Spennandi en undarlegar kosningar

Það er mikil spenna fyrir Bresku þingkosningarnar. Næsta öruggt má telja að enginn flokkur verði með hreinan meirihluta, annað kjörtímabilið í röð.

Það sem meira er, margar kannanir benda til þess að engir tveir flokkar muni nægja til að ná þingmeirihluta.

Það eru því margir sem telja að ekki verði langt til næstu kosninga.

Bresku "turnarnir tveir", Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn verða að öllum líkindum í kringum 33% hvor.

Þriðji stærsti flokkurinn (í þingsætum, en ekki prósentum talið) verður líklega Skoski þjóðarflokkurinn.

Síðan koma Frjálslyndir demókratar og Lýðræðislegi Sambandsflokkurinn (Democratic Unionist Party), sem býður einungis fram á N-Írlandi.

Það vekur athygli að svæðisbundnir flokkar ná góðum árangri. Skoski þjóðarflokkurinn gæti farið langt með að þurka út Verkamannaflokkinn í Skotlandi, og unnið svo gott sem öll þingsæti þar.

Og Lýðræðislegi Sambandsflokkurinn hefur afar sterka stöðu á N-Írlandi.

Því er er að koma upp nokkuð skrýtin staða, þar sem Skotland fær æ meira forræði yfir eigin málum, en Skoski þjóðarflokkurinn gæti jafnframt verið í lykilaðstöðu til að hlutast til um Bresk og þar með Ensk málefni.

Sem vonlegt er hefur þetta vakið upp umræður, bæði um hvort að þörf sé að þingi fyrir England og svo einnig hvort að Breska kosningakerfið geti ekki gengið við aðstæður nútímans.

Þegar við blasir að svo gæti farið að Verkamannaflokkurinn fengi engan þingmann í Skotlandi, þrátt fyrir ríflega 20% fylgi (Íhaldsflokkurinn er svo með ca. 15%) og að í kringum 45% kjósenda í Skotlandi hefði í raun engan þingmann, er eðlilegt að efasemdir komi upp.

Að sama skapi gæti það hlutskipti beðið Breska Sjálfstæðisflokksins að vera með á bilinu 10 til 12% fylgi á landsvísu, en uppskera aðeins 1 eða 2 þingmenn.

Frjálslyndir demókratar gætu fengið 28 þingmenn með u.þ.b. 9% fylgi, en Skoski þjóðarflokkurinn gæti fengið um og yfir 50 þingmenn, þrátt fyrir að vera með minna fylgi en þessir flokkar.

Þannig er erfitt að halda því fram að þingsætafjöldi endurspeglist af vilja kjósenda. En það eru engin verðlaun fyrir annað sætið í einmenningskjördæmum.

En UKIP hefur látið verulega undan síga (í það minnsta í skoðanakönnunum) eftir því sem liðið hefur á kosningabaráttuna og má líklegt telja að þeir muni eiga erfitt með að telja kjósendum trú um að atkvæði greitt flokknum, sé ekki kastað á glæ.

En það eru margir sem óttast að hálfgert upplausnarástand verði að á pólítíska sviðinu að loknum kosningum, og að það hafi jafnframt neikvæð áhrif að Hið sameinaða konungdæmi og auki líkurnar á uppbroti Bretlands.

Ef að svæðisbundnir flokkar ná að "deila og drottna", þá rjúfi það alla samstöðu og samkennd "ríkjanna" fjögurra.

En það er ljóst að það verður barist af hörku fram á kjördag.

Helsta von Íhaldsflokksins er að höfða til ótta Enskra kjósenda við oddaaðstöðu Skoska þjóðarflokksins en það virðist þó ekki hafa skilað þeim árangri sem heitir getur enn sem komið er.

Verkamannaflokkurinn gerir út á óánægju með ríkisstjórnina og leggur mikla áherslu á heilbrigðiskerfið.

Frjálslyndir eru í stöðugri vörn, en hafa þó heldur náð að rétta úr kútnum, en horfa samt fram á gríðarlegt tap.

UKIP hefur gengið afleitlega í kosningabaráttunni, fylgið er í sjálfu sér þolanlegt, en hver skoðanakönnunin á fætur annari gefur þeim litla von um mikið meira en 2 þingsæti, sem hefur tekið byrinn úr seglunum.

En það verður fróðlegt að sjá úrslitin, og ekki síður að sjá hvernig spilast úr þeim eftir á.

Eins og víðar eru Bresk stjórnmál ákaflega "splundruð", ef svo má að orði komast.


mbl.is Kosningaloforð upp á milljarða punda virðast ekki hrífa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Vandi einmenningskjördæmaskipan í hnotskurn.

Gunnar Heiðarsson, 1.5.2015 kl. 08:01

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Gunnar Þakka þér fyrir þetta. Flest hefur sína kosti og galla, þar á meðal einmennningskjördæmi.

Kosturinn er sá að oft leiðir slíkt fyrirkomulag til eins flokks meirihlutastjórnar, sem getur verið ágætt.

Sömuleiðis er allir í víglínunni ef svo má að orði komast. Það eru engin örugg sæti, og jafnvel flokksformenn geta þurft að berjast fyrir pólísku lífi sínu og tapa jafnvel sæti sínu.

En eins og þú bendir á eru gallarnir sömuleiðis stórir. Mikill minnihluti kjósenda getur dugað til að vinna meirihluta þingsæta og svo geta flokkað verið með umtalsvert fylgi, án þess að þess sjáist nokkur merki í þingmannatölu.

Þannig er staðan í Bretlandi nú, og ef úrslitin verða eins og kannanir benda til, trúi ég ekki öðru en en verulegar umræður verði um breytt kosningakerfi.

G. Tómas Gunnarsson, 1.5.2015 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband