28.11.2014 | 09:59
Er nauðsynlegt að hafa aðgangseyri að Þingvöllum?
Ég efa ekki að mörgum finnst það algerlega fráleitt að tekinn yrði aðgangseyrir við Þingvelli.
Það hefði enda líklega ekki borgað sig í aldanna rás.
En tímarnir breytast og mennirnir stundum með.
Það er ljóst að stóraukin ferðamannastraumur til Þingvalla krefst frekari uppbyggingar og töluverðra útgjalda.
Að mínu mati er það lang einfaldast og eðlilegast að afla þess fjár með hóflegum aðgangseyri að Þingvöllum.
Ef að vilji stendur til það heimsækja Stonehenge, kostar það hvern fullorðinn 14 pund.
Heimsókn í Yellowstone þjóðgarðinn í Bandaríkjunum kostar 25 dollara á bíl, og bætast 12 dollara á hvern fullorðinn farþega, ef um atvinnurekstur er að ræða. Hver fótgangandi þarf að greiða 12 dollara. En það er rétt að taka fram að sá passi gildir í viku.
Hægt er að kaupa ársmiða fyrir 50 dollara.
Hver rúta sem kemur með farþega í garðinn er rukkkuð um 300 dollara, en þá er ekkert "hausagjald".
Ég held að það væri engan veginn óeðlilegt að gjald fyrir aðgang að Þingvöllum væri á bilinu 500 til 700 krónur á einstakling og svo afsláttargjald fyrir hópa/rútur.
Það myndi jafnframt gefa tækifæri til að auka uppbyggingu og þjónustu á Þingvöllum.
Fjölgun sem hefur áhrif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Ferðalög, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Hvað með að hafa komugjald til landsins, t.d. 1000kr á haus ? (hluti af verði flugmiðans)
Er ekki svipað kerfi í usa ?
Reyndar þýðir það þá að það þarf að sækja um í einhvern sjóð.
Allt hefur þetta sína kosti og ókosti, það þarf bara að fara að velja einhvern, halda sig við hann og framkvæma þetta.
Emil Emilsson (IP-tala skráð) 28.11.2014 kl. 11:33
Það er alveg rétt að öll "kerfi" hafa sína kosti og óskosti.
Kosturinn við komugjald//gistinóttagjald er að þá lætur hið opinbera aðra innheimta það fyrir sig, sér að kostnaðarlausu.
Það eykur því ekki heildarkostnaðinn hjá Íslendingum.
Gallinn er hins vegar sá að það er verið að rukka fullt af aðilum sem hafa engan áhuga á því að fara til Þingvalla, sjá Geysi eða þar fram eftir götunum.
Auðvitað má hugsa sér að hafa hærra komugjald og hafa frítt inn í Bláa Lónið, fara ekki hvort sem er allir þangað?
Ekki góð lausn að mínu mati.
Auðvitað er heildar innheimtukostnaður við innheimtu á hvern stað eins og Þingvelli, hærri.
En það getur hver sem er valið hvert hann fer, það styrkir uppbyggingu á þeim stöðum sem aðsóknin er mest (ef það er skilgreint almennilega að allur aðgangseyrir fari til uppbyggingar á viðkomandi stað.
Það tryggir líka ákveðna viðveru og eftirlit á þeim stöðum sem selt verður inn á. Vonandi líka betri og aukna þjónustu.
Hvað heldur þú að stór upphæð af þúsundkalli myndi enda á Þingvöllum?
Mig minnir að komugjald í USA sé 6 dollar. En eftir því sem ég kemst næst er það ekki hugsað sem gjald fyrir "náttúruskoðun", heldur fyrst og fremst til að standa straum af eftirliti sem þarf með ferðamönnum.
Lengi vel voru Kanadabúar og Mexikanar undanskildir, en það var að ég held tekið af fyrir einhverjum árum og urðu margir Kanadamenn bæði sárir og reiðir.
G. Tómas Gunnarsson, 28.11.2014 kl. 12:25
Hvernig færð þú það út að Íslendingar þurfi og skuli nú borga fyrir óhefta för sína um landið, líkt og varið er í Stjórnarksrá Lýðveldisins Ísland ?
Mér er einfaldlega spurn ?
Sindri Karl Sigurðsson, 29.11.2014 kl. 01:07
@Sindri "Ég fæ það ekkert út". Ég velti því einfaldlega upp hvort að nauðsynlegt sé að hafa aðgangseyri að svæðum eins og Þingvöllum.
Ég fullyrði reyndar ekki að það sé nauðsynlegt, en ég held að flestir geti skilið það af pistlinum að ég tel það skynsamlegt.
Það eru reyndar ýmis takmörk sett við ferðum fólks um landið, bæði í þéttbýli og dreifbýli.
Auðvitað er niðurstaðan um "Náttúrupassann", sem er þó ekki orðinn að lögum að þeirri sömu niðurstöðu, að einstaklingar muni þurfa að greiða fyrir ferðir sínar um landið, ef þeir hyggjast skoða ákveðna staði.
Hvort að það verður dæmt ólöglegt veit ég ekki, ef til vill verður látið reyna á það.
G. Tómas Gunnarsson, 29.11.2014 kl. 08:05
Helsti vandinn við þessa hugmynd er að hún er líklega óframkvæmanleg. Og það sem er óframkvæmanlegt er nú varla skynsamlegt.
Ég efast um að nokkur Íslendingur láti hreinlega bjóða sér að borga fyrir að fara á Þingvelli og að mikið verði um "borgaralega óhlýðni".
Kristján G. Arngrímsson, 4.12.2014 kl. 21:38
Kristján, ég held að framkvæmdin ´se ekki svo erfið. Fæstir skunda eða ganga til Þingvalla og ekki svo erfitt að "rukka" bíla.
Persónulega finnst mér ekkert óeðlilegra að borga fyrir að skoða mig um á Þingvöllum, frekar en Stonehenge, Yellowstone eða Algonquin (sem ég hef borgað aðgangseyri að nokkrum sinnum og aldrei orðið fyrir vonbrigðum.
En það eru auðvitað margir sem vilja hafa óheftan aðgang og "leifi" til að "selja aðgang" að stöðum s.s. Þingvöllum, með t.d. rútuferðum, en láta almenningi eftir að greiða fyrir uppbyggingu.
Er það skynsamleg lausn?
G. Tómas Gunnarsson, 5.12.2014 kl. 11:10
Afstaðan fer væntanlega eftir því hvort maður metur einhvers það prinsipp að Þingvellir séu þjóðareign. Værirðu til í að borga fyrir að nota bíl sem þú átt - eignaðist t.d. sem arf eða á annan hátt sambærilegan við það hvernig Þingvellir eru "eign" þjóðarinnar?
En eins og einhver benti á einhverstaðar fyrir ekki löngu, Íslendingar hafa aldrei verið sérlega sterkir á prinsippunum. Reyndar spurning hvort þeir eiga yfirleitt nokkur. Og sem kunnugt er verður gróðavonin sjálfkrafa að grunngildi ef engin önnur gildi eru fyrir hendi.
Kristján G. Arngrímsson, 5.12.2014 kl. 11:31
PS: Ég geri mér grein fyrir því að ef þú erfir bíl þarftu samt að borga bensínið og kosta viðhald á honum, en ég er að tala um að þú þyrftir beinlínis að borga fyrir að keyra hann, fyrir utan allan rekstrarkostnað.
Kristján G. Arngrímsson, 5.12.2014 kl. 11:33
Staðreyndin er auðvitað sú Kristján að á næstu árum, ef ekki nú þegar verður, eða er meirihluti af þeim sem kemur á Þingvelli ekki í hópi "erfingja landsins".
Spurningin ætti því ef til vill ekki síður að vera hvort að "erfingjarnir" vilji borga allan viðhalds og rekstrarkostnað af "bílnum", en meirihluta tímas séu einhverjir aðrir að keyra hann?
G. Tómas Gunnarsson, 5.12.2014 kl. 14:12
P.S. Á Íslandi þarftu auðvitaða að borga til ríkisins fyrir bíl, óháð rekstrarkostnaði.
Heitir það ekki "bifreiðagjöld" eða eitthvað álíka?
G. Tómas Gunnarsson, 5.12.2014 kl. 14:14
Einmitt. Það eru til aðrar leiðir til að ná inn fyrir "rekstrarkostnaði" en þessi heimskulegi passi, t.d. leiðin sem farin er núna - hver sem hún nú er.
Allt um það, eins og ég nefndi í byrjun þá er þetta spurning um prinsipp, ekki peninga og kostnað. En eins og Styrmir Gunnarsson benti á í frægri tilvitnun þá eru engin prinsipp í íslensku þjóðfélagi, bara tækifærismennska og græðgi. Þetta er dæmi um græðgi.
Reyndar held ég að besta leiðin til að losna við þetta bull sé að hætta að dæla hingað túristum eins og síld uppúr nót. Fyrr má nú vera. Það er eins og sé ekki hægt að fá fjölbreytni í atvinnulífið hérna - einu sinni var það BARA síld, svo BARA bankar og núna BARA ferðamannaiðnaður.
Hvað var þetta með að setja ekki öll eggin í sömu körfuna?
Kristján G. Arngrímsson, 5.12.2014 kl. 18:51
Þú vilt ekki að borgað staðnum, þú vilt ekki passa? hvaða leið viltu fara?
Núna er einfaldlega tekið fé af almennu skattfé. En það hefur haft í för með sér að uppbygging hefur ekki fylgt þörfinni, enda skattfé eins og margt annað takmarkað.
En ef ferðamannastraumurinn heldur áfram að aukast, er nauðsynlegt að byggja staðina upp, þannig að álagið verði minna.
Ertu meða einhverjar sérstakar hugmyndir um hvernig á að "banna" ferðamönnum að koma til Íslands.
En það er auðvitað alltaf hægt að finna ástæðu til að vera á móti flestu.
En ferðaþjónusta hefur oft verið flokkuð sem "eitthvað annað", er það nú líka orðið af hinu illa'
Annars hafa Íslendingar ennþá þó nokkuð af "stóriðju", eitthvað af bönkum og slatta af fiski.
Eitthvað verða þeir að gera sem geta ekki lifað af því að vera "skapandi".
G. Tómas Gunnarsson, 5.12.2014 kl. 19:22
Aðalatriðið er enn það sem fram kom í byrjun: Ég held að margir Íslendingar muni einfaldlega neita því að borga aðgangseyfi að Þingvöllum og þannig muni skapast mikið ósætti um þetta mál og það fari út um þúfur. Það var það sem ég átti við með því að þetta yrði líklega óframkvæmanlegt.
Og svo þegar þessi ríkisstjórn fer frá verður það fyrsta verk næstu stjórnar að fella þetta niður. Þannig að þetta verður bara framkvæmdakostnaður og allt endar í tapi.
Kristján G. Arngrímsson, 6.12.2014 kl. 08:36
Ég held reyndar að þú hafir nokkuð til þíns máls þegar þú segir að mikið ósætti muni skapast um málið. Það er enda markvisst verið að búa það ósætti til, ef til vill ekki hvað síst í flokkspólítískum tilgangi.
Ef svo færi að það yrði þó samþykkt, á ég síður von á að það yrði afnumið af næstu ríkisstjórn. Álögur gera það ógjarna, því stjórnmálamenn eiga það svo margir sameiginlegt að telja fé betur komið hjá hinu opinbera þannig að þeir geti sjálfir úthlutað því, en annarsstaðar.
Verður að teljast ólíklegt að þeir myndu vilja "neita ríkissjóði um þessar tekjur".
Og nðurstaðan verður verður sú að vinsælustu ferðamannastaðirnir verða ásetnir sem aldrei fyrr, og verðr "troðnir" niður.
Rútu og ferðaþjónustufyrirtæki verða ánægð, enda geta þau ennþá selt inn á það sem þú kallar "þjóðareign", en þess að greiða fyrir það.
Er það ekki það sem kallast "glæsileg niðurstaða" svo gripið sé niður í frasabók Steingríms J?
G. Tómas Gunnarsson, 6.12.2014 kl. 10:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.