2.3.2015 | 19:27
Þingkosningar í Eistlandi - Ríkisstjórnin fallin, en þó ekki von á miklum breytingum
Kosið var til þings (Riigikogu) í Eistlandi í gær. Það er ekki hægt að segja að úrslitin hafi verið verulega óvænt, þó að skoðanakannanir hafi reyndar sumar sýnt að aðrar niðurstöður væru mögulegar.
Úrbótaflokkurinn (Eesti Reformierakond), sem hefur verið leiðandi í Eistneskum stjórnmálum undanfarin 10 ár, er enn stærsti flokkurinn, með 27.7% atkvæða og 30 þingmenn af 101.
Næst stærsti flokkurinn er Miðflokkurinn (Eesti Keskerakond) hlaut 24.8% og 27 þingsæti.
Þriðji stærsti flokkurinn er Sósíaldemókratar (Sotsiaaldemokraatlik Erakond), sem hlutu 15.2% og 15 þingmenn. Fjórði kemur svo Bandalag Föðurlandsflokkins og Lýðveldisflokksins (Isamaa ja Res Publica Liit), með 13.7% og 14 þingsæti.
Tveir nýjir flokkar náðu að komast yfir 5% "múrinn" sem þarf til að hljóta þingmmenn.
Það eru Íhaldsflokkur fólksins (Eesti Konservatiivne Rahvaerakond), sem hlaut 7 þingmenn og Frjálsi flokkurinn (Eesti Vabaerakond) sem hlaut 8.
Úrbótaflokkurinn og Sósíaldemókratar hafa verið saman í stjórn, en missa nú meirihlutann. Stjórnarskipti urðu fyrir tæplega ári, en áður hafði Úrbótaflokkurinn verið í stjórn með Bandalagi Föðurlands og Lýðveldisflokkanna.
Höfuðandstæðngar í Eistneskum stjórnmálum hafa verið Úrbótaflokkurinn og Miðflokkurinn, en Miðflokkurinn hefur þótt nokkuð hallur undir Rússa og hefur haft all nokkuð samstarf við flokk Putins. Margir vilja meina að það hafi unnið gegn flokknum á lokasprettinum, en hann hafði verið stærsti flokkurinn í mörgum skoðanakönnunum.
Munurinn er þó ekki meiri en svo að báðir flokkarnir starfa í sama flokkahópnum á Evrópusambandsþinginu, ALDE (Alliance of Liberals and Democrats for Europe).
Ekkert bendir til annars en að Úrbótaflokkurinn verði áfram forystuflokkur í ríkisstjórn. Það er ólíklegt að nokkur hinna flokkanna hafi mikinn áhuga á því að starfa með Miðflokknum.
Líklegast þykir að hann myndi stjórn með öðrum "millistóru" flokkunum og þá líklega Sósíaldemókrötum, sem eru með þeim í stjórn nú og svo öðrum "litlu" flokkanna.
Kjörsókn var 64.2%, sem er heldur betra en í síðustu kosningum. 19.6% greiddu atkvæði á netinu, 13.4% utankjörstaða, 31.2% á kjördag og 35.8% greiddu ekki atkvæði.
Eitt allra heitasta málið í kosningabaráttunni voru lög um staðfesta sambúð samkynhneigðra, sem samþykkt voru á þingi fyrir stuttu.
Talið er að það hafi valdið fylgistapi Sósíaldemókrata.
En í heildina litið breyta þessar kosningar litlu að talið er. Breytingar verða í ríkisstjórn og nýr flokkur, eða flokkar munu taka þar sæti, en litlar breytingar eru taldar verða á stefnunni.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.