5.10.2016 | 09:11
Nauðsynlegt að láta meta kosti, galla, kostnað og ávinning
Ég ætla ekki að segja neitt um hvort að samþykkt þess efnis að Ísland undirgangist fjármálaeftirlit "Sambandsins" standist stjórnarskrá eður ei. Ég tel mig einfaldlega ekki þess umkominn, hef ekki næga þekkkingu á málinu eða tíma til þess að afla mér hennar.
En það er að mínu mati ljóst að EEA/EES samningurinn þrengir æ meira að Íslendingum ef svo má að orði komast og vekur upp æ fleiri spurningar.
Það er því ekki að undra að lesa hafi mátt æ fleiri hafa uppi efasemdir um framtíð samningsins, hér og þar um internetið.
Flestum ætti að vera ljóst að þær fullyrðingar sem uppi voru hafnar þegar hann var undirritaður, þess efnis að Ísland væri að fá "allt fyrir ekkert", voru rangar og í raun ákaflega barnalegar. Ef til vill mætti segja að slikur samningur feli í sér þá hættu að Ísland "lokist inni í brennandi húsi", svo notuð sem þekkt samlíking.
Sömuleiðis ætti samningurinn að vekja alla til umhugsunar um hve hættulegt það getur verið hagsmunum þjóða að undirgangast samning sem í raun er galopinn og gefur mótaðilanum í raun gríðarleg völd, ekki síst í ljósi stærðarmunar.
Máltækið góða, í upphafi skyldi endinn skoða, gildir hér sem víða annars staðar og má renna sterkum líkum að því að það hafi ekki verið gert þegar Ísland skrifaði undir samninginn á sínum tíma. Það má ef til vill velta því fyrir sér hvort að það hafi verið mögulegt og hvort að forsvaranlegt sé að undirrita samning sem engin leið sé að sjá hvað hann getur haft í för með sér.
Ég hugsa að fáir ef nokkur hefði getað sagt fyrir hvernig staðan er nú, snemma á tíunda áratug síðustu aldar.
En það er nauðynlegt fyrir Íslendinga að framkvæma nýtt mat á EEA/EES samningnum.
Hverjir eru kostirnir, hverjir eru gallarnir, hver er raunkostnaður af samningnum og hver er ávinningurinn.
Hverjar eru framtíðarhorfurnar?
Það þarf að taka með í reikninginn að stærsta einstaka viðskiptaland Íslands er á leið út úr samingnum.
Það er ólíklegt, þó að slíkt væri sanngjörn krafa, að það verði til þess að greiðslur EFTA landanna minnki. Frekar er líklegt að fjárkröfur aukist, enda hverfur stór hluti tekjum Evrópusambandsins með Bretum.
Hlutdeild af heildarútflutningi Bretlands sem fer til Evrópusambandsins hefur minnkað um 25% á undanförnum áratugum, úr 60% niður í 45.
Það er ekki óeðlilegt, enda fer hlutur "Sambandsins" í heimsbúskapnum minnkandi og ekkert sem bendir til annars en að sú þróun haldi áfram.
Þó að alltaf sé erfitt að spá, og sérstaklega um framtíðina, eins og maðurinn sagði, er nauðsynlegt að Íslendingar velti framtíð EEA/ESS samningsins fyrir sér og hver séu réttu skrefin.
Með Brexit verða breytingar á Evrópusambandinu, og margt sem bendir til þess að það verði ekki til góðs.
Íslendingar þurfa að vera undirbúnir og upplýsingaöflun, útreikningar og hugsanlegir valkostir eru hluti af þeim undirbúningi.
Verða að standast stjórnarskrána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:32 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.