14.12.2015 | 17:42
Mikill misskilningur að Þjóðfylkingin hafi ekki fengið neinn mann kjörinn
Það er hræðilega rangur fréttaflutningur þegar sagt er í þeirri frétt sem þessi færsla er hengd við, að Þjóðfylkingin hafi ekki hlotið neinn mann kjörinn í héraðsstjórnir (eða héraðsráð) í kosningunum í Frakklandi í gær.
Setningin: "Margir Frakkar trúðu því þegar þeir vöknuðu í morgun að FN hefði beðið ósigur í gær því enginn frambjóðandi þeirra náði kjöri.", er eiginlega eins röng og hugsast getur og ber þess vitni að blaðamaður hafi litla hugmynd um hvað hann er að skrifa og hafi ekki haft fyrir því að kynna sér málið.
Staðreyndin er sú að fjöldinn allur af fulltrúum Þjóðfylkingarinnar náði kjöri.
Það var verið að kjósa lista til að stjórna héruðum Frakklands, ekki einstakling og um hlutfallskosningu er að ræða.
Sætunum er skipt með þeim hætti að sá flokkur er hlýtur flest atkvæði, fær fyrst 25% af þeim sætum sem eru í boði. Síðan er afgangnum af sætunum (75%) skipt í réttu hlutfalli við atkvæðafjölda þeirra flokka sem náðu í seinni umferð kosninganna.
Þannig fékk Þjóðfylkingin 22. fulltrúa kjörna í Ile de France, þó að fylgi þeirra væri ekki mikið og flokkurinn með lang minnst fylgi í seinni umferðinni. (sjá mynd sem fylgir með færslunni).
Í Nord Pas de Calais, fékk Þjóðfylkingin 54. fulltrúa kjörna, en Lýðveldisflokkurinn 116.
Svona mætti áfram telja, hérað eftir hérað.
Það er því mikill fjöldi fulltrúa Þjóðfylkingarinnar sem tekur sæti í héraðstjórnum í Frakklandi, fleiri en nokkru sinni fyrr.
En flokkurinn er ekki í meirihluta í neinu héraði.
Ósigur! Hvaða ósigur? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Sveitarstjórnarkosningar, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
MBL er orðið eins og blaðið sem Winston vann fyrir í 1984. Þeir bara segja það sem þjónar þeirra eigin skoðunum.
Þeir eru ekki að upplýsa okkur um stöðu heimsmála, heldur lhæuga beinlínis að okkur.
Og svo vísa þeir í tumblr...
Það var bara núna í fyrradag. Tumblr! Í næstu viku fáum við sennilega að vita hvað 4chan finnst um málin.
Ásgrímur Hartmannsson, 14.12.2015 kl. 19:19
@Ásgrímur Þakka þér fyrir þetta. Persónulega tel ég ekki að mbl.is sé vísvitandi að reyna að villa um fyrir lesendum sínum, eða að halda frá þeim staðreyndum eða sannleikanum.
En það breytir því ekki að í æ fleiri tilfellum finnst mér vanta nokkuð upp á fréttaflutninginn og hann beinlínis rangur.
Hvort að þar er um að kenna hroðvirkni, þekkingarskorti, tímaskorti eða einhverju öðru ætla ég ekki að dæma um, en það er vissulega þörf á betri vinnubrögðum og virkara eftirliti.
G. Tómas Gunnarsson, 14.12.2015 kl. 19:38
Það sem vekur kannski meiri umhugsun eru svokallaða "tengdar fréttir" sem mbl hefur við þessa frétt. Þessar tengdu fréttir hafa hingað til verið linkar á fréttir tengdar efni þeirra fréttar sem fram er færð.
"Tengdar fréttir" við þessa frétt mbl eru hins vegar allar um hryðjuverkin í París. Er mbl þar að gefa í skyn að FN hafi átt þátt í þeim voðaverkum? Eða er mbl komið á sama plan og óttaslegnir forsvarsmenn ESB, sem allt óttast sem lýsir einhverjum efa á sambandinu og uppnefnir slíka hópa öfgahópa?
Er þá mbl komið í hóp þeirra sem fylgja ESB elítunni eftir í því að dæma rúmlega þriðjung Frakka sem öfgafólk?
Gunnar Heiðarsson, 15.12.2015 kl. 06:42
@Gunnar Þakka þér fyrir þetta. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig staðið er að "tengingum" frétta hjá mbl.is, en ég er næsta viss um að það er ekki gert "handvirkt".
Miðillinn er því ekki að stýra slíkum "tengslum", heldur lætur einhvern "algorythma" finna "atriðisorð. Hvort að gefinn er möguleiki á því að velja síðan veit ég ekki.
En síðari umferð frönsku héraðskosninganna var haldin nákvæmlega mánuði eftir hryðjuverkin í París. Og ég held að enginn geti haldið því fram að atburðurinn hafi ekki haft áhrif á kosningarnar.
Hver þau eru, má vissulega deila um, enda líklegt að þau hafi virkað mismunandi á einstaklinga.
Sjálfsagt hafa sumir frekar hallað sér að Þjóðfylkingunni fyrir vikið, en aðrir t.d. viljað þjappa sér saman til stuðnings flokks forsetans. Ótal önnur áhrif hafa sjálfsagt líka átt sér stað.
Það má t.d. velta því fyrir sér hvort að það hafi haft einhver áhrif á kjósendur að sjá þungvopnaða hermenn víða í kringum kjörstaði, og þá í hvaða átt?
En ég held að fæstir neiti því að kosningarnar og hryðjuverkin hafa "tengingu", þó ekki sé með beinum hætti.
G. Tómas Gunnarsson, 15.12.2015 kl. 07:37
Sæll G. Tómas ég var að sjá athugasemd þína og hún er hárrétt og ég hef bætt við athugasemd við fréttina. Takk kærlega fyrir og endilega sendu póst á mig eða netfrett@mbl.is ef þú sérð eitthvað sem er rangt farið með í fréttum. Hér fór ég hreinlega of geyst í skrifum mínum því það kemur fram neðar í greininni að flokkurinn hafi fengið mun fleiri kjörna í héraðsstjórnir landsins en í kosningunum 2010. Enn og aftur ég biðst velvirðingar á þessum mistökum mínum.
Bestu kveðjur
Guðrún Hálfdánardóttir blaðamaður á mbl.is
Guðrún Hálfdánardóttir (IP-tala skráð) 15.12.2015 kl. 16:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.