Formlegt andlát aðildarumsóknar? Ekkert virði eftir í umsókninni - en breytir þetta einhverju?

Það er ekki laust við að þetta komi allt dulítið á óvart. Ekki það að ég hef verið því afar fylgjandi að draga aðildarumsóknina til baka. Ég tel sömuleiðis að líklega sé ríkisstjórnin í fullum rétti til þess að standa svona að málum.

En ég tel það ekki klókustu málsmeðferðina.

Persónulega lít ég svo á að ekkert virði sé eftir í umsókninni. Aðildarferli sem byggist á rýniskýrslum, aðlögum og áætlunum þar að lútandi, er fljótt að missa gildi sitt.

Rýniskýrslur sem voru unnar árin 2010 og 2011, og samþykkt eftir þeim aðlögunaráætlun, munu ekki hafa mikið gildi ef aðildarviðræður yrðu hafnar aftur t.d. 2018 eða 2019.

Afar líklegt er að öll rýnivinnan yrði að vinnast á ný, enda lög bæði Íslands og ekki síður "Sambandsins" háð stöðugum breytingum. Einnig yrði að vinna aðlögunaráætlanir upp nýtt.

Að því leiti til get ég ekki séð að nokkurt virði yrði í aðildarumsókninni, þegar hún yrði orðin 2ja kjörtímabila gömul.

Þannig er að mínu mati ekkert með því unnið að láta umsókn að "Sambandinu" liggja inni, á meðan ekkert er unnið í henni og hún í raun dauð.

Það er hins vegar ekki eftirsóknarvert eða til framdráttar að það öðrum ríkjum sé sífellt sagt að Ísland sé "umsóknarríki", og stefni þannig leynt og ljóst að "Sambandsaðild".

En hverju breytir þetta?

Í sjálfu sér sé ég ekki að þetta breyti miklu, nema að því leyti, eins og segir að ofan, hætt verður að tala um Ísland sem umsóknarríki. En undir sumum kringumstæðum getur það komið sér vel.

En eina virðið í umsókninni er í raun að ef hún stendur, þá þarf ekki samþykki Alþingis til þess að "lífga" hana við.

Annað er allt undir "Sambandinu" komið. Bæði hvernig litið væri á þá viðræður sem hafa fram farið og hvernig framhald viðræðna yrði.

Ef "Sambandið" er enn á þeim buxunum að neita Íslendingum um rýniskýrslu í sjávarútvegsmálum, gerist lítið frekar.

En ef til þess kemur að Íslendingar sæki um aftur, þarf sú umsókn að vera mikið betur undirbúin, en sú sem ríkisstjórnin telur sig nú vera að enda.

Fyrst og fremst þarf hún að hafa einhuga ríkisstjórn að baki sér, og meirihlutinn á Alþingi þarf að vera traustari en svo, að þeir sem greiða atkvæði með umsókn, lýsi því yfir að þeir séu mótfallnir aðild.

En eins og ég sagði í upphafi, get ég ekki litið á þessa leið sem klókustu leiðina að þessu marki.

Mikið eðlilegra hefði verið að draga aðildarumsóknina til baka, með afgreiðslu þingsins. Það hefði líklega þýtt veruleg átök, en sumir slagir eru einfaldlega þess virði að taka. Mér er enda til efs um að þessi leið verði friðvænlegri.

Það hefði enda verið gott að fá afstöðu hvers og eins þingmanns til aðildarumsóknar. Hvort sem þeir eru í Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokknum, Pírötum eða öðrum flokkum.

Sömuleiðis finnst mér illskiljanlegt, ef stjórnarandstöðuflokkarnir drífa ekki í því að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina.

Það er eðlilegt á tímapunkti sem þessum að slík tillaga komi fram og að þingmenn svari afdráttarlaust hvort að ríkisstjórn njóti áfram stuðnings meirihluta þingsins.

 


mbl.is Ísland ekki lengur umsóknarríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Í raun ber stjórnarandstöðu að leggja fram vantrauststillögu ef þeir vilja láta taka mark á þeirri skoðun sinni að þingið eigi að koma að málinu.  Þannig knýja þeir málið í afgreiðslu þingsins.

Auðvitað er til of mikils mæls að ætla þeim þá skynsemi að þegja  og sætta sig við að bjallan hefur verið hengd á köttinn. Umsóknarferjan var illa strönduð og einungis verið að drepa á vélunum. 

