31.10.2016 | 15:37
DAV er besti kosturinn í stöðunni
Auðvitað hef ég verið að velta því fyrir mér hver sé besti ríkisstjórnarkosturinn, eins og svo margir aðrir. Það er eiginlega ekki annað hægt en að taka þátt í þessum vinsæla samkvæmisleik.
Íslendingar þurfa trausta stjórn, sem spannar hið pólítíska litróf og getur skapað sátt eins víða og hægt er.
Engir tveir flokkar eru betri til að skapa slíka sátt en Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn, og rétti flokkurinn til að vera með þeim er að mínu mati Björt framtíð.
Ég geri mér grein fyrir því að þetta er líklega ekki óskastjórn neins af þessum flokkum, en þetta er besti kosturinn.
Það þarf ekki að líta lengi yfir sviðið til að sjá að raunverulega eru bara 5 flokkar í pottinum. Samfylkingin á ekkert erindi í ríkisstjórn eftir þann dóm kjósenda sem flokkurinn fékk og Framsóknarflokkurinn þarf að leysa úr sínum innanflokksvandamálum áður en hann fer að hyggja að ríkisstjórnarþátttöku.
Píratar þurfa að fást við sína "vaxtarverki" og enginn veit nákvæmlega hvernig 10 manna þingflokkur Pírata kemur til með að "virka".
Ég held að Viðreisn hefði sömuleiðis gott af því að hefja starfsemi sína í stjórnarandstöðu, þannig að meiri reynsla komist á flokkinn og bæði hann og kjósendur fái að vita meira hvert hann stefnir, og hvernig hann stefnir að því.
Það skilur eftir þessa þrjá flokka, Sjálfstæðisflokk og Vinstri græn, sem eru tveir stærstu flokkarnir á Íslandi og Bjarta framtíð, sem hefur sýnt sig á sínu fyrsta kjörtímabili að vera hófsamur, hógvær og æsingalaus flokkur.
Því er best að enda þetta á örlítilli "Kennedy dramatík", og segja að þessir flokkar verði að spyrja sig, ekki hvað þeir geti gert fyrir flokkinn sinn, heldur hvað þeir geti gert fyrir Ísland.
Og drífa sig svo í því að mynda ríkisstjórn.
Elliði vill ríkisstjórn með VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góður pistill, að mestu sammála
Skúli (IP-tala skráð) 31.10.2016 kl. 15:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.