Grikkland og Eurokrísan - tragedía í endalausum þáttum.

Gríska tragedían er nú þegar orðnir fleiri þættir en nokkur reiknaði með. Og enn er líklegt að fleiri eigi eftir að bætast við.

Hvort að þjóðaratkvæði um veru Grikklands á Eurosvæðinu breyti einhverju, eða fari yfirleitt fram, er ekki gott að spá um, líklegra er þó en hitt, að slíkt verði áfram eingöngu hugmynd. Þjóðaratkvæði þykja alla jafna ekki vænleg leið á því svæði.

Og auðvitað yrði í raun að greiða atkvæði um fleira en sjálfst euroið, það yrði jafnframt að greiða atkvæði um þær ráðstafanir sem "eigendur" eurosins vilja að Grikkir grípi til.

Og þar hefur einmitt skóinn kreppt að Akkílesarhælnum. Grikkir vilja halda euroinu, en ekki framfylgja þeim skilyrðum sem sú aðild setur (það eru reyndar ekki mörg löndin á Eurosvæðinu sem hafa gert það) eða framfylgja þeim skilyrðum sem "Þríeykið" hefur krafist.

Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að skiptar skoðanir séu um hvort að þau skilyrði séu skynsamleg eða réttlát, en öllu jöfnu er það þó tilhlýðilegt að lánveitandi setji skilyrði, en lántakandi síður. Lántakandinn hefur hins vegar rétt til að þiggja lán eður ei.

En þar liggur ef til vill hluti deilunnar. Hvort að Grikkir hafi tekið öll þessi lán af fúsum og frjálsum vilja, eða hvort þeir hafi verið þvingaðir til þess, í það minnsta að nokkru leyti, vegna þess að það hentaði Eurosvæðinu best?

Það er alla vegna flestum ljóst, og all mörgum var það þegar lánin voru veitt, að Grikkir eru ekki borgunarmenn fyrir þeim, ekki við þáverandi eða núverandi aðstæður.

En hefði verið betra fyrir Grikki að fara í "þrot" þá, eða nú? Og hvort hefði verið eða væri verra fyrir Eurosvæðið?

Eða tekst Grikklandi að fara í þrot og halda sér innan "girðingar" eurosins?

Það er ljóst að það er nógu erfitt fyrir yfir skuldsett ríki að kljást við skuldamál sín og áralanga óstjórn, þó að það ekki bætist við ótti við að gjaldmiðill þess verði tekinn af því.

Til viðbótar má segja að Seðlabankinn sé óvinveittur, í það minnst að hluta til og um leið nýttur til þvinganna af skuldunautum landsins.

Enn og aftur er rétt að hafa í huga að í slíka aðstöðu er auðveldara í að komast en úr.

Inn í tragedíuna bætist svo umræða um stríðsskaðabætur, hræðilegt hlutskipti Grísks almennings og geopólítísk togstreita á milli "Sambandsins", Rússa og Bandaríkjanna, svona eins og hliðarplott í sápuóperu.

En enn hefur engin "handritshöfundur" komið fram með ásættanlegan endi, hvað þá góðan og má því búast við "fleiri þáttum", enn um sinn.

 

 

 


mbl.is Vill þjóðaratkvæði um evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband