17.1.2015 | 13:17
Swiss (precise) timing?
Svissneski seðlabankinn kann svo sannarlega að koma á óvart.
Eftir að hafa fullyrt að "gólfið" gangvart euroinu væri algerlega nauðsynlegt fyrir Svissneskt efnahagslíf, kippa þeir því undan því og má reikna með að margir Svissneskir atvinnurekendur hafi færri hár á höfðinu en í gær og hærra hlutfall grá.
En líklega hafa Svissnesku bankamennirnir talið sig sjá fyrir fjármagnsflóðið frá "Sambandinu" og Rússlandi stefna á "grynningar" og rísa eins og tsunami.
Svissneski bankinn hefur keypt euro eins og fíkill, undanfarinn þrjú ár. Líklega má segja að enginn einn aðili hafi gert meira til að halda uppi gengi eurosins. Á tímabili er talið að hann hafi einn og óstuddur keypt u.þ.b. helming af útgáfu allra ríkisskuldabréfa á Eurosvæðinu.
Það munar um minna. Eignir Svissneska seðlabankans eru nú mældar í hundruðum milljarða euroa.
Keypt fyrir euro sem streymdu inn í landið og bankinn prentaði Svissneska franka til að kaupa, og sneri sér svo við og keypti euro skuldabréf.
En það er sitthvað að "stífla" læk, eða fljót í leysingum. Og nú gafst bankinn upp.
Euroið hafði á tímabili fallið um 30% á móti frankanum í gær. Ef genginu hefur verið haldið uppi, hærra en eðilegt getur talist kemur gjarna yfirskot.
Elstu gjaldeyrismiðlarar muna ekki eftir jafn stórum breytingum á krossi á milli tveggja "megin" mynta á svo skömmum tíma.
17% féll euroið gagnvart frankanum yfir daginn. Við þurfum þó líklega að bíða aðeins eftir að rykið setjist til að sjá hvert "raunverulegt gengi" verður.
En líklega gleðjast flestir á Eurosvæðinu og fagna veikingu eurosins. Íslenskir "Sambandssinnar" verða svo líklega uppteknir við það næstu daga að útskýra fyrir Íslendingum, að of sterkur gjaldmiðill sé alls ekki eftirsóknarverður og skarpt gengissig sé stundum nákvæmlega það sem hagkerfi þarfnist.
Það kann einnig að hljóma sem öfugmæli, en það er mikið traust á Svissneska gjaldmiðlinum, sem í raun leiðir landið í þessa erfiðleika. Jafn skrýtið og það er getur það til lengri tíma litið verið hagstætt fyrir Sviss, að það álit bíði hnekki. Það, ásamt neikvæðum stýrivöxtum, mun líklega draga innstreymi fjár í leit að öryggi.
En Svissneski seðlabankinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir aðgerðir sínar. Það er að vonum, enda hafa margir farið illa út úr gjaldeyrisviðskiptum undanfarna daga og er allt eins reiknað með gjaldþrotum í miðlarabransanum.
En ef að prentvélar Eurosvæðisins fara seinna í mánuðinum á fullan snúning, er ekki nema von a Svissneska seðlabankanum hafi verið hætt að lítast á blikuna. Því það er allt eins líklegt að það hafi í för með sér mikinn fjárflótta, líklega ekki hvað síst frá Þýskalandi, þar sem þarlendir hefðu viljað skipta euroum sínum fyrir "alvöru pening", Svissneska franka.
Grikkir munu líka hafa verið nokkuð duglegir við að koma fé sínu "í hús".
Og þessar aðgerðir munu hafa víðtæk áhrif fyrir skuldara einnig.
Lán í Svissneskum frönkum eru t.d. algeng hér og þar á Eurosvæðinu, sérstaklega í Austurríki ef éf man rétt, en einnig t.d. í Bretlandi og af öllum stöðum, Grikklandi.
Hjá slíkum skuldurum verður all snarpur "forsendubrestur" nú.
Spurningin sem margir eru líklega að velta fyrir sér yfir helgina er hvar sé nú eftir af "öruggum" stöðum til að geyma fé sitt.
Seðlabanki Sviss harðlega gagnrýndur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.