7.6.2006 | 21:11
Hver er hvað og hvað er hvurs?
Það hefur í besta falli verið grátbroslegt að horfa álengdar á þann "farsa" sem hefur verið í gangi nú undanfarna daga og snýst um formannsembætti Framsóknarflokks og forsætisráðherra embætti íslendinga.
Þetta lýtur svo klauflega út að það er með eindæmum hvernig þetta þróast. Ef til vill eiga íslendingar bara að vera fegnir að forsætisráðherra sem missir með svo herfilegum hætti stjórn á eigin afsögn, er þó í það minnsta að hætta.
Það er hins vegar engin ástæða til að kvarta þó að mannaskipti séu í ríkisstjórn, þetta stjórnarsamstarf er búið að standa í bráðum 12 ár, og ekkert óeðlilegt við að skipt sé um menn eða stóla. En berið nú þessa atburðarás saman við uppstokkunina sem gerð var á stjórn Tony Blair í Bretlandi, vegna slælegs gengis Verkamannaflokksins í sveitastjórnarkosningum, þar var gengið til verks á fumlausan og ákveðin máta. En hvað er íslendingum boðið upp á?
Það er ljóst hver verður forsætisráðherra, við því embætti tekur Geir H. Haarde, en hvað svo? Hver verður utanríkisráðherra? Hver verður fjármálaráðherra? Hver verður umhverfisráðherra? Hver samgönguráðherra, og svo þar fram eftir götunum?
Íslendingum er svo boðið að horfa upp á óvissuna, stór hluti "farsans" fer fram í beinni útsendingu þar sem framsóknarmenn "skíta út" hvern annan, og enginn veit hvað tekur við hjá flokknum eða hvert hann stefnir. Það er ekki einu sinni vitað hvenær flokksþing kemur saman til að kjósa eftirmann Halldórs. Það kemur svo fram í fréttum að margir vilja leita eftir forystu fyrir flokkin, út fyrir þingflokkinn, telja engan þar geta valdið starfinu.
Það er ekki nema von að það sé illa komið fyrir Framsóknarflokknum.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Bloggar | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.