9.10.2014 | 08:31
Þökkum fyrir að skyrið sé framleitt utan Íslands
Það er gríðarlega góður kostur að skyr sé framleitt "undir leyfi" Íslendinga erlendis. Það er mikið betri kostur en að reyna að ná allri framleiðslunni "heim".
Það hljómar vissulega vel þegar því er haldið fram að það sé slæmt að Íslendingar geti ekki framleitt allt það skyr sem útlendingar vilji kaupa.
Auðvitað vilja Íslendingar framleiða eins mikið og mögulegt er og flytja það út.
En ef málið er skoðað nánar, hygg ég að flestir ættu að geta verið sammála því að best fari á því að reyna að koma á framleiðslu erlendis, undir Íslenskum "leyfum", eins og kostur er.
Með því vinnst margt.
Mjólkuriðnaður er í eðli sínu ekki hefðbundinn iðnaður, að því marki að innkaup á hráefni, sérstaklega á litlum markaði eins og Íslandi, gerast ekki "spontant". Mjólkurframleiðsla verður ekki aukin, eða dregin saman, á stuttum tíma, þó vissulega sé auðveldara að draga saman en að auka.
Því hafa bæði Norðmenn og Íslendingar kynnst á undanförnum misserum, þegar neysluvenjur hafa breyst og líklega á Íslandi, einnig vegna stóraukins ferðamannastraums. Þá hefur þurft að grípa til innflutnings, hversu illa sem mönnum kann annars að vera við hann.
Það getur því verið hættulegt að byggja upp gríðalega mjólkurframleiðslu til þess eins að bregðast við mikilli eftirspurn á skyri, sem kann ef til vill ekki að vara að eilífu.
Einnig er vert að hafa í huga að ef vinsældir skyrs halda áfram að aukast og taka markaðshlutdeild frá öðrum mjólkurvörum, er næsta víst að stórir aðilar í mjólkuriðnaði fari að framleiða skyr. Það er reyndar mjög líklegt með vaxandi vinsældum.
Þá eru Íslendingar mun betur staddir í samvinnu við þokkalega stór framleiðslufyrirtæki erlendis, með styttri leiðir á markaði og betur staddir að takast á við sveiflur, heldur en ef öll framleiðsla færi fram á Íslandi.
Þróun í þessa átt má þegar sjá í Bandaríkjunum.
Persónulega er ég þeirrar skoðunar að ef Íslendingar ætli sér að vinna hylli markaða víða, sé slíkt samstarf og "leyfisveitingar" eina færa leiðin.
Það er oft rætt um gríðarlega útflutningsmöguleika á Íslenskum landbúnaðarafurðum, rétt eins og Helgi Hjörvar gerir í viðhengdri frétt. Einhverra hluta vegna lætur það þó jafnan á sér standa, þó eytt hafi verið hundruðum milljóna í markaðsetningu.
Mér finnst einhvern veginn blasa við að slíkt yrði heldur, öllu jöfnu, Íslenskum skattgreiðendum ekki til hagsbóta.
P.S. Það er svo auðvitað allt annað mál, en ég hef heyrt marga kvarta undan þeirri staðreynd, að hollustuvöru eins og skyr, sé oft erfitt að finna í Finnlandi án efna eins og sucralose og acesulfame K. Ýmsir sem ég hef heyrt í borða ekki skyr vegna þessa.
Eru þessi sömu efni almennt notuð í skyr á Íslandi?
Bændur stæðu betur innan ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Matur og drykkur, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 12:08 | Facebook
Athugasemdir
Framleiðsluaðferð MS er rangt að nefna skyr. Ástæðan er sú að þarna er um að ræða gjörólíka vöru. Nú er notaður jógúrtgerill til að hleypa undanrennuna, sem þýðir að "the final product" er náttúrulega jógúrt en ekki skyr. Jógúrt er áreiðanlega fínasta vara og góð sem slík, en á fátt sameiginlegt með skyri. Einnig er mysan ekki síuð frá, heldur er hún fjarlægð með einskonar skilvindu (centrifugal). Varan er svo ekki látin súrna, eins og skyrið var látið gera. Ergo: Þetta er íslensk útgáfa af jógúrt, að kallað þetta eitthvað annað eru svik.
Móri (IP-tala skráð) 9.10.2014 kl. 10:36
Íslendingar verða af miklum gjaldeyristekjum vegna þess hve lítið af sölu skyrs erlendis er framleitt hér á landi. Ástæðan er að sjálfsögðu ekki að það sé hagkvæmt heldur eingöngu að EES samningurinn leyfir ekki meiri útflutning.
Með ESB-aðild verður útflutningur á skyri frjáls. Þá er auðvitað sjálfsagt að framleiða allt skyr hér nema ef aukning á eftirspurn verði svo hröð að við önnum ekki eftirspurn tímabundið. Þá er hægt að grípa til erlendra framleiðenda meðan það gengur yfir.
Þetta er dæmi um aukin atvinnutækifæri með ESB-aðild. Útflutningur á fullunnum fiskafhurðum í neytendapakkningum mun einnig opna á möguleika á aukinni atvinnu í sjávarplássum um allt land.
Sama á við um margvíslegar greinar um allt land vegna þess stöðugleika sem aukin samkeppnishæfni leiðir til með upptöku evru.
Meðan krónan er enn við lýði geta verið töluverðar sveiflur á eftirspurn eftir skyri eins og öðru vegna gengissveiflna á krónu. Með tilkomu evru verður eftirspurnin miklu jafnari og því viðráðanlegri fyrir íslenska framleiðendur.
Ásmundur (IP-tala skráð) 9.10.2014 kl. 11:09
Ég þekki ekki til framleiðsluaðferða MS. En ég held að skyr og jógúrt eigi meira sameiginlegt en margur heldur. Það eru enda til margar mismunandi útgáfur af jógúrti. Sumum þeirra svipar meira en lítið til skyrs.
Það er reyndar eins og svo margt annað, sem Íslendingar telja "séríslenskt", margt af því er ekki svo sérstakt, þó að það hafi ef til vill þróast aðeins öðruvísi vegna breytilegra aðstæðna.
G. Tómas Gunnarsson, 9.10.2014 kl. 11:11
@Ásmundur. Nei, það er einmitt varasamt að spenna upp mjólkurframleiðslu, sem er að stórum hluta á "opinberri framfærslu" til að fullnægja eftirspurn eftir skyri sem enginn veit hvað endist lengi. Rétt eins og í öðrum neyslusvörum, sveiflast neysla á ýmsum mjólkurvörum verulega til. Skyrneysla getur aftur dregist verulega saman, á fáum árum, hvað þá?
Þess vegna er skynsamlegt að nota erlenda framleiðendur, sem eru mun betur í stakk vaxnir til að takast á við sveiflur af þessu tagi.
Eins og ég segi í upphaflega pistlinum, minnkar það líka möguleikann (en eyðir honum ekki) að stærri framleiðendur erlendis, nýti sér stærðarmun og nálægð við markaði til þess að taka yfir skyrmarkaðinn, ef skyr nær markaðshlutdeild sem eitthvað kveður að.
Með fisk, gildir annað, enda um ólíka vöru að ræða.
Ég held að gjaldmiðillinn hafi ótrúlega lítið með eftirspurn eftir skyri að gera.
G. Tómas Gunnarsson, 9.10.2014 kl. 11:21
Eins og hvað sem Íslendingar kalla sér íslenskt Tómas.? Skyr eins og ég þekki er sér íslenskt,en það að hræra það í dollur eftir að hætt var að selja það úr tunnum í smjörpappír,veit ég ekki hvort hefur viðbætt efni.
Helga Kristjánsdóttir, 9.10.2014 kl. 12:49
Skyr hefur þá sérstöðu fram yfir jógúrt að vera fitulaust og mun próteinríkara. Þess vegna er það komið til að vera á erlendum mörkuðum svo framarlega sem verðið rýkur ekki upp úr öllu valdi í samanburði við erlenda jógúrt vegna gengisbreytinga krónunnar.
Að sjálfsögðu skiptir verð á jógúrt miklu máli eins og verð á öllu öðru.
