26.4.2007 | 21:09
Að styrkja stöðu Íslenskunnar?
"Samfylkingin vill virkja menningararfinn með því að: ....
9. Kanna hvort æskilegt er að styrkja stöðu íslenskunnar í stjórnsýslu, menntakerfi og löggjöf, ásamt íslenska táknmálinu. Móta stefnu um stöðu alþjóðamála, norrænna mála og helstu tungumála innflytjenda í stjórnsýslu og menntakerfi. Tryggt verði í löggjöf að allir íslenskir ríkisborgarar njóti almannaþjónustu á móðurmáli sínu en standi ella til boða sérstök aðstoð. "
Ofangreindur texti er fengin að láni úr kosningastefnu Samfylkingarinnar fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fara nú í maí. Skjámyndin er tekin af myndbandi sem frambjóðendur Samyfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hafa látið framleiða og ég fór og skoðaði eftir að hafa lesið færslu hjá Friðjóni.
Eftir að hafa séð umrædda auglýsingu er hægt að taka undir með Samfylkingunni að það sé þörf á að styrkja stöðu Íslenskunnar, en hvort að þingmannsefni þeirra á Suðurlandi séu réttu mennirnir til þess leikur meiri vafi á.
Eflaust er þessari auglýsingu ekki ætlað að heilla bændur í uppsveitum Árnessýslu, sjálfsagt er meiningin að fá ungt fólk til að kjósa Samfylkinguna með því að segja þeim að "DON´T BE A SUCKER".
En er ekki sjálfsagt að kosningaáróður á Íslandi, sé á Íslensku, nema ef honum er beint sérstaklega að Íslendingum sem séu af erlendum uppruna og reikna megi með að eigi í erfiðleikum með að skilja Íslensku?
Því væri ef til vill rétt að segja við frambjóðendur Samfylkingarinnar á Suðurlandi: Ekki vera aular, notið Íslenskuna.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Dægurmál, Menning og listir | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.