Af hundum, innflytjendum, nautgripum og meintu frjálslyndi

Ég fékk sendan í tölvupósti í gær hlekk á grein sem er hér á Moggablogginu, en virðist hafa verið ætluð til birtingar í Morgunblaðinu.  Kunningi minn sagðist hafa rekist á hlekk á viðkomand grein á bloggsíðu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, en þar er verið að hneykslast á því að að Morgunblaðið hafi ekki birt viðkomandi grein, á Magnúsi má helst skilja að það sé aðför að tjáningarfrelsinu.

Greinin er eftir Halldór Jónsson, verkfræðing, sem ég þekki ekki nein frekari deili á.

Ég fór og las viðkomandi grein og þó að greinin sé ágætlega skrifuð þá var þar eitt og annað vakti hjá mér hálfgerðan hroll.  Eftirfarandi klausa stendur þar upp úr:

"Vilji maður flytja hund til landsins er hann settur í einangrun úti í Hrísey til langtíma. Það má ekki flytja beljukyn til landsins sem mjólkar meira. Það má ekki flytja inn arabíska stóðhesta, eða setja sænskar geddur í Þingvallavatn. En það eru engin takmörk fyrir því hversu margir eða hvers konar útlendingar mega flytjast hingað."

Einhvern veginn get ég ekki skilið þetta öðruvísi en að höfundi þyki það miður að innflytjendur fái á Íslandi betri og vægari meðferð en hundar, og að meiri andspyrna sé við innflutningi hesta og nautgripa en komu útlendinga, sem honum þyki miður.

Það má hrósa Halldóri fyrir það að hann fer ekki í neinar felur með það "hvaðan" hann kemur, eða hvaða skoðanir hann aðhyllist, í næstu málsgrein segir:

"Við gömlu rasistarnir úr Norðurmýrinni, sem lifðum í áþvinguðu fjölmenningarsamfélagi styrjaldaráranna, vorum heimagangar hjá Kananum, vorum með hor í nefinu og töluðum ensku fyrir átta ára aldur, erum orðnir þegnar í íslenzku fjölmenningarsamfélagi, sem einhverjir eru að skapa án þess að við værum spurðir. Vorum við þó með talsverða reynslu."

Fyrir neðan má svo lesa athugasemdir frá ýmsum aðilum, þar á meðal frambjóðendum Frjálslynda flokksins, þar sem þeir hrósa greininni.  Hvet ég alla til að lesa það sem og greinina alla.

Hér má finna greinina, og hér blog Magnúsar sem vísað er í hér að ofan.

Ég trúi á tjáningarfrelsið og er alfarið á móti því að nokkrar skoðanir séu bannaðar, það leysir engan vanda.  Ég myndi þó vilja benda Frjálslyndum á það að tjáningarfrelsið stendur ekki og fellur með Morgunblaðinu og mér þykir það eðlilegt að það blað, rétt eins og aðrir fjölmiðlar sem vandir eru að virðingu sinni, setji sér mörk um það hvað þeir birta í blaðinu, við það er ekkert óeðlilegt og hvorki atlaga að tjáningarfrelsi né þöggun.

Ég velti því líka líka þegar ég les skoðanir sumra Frjálslyndra hver staða mín og fjölskyldu minnar yrði á Íslandi, ef þeir komast til valda á Íslandi og byrja að framkvæma stefnu sína.

Nú hef ég búið erlendis um nokkurt skeið, hef ég ekki komið til Íslands í á annað ár, þyrfti ég að skila heilbrigðisvottorði fyrir mig og fjölskyldu mína ef við hyggðumst flytja til Íslands, eða eru það bara útlendingar sem eru smithætta?

Hyggjast Frjálslyndir rifta milliríkjasamningum sem Ísland hefur við mörg ríki um að þegnar þeirra þurfi ekki vegabréfsáritanir til Ísland, þegar þeir koma sem ferðamenn (og geta dvalið á Íslandi allt að 3. mánuðum án sérstakrar áritunar).  Munu þeir krefjast heilbrigðisvottorða af ferðamönnum?  Eða er smithætta einungis fyrir hendi ef viðkomandi útlendingur ætlar að vinna eða setjast að á Íslandi?

Auðvitað er sjálfsagt að ræða málefni innflytjenda og útlendinga á Íslandi, enda hefur það verið gert, er gert og mun verða gert.  Persónulega kysi ég að sú umræða færi fram á öðrum nótum en gert er í þeirri grein sem ég vitna í hér að ofan, sömuleiðis finnst mér málflutningur Frjálslyndra oft vera farinn yfir strikið, ýta undir fordóma og hræðslu gagnvart útlendingum og innflytjendum.

Því miður virðist slíkur málflutningur eiga nokkurn hljómgrunn á meðal Íslendinga, þessi könnun gefur í það minnsta ekki ástæðu til sérstakrar bjartsýni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir frábæran pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 16.4.2007 kl. 17:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband