4.10.2016 | 15:56
Villandi fyrirsögn, ef marka má það sem er skrifað í fréttinni
Ef það er rétt sem lesa má í fréttinni er fyrirsögn fréttarinnar, "Vilja spyrja þjóðina um viðræðurnar" verulega misvísandi og raunar að mínu mati kolröng. Í fréttinni má lesa t.d.: Við munum fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort við ætlum að ganga inn í Evrópusambandið, já eða nei, sagði Lilja Dögg afdráttarlaust.
Sem og: Ég er ekki hlynntur inngöngu inn í Evrópusambandið. En þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort við göngum inn eða ekki er mjög álitleg, sagði Teitur Björn Einarsson fulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Ef þetta er rétt er rangt að segja að fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna á þingi utan Sjálfstæðisflokkins telji ákjósanlegt að spyrja þjóðina um áframhaldandi viðræður um inngöngu í Evrópusambandið og sömuleiðis gerir það fyrirsögnina nokkuð villandi. Nema að afsökunin sé að fyrirsögnin eigi við "hina" flokkana.
Það virðist af þessu að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, í það minnsta fulltrúar þeirra á þessu fundi, myndu frekar vilja spyrja um hvort kjósendur vilji ganga í "Sambandið" eður ei.
Á þessu tvennu er all nokkur munur.
Þessi klausa í fréttinni vekur svo nokkra athygli:
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, sem stýrði umræðunum greip boltann á lofti og benti Lilju Dögg á að Írland hefði samt sem áður náð að laða til sín fjölda tæknifyrirtækja til starfa í landinu. Lilja Dögg taldi að umhverfið á Íslandi væri ákjósanlegt fyrir slíkt hið sama.
Flestir ef ekki allir gera sér grein fyrir því að það sem hefur átt mestan þátt í því að laða tæknifyrirtæki til Írlands er hið hagstæða skattaumhverfi sem þar hefur mátt finna og Evrópusambandið er svo ósátt við.
Það þarf ekki að leita lengra en til "Applemálsins" svokallaða til að komast í því hvernig í pottinn er búið.
Ef marka má Evrópusambandsúrskurðinn hafði Apple u.þ.b. 14 milljarða (euroa) ástæðna til þess að setja stærstan part starfsemi sinnar í Evrópu niður á Írlandi.
Ef til vill hefði fundarstjóri átt að spyrja stjórnmálamennina hvort að þeir teldu álitlegt fyrir Ísland að velja þá leið?
Vilja spyrja þjóðina um viðræðurnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Þetta kemur alltof oft fyrir, að fyrirsögn frétta er í engu samræmi við textann sem filgir. Stundum rekur mann í rogastans.
Eru fréttamenn ekki sæmilega menntaðir?
Haukur Árnason, 4.10.2016 kl. 20:36
@Haukur Þakka þér fyrir þetta. Ég er sammála því að þetta er allt of algengt og virðist ef eitthvað er aukast.
Ef rétt er eftir Lilju haft í fréttinni, er fyrsta setning fréttarinnar, "Fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna á þingi, utan Sjálfstæðisflokksins, telja ákjósanlegt að spyrja þjóðina um áframhaldandi viðræður um inngöngu í Evrópusambandið.", beinlínis röng.
Því miður er slíkt heldur ekkert einsdæmi, en þó er sjaldgæft að frétt sé beinlínis í mótsögn við sjálfa sig.
Fréttamenn eru sjálfsagt heilt yfir ágætlega menntaðir, en því miður virðist stundum sem skynsemi vanti frekar. Svo finnst mér ég sjá dæmi um að skoðanir þess sem ritar liti fréttir, æ oftar, en það er önnur saga.
G. Tómas Gunnarsson, 5.10.2016 kl. 10:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.