7.10.2016 | 11:52
Oft eru átök orsök framfara og þess virði að í þeim sé staðið
Það er að mínu mati ekki fyllilega rökrétt að bera saman embætti forseta Íslands og foringja stjórnmálaflokks.
En líklega er Róbert Marshall ekki einn um að vilja sjá með þeim líkindi.
Það verður æ alengara í stjórnmálum (og ekki bara íslenskum) að stjórnmálaforingjar sjái sinn helsta tilgang í "borðaklippingum", "tækifærisræðum" og "pólítískum sjálfum" (sjálfsmyndum).
Líklega hefur sú stjórnmálamenning óvíða risið hærra en í Reykjavíkurborg undanfarin kjörtímabil.
Slík "stjórnmál" geta hins vegar virkað vel hjá næsta valdalitlum forseta, en síður hjá "hefðbundnum pólítíkusum". Þó getur forseti þurft að "efna til átaka", þó að hann standi svo ekki í þeim miðjum.
Forseti Íslands hefur þrívegis (sumir myndu ef til vill segja oftar) efnt til mikilla innanlands átaka, tvívegis um IceSave og einu sinni um "Fjölmiðlafrumvarpið" svokallaða. Ef ég man rétt voru síðast nefndu átökin Róberti Marshall mjög að skapi og hafnaði hann öllum "sáttum" sem þar voru boðnar.
En hin átökin, um IceSave, voru vel þess virði að taka. Þar voru þingmenn Samfylkingar og stór hlut þingmanna Vinstri grænna reiðubúnir til að skrifa undir IceSave I án þess að þingmenn fengju að lesa samninginn (ef ég man rétt var Róbert Marshall einn af þeim).
Sem betur fer voru aðrir tilbúnir í átök.
Og það hafa verið átök um mörg mál undanfarin ár. Eitthvert stærsta mál undanfarinna ára, umsókn Íslands að Evrópusambandinu var samþykkt á Alþingi með naumum meirihluta, ekki án átaka og ekki án þess að þingmenn s.s. Róbert Marshall höfnuðu því að reyna að byggja meiri sátt um málið og að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu.
En þannig er það, stjórnmál eru barátta hugmyndanna, það er ekki alltaf sem þær betri verða ofan á, en matið á slíku byggist ekki síst á sjónarhorninu.
Síðan er það sagan sem dæmir, en meira að segja hún er ekki óskeikul og dómur hennar er breytilegur, bæði eftir höfundum hennar og þeim tíma og stað sem hún er skrifuð.
En ég vona að átök séu ekki liðin tíð í íslenskum stjórnmálum.
Oft er þeirra þörf og þau undanfari framfara og umbóta, þó svo sé vissulega ekki í öllum tilfellum.
Eða eins og einhver sagði einhvern tíma, sá stjórnmálamaður sem öllum líkar við er stjórnmálamaður sem ekkert hefur gert.
Átök meginstef ferils Sigmundar Davíðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.