26.9.2015 | 06:55
Trúarbrögð, kynhneigð og hjónabönd
Nú er all nokkuð rætt um hvort að trúarsöfnuðir eigi að komast upp með að neita samkynhneigðum einstaklingum um hjónavígslur.
Eðlilega kemur þar við sögu bann við mismunun, einstaklingsfrelsi og trúfrelsi og svo ríkisvaldið sem á að standa vörðu um öll þessi réttindi.
Persónulega tel ég að flestir hafi sitthvað til síns máls í þessum deilum og að boð, bönn og réttindi skarist með þeim hætti að ekki sé einfalt að pússla saman svo að öllum líki.
Ef einstaklingur hefur þá trúarsannfæringu að hjónabönd samkynhneigðra séu ekki framkvæmanleg í guðs nafni, þá er erfitt að neyða hann til að ganga gegn trú sinni.
Að sama skapi tek ég undir kröfu samkynhneigðra um að fá að gifta sig, rétt eins og aðrir einstaklingar.
En það að eiga rétt á ákveðinni þjónustu, gerir í mínum huga ekki það að verkum að ég eigi rétt á því að hver sem ég kýs þjónusti mig.
Persónulega þykir mér þó öðruvísi horfa við ef þjónustan er veitt af ríkinu, eða aðila sem það styrkir eða hefur fengið til að annast ákveðna þjónustu.
Þar finnst mér tvímælalaust að engin mismunun geti átt sér stað, eða verið umborin.
Hið opinbera er kostað af öllum og á að þjónusta alla.
Þannig þætti mér eðlilegt að fjárhagsleg aðstoð frá ríkinu sé skilyrt og þeir trúarsöfnuðir sem hana þiggja gangist undir að engin mismunun eigi sér stað hvað varðar réttindi mismunandi einstaklinga.
Þeir trúarsöfnuðum sem ekki þiggja opinbera aðstoð væri eftir sem áður heimilt til að fylgja trúarsannfæringu sinni, í skjóli laga um trúfrelsi.
Ég tek það fram að ég lít á svokölluð "sóknargjöld" sem ríkisaðstoð til trúfélaga, endu eru þau greidd hvort sem safnaðarmeðlimur hefur greitt slíkt gjald til ríkisins. Þau eru því í raun ríkisaðstoð, en ekki félagsgjald.
Auðvitað mætti einnig velta fyrir sér frönsku leiðinni, þar sem hið opinbera hefur eitt leyfi til að framkvæma hjónavígslur. Hjónin geta svo sjálf ákveðið hvort þau vilja trúarbragðablessun, eða ei, en það kemur í raun hjónavígslunni ekkert við.
Persónulega þætti mér það slíkt þó afturför.
Það getur verið snúið þegar núningur er á milli laga um réttindi og svo aftur trúfrelsis. En ríkisstarfsmenn verða að sinna og þjóna öllum. Sömuleiðis tel ég að ríkið eigi ekki að styrkja söfnuði sem velja mismunun.
Það er rétt að hafa í huga að ef prestur á rétt á því að neita að gefa saman tvo einstaklinga, vegna trúarsannfæringar sinnar, ætti þá ekki hið sama að gilda um starfsmann fógeta, sem einnig framkvæmir hjónavígslur?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Ég er í flestum aðalatriðum sammála. Ég myndi þó hafa sleppt lokaorðunum því ég trúi því varla að höfundur sé að gera þau að tillögu sinni.
Auðvitað er ekki forsvaranlegt að gera þjónustu ríkisins háða trúarduttlungum starfsmanna sinna. Hvað er þá til ráða ef áfram á að leyfa trúarsöfnuðum að framkvæma hjónavígslur (sem ég er ekki endilega sammála um)? Það yrði líka fremur grimmilegt að refsa söfunuðum þeirra með því að halda eftir ríkisstyrknum.
Til að gera öllum jafnt undir höfði yrði því væntanlega vægassta aðgerðin þessi: Afturkalla hjónavigsluleyfi þeirra forstöðumanna safnaða sem neita að vígja saman hjón af sama kyni.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 26.9.2015 kl. 11:16
Bara eitt til áréttingar fyrst, þjóðkirkjan er ekki ríkisstofnun.
Sóknargjöld eru ekki styrkur. Þú gleymir því kannski að víða um land sáu sýslumannsembætti og síðan gjaldheimtan í Reykjavík um að innheimta sóknargjaldið fyrir þau trúfélög sem þess óskuðu gegn innheimtuþóknun. Alveg skírt var að þetta voru sóknargjöld eða félagsgjald í viðkomandi trúfélagi, nú einnig viðurkenndum lífsskoðunarfélögum. Þetta fyrirkomulag óskaði ríkið að fyrra bragði eftir að breyta þegar staðgreiðslukerfi skatta var komið á 1987. Samningur náðist um það eftir margra mánaða nefndarstarf sem skilaði sér í frumvarpi sem dóms- og kirkjumálaráðherra lagði fyrir Alþingi og var síðan samþykkt. Upphæð sóknargjalds sem fram að því hafði verið innheimt var lögð til grundvallar í nýju kerfi og fjársýslu ríkisins falið að reikna árlega upphæðina til að halda í við verðlag. Innheimtan var samkvæmt þessum lögum felld inn í tekjuskattsinnheimtuna þar sem að var talin einfaldasta aðferðin. Þessa var ekki óskað af hálfu trúfélaganna sem fyrr segir heldur óskaði ríkið eftir því og Alþingi staðfesti þann vilja með setningu laganna sem fyrr segir.
Staðan er þannig að vígsla samkynja para er andstæð kristni sem kunnugt er og Ritningin talar skírt um það að hjónaband er stofnun þar sem að kemur sáttmáli milli karls og konu með Guðs blessun. Samkynhneigt fólk var áður en Alþingi komið með réttindi með staðfestri sambúð þau sömu réttindi og hjónaband gaf. Því virtist það sérstakur yfirgangur að breyta þúsunfda ára gömlu eðli hjónabands að krefjast þess að sáttmáli samkynhneigðra yrði kallaður hjónaband sem karl og kona væru, enda andstætt kristinni trú sem pg þeirri gyðinglegu.
Það er um helmingur presta þjóðkirkjunnar sem mér skilst að framkvæmi hjónavígslur samkynja para þrátt fyrir vígsluheit sín og játningar og trú þeirri sem þjóðkirkjan hefur. Það eiga þeir við samvisku sína uaðvitað hver og einnvilji þeir með þeim hætti ganga gagn trú þeirri á þann veg sem þeir skuldbundu sig við prestvígsluna að halda og boða. Þannig er úr miklu framboði að moða fyrir samkynja pör að fá vígslu innan þjóðkirkjuna þannig að það er ekki verið að skerða nokkurn rétt hjá þeim, en að knýja þá presta sem fulgja RItningunni og trúnni sem þeir standa fyrir samkvæmtheitum sínum og vígslu, er bara pungspark til að knésetja kirkjuna og ná með ofbeldi fullum sigri á kirkjunni og breyta eðli þessarar vígsú endanlega. Næst vilja þeir væntanlega skrifa nýja Ritningu. Það kæmi ekki á óvart.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.9.2015 kl. 11:22
Forstöðumenn safnaða eru umboðsmenn ríkisins þegar málið snýst um hjónavigslur. Þá skiptir í sjálfu sér ekki máli hvort sóknargjöldin séu nú ríkisstyrkur eða ekki (það er óumdeilt að þau voru félagsgjöld fyrir margt löngu, nema hvað við trulausir vorum þvingaðir til Háskólans).
Þeir sem starfa í umboði ríkisins eiga ekki og mega ekki komast upp með að mismuna fólki. Ef þeir verða uppvísir að slíku á að taka af þeim umboðið. Svo er náttúrlega alltaf hægt að stinga þeim í steininn eins og sýslumanninum í Kentucky!
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 26.9.2015 kl. 12:17
Ómar - þeir starfa ekki formlega í umboði ríkisins, heldur hafa þeir leyfi til að framkvæma hjónavígslur eftir efni laganna þar um og skila inn staðfestingu til ríkisins um að vígsla hafi farið fram. Þetta er í raun og sann ekki vígsla heldur formleg staðfesting á vilja viðkomandi til að gangast undir sáttmála þann sem hjónaband er að lögum. Þdegar löggildur „vígslumaður“ hefur staðfest að viðkomandi par hafi samþykkt að gangast undir lagaskyldur þær sem innifelaast í hjónabandi samkvæmt hjúskaparlögum þá er gefið út vottorð um þann vilja þeirra sem í hjúskap eru að ganga og viðkomandi undirrita þann sáttmála ásamt vígslumanni og undirgangast þar með skyldur og réttindi sem fylgja.
Þetta er í sjálfu sér ekkert merkilegra en að haka við reit á skattframtali að óska eftir samsköttun milli sambúðarfólks eða hjóna.
Trúar/kirkjuleg hjónavígsla felur aftur á móti meira í sér því þar undirgangast hjónaefnin sáttmála ekki bara við ríkið heldur einnig við Guð sinn og því er slík athöfn jafnan gerð með vígslumanni sem einnig er starfandi prestur þess trúfélags sem hjónaefnin tilheyra.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 26.9.2015 kl. 12:26
@Ómar Harðarson. Þakka þér fyrir þetta. Lokaorðin eru ekki tillaga mín, helur voru fyrst og fremst ætluð til að undirstrika það að það gengur ekki að þeir sem starfi á vegum hins opinbera eða njóti stuðning af skattfé, mismuni þeim sömu skattgreiðendum sem þannig standa undir þeim fjárhagslega.
Ég sé ekki að prestur á launum hjá ríkinu (og þjóðkirkjan (sem er auðvitað engin þjóðkirkja) er skilgreind sem ríkisstofnun hjá fjármálaráðuneyti, ef ég hef skilið rétt) eigi meiri rétt á því að hafna því að vígja einstaklinga, en t.d. einstaklingur sem starfar hjá fógeta. En í mínum huga gengur slíkt einfaldlega ekki upp.
@Predikarinn. Þakka þér fyrir þetta. Þar sem ekkert á álagningarseðli er um sóknargjöld og ríkið greiðir til safnaða eftir hausatölu, en ekki því hvort að viðkomandi hafi greitt sóknargjald, eða skatta yfirhöfuð, er engin leið að líta á sóknargjöld sem neitt annað en ríkisstyrk.
Sem ætti auðvitað að afnema hið fyrsta og söfnuðir sæju sjálfir um innheimtu sinna félagsgalda, ef þeir kjósa að innheimta gjald.
Ég hef ekki nennu eða áhuga að rífast um kristni, enda með eindæmum gelt fyrirbrigði frá mínum sjónarhól, en minni á að kristni hefur tekið heljar miklum breytingum undanfarin 2000 ár eða svo og sér ekki fyrir endan á þeim breytingum.
G. Tómas Gunnarsson, 26.9.2015 kl. 16:15
Predikarinn veit alveg hvernig sóknargjaldið er í pottinn búið. Við höfum rætt þetta á ýmsum bloggþráðum margoft m.a. á þessari bloggsíðu fyrir einhverjum mánuðum, minnir mig.
Skeggi Skaftason, 27.9.2015 kl. 21:24
Já dr. Össur. Þú tekur ekki rökum - það kom í ljós þá.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 27.9.2015 kl. 21:31
Trúarbrögð eru ekki æðri mannréttindum, ef predíkarinn kæmi í verslun sem hafnaði að afgreiða hann vegna hjátrúar hans.. þá er það lögbrot; sama á við um annan business, hvort sem það er trú eða annað.
Trúarbrögð geta ekki lifað í nútíma samfélögum.
DoctorE (IP-tala skráð) 28.9.2015 kl. 12:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.