Aðasirkusinn á Austurvelli verður jú að fá að róla sér!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.3.2015 kl. 12:29

2 identicon

"Apasirkusinn" átti þetta að vera!

Þessu fólki er gjörsamlega sama þó það eyði tíma og fjármunum þjóðarinnar í gagnslausar umræður.   Í hádegisfréttum RUV er ljóst að stjórnarandstöðuþingmenn ætla að snúa umræðum um afsögn viðræðna í umræður um einhver meint stjórnarfarsleg prinsipp atriði.  (Það var ekki svona uppi á þeim typpið þegar átti að troða þjóðinni án heimildar í ESB.) 

"Umræður um störf þingsins" málaþrasið komið í annað veldi!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.3.2015 kl. 12:34

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

þetta er þrifalegasta leiðin til að draga línu í sandinn. Þegar og ef farið yrði út í aðra umsókn, sem ESB hefur þþegar tilkynnt að sé opið, þá þyrfti að fara í þessa rýnivinnu aftur og taka tillit til breyttra aðstæðna, en ef ekki þá stæði úrelt rýnivinna og kaflar sem hefur verið lokað óbreytt, sem er all endis ófært.

ég lít hinsvegar svo á að ESB hafi sjálft slitið þessum viðræðum með því að neita að opinbera rýniskýrslu um sjávarútvegskaflann þótt ítrekað hafi verið á það knúið. Þannig er ekki hægt að halda áfram umræðum þegar kröfur og markmið annars aðilans eru hulin hinum. Þessvegna var Össur knúinn til að leggja málið í salt, sem var hans ljóðræna framsetning á einhverju sem í raun þýddi viðræðuslit.

Annað sem ekki er minnst á i þessu sambandi er stjórnarskrármálið, sem átti uppruna s Þóinn í ákvörðun um umsóknn árið 2009.

eftir að sú samsuða var klár eftir ansi vafasamt ferli, þá var niðurstaðan borin undir ESA (sem ætti nú að hringja bjöllum) og ESA hafnaði drögunum á þeim forsendum m.a. að of margir fyrirvarar væru á framsalsákvæðum draganna. Þar með do stjórnarskrármálið og umsóknin raunar um leið því okkur skortir stjórnarskrárheimild til inngöngu í sambandið og þá ekki síst þess framsals sem væntanlega krafist í sjávarútvegskaflanum m.a.

málið er dautt á fleiri en einum fleti og tannagnístur minnihlutans byggir einvörðungu á algerri afneitun staðreynda. Þessi afneitun hefur svo verið nýtt í óendanlegt lýðskrum og afbökun staðreynda, strámannsumræðu og blekkinga.

Jón Steinar Ragnarsson, 13.3.2015 kl. 12:52

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Menn skulu ekki gleyma þeirri tækifærismennsku sem beitt var á ögurstundu af bráðabyrgðarstjórn til að knýja þetta mál áfram meðan þjóðin var í sárum strax eftir hrun.

Þ.e. hvefnig þetta byrjaði allt saman samhliða, umsóknin og stjórnarskrármálið og það undir vernd framsóknar í raun í viðleytni þeirra til að halda stjornskipun í æandinu í upplausninni.

http://www.visir.is/stjornarskra-breytt-fyrir-esb-adild/article/200938564492

Jón Steinar Ragnarsson, 13.3.2015 kl. 12:56

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni Gunnlaugur Þakka þér fyrir þetta.  Mér er það algerlega óskiljanlegt ef stjórnarandstaðan leggur ekki sameiginlega fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina.

Hún eiginlega hlýtur að gera það. Annar verður þetta allt frekar innihaldslítið "píp". Ég held reyndar að vantrauststillaga hljóti að koma fram og trúi ekki að slíkt verði ekki, fyrr en ég tek á því.

En það er rétt að umsóknarfleyið var strandað, en ég hefði þó frekar kosið aðrar aðferðir til að rétta af kúrsinn.

En eins og ég sagði áður, hefur þetta ekki mikla breytingu í för með sér.

En ég held að það hefði verið betra að taka málið upp á Alþingi, þó að lagalega standist að ég tel, þessi aðferð.

G. Tómas Gunnarsson, 13.3.2015 kl. 12:58

6 identicon

Það er vinsæl iðja á Facebook að koma með 10 ástæður fyrir hinu og þessu.

Hér eru tíu ástæður fyrir því að slaufa aðildarumsókn Íslands að ESB á þann hátt sem gert var:

1. Aðildarumsóknin var þegar dauð, hafði strandað á eignarhaldi fiskimiðanna.

2. Þingsályktun um aðild bygði á fölskum þingmeirihluta þar sem V.G. höfðu fengið góða kosningu út á að segjast ekki ætla að sækja um.

3. Þjóðin var í sárum þegar reynt var að troða henni í ESB með loforðum sem ekki stóðust.

4. Loforðið um að við fengjum svo gott regluverk að hér hyrfi meint spilling og klíkuskapur reyndist rangt. Efnahagsástand Grikklands segir aðra sögu.

5. Loforðið um hratt ferli reyndist hjóm eitt (sem betur fer)

6. Hér átti krónan að hafa skyndilega á sínum 90 ára ferli að hafa valdið öllum vandamálunum og því lofað að upptaka evru myndi laga allan vanda. Annað hefur komið í ljós varðandi evruna svo vægt sé til orða tekið.

7. Hér voru brotin lög á þjóðinni með því að heimila erlendu valdi að setja hér upp áróðursstofu. 

8. Vegna þess þráláta eðlis Alþingis að eyða því meiri tíma og orku í mál sem þau skifta minna máli en sleppa að takast á við alvöru vandamál, sem og vegna þess ógnar tíma sem fór í aðildarferli sem endaði með andvana umsókn, þá er miklu til fórnað að setja þetta mál ekki einn ganginn enn á dagskrá þingsins. 

9. Til að þjóðin geti haldið áfram og gert m.a. viðskiftasamninga við ríki utan ESB þá er nauðsynlegt að taka hana af lista "hinna viljugu umsóknarríkja"

10. Útlit er fyrir (þvert ofan í það sem var boðað) að íslendingar yrðu að gegna herþjónustu ef marka má fréttir af hugmyndum ráðamanna í ESB um sérstakan her á vegum sambandsins. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.3.2015 kl. 13:11

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vel mælt G.Thomas og aðrir hér með svipaða skoðun.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.3.2015 kl. 13:19

8 identicon

Er þetta bréf GBS ekki algjörlega merkingarlaust plagg? Eins konar þykjustuleikur í barnalegri tilraun til að gefa fólki kost á að túlka það að eigin geðþótta? Þvílíkir aular!

Til hvers er verið tilkynna ESB að ríkisstjórnin líti svo á að Ísland sé ekki lengur aðildarríki? Slík yfirlýsing gildir aðeins meðan stjórnin situr eða næstu tvö ár.

Aðildarviðræður halda svo áfram eftir næstu kosningar enda hefur þessi ríkisstjórn með háttalagi sínu gert út um allar vonir sínar um endurkjör. Það eru góðu fréttirnar. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.3.2015 kl. 17:33

9 Smámynd: Elle_

Jæja, það varst nú líka þú hinn sami og talar um aula og nýjar 'viðræður' sem sagðir evruna svo ofboðslega sterka miðað við Bandaríkjadollarinn og notaðir hina sterku evru endurekið sem rök.  En meðan Bandaríkjadollarinn styrkist og styrkist, fellur blessaður miðillinn þinn æ neðar.  Kannski væri nóg fyrir þig bara að vona að sambandið verði enn þarna 2017?

Elle_, 13.3.2015 kl. 22:09

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jón Steinar Þakka þér fyrir þetta. Vissulega héngu mál eins og stjórnarskráin, "Sambandsumsóknin", IceSave og makríllinn nokkuð saman og áttu líklega ásamt sjávarútvegsmálum í heild sinni, mestan þátt í því að hvorki gekk mikið í aðlögunarviðræðunum.

@Bjarni Gunnlaugur Takk fyrir þetta. Ágætis punktar. ÉG er nú nokkuð sammála þeim, nema 2 og 10.

Þingmeirihluti er ekki falskur í eðli sínu. Auðvitað verða þeir þingmenn sem hugsanlega greiddu atkvæði með umsókn, gegn eigin sannfæringu að eiga það við eigin sannfæringu. Hitt væri þó heiðarlegra af þeim að biðjast afsökunar ef þeir hafa gert slíkt. En þingmeirihluti er aldrei falskur að mínu mati.

Juncker vill hér, en víðast hvar er hlegið að honum (og vegna fleiri atriða), það hefur heldur ekkert komið fram um að herinn yrði byggður upp með herskyldu, og raunar ólíklegt.

@Ásthildur  Takk fyrir þetta.

@Ásmundur Þetta hefur að mínu mati ekki mikla merkingu sem slíkt. Þó að Alþingi myndi samþykkja að að draga umsóknina til baka, þá gildir það auðvitað ekki nema þangað til Alþingi ákveður að sækja um að nýju.

Þess vegna er það engin bömmer, fyrir einn eða neinn að umsóknin sé dregin til baka, nema ef menn óttast að þurf að fá samþykki frá þinginu á ný.

Það er að mínu mati engin varanleg verðmæti í því sem gerst hefur í aðildarviðræðunum hingað til.

En þingsályktir gilda á milli þinga, og binda ekki ríkisstjórnir. En ef einverntíma verður farið með aðlögunarviðræðurnar af stað aftur, eða umsóknin endurnýjuð, er það algerlega undir "Sambandinu" komið hvort að einhver árangur næst go hvort að það næstað ræða mikilvægustu málin.

G. Tómas Gunnarsson, 13.3.2015 kl. 22:13

11 Smámynd: Elle_

Veit ekkert hvaða númer þvældust þarna með eða hvort þau sjáist ykkar megin.

Elle_, 13.3.2015 kl. 22:44

12 identicon

G. Tómas, aðalatriðið er að ef umsóknin er dregin tilbaka eða viðræðunum slitið þá þarf að sækja um aftur.

Það hefur aldrei gerst áður, nema þegar þjóðir hafa hafnað aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda ekki bófar þar við völd eins og hér.

Markmið ríkisstjórnarinnar er greinilega að koma í veg fyrir að hægt verði að halda umsókninni áfram á næsta kjörtímabili, þegar sterkur þingmeirihluti verður fyrir því auk meirihlutavilja þjóðarinnar.

Þetta bréf Gunnars Braga er ekki bara tilgangslaust, ef þetta er ekki markmiðið. Það stórskaðar báða ríkisstjórnarflokkana. Viðbrögð ESB benda eindregið til að þetta markmið muni ekki nást.

Jafnvel þó að þingið samþykki að slíta viðræðunum mun ný umsókn verða lögð fram strax eftir næstu kosningar. Þjóðin mun svo samþykkja aðild á næsta kjörtímabili, hugsanlega fyrri hluta þess.

Það ánægjulega við uppákomu síðustu daga er að stjórnarflokkarnir hafa tryggt að þeir verða utan stjórnar næsta kjörtímabil og jafnvel miklu lengur enda er þetta vanhæfasta og spilltasta ríkisstjórn í manna minnum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.3.2015 kl. 23:45

13 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég er nú ekkert viss um það Ásmundur, samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti landsmanna andvígur því að gang í ESB.  Það sem verið er að tala um er að fólk vill fá að segja neiið sjálft. Þetta er sem sagt misskilningu ESB sinna að þeir séu í meirihluta sem þeir eru greinilega ekki.  Og þegar kemur að því að kjósa um að sækja um aftur að ESB aðild, munu andstæðingar þess ekki láta sér detta í hug að kjósa þetta fólk yfir sig aftur. þ.e. þá sem núna froðufella yfir þessu bréfi utanríkisráðherra. Þannig snýr málið að mér allavega. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.3.2015 kl. 00:07

14 Smámynd: Elle_

Bófarnir tóku völdin 2009 og nánast með valdaráni vegna blekkinga og lyga manna eins og Steingríms.  Honum var komið frá völdum með mikilli niðurlægingu.

Elle_, 14.3.2015 kl. 00:59

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já samt er hann ennþá að rífa stólpakjaft. Raunarleg og svo Jóhanna sem er að koma fram og gjamma sem hún hefur ekki efni á frekar en Steingrímur. Guð hvað ég fyrirlít þetta fólk.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.3.2015 kl. 01:15

16 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Það er reyndar af því að þó ég hafi ekki kosið þau, þá hafði ég ákveðnar væntingar til þeirra að þau myndu standa við stóru orðin, en þvílík vonbrigði sem þetta fólk oll mér og svo mörgum öðrum, þau eiga sér ekki viðreisnarvon héðan af. Og því með öllu ómarktæk í allri umræðu héðan af.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.3.2015 kl. 01:17

17 Smámynd: Elle_

Já, nákvæmlega, sama hvað Ásmundur segir.  Þeir voru ekki allir vondir, nokkrir góðir flæktust með í stjórn og voru trampaðir niður.

Elle_, 14.3.2015 kl. 01:22

18 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já því miður og fengu viðurnefnið villikettir. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.3.2015 kl. 01:32

19 identicon

Ásthildur, í könnunum hefur stærsti hópurinn yfirleitt verið sá sem hefur ekki tekið afstöðu. Það er eðlilegt vegna þess að menn vilja bíða með að taka ákvörðun þangað til samningur liggur fyrir og þeir vita um hvað er kosið.

Það var þó ekki mikill munur á þeim sem voru á móti aðild og þeim sem voru hlynntir í síðustu könnun Capacent-Gallup. Miðað við allar ranghugmyndirnar um hvað felst í aðild er ég viss um að samningurinn muni koma gleðilega á óvart með mikilli fylgisaukningu við aðild.

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.3.2015 kl. 08:49

20 identicon

Lagalega er þingmeirihlutinn náttúrulega ekki falskur, það segir sig sjálft. En siðferðislega var hann það.

Stóra kosningaloforðið hjá V.G. var að sækja ekki um aðild, út á það fengu þeir gott fylgi og gátu myndað þingmeirihluta með Samfylkingu.

Þessi völd sín notuðu þeir til þess að framkvæma það sem þeir fengu völdin út á að framkvæma ekki!

Þess vegna ættu V.G. liðar í það minnsta ekki að tala digurbarkarlega um þingsályktunartillögu sem enn sé í gildi.

Samfylking ætti reyndar að hafa sig hæga líka, því þingsályktunartillagan um umsókn um aðild að ESB hefur ekki annað gildi en að vera viljayfirlýsing þingsins á þeim tíma og var sett fram til að koma Íslandi í ESB án þess að til kæmi þjóðaratkvæðagreiðsla eða að samþykki forseta þyrfti til þar sem þetta voru ekki lög. 

En það er einmitt málið, þetta voru ekki lög.  Það er kominn tími til að V.G. og Samfylking átti sig á því að viljayfirlýsingar þeirra eru sem betur fer ekki lög!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 14.3.2015 kl. 09:23

21 identicon

Ásthildur, hvað var svona slæmt við stjórn Jóhönnu og Steingríms?

Árangur þeirra fór fram úr björtustu vonum og fékk mikið hrós erlendis. Það vakti sérstaka athygli að ójöfnuðurinn minnkaði mikið í stjórnartíð þeirra sem er góð vísbending um að það var mynduð skjaldborg um heimilin eftir bestu getu við mjög erfiðar aðstæður.

Alls staðar annars staðar jókst ójöfnuðurinn eins og gjarnan gerist í kreppu þegar hinir betur settu geta sölsað undir sig eignir hinna verr settu fyrir spottprís.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki gert annað en að auka ójöfnuðinn. Jafnvel skuldalækkunin er því marki brennd.

td

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.3.2015 kl. 09:57

22 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ásmundur eigum við nokkuð að tala um Skjaldborgina sem varð óvart skjaldborg um fjármálkerfið, sjávarútvegsmálin sem aldrei komu fram, Klúðrið með Sparisjóð Keflavíkur stjórnarskrármálið?.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.3.2015 kl. 10:02

23 Smámynd: Gunnlaugur I.

Góðar röksemdir. Viljayfirlýsingar Þingmanna Samfylkingar og VG frá árinu 2009 eru sem betur fer ekki lands lög !

Gunnlaugur I., 14.3.2015 kl. 10:08

24 identicon

Það er með algjörum ólíkindum að menn skuli reyna að afsaka óhæfuverk ríkisstjórnarinnar með því að það hafi verið eitthvað vafasamt við þingmeirihlutann fyrir umsókn.

Það sem var vafasamt við atkvæðagreiðsluna var annars vegar að þeir sjálfstæðismenn sem voru hlynntir aðild voru beygðir til hlýðni. Aðeins einn lét ekki beygja sig.

Hins vegar hættu allir þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar við stuðning við umsóknina af annarlegum ástæðum vegna óskylds máls.

