Eistneska ríkisstjórnin sprungin

Eistneska ríkisstjórnin sprakk í gær (mánudag). Ríkisstjórn sem var skipuð Umbótaflokknum (Reformierakond), Sósíaldemókrötum (Sotsiaaldemokraatic erakond) og Föðurlands og lýðveldisfylkingunni (Isamaa ja Res Publica liit, eða IRL) hefur starfað frá þingkosningunum  í mars 2015, en undanfarna vikur hafa vaxandi samstarfserfiðleikar litið dagsins ljós.

Það sem endanlega sprengdi stjórnina var ágreiningur um skipan þingmanna í stjórnir ríkisfyrirtækja.

Þegar ráðherrar Sósíaldemókrata og Föðurlands og lýðveldisfylkingarinnar fóru að endurkalla skipanir stjórnarmanna kastaðist í kekki.

Þó vilja margir meina að tímasetningin sé ekki tilviljun, en Miðflokkurinn (Keskerakond) er nýbúinn  að halda landsfund, þar sem skipt var um forystu. Fyrrum formaður, Edgar Savisaar var umdeildur, svo ekki sé sterkara til orða tekið.  Hann þótti hallur undir Rússland og umlukinn spillingarmálum (aðallega mútur), þó ekkert hafi sannast, í það minnst kosti enn (en dómsmál er í gangi).  Afstaða flokks og staða formanns gerði það að verkum að enginn annar flokkur hefur viljað starfa með Miðjuflokknum um all nokkra hríð.

Jüri Ratas, nýr formaður Miðflokksins þykir hins vegar af öðru sauðarhúsi, og er sagt að allir ríkisstjórnarflokkarnir hafi nú þegar leitað til hans um samstarf.

En vantraust á núverandi forsætisráðherra Taavi Rõivas (Umbótaflokknum) er boðað að verði lagt fram í þinginu á morgun (miðvikudag).  En Rõivas hefur ekki sagt af sér og er ekki reiknað með því að hann geri það.

Staðan í þinginu (Riigikogu) þar sem sitja 101 þingmaður er að Umbótaflokkurinn er með 30 þingmenn, Sósíaldemókratar 15, Föðurlands og lýðveldisfylkingin 14, Miðflokkurinn 27 og svo eru Frelsisflokkurinn og Íhaldsflokkur fólksins einnig á þingi, með 8 og 7 þingmenn.

Lang líklegast er talið að Umbótaflokknum verði einfaldlega skipt út fyrir Miðflokkinn, en einnig er talið að möguleiki sé á stjórn Umbótaflokksins og Miðflokksins.

Þannig muni ríkisstjórn Eistlands sveigjast mikið til vinstri, en Föðurlands og lýðveldisfylkingin getur þó ekki talist vinstri flokkur.

All nokkur órói hefur verið í eistneskum stjórnmálum og er skemmst að minnast vandræðagangs í kringum forsetakosningar fyrir fáum vikum. Þá gat þingið ekki komið sér saman í þremur atkvæðagreiðslum, og Kjörmannaráðið ekki í tveimur. Loks eftir það kom þingið sér saman um nýjan forseta.

Sú skoðun heyrist líka að óróinn nú eigi einhverjar rætur í "hrossakaupum" í kringum forsetakosningarnar.

En ef Umbótaflokkurinn hverfur úr stjórn eru það all nokkur tíðindi. Ef ég man rétt hefur flokkurinn verið í stjórn síðan 1999 og átt forsætisráðherra samfleytt frá 2005.

Miðflokkurinn hefur ekki verið í ríkisstjórn síðan 2007 og hefur aldrei verið í forsætisráðuneytinu.

Ef Jüri Ratas verður forsætisráðherra nú, 38 ára gamall verður hann með yngri forsætisráðherrum Eistlands frá upphafi.

En Rõivas var aðeins 34. ára þegar hann tók við 2014 og Mart Laar var aðeins 32. ára þegar hann varð forsætisráðherra 1992.

 

 

 


mbl.is Ríkisstjórn Eistlands fallin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband