mér í raun ekki svo á óvart. Þeir sem ég þekki á meðal innflytjenda (þar á ég aðallega við Kanada fremur en US) eru alls ekki frekar hlynntir ólöglegum innflytjendum, en aðrir þegnar, jafnvel síður.

Margir þeirra hafa þurft að leggja á sig langa bið, fé og fyrirhöfn til að komast löglega til landsins. Þeir eru því ekki fylgjandi því að aðrir geti einfaldlega "skotist yfir" landamærin.

Margir eru uggandi yfir því hvernig Trump hefur talað um NATO. Hann segir að aðildarþjóðir sem ekki "borgi" geti ekki nauðsynlega búist við því að Bandaríkin komi þeim til varnar.

Á þetta má líta frá mörgum sjónarhornum. Margir kjósa að líta svo á að Trump vilji að ríki borgi Bandaríkjunum fyrir "vernd". Ég efast um að það sé hans sjónarhorn, eða það sem verði ofan á.

En vissulega er ekki óeðlilegt að litið sé til þess að flest aðildarríki NATO hafa ekki eytt þeim 2%/GDP sem reglur þess gera ráð fyrir. Hvernig geta þau ríki gert kröfur til NATO, ef þau brjóta reglurnar hvert einasta ár?

Fyrir utan Bandaríkin hafa það aðeins verið Bretland, Grikkland og Eistland sem framfylgt hafa þessari reglu, í það minnsta flest ár. Pólland er líklega að ná því, en flest önnur aðildarríki, eru í kringum eða ekki mikið yfir 1%/GDP.

Ég held að Íslendingar þurfi ekki að hafa áhyggjur af þessari reglu, því auk NATO aðildarinnar hefur Ísland beinan varnarsamning við Bandaríkin.

Þetta þýðir ekki að það sé ekki margt sem megi hafa áhyggjur af varðandi Trump sem forseta Bandaríkjanna.

Þar má nefna afstöðu til fríverslunar. Alls konar vafasamar fullyrðingar um bann við komu útlendinga til Bandaríkjanna byggðu á þjóðerni eða trúarskoðunum og það má telja áfram.

Plús megin fara svo áform hans um viðamikla uppbyggingu innviða.

En ég held að bandarískt stjórnkerfi standi býsna traustum fótum. Það gerir bandarískt dómskerfi einnig.

Ég held að D.J. Trump mun fljótlega finna fyrir hvoru tveggja. Bandaríska stjórnarskráin er gömul og traust.

P.S. Eins og eðlilegt er hafa margir furðað sig á því hvernig hægt sé að vinna forsetakosningarnar í Bandaríkjunum, en hafa þó fengið færri atkvæði en helsti keppinauturinn. Þetta vilja margir meina að sé ekki lýðræðislegt og að ýmsu leyti er ekki hægt annað en að taka undir það.

En við megum ekki líta fram hjá því að í raun er ekki aðeins um það að ræða að eitt land sé að kjósa sér forseta. Það eru 50 ríki að velja sér sameiginlegan forseta.

Og rétt er að hafa í huga að þó að fjöldi kjörmanna hvers ríkis sé bundinn í stjórnarskránni, er það í valdi hvers ríkis að ákveða hvernig þeim kjörmönnum sé dreift. Næstum öll ríkin hafa ákveðið að "winner takes it all" skuli gilda. Ef ég man rétt eru það aðeins Maine og Nebraska sem úthluta kjörmönnum í hlutfalli við atkvæði.

En án þess að hafa gert á því vísindalega rannsókn, virðist misræmi atkvæða frekar vera regla en undantekning. Þannig er t.d. misvægi atkvæða í Kanada um kringum 3.5 þar sem það er mest. Og við þekkjum dæmið frá Íslandi.

 

 

 


mbl.is Múslimabannið hvarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Góð grein. Trump vann ofuröflin það eitt er víst. 

Valdimar Samúelsson, 11.11.2016 kl. 11:09

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Valdimar Þakka þér fyrir þetta. Ég hefði ekki kosið Trump hefði ég haft atkvæðisrétt. Hann er ekki pólítíkus sem ég á samleið með, eða ég í raun treysti.

Hann hefur alltaf mörg stefnumál sem ég er ekki sammála og orðbragð og framkoma á köflum hreint skelfileg.

Svona rétt eins og umræðuhefðin á netinu væri lifandi komin, og það ekki betri helmingurinn af henni.

En ég hef líka stundum sagt að stefnuskrá og loforð stjórnmálamanna séu ekki það sem þurfi að óttast mest, heldur það sem þeir segja ekki og það óvænta sem á eftir að koma upp.

Og það er þar sem ég ber mestan kvíðboga fyrir forsetatíð Trumps. Það er þegar hið óvænta ber að garði sem reynslan eða reynsluleysið segir til sín. Það er þá sem að "cool head" skiptir máli, diplómacía og lipurð.

Þar gefur Trump ekki stórar ástæður til bjartsýni.

En himnarnir eru ekki að hrynja og eins og ég sagði í greininni er ýmislegt sem er athyglisvert sem kom fram og gerðist í kosningabaráttunni.

Og á köflum hefur vissulega ýmislegt sem Trump hefur látið frá sér fara verið málað í of dökkum litum.

En á köflum hefur hann talað út í svartnættið.

G. Tómas Gunnarsson, 11.11.2016 kl. 11:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband