Hvað kjósa Bretar?

Það er rétt eins og kemur fram í fréttinni að það er mikil spenna í Bretlandi vegna kosninganna sem fram fara í dag, og jafnvel enn meiri spenna fyrir eftirleiknum. Hvernig stjórn verður mynduð.

Stuðningsmenn Íhaldsflokksins binda miklar vonir við að stuðningsmenn UKIP, muni mörgum snúast hugur í kjörklefanum, vegna þess að skoðanakannanir sýna að megnið af atkvæðum flokksins muni falla dauð.

Spá um 1. eða 2. þingsæti, þrátt fyrir á milli 10 15% fylgis, er döpur sýn, ekki síst ef hún leiðir í þá erkiandstæðingin, Verkamannaflokkinn til valda.

Raunar held ég að þessar kosningar gætu tekið mestan vind úr seglum Breska sjálfstæðisflokksins, verði afrasksturinn jafn dapur og raun ber vitni. Þetta áttu að verða kosningarnar sem flokkurinn "brytist" inn í Westminster, en fátt bendir til þess að það verði af neinum krafti.

Fari svo að Nigel Farage nái ekki þingsæti, og hætti sem formaður í kjölfarið, hverfur enn frekari kraftur úr flokknum. Þó er líklegt að hann verði áfram sterkt afl í kosningum til Evrópusambandsþingsins.

Íhaldsflokkurinn hefur einnig lagt mikla áherslu á að ná til kjósenda Frjálslyndra demókrata og svo þeirra Englendinga sem líst ekki á að Skoskir þingmenn verði sterka aflið með stuðningi sínum við hugsanlega ríkisstjórn Verkamannaflokksins.

Íhaldsflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á að atkvæði greitt UKIP og Frjálslyndum demókrötum, sé ávísun á stjórn Verkamannaflokksins undir stjórn Ed Milibands.

En skoðanakannanir hafa sýnt, að mun fleiri vilja að Cameron sé áfram forsætisráðherra, frekar en Miliband taki við, þó að flokkar þeirra njóti mjög svipaðs stuðnings.

Hvort að þessar áherslur Íhaldsflokksins muni duga til að skila honum hærri fylgistölum en skoðanakannanir hafa sýnt er hluti spennunar.

En það má segja að Bresk stjórnmál séu í nokkrum hnút og verði úrslitin í takt við skoðanakannanir, er erfitt annað en að draga þá ályktun að líkur á "sambandsslitum" aukist all nokkuð.

Póleringin eykst, og ef Skoski þjóðarflokkurinn fær alla þingmenn, eða svo gott sem, í Skotlandi, eykur það líkurnar á uppbroti.

Sömuleiðis er líklegt að óánægja vaxi í Englandi yfir því að Skotar hafi bæði vaxandi sjálfsforræði, en þingmenn þeirra séu jafnframt úrslitaaflið hvað varðar málefni Englands. Ekki er ólíklegt að krafa um sérstakt þing fyrir England verði því háværari.

Fari það svo að minnihlutastjórn Verkamannaflokksins taki við stjórnartaumunum með stuðningi Skoska þjóðarflokksins, munu margir frammámenn "Sambandsins" anda léttar, enda ljóst að þá verður ekkert af þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Bretlands innan "Sambandsins", sem Íhaldsflokkurinn hefur lofað 2017.

En það gæti orðið skammvinn sæla. Ýmsir eru þeirrar skoðunar að komist Verkamannaflokkurinn í stjórn, minnki líkur á brotthvarfi Breta úr "Sambandinu" á næstu 5 árum, niður í næstum ekki neitt. En þeir bæta því við að líkurnar á "Brexit" á næstu 10 til 15 árum, aukist.

Andstaða við "Sambandsaðild" muni aukast og herðast í Íhaldsflokknum, sem yrði líklegur til að ná völdum aftur eftir 5 ár. Ekki sé líklegt að óánægjan með "Sambandið" muni minnka í Bretlandi á þeim tíma.

En það er varasamt að spá, sérstaklega um framtíðina eins og maðurinn sagði.

En það verður spennandi að sjá úrslitin og hvað Bretar kjósa.

 

 


mbl.is Flokkarnir hnífjafnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband