Góður kosningaþáttur á Stöð 2

Ég var að enda við að horfa á þátt með stjórnmálaleiðtogunum á Stöð 2, og ég verð að segja að þetta er einhver sá albesti, ef ekki sá besti pólitíski þáttur sem ég hef séð í Íslensku sjónvarpi.  Engin spurning um að þetta er besti þátturinn sem ég hef séð fyrir þessar kosningar.

Þarna var bryddað upp á nýjungum og þáttastjórnunin var að mestu leyti til fyrirmyndar.  Hnitmiðuð og nokkuð snörp umræða og 5 mínútna "maður á mann" hlutinn góð viðbót.

Ef það er eitthvað sem mér finnst orka tvímælis, þá var það að vera með "dómara" á stjórnmálaforingjana.  Enda fannst mér þeir standa sig mun verr heldur en leiðtogarnir, og í raun óþarfi að vera að "barna" þetta góða sjónvarpsefni, kjósendur/áhorfendur eru full færir um að mynda sér skoðun á því hver stóð sig best, án hjálpar "álitsgjafa".

En enginn stóð sig illa í þættinum að mínu mati, en leiðtogarnir stóðu sig vissulega mismunandi vel. Auðvitað fara allir varlega, enda eins og oft er sagt, erfitt að vinna nokkuð í þætti sem þessum, en auðvelt að tapa verulega.

Persónulega fannst mér Geir Haarde standa sig best, en Ingibjörg Sólrún gaf honum þó eiginlega ekkert eftir.  Munar þar mestu að hún virðist hafa náð að pakka saman "Soffíu frænku" tóninum og er núna jákvæðari og léttari.  Að mínu mati allt annað að horfa á hana.

Botnin í mínu mati skröpuðu Ómar Ragnarsson og Jón Sigurðsson.  Ef til kemur það fram hve stuttur þeirra pólitíski ferill er, en þeir náðu einhvern veginn ekki takti í þættinum.  Steingrímur var vel mælskur eins og endranær, en einhver pirringur skein í gegn hjá honum í byrjun.  Guðjón sigldi lygnan sjó.

En mér leist feykivel á uppsetninguna hvað varðar kosningasjónvarpið hjá Stöð 2.  Nú er bara að vona að netþjónarnir standi sig vel á kosninganóttina svo að ég geti notið þess hér í Kanada.  Stemingin verður ef til vill ekki rífandi hjá mér einum, en næg samt til að kaupa bjór og snakk.  Svo er hægt að pirra vini og kunningja á Íslandi með því að hringja ótt og títt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband