8.7.2006 | 15:53
Markaðssetning markaðssetningarinnar?
Það er auðvitað gleðiefni að bændur fái hærra verð fyrir afurðir sínar, þeir hafa víst ekki verið ofsælir með sitt. En þetta vekur vissulega upp spurningar varðandi hina umfangsmiklu markaðssetningu sem hefur verið staðið fyrir hér og þar í útlandinu undanfarin ár. Hvað verður um það starf? Var það einhverntíma eitthvert vit? Fékkst einhvern tíma viðunandi verð fyrir kjötið á erlendum mörkuðum?
Reglulega voru fluttar fréttir í íslenskum fjölmiðlum um rífandi móttökur sem íslenskt lambakjöt hafi fengið erlendis. Var ef til vill íslensk markaðssetning hinnar erlendu markaðssetningar aðalatriðið?
Hvenær er líklegt að útflutningur á kjöti frá Íslandi standi undir sér ef ekki núna, þegar gengið hefur fallið hressilega á undanförnum mánuðum?
Hver borgaði brúsann á markaðssetningunni, sem núna verður líklega til lítils, þar sem magnið sem ástæða er til að flytja út fer síminnkandi?
Þetta er enn eitt dæmið um þann "þykjustuheim" sem íslenskur landbúnaður lifir í. Það hlýtur að vera brýnt verkefni fyrir íslendinga og sér í lagi íslenska stjórnmálamenn að flytja bæði bændur og almenning til "raunheima" og nútíma viðskiptahátta með landbúnaðarvörur. Afnema niðurgreiðslur í áföngum á 5 til 10 ára tímabili, liðka fyrir innflutningi með niðurfellingu á tollum, vörugjöldum og kvótum og minnka þannig útgjöld ríkissjóðs og kostnað almennings.
Aðeins 7-8% lambakjöts seld úr landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:01 | Facebook
Athugasemdir
Það er eitt sem þú gleymir Tómas. Það er að íslenzkir bændur geta alls ekki staðið samkeppni við erlendar, niðurgreiddar landbúnaðarvörur. Hvers vegna ætti Ísland að vera eina landið í hinum vestræna heimi sem niðurgreiðir ekki landbúnað sinn? Það er sérstaklega furðulegt í ljósi þess að aðstæður hér til ræktunar eru mjög erfiðar.
Niðurfelling tolla myndi gera svína- og kjúklingabændur gjaldþrota á augabragði. Niðurfelling beingreiðslna til mjólkurbænda myndi síðan gera þá gjaldþrota á aðeins lengri tíma, en fljótlega samt. Sauðfjárbændur yrðu þeir einu sem myndu líklega standa af sér fárið, en þeirra hagur myndi ekki vænkast.
Meinið er ekki hjá bændum, afurðastöðvum eða hjá stjórnvöldum. Það eru heild- og smásalar sem mata krókinn og hlæja svo að öllu saman, þegar almenningur hengir bakara fyrir smið (bónda fyrir kaupmann).
Kveðja, Sigurjón
Sigurjón, 8.7.2006 kl. 17:52
Það er alveg rétt hjá þér Sigurjón að flest ríki heims niðurgreiða sinn landbúnað með einum eða öðrum hætti. Íslendingar hafa verið þar ofarlega á blaði með hvað hæstu styrkina sem hlutfall af framleiðsluverðmæti.
Æ fleiri þjóðir eru líka með ríkisstyrktan sjávarútveg, það vorum við íslendingar líka með til skamms tíma. Er það eftirbreytnivert?
Íslendingar verða líka að horfast í augu að þegar skilyrðin eru erfið til ræktunar, er ef til vill betra að láta aðra um framleiðsluna, íslendingar geta þá snúið sér að öðrum hlutum sem þeir eru samkeppnishæfari í.
Ef meinið er ekki hjá bændum, afurðastöðvum eða ríkinu, heldur hjá heildsölum og smásölum, langar mig að biðja þig að útskýra fyrir mér hvaða heildsalar koma að sölu á íslenskum landbúnaðarafurðum, eru það ekki fyrst og fremst afurðastöðvarnar?
Reyndar hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að það eigi að auka sambandið á milli bænda og neytenda og slaka á reglum þannig að neytendur kaupi í auknum mæli beint af bændum, rétt eins og þúsundir íslendinga gera "svart" á hverju ári. Lítil sláturhús, mönnuð af bændunum sjálfum gætu ábyggileg gert það nokkuð gott. Geymslan er þá líka fyrst og fremst hjá neytendum sjálfum, frekar en "afurðastöðvunum/heildsölunum".
En kerfi þar sem neytendur borga meirihluta verðsins í formi skatta (hvort sem þeir kaupa vöruna eður ei), og svo afganginn þegar varan er keypt, er ekki vænlegt til framtíðar að mínu mati.
Hitt er svo að ef íslenskur landbúnaður er langt frá því að vera samkeppnishæfur er óskandi að hann skreppi saman í framtíðinni. Almenningur á ekki skilið að þurfa að borga brúsann.
G. Tómas Gunnarsson, 8.7.2006 kl. 18:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.