Skynsamir Norðmenn?

Mikið er rætt um hvort að best sé fyrir Íslendinga að taka upp erlendan gjaldmiðil.  Þá ýmist með Evrópusambandsaðild eður ei.

Einn stjórnmálaflokkur lagði mikla áherslu á að festa krónuna við erlendan gjaldmiðil, euroið. Ég hef jafnvel heyrt verkalýðsforingja segja að það sé eins og tónlist í eyrum hans.

Eitt af þeim ríkjum sem Íslendingar tala gjarna um að ætti að taka til fyrirmyndar er Noregur. Þeim hefur enda að mörgu leyti tekist vel upp við að byggja upp sitt þjóðfélag.

Reyndar gengu hlutirnir svo langt að margir vildu taka upp norska krónu, og enn aðrir vildu hreinlega ganga Noregskonungi á hönd. Vildu að Ísland yrði fylki í Noregi. Það er þetta með að sagan endurtaki sig.

Fylgi við þá skoðun virðist hafa dregist saman, nokkuð í samhengi við olíuverð, þó líklega heldur skarpar ef eitthvað er.

En hvað gerðu Norðmenn þegar olíuverð féll skarpt?  Héldu þeir gengi krónunnar óbreyttu, eyddu þeir varasjóðum sínum til þess að verja krónuna?

Skyldi Norðmönnum ekki hafa flogið í hug að farsældin fælist í föstu gengi?

Þeir hafa "Sjóðinn" sem hefði getað varið krónuna þeirra falli, í það minnsta um all langa hríð.

En samt kusu þeir að láta krónuna falla.

En þýðir það ekki að norskur almenningur býr við skert kjör?  Vissulega, innfluttar vörur hafa hækkað, og norskir ferðalangar eru ekki "jafn ríkir", ferðist þeir til Eurosvæðisins, Bandaríkjanna nú eða Íslands.

En "skerðingin" lagðist jafnt á allar norskar krónur. Það var ekki svo að þeim fækkaði í launaumslögunum, en stæðu fullgildar í bönkunum.  Það er hins vegar leiðin sem þjóðir Eurosvæðisins fara.

En samfara verðfalli bæði olíu og norsku krónunnar hefur atvinnuleysi aukist, enda miklar uppsagnir í olíuiðnaðinum.

En aðrar útflutningsgreinar (t.d. útgerðir, fiskeldi og fiskvinnsla) hafa notið gengislækkunarinnar og dregið úr högginu. Og ferðaþjónusta hefur átt býsna góð ár, þrátt fyrir að dregið hafi úr fjölda viðskiptaferðalanga vegna samdráttar í olíunni.

Innovasjon Norge segir m.a. í skýrslu 2015:

Part of the reason for this increase is the low exchange rate, which boosts foreign tourists’ spending power in Norway, but the low exchange rate is not the only cause behind the increase in Norway’s share of international tourism.

Allt þetta þekkja líkega margir Íslendingar.

En svo er auðvitað hættan sem blasir við, að ef olíuverð hækkar, þá muni norska krónan styrkjast.

Sú er auðvitað einnig hættan sem blasir við Íslendingum nú, þegar krónan styrkist jafnt og þétt.

Ýmsir vilja koma í veg fyrir þá styrkingu með lagasetningu.

En það er líka spurning hvað gerist þegar höftin í kringum krónuna hverfa að mestu, hvort ekki verði meira jafnvægi á inn og útstreymi.

En hér fyrir neðan má sjá gengisþróun norsku krónunar gagnvart dollar og euroi síðastliðin 5 ár.

NOK vs euro 5y

Nok vs USD 5y

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég get borið það að Norðmenn haf notið fallandi gengis í griðalegri aukningun ferðamanna og má segja að þeir séu að upplifa aðra eins sprengingu og við. 

Þar nýtur allt samfélagið styrksins og útflutningsfyrirtækin blómstra.

Krónan okkar er að ná svipuðum styrk og fyrir hrun og það ætti því að þýða að útflutningurinn líði fyrir það og að botninn sé að falla úr túristabombunni. Það er ákveðinn styrkur fyrir okkur að hafa gengið hæfilega hátt, því þá minnkar vægi iðnaðartúrismans í kökunni og efnameiri ferðamenn sækja okkur heim. Það er þó auðveldlega hægt að prísa sig út af markaðnum.

Það liti ver út hjá vinum okkar ef þeir hefðu skrúfað gengið sitt fast. 

Jón Steinar Ragnarsson, 7.11.2016 kl. 09:38

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Af því að þessi pistill þinn er skrifaður útfrá því sem ég sagði um Norge vil ég taka fram: Að losna við krónuna er ekki spurning um að festa gengið, heldur spurning um að valdsvipta tiltekinn hagsmunahóp hérlendis. Væri fínt að taka upp norska krónu og ganga Noregskonungi á hönd og láta norsku krónuna sveiflast eins og hún gerir.

Þegar þú ferð að tala um gjaldmiðilsskiptingu eins og hún feli sjálfkrafa í sér festingu á genginu ertu að breyta um umræðuefni -

Kristján G. Arngrímsson, 7.11.2016 kl. 13:03

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Steinar Þakka þér fyrir þetta.  Það er í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta.

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Það kemur þér ef til vill á óvart en skrif mín snúast ekki um þig, langt í frá.

Eins og kemur fram í pistlinum var það sett fram fyrir kosningar af stjórnmálaflokk, Viðreisn, gott ef BF tók ekki undir og Píratar ekki algerlega andsnúnir.

Það er heldur ekki langt síðan að átti að stofna stjórnmálaflokk (var hann stofnaður?) um það að ganga Noregskonungi á hönd.  Ég man ekki eftir þér þar í fararbroddi, en ætla ekki að útiloka það.

En þeir sem töluðu hæst um myntráð fyrir kosningar vildu festa við euro, stundum með vikmörkum, stundum ekki.

Það er einfaldlega festing á gengi.

Ég var einfaldlega að bera saman hvernig Norðmenn hafa brugðist við áfalli í efnahagslífinu og svo aftur Íslendingar.  Í raun er það nokkuð svipað, krónunni er leyft að falla.

Þú ættir ef til vill að lesa þér eitthvað til um hvernig málin hafa þróast í Noregi.  Ég hef áður bent þér á Stefán Snævarr, en þér þótti víst lítið til koma, en hann hefur jú búið þar lengi.

En það er auðvitað mikið betra þegar ráðamennirnir eru langt í burtu.  Þvi fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla.

G. Tómas Gunnarsson, 7.11.2016 kl. 13:54

4 identicon

Það er þetta með þessa hófsömu, hófstilltu og hógværu....

ls (IP-tala skráð) 7.11.2016 kl. 14:11

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ertu að segja að ég viti ekki hvað ég er að tala um? Mér sýnist það svona, en eins og komið hefur fram ertu gefinn fyrir veigrunarorð.

En án gamans: Þú mátt ekki verða fúll / mógaður.

En aftur á móti sýnist mér að ég hafi náð að móðga soldið vinkonu mína hana Is. Mikið óskaplega þykir mér það nú leitt ... eða þannig.

Annars bara það sem Þórður segir:

http://kjarninn.is/skodun/2016-11-05-stodugleiki-er-teygjanlegt-hugtak/?utm_content=buffera63ed&utm_medium=social&utm_source=facebook.com&utm_campaign=buffer

Kristján G. Arngrímsson, 7.11.2016 kl. 15:42

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Að þú vitir ekki um hvað þú ert að tala voru ekki mín orð, þú verður að eiga það við sjálfan þig.

En ég þykist vita eitthvað um hvað ég er að skrifa, og þessi pistill er ekki um þig eða þínar hugmyndir. Hvað sem þér svo finnst.

En myntráð er býsna mikið rætt fyrir nýafstaðnar kosningar og það er heldur ekki langt síðan að uppi var hreyfing þess efnis að Ísland ætti að ganga í Noreg. Það er ekki eins og þú hafir verið sá eini sem hefur gælt við þá hugmynd.

Var ekki Gunnar Smári "aðalsprautan og hugmyndafræðingurinn" á bak við þá hreyfingu?

Þannig að þessum pistli var á engan hátt beint gegn þér eða fjallaði um þínar hugmyndir þó að ég viti að þú sért hrifinn af því að verða þegn konungs.

En það er alveg rétt að það eru margar leiðir til að líta á stöðugleika.

En fyrst þú ert farinn að reyna að senda mig á Kjarnann, þá bendi ég þér á á grein sem er líklega besta greininn sem það vefrit hefur birt (svona að mínu mati, ég fer ekki þangað það oft).

http://kjarninn.is/skodun/hinn-bitri-sannleikur-um-kronuna/

P.S. Ég er á engan hátt mógðaður, eða fúll, enda ættu þeir sem það verða auðveldlega að halda sig frá miðlum s.s. bloggi, eða jafnvel internetinu eins og það leggur sig.

G. Tómas Gunnarsson, 7.11.2016 kl. 16:09

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég átti nú bara við að ég var nýbúinn að nefna þetta með norsku krónuna í kommenti þannig að mér datt í hug að þú hefðir farið að skrifa um hana útaf því - en kannski var það bara helber tilviljun, ha. (Það er nú harla ódýrt hjá ykkur Ísis að grípa þetta tækifæri til að snúa út úr og núa mér um nasir að vera góður með mig. En það er sosum ykkar mál.)

Ég sendi þér nú bara tengilinn á grein Þórðar af því að mér finnst hann segja það sem ég meina, bara segir það miklu betur en ég. Og ekki er ég hissa á að þú  sért hrifinn af greininni sem þú hlekkjar á, ef þú hefðir sagst hafa skrifað hana sjálfur hefði ég trúað því.

Og aldeilis gott að einhver lætur svo lágt að segja manni nú loksins sannleikann um krónuna. Mér líður mun betur.

Kristján G. Arngrímsson, 7.11.2016 kl. 18:00

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Pistillinn snýst (alla vegna eins og ég reyndi að koma til skila) fyrst og fremst um hvort fastgengi sé skynsamlegt. Einnig er komið inn á þá umræðu sem var býsna fyrirferðarmikil fyrir nokkrum misserum um að Ísland ætti að ganga Noregskonungi á hönd. Ég held að það sé nokkuð ljóst hvaða skoðun ég hef á því.

Og af því að þú kastar því fram að ég sé "veigrunargjarn", sem ég í sjálfu sér neita ekki, þá er það vegnar góðrar ástæðu, að ég tel.

Ég hef ekki mikinn áhuga á því að ræða þessar hugmyndir útfrá því að Benedikt Jóhannesson, Þorsteinn Víglundsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Gunnar Smári (nú man ég ekki föðurnafn), eða Kristján Arngrímsson hafi sett þær fram. 

Ég hef meiri áhuga á að ræða hugmyndirnar án "persóna eða leikenda", eins og ég áður sagði.  Það hafa enda líklega margir til viðbótar við þau nöfn sem ég nefndi sett þær eða álíka hugmyndir fram.

Enn síður hef ég áhuga á því að ræða hugmyndirnar með því að stimpla þá sem settu þær fram sem "fábjána", vitleysinga, "rugludalla" eða þar fram eftir götunum.

Það er einfaldlega "virkur í athugasemdum" umræða sem ég reyni eftir fremsta megni að sneyða hjá.

P.S. Auðvitað skiptir það svo máli hver setti fram hvaða hugmynd þegar verið er að gera sér grein fyrir því hverja ætti að kjósa, nú eða jafnvel að reyna að beina öðrum "rétta leið" í því sambandi.

En jafnvel þar finnst mér gefast best að halda blóts og skammaryrðunum fyrir utan orðanforðann.

G. Tómas Gunnarsson, 8.11.2016 kl. 06:07

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta, eins og sumt annað (ekki allt), er að mínu mati afstætt. Umræðuetíketta ræðst af vettvanginum og því hvað rætt er um. Ennfremur litast þetta af fjarlægð frá umræðuefninu og hvort það er einungis nöfn á skjá eða fólk fyrir framan mann.

Fyrir mér ert þú fólk fyrir framan mig. Þess vegna tala ég hérna á blogginu þínu eins og við værum að ræða saman augliti til auglitis. Og við erum ekki í akademískri samræðu. Eða að minnsta kosti ekki ég.

Það sem rætt er um hérna á blogginu þínu er jafnan íslensk pólitík og pólitík er fólk. Fólk sem ég sé sjálfur dagsdaglega hérna á Íslandi, oftast í sjónvarpinu en stundum úti á götu. Mér finnst ekki hægt og ekki æskilegt að slíta pólitískar hugmyndir úr sínu áþreifanlega samhengi. Því eins og ég sagði er pólitík fólk. Þetta fólk sem um ræðir hefur vegna stöðu sinnar bein áhrif á líf mitt.

Ég þekki mæta vel af eigin reynslu að í akademískri umræðu er auðvelt og æskilegt að halda sig við abstraktið - blanda ekki persónum og leikendum í hugmyndirnar. En ég bý ekki í akademíu (þótt ég starfi þar part úr árinu). Ísland er fyrir þá sem þar búa ekki í akademískri fjarlægð heldur mjög áþreifanlegri nálægð.

Þess vegna eru persónur og leikendur í pólitík, að minnsta kosti ef maður lifir og hrærist í því pólitíska umhverfi sem til umræðu er. Að ræða nöfn þessara persóna og leikenda, er einfaldlega spurning um að halda sig við þennan umrædda áþreifanlega veruleika. Í pólitík, þar sem sumir hafa völd en aðrir ekki, skiptir persónuleiki þeirra sem völdin hafa vissulega máli. Hann hefur bein áhrif á það hvað þetta fólk gerir og það sem þetta fólk gerir hefur áhrif á mig, af því að ég á heima á Íslandi. Þess vegna finnst mér eðlilegt og nauðsynlegt að ræða jafnvel persónuleika þessara "leikenda" í stjórnmálunum. Annað væri að víkja sér undan því sem máli skiptir og er kannski erfiðast af öllu.

Heldur þú að skapferli t.d. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi ekkert með það að gera hvernig hann í krafti embættis síns ráðstafaði skattfé? Eða hvernig Framsóknarflokkurinn er nú klofinn?

En eins og ég segi, kannski er ekki vel gott að ræða svonalagað þegar maður hrærist ekki í þessum veruleika dags daglega. Þá kannski kemur af sjálfu sér að maður lendir eins og í akademískri fjarlægð.

Og það er auðvitað allt í lagi. Það hefur hver sitt perspektív. En ég sjálfur á, eins og ég hef hér reynt að útskýra, erfitt með að ræða pólutíkina á Íslandi úr fjarlægð vegna þess að ég lifi og hrærist í henni. Hún er uppfull af nöfnum fólks. Að sumu leyti eru þessi nöfn bara eins og örnefni, maður notar þau til hægindarauka og til að auðvelda manni að rata. En í pólitík er það nú samt svo, af því að pólitík er svo áþreifanleg, að persónur og skapgerð þeirra (og jafnvel persónuleikabrestir) eru mikilvægar breytur sem verður að taka með í reikninginn ef maður ætlar að ræða þetta efni af einhverri alvöru.

Kristján G. Arngrímsson, 8.11.2016 kl. 06:58

10 identicon

Eitt það besta við þetta blog hér og ástæðan fyrir því að ég les oftast það sem hér er skrifað er að hér eru oft ræddar hugmyndir og stefnur, kostir og gallar án of mikilla tenginga við persónur og flokka.  Það má vel vera að ritari og lesendur hafi einstaklinga og flokka í huga, en með því að reyna að ýta slíku til hliðar er auðveldara að ræða málefnið sem slíkt. Auðvitað tekst aldrei alvega að ýta þessu til hliðar (frekar en t.d. fjölmiðlamenn geta aldrei alveg verið hlutlausir í öllum málum þó þeir reyni sumir hverjir allavega), en það munar um það að reyna að halda fókus á umræðuefninu.

Kostir og gallar gengisstefnu er einmitt dæmi um málefni sem auðveldara er að ræða án þess að blanda hinum og þessum stjórnmálaflokkum eða pólitíkusum inn í, vegna þess að þá er svo auðvelt að leiða umræðuna eitthvert allt annað, t.d. kosti og galla viðkomandi einstaklinga eða flokka eða fyrri gjörðir. Sem er bara allt önnur umræða.

ls (IP-tala skráð) 8.11.2016 kl. 09:17

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta.  Þarna er raunar grundvallarmunur á hugsun okkar. Ég lít ekki á það sem við segjum hér sem "tveggja manna tal".

Hlutir og orðfæri sem ég væri hugsanlega reiðubúinn til þess að nota á Kaffi París eða á meða við fengjum okkur einn eða tvo öl, er ég ekki reiðubúinn til að grípa til hér.

Því þó að ég geti ekki sagt að ég njóti umtalsverðra vinsælda eða sé blogg "sem vitnað er í", þá eru þó flesta daga einhverjir tugir, stundum hundruðir sem lesa þetta.

Og vittu til, þegar ég kem heim og býð mig fram til forseta liggja menn yfir þessu og toga, teygja og taka úr samhengi. (bara til að taka af allan vafa, þá er þetta hugsað sem grín).

