Lang stærsti blóraböggulinn

Það hefur mátt skilja það á mörgum að framkvæmdirnar við Kárahnjúka og á Reyðarfirði beri ábyrgð flestu því sem afvega hefur farið á undanförnum árum.  Öll þenslan, háu vextirnir, aðstreymi útlendinga, hátt gengi krónunnar,  slök staða sumra "sprotafyrirtækja", erfiðleikar útflutningsfyrirtækja og ýmislegt annað hefur aflega farið vegna framkvæmdanna fyrir Austan.

Vissulega eru framkvæmdirnar stórar og lántökurnar tengdar þeim sömuleiðis.  En, stærstur partur af lántökunum fer beint úr landi aftur (ef hann kemur nokkurn tíma til Íslands) þegar féð er notað til að greiða verktökum, vélasamstæður og annað slíkt.  Sömuleiðis hefur fjöldi þeirra Íslendinga sem vinnur við framkvæmdina verið mun minni heldur en reiknað með, sem enn dregur úr þeim upphæðum sem verða eftir í landinu.

Vissulega er þó sitt hvað umleikis fyrir Austan, það þarf að kaupa mat í mannskapinn (líklega hefur Íslenskur landbúnaður notið þar góðs af svo dæmi séu tekin), salan í Ríkinu fyrir Austan hefur líklega aukist og sömuleiðis hefur ýmis þjónustuiðnaður notið góðs af.  Þannig verður vissulega þónokkuð eftir, en að mínu mati minna en margir hafa viljað halda fram.

Mér er til dæmis sagt að á meðan við framkvæmdir við Hellisheiðarvirkjun stóðu sem hæst, hafi mun fleiri Íslendingar verið að störfum þar en við Kárahnjúka (hér verð ég að viðurkenna að ég hef engar heimildir að leggja fram).  En hvaða stjórnmálaflokkar stjórnuðu þeirri uppbyggingu?  Ef til vill þeir sömu sem mest tala um þensluáhrifin fyrir Austan?

Sömuleiðis stóðu yfir virkjanaframkvæmdir á Suðurnesjum.

En það er auðvitað þægilegra að tala um framkvæmdirnar fyrir Austan.

Hvernig er staðan í dag, hvað er hátt hlutfall af þeim útlendingum sem vinna á Íslandi að störfum fyrir Austan?

Á undanförnum árum hefur krafturinn í byggingaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu verið með eindæmum og bankarnir hafa stóraukið útlán sín á því sviði, sem og öðrum.

En það er auðvitað þægilegra að tala um framkvæmdirnar fyrir Austan.

Staðreyndin er sú að þenslan hefur að stærstum hluta átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu, þar vantar flest fólk til starfa, þar hefur launaskriðið verið mest og uppbyggingin hröðust.

Verðbólgan fór ekki af stað vegna þess hve gríðarlega húsnæði hækkaði út á landsbyggðinni, né heldur vegna þess að þjónustufyrirtæki þar yrðu að hækka vörur sínar og þjónustu vegna aukins launakostnaðar.

En hvað hefði átt að gera?

Það er erfitt að eiga við hagsveiflur, og því minna þarf til að koma þeim af stað sem hagkerfin eru minni.  Mikið afl hefur verið í Íslensku efnhagslífi undanfarin ár, en því miður því sem næst eingöngu á höfuðborgarsvæðinu.  Þar hafa farið í fararbroddi bankarnir, sem eftir einkavæðingu hafa bókstaflega sprungið út.

Hefði hið opinbera átt að takmarka starfsemi þeirra til að hafa hemil á þenslunni?  Held ekki.

Hefði hið opinbera átt að reyna hindra uppbyggingu orkuvera á SuðVestur horninu þangað til hægðist um?  Held ekki.

Hefði hið opinbera átt að draga fæturna hvað varðar samninga varðandi Kárahnjúka og álver á Reyðarfirði?  Held ekki.

Sem betur fer minnkar hættan á því að stórar sveiflur verði, eftir því sem hagkerfið verður stærra og fleiri stoðum undir það rennt.  En ég er samt hræddur um að þetta sé ekki síðasta hagsveiflan sem Íslendingar eiga eftir að upplifa, að allt eigi eftir að renna hægt upp á við hér eftir.  Held ekki.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband