4.1.2015 | 12:38
Af því að Merkel segir það? Þiggjendur þurfa að kjósa rétt
Seinna í þessum mánuði verða þingkosningar í Grikklandi. Skoðanakannanir benda til þess Syriza, kosningabandalag vinstri flokka (samkvæmt vinsælli málnotkun á Íslandi ætti ég líklega að segja vinstri öfgaflokkur, en slíkt þykir mér rangt) beri sigur úr býtum.
Líkega hafa liðsmenn Syriza lesið einhver Íslensk skrif um áhrif smáríkja í Evrópusambandinu, því þeir telja sig geta haft umtalsverð áhrif og breytt stefnu þess í málefnum Grikklands.
Þeir vilja ekki að framfylgt verði "niðurskurðarstefnu" "Sambandsins", heldur verði kraftmikil uppbygging sett af stað í Grikklandi. Eins og vinstri manna er oft siður, tala þeir ekki mikið um hvaðan féð eigi að koma, en undir niðri er ljóst að þeir eru meira en reiðubúnir til að eyða skattfé annara íbúa "Sambandsins" og eru ekki hrifnir af því að greiða til baka það "ALS" (annara landa skattfé) sem þeir hafa þegar fengið að láni.
Það kann þó að vera íbúum annara "Sambandsríkja" hollt að venjast þeirri tilhugsun að það fé verði ekki borgað til baka, því engan hef ég heyrt lýsa því á sannfærandi hátt hvernig Grikkir geti reynst borgunarmenn fyrir því.
En að á þessum tímapunkti verði "leki" úr Þýska stjórnkerfinu sem sgir Grikkjum að "kjósi þeir rangt" verði þeim sparkað af Eurosvæðinu er ekki tilviljun.
Angela Merkel er valdamesti stjórnmálamaður Eurosvæðisings og raunar "Sambandsins" alls. Næst henni kemur líklega "Super" Mario Draghi, stjóri Seðlabanka Eurosvæðisins.
Þegar Merkel segir að vel komi til greina að ýta Grikklandi út af Eurosvæðinu er hlustað. Það var enda ekki fyrr en hún var sannfærð um að slíkt væri óráð að slík áform voru slegin út af borðinu áður.
Það er ekki ólíklegt að Draghi muni senda frá sér "skipunarbréf" eins og Seðlabankinn hefur áður gert, til að láta vita hvernig bankinn muni bregðast við, ef stjórnvöld gera ekki eins og þeim er sagt og áður hefur verið ákveðið.
Eðlilega er mörgum Grikkjum ekki skemmt. En hvort að þeir breyti því hvernig þeir kjósa á eftir að koma í ljós.
Ég hef áður sagt að ég búsit við að Syriza muni missa forystuna og Gríska kjósendur muni skorta hugrekki til að greiða þeim atkvæði í eins miklum mæli og skoðanakannanir gefa til kynna. Eftir því sem meira verður fjallað um hvernig Merkel, Draghi og Euroseðlabankinn leggja línuna, því minna verður hugrekki Grikkja í kjörklefanum.
Og auðvitað geta Grikkir að mestu leyti sjálfum sér um kennt. Eða eigum við að segja sjálfum sér og þeim stjórnmálamönnum sem þeir hafa kosið sér.
Sem heild lifði Gríska þjóðin langt um efni fram. Á meðan var hægt að fá ódýr euro að láni ríkti mikið blómaskeið. Allir töldu það til mikilla bóta að afsala sér eigin mynt og gera eigin seðlabanka að útibúi. Það jók lánstraustið.
En lán falla sjaldan langt frá gjalddaga. Það kemur að skuldadögum.
Það eru einmitt þeir dagar sem Grikkir eru að upplifa nú.
Undir stjórn Merkel, Draghi, Euroseðlabankans og Alþjóða gjaldeyrisjóðsins.
Og í slíka stöðu er auðveldara í að komast en úr.
Vera þeirra í Evrópusambandinu hefur ekki reynst þeim töfralausn hvað varðar efnahagslegan stöðugleika.
Euroið hefur ekki tryggt kaupmátt Grískra launþega. Euroið hefur ekki tryggt stöðugleika á Grískum fasteignamarkaði.
Það eina sem euroið tryggir (þó að það hafi vissulega látið undan síga á nýliðnu ári) er fé og þá erum við ekki að tala um kindur. Þeir sem eiga mikið af euroum, hafa ekki séð fé sitt rýrna mikið, nema ef þeir hafa geymt það í banka á Kýpur. En ef ég hef skilið rétt, var það reyndar hlutskipti nokkuð margra Grikkja.
Evrópusambandsaðild dró ekki úr spillingu í Grikklandi, né styrkti lýðræði eða fullveldi landsins.
En nú eiga Grikkir völina og eins og máltækið segir fylgir kvölin. Því það er að ég tel öllum ljóst að hvað sem Grikkir velja, bíða þeirra miklir erfiðleikar næstu árin.
Íhugar að sparka Grikkjum úr evrusamstarfi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.