Ef eitthvað er, eru aukin störf við skyrgerð æskilegri en við fiskvinnslu vegna þess að þannig er stuðlað að meiri dreifingu. Að vera með flest eggin í sömu körfunni er aldrei heilladrjúgt. Það getur komið sér vel að fá vinnu við skyrgerð þegar lítið er að gera í fiskvinnslu.
Að láta íslenskan almenning niðurgreiða jógúrt á erlendum mörkuðum, ef það er tilfellið, er auðvitað algjörlega fráleitt. En það er hins vegar vísbending um galið kerfi sem nauðsynlegt er að breyta.
Kerfið á auðvitað ekki að koma í veg fyrir að við öflum gjaldeyristekna með óheftri skyrsölu. Vonandi verður þessu kerfi breytt fljótlega. Með ESB-aðild er slíkt kerfi sjálfkrafa úr sögunni.
Ásmundur (IP-tala skráð) 9.10.2014 kl. 15:25
@Það er til fullt af fitulausu jógúrti. Ef krónan sígur, sem flestir "Sambandssinnar" saka hana um, og ekki alveg að ósekju, ætti skyr að geta verið ódýrara út í Evrópu en nú er, varla ætti það að draga úr sölunni?
Staðreyndin er auðvitað sú að skyrsalan fór fyrst á flug eftir að krónan seig eftir bankahrunið.
En það er eðli mjólkurmarkaðarins sem gerir það lítt eftirsóknarvert að fjárfesta í mjólkurframleiðslu til útflutnings á Íslandi.
Í marga áratugi hafa flestir stærstu landbúnaðarframleiðslumarkaðir heims snúist um það að borga fyrir að framleiða ekki.
Það er því mikill "slaki" í kerfinu.
Það sem af er ári hafa flestar mjólkurafurðir fallið í verði á bilinu 30 til 40 prósent. Lækkanir hafa þó ekki verið það skarpar í N-Ameríku og í "Sambandinu" vegna verndar sem framleiðendur þar njóta. Þó hafa verulegar verðlækkanir orðið á því verði sem bændur fá fyrir mjólk í "Sambandinu" og má segja að í flestum ef ekki öllum löndum þess "væli" bændur um aukin ríkisstyrk.
Í apríl á næsta ári verður kvóti á mjólkurframleiðslu í "Sambandinu" svo afnumin. Flestir spá að það leiði til verulegrar verðlækkunar á verði til bænda.
Að ætla að vonast til að MS og bændur spjari sig á þessum markaði, er ekki eitthvað sem ég myndi vilja leggja fé mitt undir.
Þess vegna er miklu vænlegra til lengri tíma litið að vera í samstarfi við erlenda framleiðendur og fá leyfisgjöldin.
Niðurgreiðslur á framleiðslu bænda verða ekki úr sögunni með "Sambandsaðild", þvert á móti með því að lofa því að þeir hafi það betra eftir slíkt feigðarflan eins og Samfylkingin gerir. Það þýðir meiri greiðslur frá skattgreiðendum til bænda.
G. Tómas Gunnarsson, 9.10.2014 kl. 16:17
Að greiða niður skyr og aðrar landbúnaðarvörur til útlendinga án þess að Íslendingar fái að njóta sambærilegrar niðurgreiðslu af hálfu erlendra þjóða er ekki íslenskum almenningi til hagsbóta.
Það er dæmigert fyrir íslenska stjórnsýslu að sérhagsmunaöfl fái þannig svigrúm til að vinna gegn hagsmunum almennings. Ísland sker sig úr samanburðarlöndunum að þessu leyti.
Skyr er ekki jógúrt. Vinnsluaðferðin er þannig að skyr flokkast sem ostur en jógúrt sem sýrð mjólkurafurð. Vegna þessarar sérstöðu skyrs er minni ástæða en með flest annað til að óttast að markaðir hrynji.
Úr því að við erum ekki í ESB getum við aðeins flutt út brot af því skyrmagni sem markaður er fyrir. Þannig verðum við af dýrmætum gjaldeyristekjum sem myndu koma okkur mjög vel í erfiðri stöðu. Að láta eins og það sé óskastaða er bara fáránlegt.
Ásmundur (IP-tala skráð) 9.10.2014 kl. 18:55
Núverandi kerfi samræmist ekki ESB og verður því úr sögunni með ESB-aðild. En auðvitað verður ekki öllum stuðningi við landbúnað hætt.
Stuðningur frá ESB byggist hins vegar á skynsemi en ekki sérhagsmunagæslu. Auk þess munu bændur væntanlega fá innlendan stuðning vegna hnattstöðu Íslands.
Ásmundur (IP-tala skráð) 9.10.2014 kl. 19:21
Auðvitað á skyr eitthvað sameiginlegt með afurðum eins og "cottage cheese" eða kotasælu, eins og ég held að það nefnist upp á Íslensku.
En það þarf ekki að leita lengi í í mjólkurkælum víða um lönd til að finna jógúrt sem er næstum alveg eins og Íslenska skyrið.
Ég ætla ekki að fara í rifrildi út frá "mjólkurvísindalegum skilgreiningum" en sá sem fyrstu gerir athugasemd við þessa færslu talar um að skyr sé látið súrna. Ég held að flestir Íslendingar kannist við "súrt skyr".
Það hefur líka lengi tíðkast hjá Íslendingum víða um lönd, að kaupa fituskerta jógurt, sía hana í gegnum "ostaklút", ná þannig mysunni úr jógúrtinu og fá þannig afurð sem er nauðalík skyri.
Íslendingar myndu ekki hagnast með því að framleiða meiri mjólk, til útflutnings. Slíkur "merkantílismi" skilar ekki hagnaði.
Með núverandi mjólkuriðnaði greiða Íslenskir skattgreiðendur 6.6 milljarða á ári.
Leggur það sig ekki á ríflega 80.000 á hverja 4ja manna fjölskyldu á Íslandi. Eða ríflega 1700 kr á mánuði á hvert mannsbarn í landinu.
Eins og ég sagði áður hefur mjólkurverð farið hríðlækkandi um heim allan, og er útlit fyrir að það lækki enn frekar í Evrópu á næstu mánuðum.
Er þá viturlegt að ætla að fara að keyra upp mjólkurframleiðslu í landi eins og Íslandi, sem ef til vill hentar hvað síst til mjólkurframleiðslu af öllum Evrópulöndum?
G. Tómas Gunnarsson, 9.10.2014 kl. 19:33
Það er að sjálfsögðu viturlegt ef útlendingar eru tilbúnir til að greiða það verð sem þarf til að framleiðslan beri sig.
Ef það hins vegar borgar sig ekki á það einnig við um það sem við höfum leyfi til að selja í ESB og víðar. Þá ætti að hætta því snarlega.
Að gera engar athugasemdir við leyfða sölu en hrósa happi yfir því að við megum ekki selja meira er því rökleysa.
Ásmundur (IP-tala skráð) 9.10.2014 kl. 20:55
Það verður aldrei hægt að stemma framleiðslu á vörum eins og mjólk þannig af að hún "passi" akkúrat fyrir Íslendinga nú eða Norðmenn. Þessu hafa báðar þessar þjóðir (sem eru frekar landbúnaðarlega séð lokaðar) kynnst.
Þess vegna er gott að geta flutt eitthvað út, en sömuleiðis þarf að flytja inn, ef jafnvægi á að ríkja.
En það væri að mínu mati óðs manns æði að ætla að fara að hvetja til stórfelldrar aukningar í framleiðslu til þess að mæta eftirspurn eftir mjólkurafurðum erlendis. Sem enginn veit hvað varir lengi, eða hvernig endar.
Ef mjólkurframleiðsla væri alfarið kostuð af bændum, eða MS, væri það að sjálfsögðu þeirra mál. En þar sem skattgreiðendur borga 6.6 milljarða á ári með mjólkurframleiðslu, og ef illa með aukningu, þyrftu að öllum líkindum að borga brúsann er það að mínu mati ekki skynsamlegt. Það er að segja frá sjónarhóli skattgreiðenda.
Bakvið kýrrassinn kann það að líta öðruvísi út.
G. Tómas Gunnarsson, 10.10.2014 kl. 04:13
Það eru afar ósannfærandi rök (eins og flest önnur "rök" ESB-andstæðinga) að það sé hagkvæmast að framleiða hér á landi einmitt það sem ESB leyfir, hvorki meira né minna.