Líklega hafa einhverjir þingmenn VG verið hlynntir aðild þó að flokkurinn hafi tekið afstöðu gegn henni. En jafnvel þó að menn séu á móti aðild er bara hróss vert að menn virði rétt þjóðarinnar til að taka um það ákvörðun. Það er lýðræðisást.

Aðildarumsóknin var samþykkt með öruggum meirihluta á þingi þrátt fyrir tilraunir til að hleypa honum upp eins og hér er lýst. Yfir 60% kjósenda var hlynntur aðild á þessum tíma skv skoðanakönnunum.

Aðildarumsóknir ESB hafa aldrei farið í þjóðaratkvæði, aðeins samningurinn. Fyrir því eru sterk rök sem gilda hér eins og annars staðar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.3.2015 kl. 10:31

25 identicon

Ásthildur, varstu að bíða eftir því að fjármálakerfið hryndi aftur? Var reynslan svona góð af hruninu 2008? Að sjálfsögðu var nauðsynlegt að standa vörð um viðkvæmt fjármálakerfi eftir hrun.

Það var ekki við Jóhönnu og Steingrím að sakast að ekki tókst að leiða í höfn stjórnarskrár- og fiskveiðimálin. Því miður brást samstaðan hjá nokkrum stjórnarþingmönnum.

Það hefði þó varla komið að sök ef stjórnarandstöðuþingmenn hefðu ekki kosið einróma gegn öllum málum stjórnarinnar jafnvel þegar þeir voru í hjarta sínu sammála þeim.

Skýrasta vísbendingin um skjaldborg við heimilin er að ójöfnuðurinn  minnkaði hér meðan hann jókst í öðrum löndum.

Það var talið rétt að bjarga Sparisjóði Keflavíkur miðað við þá stöðu sem hann var i skv fyrirliggjandi gögnum enda hefði ríkissjóður þurft að ábyrgjast allar innistæður yrði hann gjaldþrota.

Það kom svo ekki í ljós fyrr en eftir seinni tíma rannsókn að staðan var miklu verri en gögnin sýndu.

Eru allir þessir sérfræðingar víða um lönd, sem töldu árangur ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms fara langt fram úr björtustu vonum, bara vitleysingar í þínum augum?

Ásmundur (IP-tala skráð) 14.3.2015 kl. 11:11

26 Smámynd: Elle_

Ja, ég er ekki viss um að meirihlutinn hafi ekki lagalega verið falskur.  Það voru þó nokkrir úr VG (villikettirnir svokallaðir) og lýstu yfir að JÁ þeirra væri gegn þeirra vilja.  Þeir væru á móti en segðu samt JÁ.  Samkvæmt stjórnarskrá fullveldisins Íslands er alþingismönnum skylt að fylgja sannfæringu sinni.

Elle_, 14.3.2015 kl. 15:22

27 Smámynd: Elle_

Þessi völd sín notuðu þeir til þess að framkvæma það sem þeir fengu völdin út á að framkvæma ekki!  Það er nefnilega málið, eins og Bjarni Gunnlaugur skrifaði.  Það kalla sumir valdarán og nú fyrir utan að VG-menn nokkrir fylgdu ekki sannfæringu sinni.  Varla löglegt og allavega á steingráu svæði.

Elle_, 14.3.2015 kl. 16:28

28 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Er eitthvað að því að málið þurfi að koma aftur til kasta þingsins og sótt sé um aftur?

Það held ég ekki. Enda gæfi það tækifæri ef til þess kæmi, eða undirbúa og byggja umsóknina mun betur en síðasta ríkisstjórn gerði.

Það er einmitt mergurinn málsins.

Það eru engin verðmæti í umsókninni, nema möguleikinn að þurfa ekki að leita til Alþingis.

En umsóknin sem slík er dauð og hefur í raun verið það síðan 2011.

G. Tómas Gunnarsson, 15.3.2015 kl. 18:41

29 identicon

Það er bara fjáraustur og tímasóun að byrja ferlið upp á nýtt. Stjórnmálamenn sem standa fyrir slíku eru óhæfir og ættu að segja af sér.

Þetta er heldur ekki okkar einkamál. Það væri vanvirðing við ESB og okkur til áslitshnekkis að bjóða upp á slíkan hringlandahátt.

Við getum eitt okkar tíma og fé í bull og vitleysu ef við endilega viljum en ættum að sjá sóma okkar í að draga ekki aðra með okkur út í svaðið.

Þau eru orðin ansi mörg málin varðandi ESB-umsókn Íslands sem eiga sér engin fordæmi í sögu ESB. Öll hafa þau verið okkur til minnkunar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 15.3.2015 kl. 22:58

30 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur. Það er engin fjáraustur, enda líklegt að lítið verði nýtanlegt úr eldri umsókn, ef viðræður myndu hefjast á ný.

Og eins og þú segir sjálfur, var umsóknin samþykkt með skringilegum formerkjum og var í raun illa undirbúin.

Það er engin vanvirðing við einn eða neinn að draga aðildarumsókn til baka. Segja einfaldlega kurteislega að þetta sé ekki að skila þeirra niðurstöðu sem við væntum og betra að sóa ekki tíma eins né neins.

Það hefur að ég best veit aldrei verið sótt um aðild að "Sambandinu" af ríki, þar sem hálf ríkisstjórnin lýsir því yfir að vera á móti aðild.

Kannast þú við slíkt dæmi?

Hefði ekki verið rétt að staldra við þar, er það ekki fordæmalaust?

G. Tómas Gunnarsson, 16.3.2015 kl. 06:37

31 identicon

Umsóknin var fullkomlega löglega samþykkt af meirihluta þings með velþóknun yfir 60% þjóðarinnar skv skoðanakönnun. Allar tilraunir til að gera hana tortryggilega eða réttlæta slit á henni í miðju ferli eru því fráleitar.

Það er ekki bara vanvirðing við ESB að draga umsókn tilbaka án þess að neitt hafi gerst sem gefur raunverulegt tilefni til þess. Það afhjúpar að ESB hafi verið dregið á asnaeyrunum árum saman.

Það reyndi aldrei á þessa fyrirvara Steingríms. Og ekkert benti til að það myndi reyna á þá. Þeir hafa trúlega verið settir til að róa villikettina sem hefðu hins vegar ekki getað komið í veg fyrir samning.

Ásmundur (IP-tala skráð) 16.3.2015 kl. 10:12

32 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Ég hef aldrei haldið því fram að umsóknin hafi ekki verið löglega samþyktt á Alþingi. Það skiptir engu máli hvort að einstaka þingmenn t.d. VG hafi kosið gegn sannfæringu sinni eða ekki, til að "spila með liðinu". Meirihluti á Alþingi ræður.

Hins vegar er það líklega fordæmalaust að þeir sem greiði atkvæði með umsókn að "Sambandinu", lýsi því yfir að þeir seú mótfallnir inngöngu og að þeir áskilji sér rétt il að berjast á móti inngöngu, jafnt innan þings sem utan.

Þekkir þú einhver dæmi um slíkt? Eða að helmingur ríkisstjórnar lands sem sækir um sé á móti aðild?

Er það ekki "vanvirðing" við "Sambandið" að sækja um undir slíkum kringumstæðum?

Það eitt að rýniskýrslan í sjávarútvegi fékkst ekki afhent og "Sambandið" fékkst ekki til að ræða sjávarútvegsmál er næg ástæða til að draga umsóknina til baka.

G. Tómas Gunnarsson, 16.3.2015 kl. 10:21

33 identicon

Það er ekkert athugavert við það og alls ekki vanvirðing við ESB að þingmenn vilji að þjóðin fái að kjósa um aðild þó að þeir lýsi því yfir þeir muni greiða atkvæði á móti. Slík virðing fyrir lýðræðinu er síst ámælisverð.

Það má alltaf búast við að aðildarviðræður steyti öðru hverju á skeri. Þær halda áfram þrátt fyrir það eins og reynslan með aðrar þjóðir sýnir.

Það er auðvitað algjörlega fáránlegt að einhverjir utanaðkomandi séu að halda þessu fram þvert gegn fullyrðingum samninganefndarinnar og ríkisstjórnarflokkanna.

Þótt ótrúlegt sé reyndist skýrsla Hagfræðistofnunar pantað álit með svörum sem þóknaðist þeim sem báðu um hana eins og kom í ljós þegar hin skýrslan kom út.

Ásmundur (IP-tala skráð) 16.3.2015 kl. 14:16

34 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þakka þér fyrir þetta. Það steytti á skeri árið 2011 og hafði í raun ekki komist af skerinu árið 2013 þegar Samfylkingin sá sitt óvænna og frestaði viðræðum.

Ríkisstjórnin fyrrverandi, ekki Össur, ekki Jóhanna og ekki Steingrímur hafa komið með neinar viðhlítandi skýringar á því hvers vegna viðræðurnar gengu svo illa.  Alla vegna ekki svo ég hafi séð. Þú bendir mér ef til vill á þær.

Helgi Hjörvar vildi m.a. kenna makrílnum um, stundum hefur Össur ýjað að því sömuleiðis.

En þessir flokkar hafa aldrei staðið almenningi skil á gangi umsóknar, eða hvað fór úrskeiðis.

Ég er hálf hræddur að það séu skiptar skoðanir um hvor skýrslan er með "pantaðar niðurstöður".

G. Tómas Gunnarsson, 16.3.2015 kl. 15:31

35 Smámynd: Elle_

G. Tómas, ég skil ekki að þú skulir segja að það skipti engu máli (hvað varðar lögmæti umsóknarinnar) þó einstaka alþingismaður hafi kosið gegn sannfæringu sinni.  En er sammála líklega öllu hinu sem þú skrifar að ofan.  Skiptir ekki máli að alþingismenn, löggjafarvaldið sjálft, brjóti og svívirði stjórnarskrá íslenska lýðveldisins?  Það skiptir máli, ef það er ekki ólöglegt er það siðlaust.

Elle_, 16.3.2015 kl. 18:26

36 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Elle þakka þér fyrir þetta. Málið er það að sannfæringin og að kjósa gegn henni er óþægilega teygjanlegt.

Segjum að alþingismaður sé mótfallinn ákveðnu máli. En hann veit að ef hann greiðir atkvæði á móti því, þá hugsanlega fellur ríkisstjórn, sem hann vill fyrir alla muni að haldi áfram störfum, og það sé þjóðarhag fyrir bestu.

Hvað á hann að gera í stöðunni?

Það er líka svo að þangað til einhver stígur fram og segir það hreint út, að hann hafi greitt atkvæði gegn betri vitund og eigin sannfæringu, þá er ekki hægt að vera með neitt nema getgátur um hvort svo hafi verið.

Hafi einhver stigið fram og viðurkennt slíkt í þessu tilfelli hefur það farið fram hjá mér.

Það kann að vera ólöglegt eða síðlaust, og líklega hvoru tveggja.

En sönnunarbyrðin er erfið í þesu tilfelli, og nákvæmlega eins og í öðrum málum, eru einstaklingar saklausir þangað til sekt er sönnuð. Þannig er það í mínum bókum.

Það gefst að öllu jöfnu best að reyna að halda sig eins mikið og hægt er við það sem hægt er að sanna og sannreyna.

Vissulega leyfi ég mér, og líklega margir aðrir, að henda fram "sögusögnum", og "fabúlera" dálítið af og til.

En staðreyndirnar verða að vera í fyrirrúmi, eins og mögulegt er.

G. Tómas Gunnarsson, 16.3.2015 kl. 20:53

37 Smámynd: Elle_

Já, OK G. Tómas, ég sættist alveg á þessa skýringu, enda rökrétt.  Takk fyrir að svara þessu.  Það koma alltaf nýir og nýir punktar fram.

Elle_, 16.3.2015 kl. 21:38

38 identicon

Það var vegna óska VG að hlé var gert á viðræðum fyrir kosningar 2013. Málið þótti of viðkvæmt fyrir flokkinn vegna andstöðu hans við aðild.

Viðræður voru í gangi 2011-2013. Það tafði þó viðræðurnar að ESB var mjög upptekið af innri vandamálum auk þess sem að makríllinn hefur eflaust haft sitt að segja.

Síðast en ekki síst hafði skortur ás samstöðu í liði Vg slæm áhrif. Sem sjávarútvegsráðherra reyndi Jón Bjarnason að tefja málið eins mikið og hann gat og uppskar fyrir það 1.5% atkvæða í kosningum í heimabyggð.

Fullyrðingar um að viðræðurnar hafi siglt í strand 2011 er aðeins seinni tíma áróður ESB andstæðinga.

Ásmundur (IP-tala skráð) 17.3.2015 kl. 17:19

39 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Bölvar rugl er i þér Ásmundur, það var vegna þess að ESB neitaði að opna sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflana nema að Ísland undirgengist það að ESB vildi að Ísland gæfi eftir stjórnunina til ESB.  Það var ekki hægt, m.a. vegna stjórnarskrárinnar. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.3.2015 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband