Að lifa lífinu

Persónulega tel ég það ekki stóra frétt að ráðherra á Íslandi hafi neytt ólöglegra vímuefna. Hjá mörgum er það einfaldlega hluti af því að alast upp á Íslandi og hefur verið um langa hríð.

Ég veit ekki hlutfallið af þeim Íslendingum sem hafa prófað ólögleg vímuefni, en ég reikna mað því að það sé frekar hátt. Ég reikna ekki með því að það sé lægra á meðal ráðherra, eða alþingismanna en þjóðarinnar almennt, ef eitthvað er það líklega hærra.

En það er gott hjá Kristjáni að viðurkenna "lögbrotið".  Slíkt er mun betra en að fara undan í flæmingi eða tala í einhverjum gátum.

En það væri vissulega gott skref að "afglæpavæða" neyslu fíkniefna, en ég held að það þurfi ekki síður að horfa til þess sem er að gerast víða um Bandaríkin nú og stefna á að lögleiða sölu t.d kannabisefna.

Stríðið er löngu tapað og samfélagið þarf að horfa fram á við og hugsa upp leiðir til að "vinna friðinn".

 


mbl.is Hefur neytt ólöglegra fíkniefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held varla að það hafi verið heppilegt fyrir ímynd heilbrigðisráherrans að uppljóstra því að hann hafi neytt ólöglegra fíkniefna.

En hann stóð frammi fyrir þrem kostum; að neita að svara, viðurkenna "glæpinn" eða ljúga. Í þeirri stöðu var varla um annað að ræða en að leggja spilin á borðið.

Það er hins vegar ámælisvert hvernig hann gerði það. "Að sjálfsögðu" sagði hann og undirstrikaði að bæði væri um lögleg og ólögleg fíkniefni að ræða. Það var engu líkara en hann væri stoltur af athæfinu og liti jafnvel á þá sem hefðu aðra sögu að segja sem sjaldgæfa furðufugla.

Slíka afstöðu er auðvelt að túlka sem hvatningu til að neyta ólöglegra fíkniefna sem er auðvitað stóralvarlegt mál þegar um sjálfan heilbrigðisráðherrann er að ræða.

Ég lít ekki á það sem stóralvarlegt mál þó að alþingismenn eða ráðherrar hafi prófað ólögleg fíkniefni á unga aldri svo framarlega sem þeir séu löngu hættir því. Glannalegt svar KÞJ vekur hins vegar upp spurningar um hvort hann sé enn að.

Forsetaframboð Guðrúnar Pétursdóttur 1996 missti flugið þegar hún viðurkenndi að hún hefði á unga aldri prófað hass. Að lokum dró hún framboðið tilbaka. Það er varla hægt að skilja svar KÞJ öðruvísi en að hans afskipti af fíkniefnum hafi verið meiri en að hann hafi aðeins prófað hass.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 17.10.2014 kl. 07:57

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég held að það hafi verið mjög heppilegt fyrir hann. 

Hreinskilni er vanmetið, ekki síst innan stjórnmálastéttarinnar.

"Að sjálfsögðu", vísar einfaldlega til þess hve útbreitt það er að hafa prófað ólögleg vímuefni.  Að slíkt sé mun líklegra en ekki hjá "meðal" Íslendingnum.

Og það hygg ég að sé nokkuð rétt.

Hjá flestum er það auðvitað aðeins fikt, en ég hugsa þó að neysla hafi aukist hjá eldri aldurshópum.  Þannig er það víðast um lönd.

Það hefur mikið breyst frá 1996, hugsa ég, en ég man þó ekki eftir að framboð Guðrúnar Pétursdóttur hafi verið á neinu flugi til að missa, en það kann að vera misminni.  Ég var ekki búsettur á Íslandi þá.

En ég held að ímynd Kristjáns hafi ekki beðið neitt tjón við þessa yfirlýsingu, líklega þvert á móti.  Þannig eru flest þau viðbrögð sem ég hef séð.

G. Tómas Gunnarsson, 17.10.2014 kl. 08:26

3 identicon

Hvernig getur það verið heppilegt að heilbrigðisráðherrann hafi neytt ólöglegra fíkniefna?

"Að sjálfsögðu" er vísbending um að hann telji að aðeins í undantekningartilvikum hafi fólk ekki neytt ólöglegra fíkniefna og jafnvel að það sé miður fyrir þá sem hafa þannig farið á mis við það.

Allavega virðist KÞJ stoltur af því að tilheyra ekki þeim hópi. Ég held reyndar að meirihluti, jafnvel mikill meirihluti, þeirra sem eru á aldur við KÞJ hafi ekki neytt ólöglegra fíkniefna 

Svo er auðvitað mikil mótsögn í því að telja neyslu ólöglegra fíkniefna sjálfsagða en vera á móti því að gera viðskipti með þau lögleg. Hvernig getur það gengið upp? 

Ásmundur (IP-tala skráð) 17.10.2014 kl. 10:33

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég sagði að það hafi verið mjög heppilegt fyrir hann.  Ekki að það sé heppilegt að heilbrigðisráðherrann hafi neytt ólöglegra vímuefna.

Á þessu tvennu er mikill munur, en menn verða að skilja það sem þeir lesa.

Það er heppilegt fyrir hann að koma fram sem hreinskilinn stjórnmálamaður sem þori að tala um lífið eins og það er, og neita ekki sök í þessu máli eða fara undan í flæmingu, sem jafnvel getur þýtt að flækjast í einhverjum lygavef.

Ég held að almennt kunni fólk vel við að stjórnmálamenn tali hreinskilnislega og segi satt.

Ég veit nú ekki hvað Kristján er gamall, reikna með að hann sé einhverjum árum yfir fimmtugt.  En ég myndi telja að það sé mjög stór hópu af kynslóð Kristjáns sem hefur prufað ólöglegt vímuefni, ef ekki meirihluti.

Það er einfaldlega staðreynd.

En hvað er svo ólöglegt vímuefni?  Ef í hart væri farið í skilgreiningunni, þá væri "landi" auðvitað talinn þar með, enda vímuefni sem framleitt er ólöglega.  Þá væri líklega næstum öll þjóðin komin í hópinn.  Þetta er nú sett fram meira til gamans, en veltu því samt fyrir þér.

En auðvitað er "stríðið" gegn ólöglegum vímuefnum að mörgu leyti illa ígrundað og hefur haft lítil önnur áhrif en að auka glæpastarfsemi og skapa henni góðar tekjur.

Auðvitað eru margir þeir sem hafa prófað ólögleg fíkniefni á móti lögleiðingu og til eru þeir sem aldrei hafa prófað og eru meðmæltir lögleiðingunni.

Það eru líka til þeir sem hafa viljað prófa, til að vita um hvað þeir eru að tala um, ef svo má að orði komast.

En ég svara ekki fyrir Kristján, í þessum efnum.

G. Tómas Gunnarsson, 17.10.2014 kl. 11:00

5 identicon

Kristján er heilbrigðisráðherra. Þess vegna gengur það ekki upp að uppljóstrunin hafi verið heppileg fyrir Kristján en ekki heilbrigðisráðherra.

Allavega er ljóst að okkur varðar meira hvað er heppilegt fyrir heilbrigðisráðherrann en einstaklinginn KÞJ.

Það er ekkert sérstaklega hróss vert að viðurkenna fíkniefnaneyslu. Það kemur einfaldlega ekkert annað til greina ef margir vita um hana. 

Skv könnun frá í fyrra hefur fjórðungur Íslendinga prófað fíkniefni. Trúlega eru það enn færri á aldur við Kristján sem er 57 ára. Það er því af og frá að meirihluti í hans aldursflokki hafi neytt fíkniefna.

Þeir sem hafa neytt fíkniefna en eru á móti að sala þeirra sé lögleg myndu svara því miður eða eitthvað álíka ef þeir væru spurðir um eigin neyslu.

Kristján svaraði hins vegar "að sjálfsögðu" og virtist þar með gefa í skyn að neysla ólöglegra fíkniefna væri sjálfsögð. Það samræmist ekki að vilja banna sölu þeirra.

http://www.ruv.is/frett/fjordungur-islendinga-profad-fikniefni

Ásmundur (IP-tala skráð) 17.10.2014 kl. 14:12

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég held að þessi játning hafi verið mjög heppileg fyrir Kristján sem stjórnmálamann.  Ég tel að almenningur hafi almennt meira álit á þeim stjórnmálamönnum sem segja sannleikann.

Ég get reyndar ekki séð að það sé neitt óheppilegt að heildbrigðisráðherra hafi neytt ólöglegra vímuefna.  Ekki til dæmis neitt frekar en að hann hafi verið of feitur einhvern tíma.

Auðvitað er það hróss vert að segja sannleikann.  Og ekkert að því að viðurkenna að hafa neytt ólöglegra vímuefna.  Ekki frekar en að viðurkenna að hafa keyrt of hratt, eða farið yfir á rauðu ljósi.  Sem hvoru tveggja getur skapað meiri hættu fyrir meðborgarana en að neyta örlítið af vímuefni.

Ég ætla ekki að fara í langt mál um könnunina, en ég myndi reikna með að hlutfall þeirra sem hefur prófað ólögleg vímuefni sé mun hærra.  Eins og þú réttilega segir þá eru margir sem viðurkenna ekki slíkt, ef þeir telja sig komast upp með það.

Það gildir líka um kannanir.

G. Tómas Gunnarsson, 17.10.2014 kl. 14:38

7 identicon

Það sem er sjálfsagt er ekki hróss vert. Kristján gat auðvitað ekki leynt því sem margir eflaust vita.

Ef hann hefði logið hefði hann verið í vondum málum. Það ber vott um að litlar kröfur séu gerðar til hans ef hann fær sérstakt hrós fyrir að sinna skyldu sinni sérstaklega þegar ljóst er að hann hefði varla komist upp með annað.

Það er afskaplega ólíklegt að margir gefi rangar upplýsingar í skoðanakönnun um hvort þeir hafi einhvern tímann prófað eiturlyf enda ekki um að ræða upplýsingar sem almenningur hefur aðgang að. Auk þess er þetta ekki viðkvæmt mál fyrir flesta.

Mín tilfinning er að það sé algjörlega fráleitt að meirihluti fólks hátt á sextugsaldri hafi neytt eiturlyfja. Hvað fær þig til að halda það?

Eins og ég hef þegar sagt hef ég ekki áhyggjur af því þó að heilbrigðisráðherra hafi einhvern tímann neytt eiturlyfja. Það er meira áhyggjuefni hvernig hann sagði það og hvernig hægt er að túlka það sem hann sagði.

Hefði hann sagt "ég prófaði hass þegar ég var ungur" hefði ekki verið ástæða til að hafa áhyggjur. Svarið vakti hins vegar fleiri spurningar en hann svaraði.

Ásmundur (IP-tala skráð) 17.10.2014 kl. 16:07

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er ekki sjálfsagt að stjórnmálamaður viðurkenni að hafa notað ólögleg vímuefni. Margir humma það fram af sér og sumir koma svo með afsakanir eins og " að hafa ekki tekið "oní" sig eins og frægt er orðið.

Ef ég man rétt er Kristján fyrsti Íslenski ráðherrann sem viðurkennir slíkt.  Það hafa heldur ekki margir Íslenskir stjórnmálamenn viðurkennt það, í fljótu bragði man ég ekki eftir neinum, en sjálfsagt hefur einhver viðurkennt slíkt.

En heldurðu að Kristján sé eini ráðherrann sem hefur prófað?  Eða eini alþingismaðurinn?

Heldurðu að þetta sé eitthvað viðkvæmt mál fyrir þá?