Það er mótsögn í því að verja kerfi en nota sama kerfi sem rök fyrir því að selja ekki meira því að það muni auka kostnað ríkisins. Það eru hins vegar sterk rök fyrir því að rétt sé að gjörbreyta kerfinu.
Það er til vitnis um afneitun ESB-andstæðinga að neita að horfast í augu við þá augljósu staðreynd að krónan veldur skaðlegum sveiflum í eftirspurn vegna verðbreytinga sem hún veldur.
Vegna þess að skyr er ekki tískuvara og hefur mikla sérstöðu á markaðnum er minni ástæða til að óttast sveiflur í eftirspurn eftir skyri en með flest annað.
Krónan er þó mikill skaðvaldur. Ekki er víst að eftirspurnin aukist aftur eftir að hún hefur minnkað vegna verðhækkana sem rekja má til gengissveiflna krónunnar.
Framleiðsla á skyri erlendis er áhyggjuefni. Ekta skyr er framleitt með íslenskri mjólk sem nýtur sérstöðu vegna þess að íslenskar kýr eru lausar við kynblöndun við aðra stofna.
Til marks um sérstöðuna lýsti Russel Crow því yfir á Twitter nýkominn frá Íslandi að hann væri kominn með fíkn í íslenskt skyr og spurði hvort hægt væra að fá það í BNA.
Fyrir mörgum árum var talið að það væri íslensku mjólkinni að þakka að sykursýki var miklu sjaldgæfari hér en í nágrannalöndunum.
Án þess að ég viti það kæmi mér ekki á óvart að tíðni sykursýki hafi síðan aukist meira hér vegna gífurlegra aukningar í sykurneyslu eftir að Albert Guðmundsson lagði niður sykurskattinn.
Það er barnaskapur að halda að hægt sé að stjórna erlendri framleiðslu á skyri eftir því sem íslenskri framleiðslu hentar. Það er veruleg hætta á að erlenda framleiðslan muni að lokum leggja í rúst sölu á íslenskri framleiðslu skyrs erlendis.
Ásmundur (IP-tala skráð) 10.10.2014 kl. 07:53
Erlend skyrframleiðsla mun eiga sér stað hvort sem Íslendingar munu koma þar að eður ei. Eins og ég bendi á í upphaflegu færslunni sést þess þegar merki í Bandaríkjunum.
Lægra verð og nálægð við markað mun gefa þeim gríðarlegt forskot. Það segir sig sjálft.
Rétt eins og Coca Cola hefði ekki þá stöðu sem það hefur í dag, ef framleiðslan færi eingöngu fram í Atlanta.
Þess vegna væri það rangt að fara að espa Íslenska framleiðendur upp í stóraukna framleiðslu á mjólk, til að anna eftirspurn sem enginn veit hvað endist lengi.
Ef verð lækkar verulega á Evrópskum mjólkurmarkaði kann það að leiða til verðlækkunar á jógúrti og öðrum vörum sem keppa við skyr.
Þá er skyrframleiðslan mun betur komin hjá erlendum framleiðendum, sem eru á sama hráefnismarkaði.
Ef aðrar mjólkurvörur lækka en skyr ekki, er alveg eins líklegt að skyrsala myndi dragast verulega saman, nú eða að verð til bænda yrði að lækka verulega.
Hvað yrði þá til bragðs tekið, ef bændur væru nýbúnir að leggja í mikinn kostnað til að auka framleiðslu? Hverjir sætu líklegast uppi með kostaðinn?
Ekta skyr er hægt að framleiða víða um heim.
Eða ert þú þeirrar skoðuna að það sé ekki framleitt neitt "ekta" jógúrt á Íslandi? Engin "ekta" camembert?
Lausar við kynblöndun segir þú. Það er einmitt eitt helsta baráttumál margra bænda að fá nýjan kynstofn kúa til landsins, til að auka framleiðni og gera mjólkurframleiðslu sína hagkvæmari.
Lambakjötið Íslenska er sömuleiðis alltaf að slá í gegn hér og þar í heiminum, en samt sitja Íslendingar uppi með þúsundir tonna af óseldu kjöti.
G. Tómas Gunnarsson, 10.10.2014 kl. 08:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.