7.11.2016 | 14:15
"Brexit" - Ríflega fjórum mánuðum síðar
Nú eru rúmlega fjórir mánuðir liðnir frá því að Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að yfirgefa Evrópusambandið.
Þær heimsendaspár sem haldið var að almenningi fyrir atkvæðagreiðsluna hafa ekki ræst, en svo að fyllstu sanngirni sé gætt, er rétt að hafa í huga að hið formlega ferli er ekki hafið.
Og það er næsta víst að ef þessi dómur verður staðfestur af hæstarétti, mun ferlið tefjast, líklega verulega.
Það sem þó líklega mun knýja málið áfram er að enginn flokkur, líklega utan hugsanlega Íhaldsflokksins hefur áhuga á kosningum nú.
Verkamannaflokkurinn er í sárum (það var óvæntur "bónus" sem Íhaldsflokkurinn fékk með "Brexit" atkvæðagreiðslunni), og myndi hugsanlega horfa upp á fjöldaflótta til UKIP ef kosningar yrðu fljótlega, ekki síst ef þær yrðu haldnar vegna þess að Verkamannaflokkurinn hefði komið í veg fyrir "Brexit".
Frjálslyndi flokkurinn varð mjög illa út úr síðustu kosningum, er enn í sárum, en myndi ef til vill geta bætt sig örlítið.
UKIP er á góðri leið með að tortíma sér eftir brottför Nigel Farage, en hlutirnir gætu þó breyst verulega ef kosningar yrðu, hefði þingið hefði stoppað "Brexit". Farage myndi án efa snús aftur, það gæti gefið flokknum nýtt líf.
En ef kosningar yrðu fljótlega, bendir allt til stórsigur Íhaldsflokksins.
En ef við snúm okkur aftur að því sem gerst hefur síðan "Brexit" var samþykkt.
Fyrirtæki og markaðir byggjast ekki hvað síst á væntingum, má halda því fram að þó nokkuð af þeim hörmungum sem "lofað" var að myndi hellast yfir Breta ættu að hafa látið á sér kræla.
Svo er þó ekki.
En vissulega hefur breska pundið veikst, og víst benda margir "Brexit" andstæðingar á það og segja að Bretar séu fátækari en áður.
Og því verður ekki neitað að pundið hefur vissulega lækkað, en það má halda því fram að það sé nákvæmlega það sem Bretar þurftu á að halda.
Um all langa hríð höfðu Bretar lifað um efni fram - þeir voru ekkert ríkari en þeir eru nú. Viðskiptajöfnuður var neikvæður og pundið var sterkara vegna erlends fés sem streymdi inn í landið, til fjárfestinga (ekki síst í húsnæði, sem hleypti upp verðinu) og í formi lána.
Íslendingar ættu að þekkja það nokkuð vel að sterkt gengi er ekki eintóm blessun. Mörg af stærstu ríkjum heims hafa enda staðið í óformlegri keppni um að lækka gengi gjaldmiðla sinna.
En stærsta spurningin er hvernig hugsanlegir samningar á milli Bretlands og Evrópusambandsins muni takast?
Eða takast þeir hreint ekki?
Því miður er æ fleira sem bendir í þá átt að samningar muni hreinlega ekki takast, eða þá ekki verða samþykktir af öllum þjóðum "Sambandsins". Aðild Breta muni hreinlega renna sitt skeið eftir að 2ja ára samningaviðræðum er lokið.
Bretar flytja út stærri hluta þjóðarframleiðslu sinnar til "Sambandslanda", en þau til Bretlands. Það liggur nokkurn veginn í augum uppi þegar horft er til stærðarmunarins. En "Sambandslöndin" hafa flutt meira til Brelands, en Bretar til þeirra, viðskiptamunurinn hefur legið "Sambandsmegin".
En ef engir samningar nást og tollar skella á, hvað gerist? Augljóslega munu vörur frá "Sambandinu" verða 25 til 30% dýrari (að jafnaði) í Bretlandi, en var fyrir atkvæðagreiðsluna. En breskar vörur munu verða á sama verði, eða hugsanlega ódýrari í "Sambandinu".
Það er því ekki ólíklegt að viðskiptajöfnuðurinn myndi flytjast yfir til Bretlands. Samdrátturinn er mun líklegri "Sambandsmegin". Einnig er vert að horfa til þess, þó að engin reynsla sé komin á það, að Bretland mun líklega eiga auðveldara með að gera fríverslunarsamninga í framtíðinni en "Sambandið".
Staðan er sú nú, að það eru fyrst og fremst fyrirtæki "Sambandsmegin" sem finna fyrir erfiðleikum eftir "Brexit". Þar er að verki tímabær gengislækkun pundsins. Það má vissulega deila um hvað sé "rétt" gengi og hvort nú sé yfirskot eða hvort gengið eigi eftir að falla frekar.
Einna fyrst til að finna fyrir erfðiðleikunum voru fyrirtæki í landbúnaðargeiranum á Írlandi. Í frekar skrýtnum "tvisti", eru þau nú sum hver farin að hugleiða að flytja hluta af starfsemi sinnar til Bretlands.
Það eru vangaveltur sem eiga líklega eftir að endurtaka sig víða um "Sambandið", en að sjálfsgögðu einnig á hinn vegin, í Bretlandi.
Reyndar er "Sambandið" sjálft farið að finna fyrir þessu, enda borga Bretar nú framlag sitt með mun verðminni pundum en reiknað var með í áætlunum þess. Margir óttas ennfremur það tekjufall sem verður þegar Bretar fara út, enda greiddu þeir hæstu upphæð á íbúa allra aðildarríkja árið 2015.
Mikið hefur verið rætt um stöðu fjármálageirans í Bretlandi, margir vilja meina að hann verði fyrir þungu höggi standandi utan "Sambandsins" og fjármálafyrirtæki muni flytja frá Bretlandi í stórum.
Ég held að það sé óumflýjanlegt að störf úr fjármálageiranum muni flytjast frá London. En lang líklegast er að borgin haldi titli sínum sem fjármálahöfuðborg Evrópu. Störf munu flytjast til borga á við Frankfurt, Dublin, Vínar, Zurich, New York og Hong Kong.
En það getur engin evrópuborg keppt við London í "heildar umhverfi" fyrir fjármálafyrirtæki.
Svo má aftur deila um hvort að það sé gott eða slæmt að hlutfall fjármálastarfsemi í þjóðarbúinu dragist saman, en það er sjaldnast jákvætt þegar vel launuð störf hverfa úr landi.
En auðvitað verður þeirri spurningu hvort að Bretlandi komi til með að vegna betur innan eða utan "Sambandsins" aldrei svarað með 100% vissu. Það er einfaldlega ekki svo að við höfum "annað Bretland" sem heldur áfram í "Sambandinu" og við getum séð muninn eftir 10 ár eða svo.
Það er heldur ekki svo að "Sambandsaðild" sé eina breytan sem ákveður hvernig þjóðum vegnar í lífsbaráttunni.
Í kjölfar "Brexit" stendur Bretland frammi fyrir ótal mörgum valkostum og þarf að ákveða hverjir muni gagnast best.
Sömuleiðis er staðan þannig "Sambandsmegin", þar bjóðast ótal kostir, ótal leiðir og spurningin er hvað er ´rétt og hvað er rangt og um það eru auðvitað skiptar skoðanir.
En það sem skiptir meginmáli er að Bretland verður frjálsara til að marka sér sína eigin leið, með sína eigin pólítíkusa sem þeir sjálfir geta skipt um, dregið til ábyrgðar og lagt línurnar í kosningum.
Til lengri tíma er ég þeirrar skoðunar að það muni reynast þeim vel.
Það þýðir ekki að "gatan liggi greið", það er óvissa og ákveðnir erfiðleikar framundan, enda ekki einfalt mál að aðgreina sig frá bákni eins og "Sambandið" er.
Eins og staðan er nú virðist það algengt viðhorf að það þurfi að "hegna" Bretlandi, svona rétt eins og það hafi framið afbrot.
Það er óskandi að skynsamari raddir innan "Sambandsins" nái yfirhöndinni, og það verði ofan á að þjóðir geti átt gott samstarf, án þess að stefna að "æ nánari samruna".
Ef til vill ætti viðskiptasamningur Kanada og Evrópusambandsins að geta verið fordæmi í þá átt. Við verðum að vona að aðildarríki "Sambandsins" samþykki og staðfesti hann fljótlega.
Er Brexit búið að vera? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:46 | Facebook
Athugasemdir
Á meðan helstu bankar og fjármálastofnanir hafa hafið flutning frá Bretlandi bregst Toblerone svona við lægra gengi pundsins:
Vagn (IP-tala skráð) 8.11.2016 kl. 08:13
@Vagn Þakka þér fyrir þetta. Heillandi mynd af súkkulaði sem ég kann vel að meta. En ég held að flestum sé ljóst að þessi breyting er ekki vegna "Brexit", enda breytir fyrirtæki eins og Cadbury´s/Mondelaz líklega ekki framleiðslulínu sinni á fjórum mánuðum eða svo.
En þessi breyting er hluti af stærra "trendi" sem hefur mátt sjá um allan heim og verið nokkuð áberandi í Evrópu (eða ég þekki betur til þar) en þar hafa fjölmargar vörutegundir "minnkað".Þetta fékk umfjöllun í Bretlandi (og víðar) löngu fyrir "Brexit". https://www.theguardian.com/uk-news/2016/apr/20/supermarket-products-smaller-size-prices-stay-same
Það er hins vegar "trend" í þá átt að segja allt sem gerist í þessa átt eigi orsök sína í "Brexit" og flestar uppsagnir sömuleiðis.
Annað "trend" sem hefur vakið nokkra athygli upp á síðkastið er að mörg vel þekkt vörumerki eru ekki með sama innihald í öllum Evrópuríkjum.
En þetta breytir því ekki að innfluttar vörur verða dýrari í Bretlandi (eða vörur með mikið af innfluttu innihaldi), og þó að kakó hafi lækkað í verði upp á síðkastið (í dollurum) þá er það ennþá sögulega mjög hátt, verðfall bæði euros og pundsins (gagnvart sama dollar) gerir vörur með háu kakóinnihaldi dýrari. Gengisfall pundsins er auðvitað mun meira.
Enginn banki hefur enn flutt frá London, mér best vitanlega. En það er engin spurning að einhver störf munu flytjast þaðan.
Vandamálið fyrir bankana eru að lög, reglugerðir og annað umhverfi eru ekki það "aðlaðandi" í þeim löndum sem helst kæmu til greina.
Það flytur engin banki mikið af starfsemi sinnar til borgar eins og Parísar, með þær vinnumarkaðsreglur sem þar gilda, þar sem verkföll lama borgarlífið reglulega og hætta er á að næst þegar sósíalistískur forseti kemst til valda, fari skattar upp í 75% á ný.
En bankastörf munu flytjast frá London, líklega einna helst til Frankfurt og Dublin. Það er óhjákvæmilegt.
G. Tómas Gunnarsson, 8.11.2016 kl. 09:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.