Og með tvískinnunginn.  Hann er velþekktur á meðal stjórnmálamanna. 

Hvað heldurðu að margir af þeim sem börðust á móti bjórnum hafi smakkað bjór, og jafnvel drukkið hann reglulega í útlöndum og keypt í tollinum?

Heldurðu að enginn sem barðist á móti frjálsu útvarpi hafi notið þess sem unglingur að hlusta á "Kanann" eða Radio Luxembourg?

Það er vissulega svo að það viðkvæmt fyrir marga að viðurkenna að hafa neytt ólöglegra vímuefna.  Og margir gefa slíkt ekki upp, jafnvel undir nafnleysi.  

Þeir sem eru á sextugsaldri í dag voru á því sem líklega má kalla mesta "neyslualdurinn" á árunum ´76 til´86, en auðvitað er það ekki einhlýtt.

Á þessum árum var neysla ólöglegra vímuefna þegar orðinn útbreidd um allt land.  Á sumum stöðum á landsbyggðinni var auðveldara að verða sér út um ólögleg vímuefni en lögleg, ef fyrirvarinn var skammur.  

Það er í sjálfu sér engin ástæða til að rífast um einhverja %tölu, það skiptir ekki máli.

Án þess að ég ætli að lesa of mikið út úr svari Kristjáns, þá getur hann hreinlega verið að vísa til eigins umhverfis og hvernig tíðarandinn var.

Upplifanir eru vissulega mismunandi.

En það er því miður vaxandi tilhneyging til að láta eins og stjórnmálamenn þurfi að vera nokkuð "gerilsneyddir" og flekklausir.

Persónulega lít ég ekki svo á.  En það þarf auðvitað að gera skýran greinarmun á nútíð og fortíð.

Það er gott að stjórnmálamenn komi úr mismundi "heimum" og með mismunandi reynslu.  

Svo eru þeir ráðnir af kjósendum, sem velja og hafna á fjögurra ára fresti.  Þeirra er valið og ég reikna með að stór hluti þeirra kunna að meta hreinskilni.

G. Tómas Gunnarsson, 18.10.2014 kl. 07:20

9 identicon

Það er furðulegt ef það er orðið jákvætt fyrir roskna stjórnmálamenn að játa á sig fíkniefnabrot. Er það virkilega betra en að neita því vegna þess að ekki er um nein slík brot að ræða?

Ég veit ekki til þess að aðrir stjórnmálamenn hafi verið spurðir um fíkniefnaneyslu sína. Þeir hafa því ekki haft tækifæri til að vera hampað fyrir slíka hreinskilni.

Skv þinni röksemdafærslu myndu þeir sem hafa aldrei neytt fíkniefna koma verr út úr slíkri spurningu en þeir sem játa á sig brotið. Slík röksemdafærsla gengur ekki upp.

Það er ljóst að KÞJ hefði verið í verulega vondum málum ef hann hefði neitað fíkniefnaneyslu sem mörgum væri kunnugt um. Það hlýtur að vera einhver millivegur á milli þess að verða sér til skammar og að verðskulda sérstakt hrós.

Þess vegna verðskuldar KÞJ ekki hrós fyrir það eitt að hafa ekki orðið sér til skammar þó að hann hafi gert rétt í að viðurkenna neysluna.

Það er mjög líklegt að fleiri þingmenn en Kristján hafi neytt fíkniefna. Ég sé ekki að það sé nein nauðsyn að upplýsa þjóðina um hverjir það eru ef langt er liðið síðan. Öðru máli gegnir ef þeir eru neytendur á meðan þeir sitja á þingi.

Fyrir nokkrum árum upplýsti Stefán Máni rithöfundur, sem hafði kynnt sér undirheima Reykjavíkur vegna bókaskrifa sinna, að á Alþingi sæti forfallinn kókaínneytandi. Mér vitanlega upplýstist aldrei hver þetta var.

Það er því ástæða til að spyrja sig hvort það geti verið að á þingi sitji forfallnir eiturlyfjaneytendur án þess að þjóðin fái neitt að vita. Að halda hlífiskildi yfir eiturlyfjaneytendum á þingi er hættuleg meðvirkni.  

Auðvitað kunna kjósendur að meta hreinskilni. En það er ekki víst að þeir kunni alltaf að meta það sem hreinskilnin kemur til skila. Það er auðvitað ekki þannig að allt sé í góðu lagi ef það er bara viðurkennt.

Stjórnmámenn þurfa að vera trausts verðir. Ef þeir eru það ekki er illt i efni um stjórn landsins. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 18.10.2014 kl. 11:45

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Er það ljóst að mörgum hafi verið kunnugt um neyslu Kristjáns á löglegum vímuefnum?

Er það ljóst að einvher þeirra hefði kjaftað frá?  Enginn þeirra hefur gert það hingað til.'

Persónulega er mér kunnugt um neyslu á ólöglegum vímuefnum af hendi margra sem eru mér andstæðir í pólítík, og hafa sinna jafnvel ábyrgðarstöðum fyrir flokka sína í dag.

Ekki dytti mér í hug að uppjóstra því.  Mér þykir það ekki skipta máli, og ekki eiga erindi í pólítíska umræðu.  Þú kannt ef til vill að vera ósammála því, en þett er mín afstaða og henni verður ekki breytt.

Það að þeir hafi aldrei kosið að viðurkenna slíkt brot (þó að sumum þeirra kunni ef til vil að hafa staðið slíkt til boða) hefur ekki orðið til þess að mér finnist þeirra pólítíska staða haf boðið hnekki.

Það er engin minnkun af því að hafa ekki notað ólögleg vímuefni, en að mínu matim er það heldur engin minnkun að hafa notað þau..

Það er engin nauðsyn að upplýsa hvaða þingmenn hafa notað ólögleg vímuefni, en það er heldur engin skömm af því fyrir viðkomandi þingmen að viðurkenna það.

Stjórnmálamenn þurfa vissulega að vera traustsins verðir, það endurnýja þeir á fjögurra ára fresti.

Ég er ekki tilbúinn til að segja ég treysti þingmanni sem viðurkenndi að nota ólögleg vímuefni reglulega, minna en þingmanni sem viðurkenndi að nota lögleg vímuefni (t.d. áfengi) reglulega, minna.

En það er mín persónulega skoðun.  

Ég skil mjög vel að það séu ekki allir sammála mér.

Það er ekkert ólíklegra að að Alþingi sitji neytendur ólöglegra vímuefna, en að þá sé að finna í samfélaginu almennt.

En hreinskilni er ekki sjálfgefin  á Alþingi, eða í samfélaginu almennt.

G. Tómas Gunnarsson, 18.10.2014 kl. 17:09

11 identicon

Það verður að teljast líklegt að einhverjir viti af fíkniefnaneyslu Kristjáns. Það fer þó eftir því hve mikil hún var/er en það er mjög opið eftir svar Kristjáns.

Og þó að þeim detti ekki í hug að segja frá neyslunni gegnir auðvitað öðru máli ef Kristján hefði neitað henni opinberlega. Það er lítil samúð með ráðherrum sem reyna að fegra eigin ímynd með ósannindum.

Það er langt frá því að vera trygging fyrir því að stjórnmálamenn séu traustsins verðir þó að þeir séu endurkjörnir. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Meðal annars að málum sem skipta kjósendur máli er haldið leyndum fyrir þeim. 

Ofneysla á vímuefnum, löglegum eða ólöglegum, ber vott um skort á sjálfstjórn. Slíku fólki er ekki treystandi til að sitja á Alþingi eða vera ráðherrar.

Ólögleg vímuefni eru þó verri en lögleg vegna þess að þau eru lögbrot og geta auk þess verið skaðlegri og meira ávanabindandi. Það samræmist illa að vera fulltrúi á löggjafarþingi og stunda sífelld lögbrot.

Ásmundur (IP-tala skráð) 18.10.2014 kl. 18:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband