27.9.2016 | 19:21
Stærstu flokkarnir aldrei verið smærri
Á ýmsan máta er þetta athyglisverð könnun. Ég held að ég geti fullyrt (þó að ég hafi ekki tölulegar rannsóknir) að stærstu flokkarnir hafi aldrei verið smærri (alla vegna í langan tíma) en í þessari könnun.
Tveir flokkar rétt yfir 20% og svo nokkrir sitthvoru megin við 10% og svo annar hópur undir 5%.
Að ýmsu leiti má segja að þetta sé tilbrigði við stef sem er að spilast víðsvegar um heiminn, en þó sérstaklega í Evrópu.
"Hefðbundnir valdaflokkar" eiga undir högg að sækja og stjórnmálin eru að "sundrast" ef svo má að orði komast.
Þetta má sjá með tilbrigðum í löndum eins og Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Finnlandi, Spáni, Portúgal, Hollandi, Ítalíu, Grikklandi, svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd.
Í Bretlandi hylur einmenningskjördæmafyrirkomulagið (frábært orð) þessi einkenni, sem þó komu einstaklega vel ljós í síðustu kosningum til Evrópusambandsþingsins, þar sem UKip vann eftirminnilegan sigur.
Í Bandaríkjunum má einnig sjá þess nokkur merki, enda líklega fá ef nokkur dæmi þess að frambjóðendur utan stóru flokkana njóti sambærilegs fylgis og nú (það eina sem mér dettur í hug sem væri sambærilegt er þegar Ross Perot í raun tryggði Bill Clinton sigur).
En aftur að könnuninni.
Engin flokkur virðist geta látið sig dreyma um að ná nálægt 30%, jafnvel 25% þætti gott við þessar kringumstæður.
Sjálfstæðisflokkurinn á undir högg að sækja, undanfarnar vikur hafa verið honum erfiðar. Prófkjör flokksins gáfu fjölmiðlum (og óánægðum félagsmönnum) höggstað og því ekki með öllu óeðlilegt að hann láti undan síga.
Píratar láta einnig undan síga (þó að vissulega væri það meira en frábær árangur fyrir þá að verða stærsti flokkurinn, ef þessi úrslit stæðu), og það hlýtur að vera flokknum nokkurt áhyggjuefni að hann sígur jafnt og þétt niður á við. Eftir því sem flokkurinn hefur fengið meiri athygli, hefur fylgið sigið niður á við. Það er erfitt að segja annað en að það hafi verið að nokkru verðskuldað, Píratar hafa ekki risið undir athyglinni. Prófkjörin hafa ekki skilað neinu jákvæðu til flokksins og persónulega verð ég að segja stefnumálin sem ég hef helst séð, gera Pírata ákaflega óaðlaðandi.
Viðreisn er í þessari könnun þriðji stærsti flokkurinn. Líklega má þakka það afar vel heppnaðri kynningarstarfsemi hjá flokknum sem hefur náð að kynna sig afar vel í kringum uppröðun á framboðslista. Slík velgengni á þessu stigi getur verið afar mikilvæg, dregur kjósendur og sjálfboðaliða að flokknum og ef vel tekst til getur lagt grunninn að góðum sigri.
Það má heldur ekki líta fram hjá þeirri staðreynd að íslenskir kjósendur virðast um þessar mundir vera í sífelldri leit að einhverju nýju, næstum hverju sem er.
Mesta hættan sem blasir við er að kjósendur eru að mestu leiti andsnúnir aðild að Evrópusambandinu, þannig að ef andstæðingum tekst að tengja það við Viðreisn, sem og hlutdeild samtaka atvinnulífsins á framboðslistum, gæti Viðreisn fatast flugið.
Ég hygg að margir hafi orðið hissa á því að Framsóknarflokkurinn sé fjórði stærsti flokkurinn í þessari könnun. Ef til vill er það enn ein sönnunin á því að allt umtal er betra en ekkert umtal. Gott eða slæmt.
Það er þó alls endis óljóst hvernig spilast úr formannskosningu flokksins og "hnífsstungurnar" sem þar verða veittar gætu orðið alltof stórar til þess að náist að plástra þær fyrir kosningar.
En þessi könnun segir að frammarar eigi sjens. Barátta Sigmundar til að halda formannsembættinu hefur ekki dregið úr fylgi flokksins, þvert á móti.