En ég tel mig heldur ekki þurfa, og ég reyni ekki heldur, að uppfylla einhver akademísk skilyrði. Ég sigli þarna einhversstaðar á milli skers og báru, ef svo á að orði komast.

Hafi Sigmundur Davíð upp á sitt einsdæmi ákveðið að eyða pening í eitthvað (ráðherrar hafa jú sitt "skúffufé") þá er ekkert óeðlilegt að ræða það út frá honum.  Hafi hann einn staðið að einhverri tillögugerð er það líka ekki óeðlilegt.

En Framsóknarflokkurinn lagði eitthvað til, sem var samþykkt í ríkisstjórn, fór svo fyrir fjárlaganefnd og var svo aftur samþykkt á Alþingi, gildir í raun annað.

Enn annað er svo um hugmyndir. Eins og til dæmis um myntráð. Það skiptir í raun engu máli í þeirri umræðu hvort að myntráð sé æskilegt eður ei, eða við hvaða kringumstæður það gæti verið jákvætt, hvort að það var Viðreisn (eða þá hvaða einstaklingur í Viðreisn), BF, eða Píratar sem settu hugmyndina fram. Eða hver setti hana fyrst fram og hverjir tóku undir.

Hugmyndin er ekki ný af nálinni, hefur verið reynd hér og þar, með misgóðum árangri.

Það er mjög eðlilegt að mínu mati að ræða hana án "persóna og leikenda".

G. Tómas Gunnarsson, 8.11.2016 kl. 09:30

12 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já, Tommi, sem ég segi: Þetta er spurning um perspektív. Við höfum sitthvort og varla nokkuð óeðlilegt við það. Ég nefni fólk og gef því stundum einkunnir, þú gerir það ekki. Mér finnst kurteisi að fólk kynni sig, þér finnst það óþarfi. Gott og vel.

Þrátt fyrir þessi mismunandi perspektív - eða nálganir - höfum við getað rætt saman og af einhverjum ástæðum er ég einn þeirra sem les bloggið þitt nokkuð reglulega þótt ég kommenteri ekki nema endrum og sinnum.

Ég nálgast þetta eins og spjall við þig og ég set mig ekki í neinar stellingar, læt mig engu varða hver les það sem ég skrifa.

Það hefur hver sinn háttinn á.

Kristján G. Arngrímsson, 8.11.2016 kl. 10:21

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Að sjálfsögðu er ekkert óeðlilegt við að einstaklingar hafi mismunandi skoðanir, tilveran yrði óttalega grá án þess.

Ég geri greinarmun á ýmissi hegðun, bæði hér og í "kjötheimum". Ef ég væri á spjalli við þig í "kjötheimum", myndi ég bregðast ókvæða við ef einhver sem ég þekkti engin deili á og gerði engan tilraun til þess að kynna sig væri sífellt að gjamma fram í.  Ef staðurinn væri þannig myndi ég líklega kalla á dyravörð.

En hér á blogginu erum við ekki á tveggja manna tali.  Þetta er opið öllum og eðli netsins ólíkt því að sitja við t.d. borð á veitingastað, þó að bæði séu "almannarými".

En ég geri líka greinarmun á því hvað einstaklingum leyfist hér á blogginu, eftir því hvort þeir "kynna" sig eður ei.  "Ókynntir" einstaklingar sem hafa ausið úr sér óhróðri, kalla nafngreinda einstaklinga öllum illum nöfnum, hafa einfaldlega verið beðnir um að fara annað, og í örfáum tilvikum hefur athugasemd þeirra verið tekin út. Einstaka IP tölur hafa jafnframt verið bannaður. Einn einstakligur (var kynntur) hefur verið bannaður hér vegna "spams".

Séu einstaklingar kynntir hef ég verið heldur rýmri með þetta, enda þá nafnfgreindur einstaklingur sem fer með "illmælgina".

En ég lít svo á að ég beri ábyrgð á þessu svæði.

En kurteisir einstaklingar sem leggja hér eitthvað til máls fara ekki í taugarnar á mér. Þá hlusta ég einfaldlega á það sem sagt er. 

Það getur verið fjöldi ástæðna til þess að menn kjósa nafnleynd. Það getur verið vegna atvinnu og einnig vegna t.d. fjölskyldu.

Set þetta inn hér svona til að útskýra viðhorf til þessa "litla fjölmiðils" míns ögn frekar.

G. Tómas Gunnarsson, 8.11.2016 kl. 13:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband