10.9.2015 | 07:18
Að treysta almenningi fyrir ákvörðunum
Það er alveg rétt að stjórnmálamenn hafa í gegnum tíðina verið alltof linir og seinir að færa valdið til almennings. Að láta almenningi eftir að taka ákvarðanir og treysta honum til að stjórna lífi sínu.
Að stórum hluta til er það vegna stjórnmálamanna sem "telja sig vita betur".
Þannig má líklega segja að fæstir af þeim sem greiddu atkvæði gegn því að bjór yrði leyfður á Íslandi hafi gert það vegna áhyggja af því að þeir sjálfir gætu ekki umgengist hann, heldur hitt að "allir hinir" myndu lenda í vandræðum.
En það er rétt hjá Bjarna Benediktssyni að það er löngu tímabært að auka frelsi á Íslandi, færa ákvarðanir í auknum mæli til almennings.
Bjarni nefnir ágætis dæmi úr sögunni, bjór og frjálst útvarp. Hvorugt getur talist "lífspursmál", en er eigi að síður sjálfsögð gæði í frjálsu samfélagi, og líklega myndu margir láta í sér heyra, ef taka ætti þau af þeim.
Það er líka rétt hjá Bjarna að það er engin ástæða til annars en að treysta almenningi til að taka ákvarðanir í auknum mæli, t.d. hvort að þeir kaupa sér áfengi um leið og þeir kaupa í matinn eður ei.
Og það má nefna ótal dæmi í viðbót.
Það er fyllilega tímabært að almenningi sé gert kleyft að ákveða hvort hann vill greiða sóknargjald til trúfélaga eður ei. Það má gera með einföldum hætti, s.s. að hakað sé við reit á skattskýrslu.
Það er löngu tímabært að almenningi sé treyst til þess að ákveða nöfn barna sinna án afskipta opinberra aðila. Sömuleiðis hvort að einstaklingur ákeður að taka upp ættarnafn eður ei.
Persónulega finnst mér Íslenska nafnakerfið til fyrirmyndar, en það er rétt að einstaklingar ákveði sjálfir hvort að þeir vilja taka þátt í að viðhalda því.
Það má einnig treysta almenningi í auknum mæli til að velja hvert hann beinir viðskiptum sínum, með því að draga úr lögverndun starfsgreina. Ef marka má fréttir eiga Íslendingar Norðurlandamet í þeirri iðju og færi vel á að reyna að komast hjá þeim heiðri.
Svona má lengi áfram telja.
Það eru margar ákvarðanirnar sem færa má til almennings og færi vel á því að Sjálfstæðisflokkurinn tæki ákveðna forystu í þeim efnum á Alþingi.
Á síðasta þingi varð t.d. það framfaraskref að felld voru úr gildi lög um guðlast. Enn og aftur er það ekkert "lífsspursmál", en eigi að síður hygg ég að flestir hafi fagnað þeirri útvíkkun á málfrelsinu.
En þar var í forystu annar stjórnmálaflokkur.
Alþingi á að treysta fólki betur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.