Vinstri græn síga niður á við. Það kemur mér ekki á óvart, enda hafa framboðslistarnir verið að líta dagsins ljós og það er ekki beint hægt að segja að þeir séu til þess fallnir að draga fylgi að flokknum. Það verður þó að taka með í reikninginn að ég get varla talist óhlutdrægur aðili í þeim athugunum.
Samfylkingin er enn í tómu tjóni, 6. stærsti flokkurinn, enn minni en VG og svo langt síðan flokkurinn var yfir 10% að margir eru líklega búnir að gleyma því að flokkurinn hafi einus sinni þótt það dapur árangur að vera langt frá 30%.
Það er enda varla margt sem skilur orðið á milli Samfylkingar og Vinstri grænna og án þess að ég hafi framkvæmt vísindalega rannsókn hef ég það á tilfinningunni að flestir frambjóðendur beggja flokkanna reki upphaf stjórnmálaáhuga síns til Alþýðubandalagsins.
Klúður síðustu ríkisstjórnar hengur eins og mara yfir báðum flokkunum, og "Sambandsaðild" trekkir ekki að Samfylkingunni. Þar sameinast minnkandi áhugi á aðild og klúður flokksins við framkvæmd aðildarumsóknarinnar.
Það verður fróðlegt að fylgjast með "litlu" flokkunum, Bjartri framtíð, Dögun, Íslensku þjóðfylkingunni, Flokki fólksins o.s.frv.
Bæði hvort að einhver þeirra nái að rjúfa múrinn, sem mér þykir frekar ólíklegt, en ekki ómögulegt, en einnig og ekki síður hvernig þeir hugsanlega geta haft áhrif á kosningarnar, því samanlagt gætu þeir gert nokkuð stóran hluta atkvæða áhrifalausan.
Fylgi við Framsókn eykst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 28.9.2016 kl. 04:02 | Facebook
Athugasemdir
Ég held að vandamálið er að flokkarnir eru komnir úr takt við fólkið. Veit ekki með aðra, en ég kýs alltaf þá illskástu - að mínu mati.
Ef sú kenning er rétt, þá sígur fylgi Pírata við það að fólk fer að gruna að þeir séu eins og einhver eða einhverjir gömlu flokkanna. En það er náttúrlega bara kenning.
Þeir þurfa annað hvort að ganga í takt við kjósendur, eða sætta sig bara við að þetta er svona.
Ásgrímur Hartmannsson, 27.9.2016 kl. 22:11
@Ásgrímur þakka þér fyrir þetta. Ég held reyndar að flestir kjósi þann flokk sem þeir telja skástan eða illskástan eins og þú segir. Það eru einfaldlega ekki margir sem telja sig eiga fullkominn valkost.
En ég held einnig að það sé að verða erfiðara og erfiðara fyrir flokkana að ganga í takt við stóran hluta kjósenda, næstum því ómögulegt, vegna þess að kjósendur eru sundraðri hópur en oft áður, og ef til vill síður gefnir fyrir málamiðlanir, eða að sætta sig við "illskásta kostinn".
Það gæti því verið að enginn flokkur eigi möguleika á því að ganga í takt við mikið meira en t.d. 25 til 30% kjósenda og það einungis á "góðum degi" þegar eitthvert "sameiningarmál" kemur upp.
Flokkum fjölgar vegna þess að málamiðlanir nást ekki innan flokka og jafnvel má deila um hve mikill munur er á milli flokka, þá alltaf sé hann líklega einhver.
G. Tómas Gunnarsson, 28.9.2016 kl. 04:20
Ég er alveg klár á því, að ef hægt væri að koma á reglu þess valdandi að aldrei sætu á Alþyngi Íslendinga fleiri flokkar en þrír, án tillits til þess hvað margir væru í framboði, þá myndi skilvirkni alþingis batna til muna þegar fram liði stundir.
Það er nefnilega þannig að einstaklingur sem ekki getur fundið sínum málum farveg innan þriggja flokka, hefur ekkert á Alþyngi að gera.
Hrólfur Þ Hraundal, 28.9.2016 kl. 09:24
Ég er ekki hissa á auknu fylgi Framsóknar. Ef þeim tekst að losa sig við þennan hryllilega formann væri vit í flokknum. Ég eiginlega skil ekki hvernig er hægt að styðja núverandi formann.
Viðreisn er bara ESB-armur Sjálfstæðisflokksins. Að vísu undir rós, af einhverjum ástæðum.
En skv. nýrri könnun sem Fréttablaðið var með í morgun er þetta allt á floti. Píratar snardala (það er gott orð!) Kannski þykir Smári McCarthy ekki nógu virðulegur til að verða forsætisráðherra.
Kristján G. Arngrímsson, 28.9.2016 kl. 11:38
Ég undirstrika það að of margir flokkar skapa ekki lýðræði heldur agaleysi.
Hrólfur Þ Hraundal, 28.9.2016 kl. 12:26
@Hrólfur þakka þér fyrir þetta. Persónulega er ég ekki fylgjandi slíkum takmörkunum á lýðræði sem þú leggur til. Ég er ekki heldur hrifin af kynjakvótum, aldurskvótum eða öðru slíku þegar greidd eru atkvæði.
Það má vissulega færa fyrir því einhver rök, að til styttri tíma geti slíkt aukið hagræði og framleiðni ef svo má að orði komast. Það sama gildir reyndar um einræði.
En til lengri tíma litið er það samkeppni hugmyndanna ef svo má að orði komast sem skilar árangri. Það að lýðræðið sé ekki fullkomið, en samt það skásta sem er í boði er enn í fullu gildi.
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Fylgisaukning Framsóknar kann ef til vill ekki að koma á óvart, en hún er að koma eftir að Sigumundur hefur sig meira í frammi. Eftir að hann "jarðaði" Höskuld í NA-kjördæmi, þar sem fjölmiðlar eins og RUV reyndu að teikna upp sviðsmyndir um jafna baráttu og að varla glitti í týru á pólítísku lífi Sigmundar.
Annað kom í ljós.
Ég hygg að í Viðreisn séu býsna margir fyrrverandi félagaar í Sjálfstæðisflokknum, og þeir vekja auðvitað mesta athygli. En þar mun einnig vera að finna fólk úr Samfylkingunni og jafnvel Framsókn hefur mér skilist.
Persónulega held ég að Smári teljist ekki andlit Pírata út á við, það er Birgitta og ég held að það sé að miklu leyti vegna framgöngu hennar sem Píratar eru að missa fylgi. Einnig auðvitað vegna þess að eftir því sem athyglin hefur beinst meira að þeim, standa þeir síður undir henni.
Persónulega hef á haft nokkuð jákvæða tilfinningar gagnvart þeim, og "litlu málin" sem þeir hafa verið að prómótera finnst mér ákaflega jákvæð, t.d. þetta: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/27/vilja_afnema_log_um_kirkjulodir/
Þegar þeir komu í gegn að lög um guðlast voru afnumin studdi ég þá líka 100% og þar var unnið þarft verk.
En "stóru málin" og ályktanir sem hafa komið fram upp á síðkastið eru að mínu mati að mestu leyti út í hött, og munu án efa sjá til þess að fylgið heldur áfram að síga niður.
En eins og ég skrifaði í nýjust færslunni minni, set ég stóran fyrirvara við könnun Fréttablaðsins, mér þykir hún ekki mjög trúverðug, þó ef til vill sé hún mér sem slíkt ekki á móti skapi.
G. Tómas Gunnarsson, 28.9.2016 kl. 16:19
Ég skil vel þitt sjónarmið G, Tómas Gunnarsson, enda líkt mínum um langa hríð. En ljóst er að margir flokkar í stjórn kalla á það sem á stundum eru kölluð hrossakaup, fremur en að staðið sé við loforð, og það er af ærlegum fyrirgefið að ekki sé staðið í ístöðin vegna ómöguleika til að standa við þau loforð Þar sem strandar á samstarfsflokkum sem var með öðruvísi loforð og RUV hugnanleg sammála eða öfugt.
Það er mikilsvirði að vita af ærlegum mönnum í grennd og hafðu þökk fyrir það, en ærlegum getur líka sem öðrum skjöplast á ærlegheitunum vegna trúvillu um að allir hafi rétt fyrir sér.
Það eina sem ég legg til er að trúvillunni sé skipt í þrennt, en ekki í það mjöl sem malaranum tekst að mylja úr sem flesta flokka á kostnað landans.
Mjölvinnsla hefur oftast skilað arði en ekki alltaf og í íslenskri pólitík er hún mjög í mínus.
Flokkar taldir í dúsínum, svo ég tali ekki um í gamalli mæli einingu málum, þá eru dagar okkar taldi, nema með vopnum.
Um þetta er mínu máli lokið hér og nú og hafi höfundur þessarar síðu þökk fyrir að gefa mér færi.
Hrólfur Þ Hraundal, 28.9.2016 kl. 18:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.