"Stór" og annasöm helgi. Kostar þú framboðslista?

Þetta er annasöm helgi hjá mér.  Formúla og kosningar á sömu helgi, heimboð í gærkveldi, heimboð seinnipartinn í dag, svo förum við öll í barnaafmæli á morgun.

Horfði að tímatökurnar með foringjanum í morgun.  Sá "Skósmiðinn" "taka pól".  Vonandi leggur þetta línuna hjá "mínum mönnum" svona almennt um helgina.  En "Formúlan" verður vonandi spennandi í fyrramálið, þó að Monaco bjóði ekki upp á mikinn framúrakstur þarf svo sannarlega að hafa hugann við aksturinn þar. Ég man ennþá eftir kappakstrinum þar 1996, aðeins 6 bílar luku keppni í rosalegri rigningarkeppni, frakkinn Oliver Panis vann (hans fyrsti og gott ef ekki eini sigur á ferlinum) og frakkar voru kampakátir.  Parísarbúar feykikátir á barnum um kvöldið.

En að kosningunum, sá á mbl.is að kjörsókn sé dræm, í það minnsta hingað til.  Það er ekki nógu gott, auðvitað eiga allir að fara og kjósa, í það minnsta mæta á kjörstað og skila auðu, það er áhrifameira að láta vita af óánægju sinni á þann hátt, en að sitja heima.

Svo þarf ég að nöldra örlítið.  Ég hef séð það í vaxandi mæli á netinu, að íslendingar skrifa "KOSTningar" í stað "KOSninga". Ekki veit ég hverju þetta sætir, en vil þó benda á að orðið er dregið af því "að kjósa", en ekki því " að kosta".

Vissulega er ekki fráleitt að leiða hugann að því hvað þetta allt saman kostar, og hver kosti herlegheitin, en við skulum samt halda áfram að tala um að kjósa og kosningar, það er alla vegna mín skoðun.

Kostunin er reyndar í æ stærri mæli farin að flytjast yfir á kjósendur, eða skattgreiðendur sem eru jú að stærstum hluta sami hópurinn.  Stjórnmál á Íslandi eru rekin æ meir fyrir opinbert fé.  Stjórnmálamennirnir koma saman og ákveða það hið opinbera skuli gefa flokkunum. 

Engan stjórnmálamann hef ég heyrt tala um nauðsyn þess að draga úr þessu eða afnema.  Er það miður.

En það breytir því ekki að mig langar að biðja alla að tala um kosningar, en ekki kostningar.

Vonandi kjósa svo sem flestir D-lista, en það er önnur saga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband