16.7.2015 | 16:08
Hópferð til Grikklands á vegum Evrópu(sambands)stofu?
Nú hillir víst undir lokun Evrópu(sambands)stofu, en hún lokar víst í haust ef marka má frétt RUV. Að mínu mati ekki degi of snemma, frekar of seint.
Starfræksla Evrópu(sambands)stofu hefur verið frekleg inngrip í innanríkismál á Íslandi, þar sem áróður hefur verið rekin fyrir annari hlið, í umdeildu pólítísku máli, sem lengi vel (það er að segja áður en aðlögunarviðræður sigldu í strand) leit út fyrir að yrði útkljáð með þjóðaratkvæðagreiðslu.
Erlent fé var og er notað til að kynna aðra hliðina í þeim deilum.
En í frétt RUV má lesa eftirfarandi:
Markmiðið með starfseminni hefur verið að auka skilning og þekkingu á ESB og hvetja til umræðu um kosti og galla mögulegrar aðildar Íslands að sambandinu.
Eftir því sem ég kemst næst, hefur all nokkur partur af starfsemi Evrópus(sambands)stofu falist í því að skipuleggja (og borga fyrir) hópferðir Íslenskra stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna og annara þeirra sem taldir eru geta mótað skoðanir Íslendinga.
Líklega hefur þar fyrst og fremst verið farið yfir kosti mögulegra aðildar Íslands að "Sambandinu".
Má þá eiga von á því að Evrópu(sambands)stofa skipuleggi nú hópferð slíkra einstaklinga til Grikklands, svo að kynna megi Íslendingum hluta af göllum "Sambandsins"?
Á einhver von á því?
P.S. Hefði sannleikurinn verið markmiðið, hefði stofnunin aldrei verið kölluð "Evrópustofa", því hálfsannleikur er oftast engu betri en lygi.
Hvað hefur mikið af krafti og fjármunum "Stofunnar" verið varið í að kynna lönd s.s. Sviss, Noreg, Albaníu, Ukraínu, Georgíu, o.s.frv?
"Stofunni" er ætlað að kynna starfsemi og reka áróður fyrir Evrópusambandið og ætti að sjálfsögðu að draga nafn sitt af því.
Það er ógeðfellt að horfa upp á "Sambandið" reyna að eigna sér hugtakið Evrópa, eingöngu sökum þess að að það hefur yfir sér jákvæðara yfirbragð en Evrópusambandið sjálft.
En ógeðfelldara er að horfa upp á fjölmiðlafólk um allan heim, láta "Sambandið" komast upp með það.
P.S.S. Reiðufé í umslagi til að kosta eyðslu einstaklinga í ferðum á vegum "Sambandsins" myndi auðvitað nú, hafa hlutfallslega mörgum sinnum jákvæðari áhrif í Grikklandi en Brussel. Grikkjum vantar einmitt euro í fjármálakerfi sitt.
Gríska þingið samþykkti tillöguna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Grín og glens, Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 17:59 | Facebook
Athugasemdir
Það hefur verið áhugavert að fylgjast með hvernig hlakkar í ESB-andstæðingum yfir óförum Grikkja. Reynt er að klína einhverjum óljósum sökum á ESB sem þó hefur farið fram úr sér í viðleitni sinni til að bjarga Grikkjum frá hruni.
Að ætlast til að þjóðir, sem hafa jafnvel þyngri vaxtabyrði og minni landsframleiðslu en Grikkir, taki á sig skuldir þeirra sýnir hve ótrúverðugur málflutningurinn er.
Menn vita upp á sig sökina og reyna því að ýkja og skrumskæla til að málflutningurinn fái eitthvert vægi. Þannig eru Þjóðverjar sagðir einir stjórna ESB og nánast einir tapa á eftirgjöf á skuldum Grikkja.
Sannleikurinn er hins vegar sá að eftirgjöf á skuldum Grikkja et háð samþykki allra evruþjóðanna og hlutur sjö þeirra í skuldum Grikkja sem hlutfall að landsframleiðslu er stærri en þjóðverja.
Ég hef aldri orðið var við áróður af hálfu Evrópustofu enda brýtur slíkt í bága við þær reglur sem hún starfar eftir. Mesti áróðurinn hefur verið af hálfu ESB-andstæðinga og hefur aðallega verið ótrúlegt bull.
Vegna þessa bulláróðurs hefur verið nauðsynlegt að hafa möguleika á að fá réttar upplýsingar frá fyrstu hendi. En því miður hafa Íslendingar ekki nýtt sér þjónustu Evrópustofu sem skyldi.
Kynnisferðir eru auðvitað ekkert annað en hefðbundið kynningarstarf. Það hefur verið kostulegt að fylgjast með viðbrögðum ESB-andstæðinga við þeim. Það var eins og þeir væru logandi hræddir um að allur bulláróðurinn væri unninn fyrir gíg og sannleikurinn kæmi í ljós.
ESB hefur að sjálfsögðu miklu betri ímynd en Evrópa enda er staða ESB-landanna miklu betri en þeirra sem standa þar alfarið fyrir utan. EES-þjóðirnar eru nátengdar ESB þó að þær hafi ekki fulla aðild. Sama má segja um Sviss vegna tvíhliða samninga.
Þó að atvinnuleysi sé mikið í Grikklandi og á Spáni er það enn verra í löndum utan ESB. Kósovó, Makedónía og Bosnía Herzegóvinía er td með enn meira atvinnuleysi.
Ímynd ESB er svo góð innan Evrópu að margar þjóðanna sem þar standa alveg fyrir utan sækjast eftir því að komast þar inn. Vegna mannréttindabrota og bágborins efnahags hafa aðrar Evrópuþjóðir enga möguleika á aðild.
ESB heldur uppi góðri ímynd Evrópu þrátt fyrir að ímynd þeirra þjóða sem þar standa alfarið fyrir utan sé heldur bágborin.
Ásmundur (IP-tala skráð) 16.7.2015 kl. 23:14
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Allt tal um að það hlakki í "Sambandsandstæðingum", eða að um mikla Þórðargleði sé að ræða er einfaldlega hjákátlegt.
Vissulega er það svo að að þegar stór tíðindi gerast er bent á þau.
Ég myndi aldrei halda því fram að "Sambandssinnar" hafi viðhaft neina Þórðargleði, eða að það hafi hlakkað í þeim, þegar bankarnir hrundu á Íslandi og krónan féll hratt.
En eðlilega bentu þeir á það og notuðu það sínum málstað til framdráttar.
Þér finnst það ef til vill afskaplega ósmekklegt, en persónulega fannst mér það eins og við var að búast, og þá umræðu þurfti að taka. Rétt eins og umræðuna um Grikkland, euroið og "Sambandið" nú.
Það getur enginn ákveðið að gefa eftir skuldir sem aðrir eiga. En það er löngu ljóst hver hefur raunveruleg völd í Eurohópnum og raunar í "Sambandinu" öllu, það eru Þjóðverjar.
Auðvitað er Evrópu(sambands)stofu ætlað að vera með áróður fyrir "Sambandið" og skapa því "goodwill". Það liggur eiginlega í hlutarins eðli, enda man ég t.d. ekki eftir því að þaðan hafi komið neitt sem gæti túlkast sem gagnrýni í "Sambandið" eða umfjöllun um galla þess.
Meira að segja nafngiftin felur í sér feluleik, um hvað því er raunverulega ætlað að gera.
Kynnisferðir eru vel þekktar, en hvað er það sem hægt er að læra í Brussel um "Sambandið" sem ekki er hægt að læra á Íslandi? Nú eða senda "sérfræðing frá Brussel" til að kynna?
"Sambandið" hefur óttalega blendna ímynd, og hún hefur ekki farið batnandi. Vissulega sækjast fátæk ríki eftir inngöngu um von um aðstoð og styrki.
En það er merkilegt að þurfa helst að tína til stríðshrjáð lönd, svo hægt sé að finna meira atvinnuleysi en í "Sambandsríkjum".
G. Tómas Gunnarsson, 17.7.2015 kl. 04:58
Þeir sem þekkja til í ESB vita að engin ein þjóð ræður neinu þar.
Þjóðverjar, sem eru stærsta þjóðin, hafa 12.8% atkvæða á Evrópuþinginu og 16.5 % í ráðherraráðinu. Krafa um aukinn meirihluta atkvæða og lágmarksfjölda þjóða gera áhrif Þjóðverja jafnvel enn minni en atkvæðamagnið segir til um.
Það er því algjörlega ljóst að þegar sagt er að Þjóðverjar ráði öllu er talað af litlu viti eða beinlínis verið að blekkja. Hvers vegna skyldi málflutningur ESB-andstæðinga vera svona ómerkilegur? Getur verið að það sé vegna þess að sérhagsmunagæsla þeirra styðst ekki við nein rök?
Það er svo annað mál að áhrif einstakra þjóða fara mikið eftir hæfni fulltrúa þeirra til að fá aðrar þjóðir á sitt band. Þess vegna geta minnstu þjóðirnar stundum haft mest áhrif ef vel tekst til með val á fulltrúum þeirra. En annars eru allar þjóðirnar í þeirri stöðu að atkvæði þeirra getur ráðið úrslitum.
Hvað samningana við Grikki snertir var því haldið fram að Þjóðverjar, Finnar ofl vildu ekki semja við Grikki en Frakkar, Ítalir, Lúxemborgarar ofl vildu ná samningum. Ekki verður betur séð en að Þjóðverjar hafi þar orðið undir ef eitthvað er.
Að fella niður neyðarlánsskuldir á lágmarksvöxtum er fáheyrt. Í ESB er það ekki hægt nema með samþykki allra þjóðanna. Ég veit ekki hvort nein þeirra var hlynnt niðurfellingu skulda. Allavega voru margar andvígar. þ
Samningarnir við Grikki hafa verið tilefni fyrir ESB-andstæðinga til að endurtaka enn einu sinni margendurtekið bull um stöðu Íslands ef það væri í ESB. Það skiptir engu máli hvort þjóð er í ESB eða ekki hvað það varðar að hún verður alltaf að lúta þeim skilyrðum sem sett eru fyrir lántöku.
Ef Íslendingar halda að þeir muni ekki plumma sig betur en Grikkir í ESB ættu þeir að sleppa því að sækja um en annars hafa samningarnir við Grikki engu breytt um ávinning okkar af aðild.
Auðvitað hefur bulláróður einhver áhrif tímabundið þó að hann eigi ekki við nein rök a styðjast. En jafnvel að teknu tilliti til slíks áróðurs bera ESB-ríkin af Evrópuríkjum sem standa þar alfarið fyrir utan.
Ásmundur (IP-tala skráð) 17.7.2015 kl. 08:34
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Ef marka má orð þín virðist þekkingin á "Sambandinu" fara óðum minnkandi um allan heim, því æ fleiri gera sér grein fyrir því hvernig valdið liggur þar, og hafa tjáð sig um það opinberlega.
Ég veit ekki hvort að nokkur þjóð var alfarið á móti því að semja við Grikki, en það var ljóst að mikið bar á milli um hvað þær vildu semja.
Margar hefðu eflaust viljað semja um "5 ára europásu" o.s.frv., en það er líka ljóst að samningar náðust ekki fyrr en Merkel opnaði á það, og þá fylgdu litlu þjóðirnar á eftir. Í "realpolitik" hefur enginn efni á því að styggja Þjóðverja verulega. Það er staðreyndin.
Það er alveg rétt að þjóðir hafa ekki nema í grunninn tvo möguleika. Að borga skuldir sínar eða ekki.
Og það getur engin þjóð ákveðið það í þjóðaratkvæðagreiðlus, sama hversu lýðræðisleg hún er að aðrar þjóðir eigi að fella niður skuldir sem þær eiga á þjóðina.
En hvaða möguleikar eru opnir, breytast gríðarlega eftir hvernig tengslin eru, og ekki síður að hafa eigin seðlabanka.
Það er ekki síst það sem Grikkir eru að kynnast nú.
Það er líka það sem Írar kynntust þegar þeim var sagt að Seðlabanki Eurosvæðisins myndi hugsanlega skrúfa fyrir alla fyrirgreiðslu.
Ég hugsa að meirihluti bulláróðursins komi frá ykkur "Sambandssinnunum", og sem betur fer er hann að mestu leyti hættur að virka.
Það sést vel á fylgistölum Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. Og "að kíkja í pakkann" áróðurinn er á góðri leið í sömu átt.
G. Tómas Gunnarsson, 17.7.2015 kl. 09:06
Fylgistap Samfylkingar og einkum Bjartrar Framtíðar hefur ekkert með ESB-umsókn að gera enda hefur fylgið flust frá þeim til Pírata sem eru ekki andstæðingar ESB og eru fylgjandi umsókn.
Reyndar hefur fylgi Samfylkingarinnar lítið breyst frá kosningum ef undan er skilin síðasta könnun. Hún sýndi aukningu á fylgi Vg á kostnað Samfylkingarinnar.
Þessi breyting kom í kjölfarið á fréttum af hugsanlegri lagabreytingu til að hægt væri að kjósa nýja forystu í Samfylkingunni. Þessi frétt fór mjög illa í marga stuðningsmenn flokksins sem hafa viljað refsa honum í könnuninni.
"Það er staðreynd" er rökstuðningur hinna rökþrota. Ef Merkel hefur meiri áhrif en stærð Þýskalands gefur tilefni til er það vegna þess að hún sem persóna hefur mikil áhrif. En í þessu máli voru áhrif hennar greinilega takmörkuð.
Það er gífurlegur fengur í að hafa bandamenn í öðrum ESB-þjóðum. Eini gallinn, ef galla skyldi kalla, er að það er hægt að misnota aðstoðina. Ef lán eru ekki notuð til að leysa vandann geta þjóðir orðið enn verr settar.
Eini kosturinn, ef kost skyldi kalla, við eigin gjaldmiðil er gengisfellingarúrræðið sem reyndar er neyðarúrræði sem er mikið misnotað til tjóns fyrir þær þjóðir sem það gera. Gengisfellingar gera vanhæfum stjórnmálamönnum kleift að komast upp með eigin misgjörðir.
Samúð með grískum almenningi kemur auðvitað út i tímabundinni gagnrýni á ESB þó að ekki sé við það að sakast. Það er bæði eðlilegt og fyrirsjáanlegt. Það er mikilvægt að láta ekki slíka gagnrýni leiða sig út af sporinu.
Bulláróður ESB-andstæðinga er svo ótrúlegur að þegar maður segir útlendingum frá honum standa þeir agndofa og trúa varla eigin eyrum. Þeir sem trúa bullinu telja auðvitað að það sé bull að áróðurinn sé bull.
Ásmundur (IP-tala skráð) 17.7.2015 kl. 11:09
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Ég er þess næsta viss að vaxandi efasemdir um "Sambandið" virka beint á fylgi Samfylkingar og Bjartrar framtíðar. Píratar hafa vissulega verið því fylgjandi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðlögunarviðræðna, en um "Sambandsaðild" eru verulega skiptar skoðanir þeirra á meðal.
Merkel hefur ekki sem persóna svo mikil áhrif, heldur sem leiðtogi Þýskalands. Þess lands sem hefur hagnast mest á eurosamstarfinu og stendur hvað best, þess vegna, bæði í Evrópu og "Sambandinu".
Það er ekki bara gengissig eða felling sem er kostur við eigin gjaldmiðil. Ekki síðri búbót er að hafa seðlabanka sem stendur bakvið hagkerfi þjóðarinnar, en virkar ekki sem "handrukkari" fyrir skuldareigendurna.
Það er langt í frá að bulláróðurinn komi að mestu frá "Sambandsefasemdarmönnum", enda er gagnrýnin á "Sambandið" sívaxandi og kemur úr æ fleiri áttum, bæði frá hægri og vinstri.
Mesta breytingin á undanförnum misserum er að vinstri menn hafa í vaxandi mæli orðið gagnrýnir á "Sambandið".
Það þarf enda ekki nema að sjá hvernig gengur í "Sambandinu" og sjá hverjir eru að bætast í hóp gagnrýnenda þess, til að sjá hverjir það eru sem eru í "bullinu".
G. Tómas Gunnarsson, 17.7.2015 kl. 18:08
Ég hef ekki orðið var við neinn pírata sem er alfarið á móti ESB. Geturðu bent á einhvern slíkan meðal forystumanna þeirra.
Almennt eru þeir fylgjandi að viðræður verði til lykta leiddar og helst á þeim að skilja að ef samningur verði góður geti farið svo að þeir styðji aðild.
Merkel hefur áhrif vegna þess að hún nýtur trausts. Það er fáránlegt að halda því fram að ESB-þjóðirnar beri svo takmarkalausa virðingu fyrir Þýskalandi að þær kjósi í blindni eins og það.
Gagnrýni vinstri manna einskorðast við samninginn við Grikki. Þar ræður úrslitum samúð með grískum almenningi en ekki vantraust á ESB.
Harkaleg afstaða ESB í samningaferlinu á einnig þátt í þessari samúð. Þar er hins vegar við grísku samningamennina að sakast. Þeir töldu sig geta boðið ESB birginn vegna þess að þeir töldu að sambandið vildi fyrir alla muni halda Grikklandi innan ESB.
Annað kom í ljós enda væri slík afstaða upphafið að endalokum ESB.
Seðlabankar þjóða í alvarlegum efnahagslegum vanda eru einskis megnugir og skipta því engu máli þegar verulega reynir á. Við höfum haft bitra reynslu af því. ECB kemur hins vegar ESB-þjóðum til aðstoðar við slíkar aðstæður.
Ásmundur (IP-tala skráð) 17.7.2015 kl. 22:02
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Eins og reyndar í býsna mörgu öðru, þá er stefna Pírata gagnvart "Sambandinu" ekki mjög skýr. Þeir hafa þó viljað halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort eigi að halda viðræðum áfram.
Þrjú skilyrði man ég eftir að þeir settu fyrir aðild, varanlega undanþágur frá 2. reglugerðum (ég man ekki nákvæmlega hverjar, en það varðaði gagnageymd og fullnust krafna). Þriðja krafan var að Íslenska yrði eitt af opinberum málum "Sambandsins". Það yrði nú frekar auðvelt að fá Íslenskuna viðurkennda tel ég, en hitt gæti orðið frekar snúið og ég veit ekki hvort að reglugerðirnar hafi verið "á radarnum" hjá samninganefnd Íslendinga, en ég leyfi mér að efast um að varanleg undanþága fengist.
Að öðru leyti tel ég að nokkuð skiptar skoðanir séu á "Sambandsaðild" á meðal Pírata almennt. Og þar eins og víðar hygg ég að efasemdirnar fari vaxandi.
Það er langt í frá að vaxandi gagnrýni vinstri manna víða um lönd einskorðist við samningaviðræðurnar við Grikkland.
En það er Eurokrísan, sem hefur geysað nú í að verða 7 ár sem hefur opnað augu margra og hvernig hefur verið brugðist við henni. Óásættanlegt atvinnuleysi, ekki síst á meðal ungs fólks. Og það sem meira eru, það bendir ekkert til þess að ástandið sé á hraðri uppleið og æ fleiri spá því að krísan vari í önnur 7 ár eða lengur.
Seðlabankar geta skipt sköpum þegar kreppir að og hafa gert það. Seðlabanki Eurosvæðisins hefur hins vegar verið notaður til að hóta löndum Eurosvæðisins, eins og Grikkir, Ítalir og Írar hafa fengið að kynnast.
G. Tómas Gunnarsson, 18.7.2015 kl. 07:42
Dæmigerð skrif ESB-andstæðings.
Það hafa engar kannanir sýnt að fylgi við ESB-aðild hafi minnkað meðal vinstri manna. Slík niðurstaða byggir eingöngu á óskhyggju. Kannski að fylgi við ESB-aðild hafi aukist meðal hægri manna.
Þrautavaralán eru alltaf veitt með skilyrðum. En þegar ECB veitir slík lán kalla ESB-andstæðingar skilyrðin hótanir.
Ásmundur (IP-tala skráð) 18.7.2015 kl. 10:23
@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Það hafa ótal vinstrimenn víða um lönd lýst yfir vaxandi efasemdum um vegferð "Sambandsins". Það þarf ekki nema að fylgjast með í fjölmiðlum til að sjá slíkt.
Það þarf heldur ekki nema að lesa fjölmiðla til að sjá greinar um hvernig Seðlabanka Eurosvæðisins beitti sér gegn Grikklandi, Ítalíu og Írlandi.
http://www.ft.com/cms/s/0/1f4ed1fa-65ac-11e4-aba7-00144feabdc0.html
http://www.irishtimes.com/news/ireland/irish-news/trichet-letter-revealed-ecb-threatened-to-stop-emergency-funding-unless-ireland-took-bailout-1.1989869
http://www.wsj.com/articles/ecb-threatened-to-pull-funding-unless-ireland-took-bailout-1415285282
http://www.forbes.com/sites/karlwhelan/2012/08/17/the-ecbs-secret-letter-to-ireland-some-questions/
Venjulega gera seðlabankar kröfu um gæði veða og að bankar séu í þokklaegu standi, en þeir setja ekki skilyrði um að ríkisstjórnir geri eitt eða annað.
Eða eins go segir í FT : The practice was not only controversial in national capitals that received the letters. Within the ECB board, a handful of members were strongly opposed, arguing that it was improper for central bankers to be dictating economic and fiscal policy to sovereign governments. After the August 2011 letters were sent to Rome and Madrid, Jürgen Stark, then a member of the ECB’s executive board, informed Mr Trichet that he intended to resign over the practice.
G. Tómas Gunnarsson, 18.7.2015 kl. 12:19
Hystería ykkar ESB-andstæðinga gagnvart Evrópustofunni er fyndin. Þegar ég vann á Mogga tíðkaði bandaríska sendiráðið (Bandaríkjastofa?) það að senda okkur á erlendu deildinni gott rauðvín fyrir jólin. Ef boð komu frá Bandaríkjastofu um að taka þyrfti viðtal við einhvern málsmetandi Bandaríkjamann sem staddur var hérlendis, þá var það gert, gagnrýnilaust. Engum datt í hug að efast um að sendimenn USA hefðu rétt fyrir sér og að sjálfsagt væri að hlýða þeim. Enda var rauðvínið gott og ritstjóri erlendra frétta á Mogga var þá Steingrímur Sigurgeirsson, helsti rauðvínsúðari Íslands. Ekki held ég að þér hefði dottið í hug að amast við þessari praktík Bandaríkjastofu, hvað þá veru hennar hér. En af því að svona útibú tilheyrir Ríki Djöfulsins (les ESB) þá náttúrulega er hún skandall. Þetta er eiginlega alveg hlægileg afstaða.
Kristján G. Arngrímsson, 25.7.2015 kl. 08:25
PS: Evrópustofa er/var í bílskúr við Suðurgötu. Ég hef aldrei komið í hana. En mér finnst rauðvín úr ESB (nánar tiltekið frá Spáni) best.
Kristján G. Arngrímsson, 25.7.2015 kl. 08:27
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Það er í raun ekki alvega saman að jafna. Vissulega eru öll sendiráð hér að vinna að hagsmunum sinna ríkja, og að auka góðvild (ef svo má að orði komast) gagnvart þeim, hjá ráðamönnum, fjölmiðlum, atvinulífunu og almenningi.
En nóta bene, "Sambandið" hefur hér sendiráð, eða ígildi þess. Einnig menningarskrifstofu.
En hitt er svo, að það stóð aldrei til (alla vegna það ég best veit) að greiða atkvæði um aðild að Bandaríkjunum, eða nokkru öðru landi, fyrir utan það að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að "Sambandinu" var yfirvofandi.
Hví skyldi þá "Sambandið" kjósa að opna hér Evrópu(sambands)stofu og verja til þess nokkur hundruð milljónum?
Þannig blandaði "Sambandið" sér í innríkismál Íslendinga og yfirvofandi kosningabaráttu. Það er nokkuð sem þykir algert "nó nó" í alþjóða samskiptum.
Auðvitað hefði það verið eðlilegast að innlendar fylkingar hefðu séð um "baráttuna" og persónulega tel ég að þær hefðu verið fullfærar um það.
P.S. Persónulega er ég reyndar hrifnari af Frönskum vínum, en kaupi mikið af Spænskum, aðallega sökum þess að þó að gæðin séu ef til vill ekki alveg þau sömu, eru þau gjarnan betri kaup.
Það skiptir engu máli hvort að nokkur hundruð milljónum er eytt úr bílskúr eða háhýsi, það er upphæðin sem skiptir máli.
G. Tómas Gunnarsson, 26.7.2015 kl. 19:22
Þetta með að ESB hafi blandað sér í íslensk innanríkismál er nú bara orðhengilsháttur. Ekkert ríki hefur stundað það jafn kröftuglega og USA að blanda sér í innanríkismál hvarvetna í heiminum. Og hérlendis þótti það hið besta mál - og ég er ekkert að taka afstöðu í því máli. Enda hafa margir beitt sér jafn kröftuglega gegn bandarískum áhrifum og þú beitir þér nú gegn ESB.
Þetta með að það sé upphæðin sem máli skiptir: Hvað þáðu Íslendingar í Marshallaðstoð? Er það ekki rétt að þeir hafi hlutfallslega fengið þjóða mest? Og ertu svo barnalegur að halda að það hafi bara verið vinarþel og ekkert hangið á spítunni?
Ég hef alltaf haldið að í hjarta sínu séu ESB andstæðingar enn að berjast við Sovétríkin og kommúnisma - eða meintan kommúnisma. Er ekki soldið til í því hjá mér?
Kristján G. Arngrímsson, 27.7.2015 kl. 09:17
@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Það skiptir vissulega máli hvort að kosningar séu í vændum, eins og hefði orðið ef að aðlögunarviðræðurnar hefðu ekki siglt í strand.
Rétt eins og það hefði ekki verið tilhlýðilegt að Hollendingar og Bretar opnuðu hér skrifstofur til að agitera fyrir því að Íslendingar samþykktu IceSave samningana, þá er heldur ekki eðlilegt að "Sambandið" blandi sér í baráttuna fyrir slíkar kosningar.
Upphæðin sem slíkt skiptir ekki megin máli, ekki frekar en hvort að henni er eytt úr bílskúr eða háhýsi. En það skiptir vissulega máli hvort um er að ræða nokkur hundruð þúsund eða nokkur hundruð milljónir til að eyða í kynningu eða baráttu fyrir einar kosningar.
Eða ertu þeirrar skoðunar að rétt sé að fell niður öll lög og reglur um hvað varðar fjármagn og kosningar?
Marshall aðstoðin var auðvitað með pólítískum undirtónum, en henni var ekki ætlað að hafa bein áhrif á kosningar. En vissulega var slíkt reynt víða um lönd og þótti ekki "par fínt".
Ég hef aldrei verið einn af þeim sem hef sett sama sem merki á milli "Sambandsins" og Sovétríkjanna, þó vissulega megi finna líkindi þar á milli eins og svo margs annars.
Líklega finnst ekkert sem má líkja meira á saman á milli þeirra tveggja, en tilraunin til að skapa "nýjan mann". "Homo soveticus" og svo aftur "Evrópumanninn".
En "Sambandið" er í sjálfu sér lítið meira til vinstri en svo mörg Evrópulandanna sem að því standa.
En stefnan um "æ nánari samruna", er nokkuð sem ég held að æ færri lítist á, og það er líklega ekki síst hún sem veldur vaxandi andstöðu við "Sambandið" víða um lönd.
G. Tómas Gunnarsson, 27.7.2015 kl. 10:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.