10.10.2014 | 05:24
Sjálfstæðisflokkur hins Sameinaða Konungsdæmis sigrar
Það er orðið ljóst, UKIP, eða Sjálfstæðisflokkur hins Sameinaða Konungdæmis hefur náð sínu fyrsta þingsæti á Breska þinginu.
Þingmaðurinn heitir Douglas Carswell og yfirgaf Breska Íhaldsflokkinn fyrir skömmu og sagði af sér þingmennsku. Því var efnt til aukakosninga í kjördæminu "Clacton" sem hann sigraði nú fyrir UKIP.
Sigur Carswells var stærri nú, en þegar hann vann sætið fyrir Íhaldsflokkinn í síðustu kosningum.
En það sem vakti ekki síður athygli á Sjálfstæðisflokknum Breska, er hve nálægt hann var að vinna aðrar aukakosningar sem haldnar voru í gær.
Þar tapaði hann fyrir Verkamannaflokknum, í kjördæmi sem heitir "Heywood and Middleton" og hefur verið sterkt vígi fyrir Verkamannaflokkinn, eða það sem Breskir fjölmiðlar kalla "Labour stronghold".
Þar hlaut UKIP rétt tæp 39% atkvæða, en tapaði með u.þ.b. 600 atkvæðum fyrir Verkamannaflokknum sem var með 40.9%.
Það er því ljóst að þó að UKIP hafi aðeins haft sigur í öðru kjördæminu, þá sækir flokkurinn fast að báðum hinum ríkjandi flokkum í Bretlandi.
Í "Clacton" var Íhaldsflokkurinn með næst flest atkvæði, eða 24%, þá Verkamannaflokkurinn með11 (u.þ.b. helmingi minna en í síðustu kosningum), þá komu Græningjar og loks Frjálslyndir Demókratar, með 1.3%, eða innan við 500 atkvæði.
Það getur breytt miklu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kosningum á næsta ári að hafa þingmann. Auðveldara verður að telja kjósendum trú á því að hann geti unnið þingsæti, en hefur verið. Sjálfstæðisflokkurinn sýndi einnig í gær, að hann sækir atkvæði bæði til Íhaldsflokks og Verkamannaflokksins og það er ljóst að landslagið í Breskum stjórnmálum er að taka breytingum, því flokkur Græningja er einnig að sækja í sig veðrið, og sækir að Verkamannaflokknum, en þó sérstaklega Frjálslyndum.
Frjálslyndir virðast eiga það á hættu að þurkast því sem næst út og hljóta ef til vill nokkuð algeng örlög, "stjórnarandstöðuflokka" sem allt í einu komast í stjórn.
En það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hefur styrkt stöðu sína svo um munar og tryggt að umræðan um veru Bretlands í Evrópusambandinu verður eitt af stærstu málunum í komandi kosningum.
Hvort Bretland eigi að segja sig úr "Sambandinu" eða ekki, og ef ekki hvaða skilyrði þurfi að setja fyrir aðildinni.
Þingkosningarnar í Bretlandi 2015, verða því að líkum óhemju líflegar og spennandi og eiga eftir að hafa áhrif langt út fyrir Bretland.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.