11.5.2007 | 06:56
Stjórnmálaforingjarnir
Núna þegar ég hef fylgst með stjórnmálaforingjunum nokkuð vel í dálítinn tíma fara þeir að taka á sig myndir hinna ýmsu "týpa", svona eftir hvernig þeir virka á mig. Auðvitað er þetta enginn stóri sannleikur, heldur eingöngu mín persónulega upplifun, en hér koma þessar lýsingar sem ber auðvitað að lesa með hæfilegri léttúð..
X-B Jón Sigurðsson. Einhvern veginn minnir Jón mig alltaf á vissa týpu af menntaskólakennara. Þá kennara sem allir voru sammála um að væru með fremstu mönnum á sínu sviði, en voru jafnframt sammála um að þeir hefðu varla snefil af kennsluhæfileikum. Því voru kennslustundirnar oft leiðinlegar og skiluðu littlu.
X-D Geir Haarde. Geir er einfaldlega "nágrannatýpan". Týpan sem þú spjallar við yfir girðinguna og þú horfir á grilla. Geir er týpan sem allir treysta og allir vilja kjósa sem gjaldkera húsfélagsins ef hann býr í blokk. Ég held að þetta sé sterkasti eiginleiki Geirs. Hann er nágranninn sem hefur allt "á hreinu". Það er ekki að undra að um 65% Íslendinga segi að þeir vilji hann áfram sem forsætisráðherra.
X-F Guðjón Arnar Kristjánsson. Ég held að Guðjón sé hinn vænsti maður. En hann minnir mig á týpuna sem ég sé stundum á veitingastöðum. Dálítið þreyttir og búnir að missa tökin á krökkunum, þau hlaupa um veitingastaðinn og hrella hina gestina.
X-Í Ómar Ragnarsson. Ómar er svo ákafur, liggur svo mikið á og talar svo hratt að hann er farinn að minna mig á týpuna sem ég verð ákaflega önnum kafinn við að lesa eitthvað blað þegar hann labbar inn á kaffihúsið sem ég sit á, vel falinn á bak við blaðið óttast ég að hann muni sjá mig og halda enn einn frasafyrirlesturinn yfir mér.
X-S Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Megnið af síðasta kjörtímabili og framan af kosningabaráttunni minnti hún mig alltaf á "Soffíu frænku", hún var alltaf með einhvern "Fussum svei, og fussum svei" tón og ræður. Nú síðustu vikurnar hefur hún hins vegar skipt um stíl, er orðinn öll léttari og lítur út fyrir að hún gæti jafnvel spurt "mikið er gaman að sjá þig, hefurðu lagt af", frekar en "hvenær var síðast tekið til hérna?". Ég held að þessi breyting eigi ábyggilega stóran þátt í aukinni velgengni Samfylkingarinnar.
X-V Steingrímur J. Sigfússon. Steingrímur vefst svolítið fyrir mér. Í aðra röndina minnir hann mig á "kassapredikara" sem lofar himnaríki, en hrópar á eftir manni hótanir um helvíti, þegar maður gengur fram hjá án þess að gefa honum gaum. En hann minnir mig líka dálítið á sölumann, sem heldur áfram að selja, löngu eftir að salan er töpuð og hann nær einhvern veginn ekki að "loka" á réttum tíma.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Grín og glens | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.