8.7.2006 | 18:35
Reiðhjólagult, fölar páskaliljur - Fikn, nægtaborð alheimsins.
Núna sit ég hérna heima og er að bíða eftir að konan komi heim, svo ég geti haldið að Bjórá og haldið áfram að mála. Þó að verkið sé heldur á eftir áætlun er ég þokkalega ánægður með árangurinn. Ákvað að kaupa málningu frá Behr . Fyrir utan "loftahvítt", urðu litirnir "reiðhjólagult" (bicycle yellow) og "fölar páskaliljur" (pale daffodils) fyrir valinu og koma skratti vel út. Sérstaklega er ég að verða hrifinn af þeim "reiðhjólagula" á stofuna.
En hver býr til þessi nöfn?
En að öðru. Ég hef þróað með mér nokkrar fíknir upp á síðkastið. Fyrst ber að nefna Haagen Daz ís, Mayan Chocolate er einfaldlega sá besti sem ég hef smakkað. Ég er eiginlega nokkuð staðfastur að héðan í frá verði eingöngu borðaður gæðaís á borð við Haagen Daz, eða ég bý sjálfur til ísinn, en það er ekki eins flókið og margir halda.
Hin fíknin er þó ótrúlegt megi virðast ítalskt ropvatn. San Pellegrino nánar tiltekið. Einstaklega hressandi og gott vatn. Helstu önnur hjálparmeðul núna í sumarhitanum eru svo eistneskur og tékkneskur bjór og auðvitað hjálpar ískalt kanadískt hvítvín líka upp á stöku sinnum.
Það er ljúft að geta notið þessara dásemda, sum hver af þeim kominn yfir hálfan hnöttinn. En auðvitað er allt best í hófi, jafnvel ítalskt ropvatn, enda ókolsýrt kanadískt vatn vel viðunandi, svo lengi sem það kemur ekki úr krananum, þá minnir það óþægilega á sundlaugarnar.
Fór líka í pólska verslun hér í gær, keypti pylsur og Prince Polo. 5 "Classic" og eitt grænt, með hnetubragði. Komst að því að ég er "Classic" maður. Líklega bendir það til þess að ég sé orðinn nokkuð við aldur, fyrst að svo margt sem mér finnst gott, og man eftir frá uppvextinum, ber orðið aukaheitið "classic", í það minnsta bæði kók og prince.
Meginflokkur: Vinir og fjölskylda | Aukaflokkar: Bloggar, Matur og drykkur | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.