Euroið hefði ekki tekið höggið af Íslendingum

Það er alveg rétt hjá Ólafi Ragnari að euroið hefði ekki tekið höggið af Íslendingum.  Ekki frekar en það tók höggið af Kýpurbúum.

Þar voru ekki aðeins sett á "gjaldeyrishöft", heldur þurfti að setja takmörk á notkun á gjaldmiðli eyjarinnar, eurosins.  Leitað var í ferðatöskum við brottför, til að stemma stigu við brot á höftunum.

Ennþá eru takmörk á  tilfærslur á fé á Kýpur (ég held þó að öllum hömlum hafi verið aflétt innanlands).

Atvinnuleysi er u.þ.b. 15%.  Hjá ungu fólki er talan u.þ.b. 35%.

Fasteignaverð féll hratt við bankahrunið á Kýpur, eins og eðilega gerist við slíkar aðstæður.

Launalækkanir voru algengar á bilinu 15 til 30%.

Margt af þessu er þekkja Íslendingar, en atvinnuleysi varð þó aldrei sambærilegt og toppurinn á Íslandi stóð stutt yfir.

Þeir sem halda að euro veiti almenningi skjól við slíkar aðstæður fara villu vegar.

Euroið hefur hins vegar tryggt, að mestu leyti, því alltaf eru einhverjar sveiflur,  að peningar tapa ekki verðgildi sínu.

 


mbl.is Evran hefði ekki gagnast Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er auðvelt að færa rök fyrir því að evran hefði tekið höggið af Íslendingum vegna hrunsins.

Skuldir einstaklinga og fyrirtækja hefðu ekki hækkað upp úr öllu valdi heldur þvert á móti lækkað með hverri greiðslu. Það hefði tekið versta höggið af almenningi.

Ofvöxtur bankanna hefði ekki átt sér stað enda hefðu bankarnir sýnt miklu verri afkomu, jafnvel taprekstur, ef þeir hefðu talið fram í evrum og því ekki getað réttlætt miklar fjárfestingar.

Icesave (og aðrir sambærilegir reikningar) og vaxtamunarinnlán hefðu ekki verið inn i myndinni en hvorutveggja jók mjög rekstrarfé bankanna og stuðlaði þannig að ofvexti þeirra.

Hrun krónunnar, sem að mestu átti sér stað fyrir hrun bankanna, olli mikilli ótrú á íslenskt efnahagslíf og átti þannig mikinn þátt í hruninu.

Virkjana- og stóriðjuframkvæmdir í aðdraganda hrunsins höfðu einnig áhrif til hækkunar á gengi krónunnar. Allt olli þetta risabólu sem hlaut að lokum að springa með miklum hvelli.

Vegna hrunsins höfum við Íslendingar dregist mjög aftur úr þeim evruþjóðum sem við höfum borið okkur saman við. Skuldir ríkisins eru miklu meiri en á hinum norðurlöndunum og víðar. Vaxtakjör eru miklu verri, bæði innanlands og erlendis, laun lægri, framlegð og landsframleiðsla mun minni.

Það er afar langsótt að bera saman höft á Kýpur við íslensk gjaldeyrishöft. Eins og önnur evrulönd í vanda geta Kýpurbúar kennt sjálfum sér um hvernig komið er fyrir þeim.

Öll lönd, einkum þó fámenn lönd, sem gerast skattaskjól fyrir vafasama rússneska ólígarka verða að vera undir það búin að þeir vilji taka peningana út með stuttum fyrirvara. Þess vegna ríður á hér eins og annars staðar að dreifa áhættunni.

Það sem er að gerast á Kýpur hefur lítið með evruna að gera. Þetta hefði getað gerst í hvaða smáríki sem er sem hefði haft nógu öflugan gjaldmiðil til að ólígarkarnir hefðu borið traust til hans og ef stjórnvöld hefðu sýnt sama andvaraleysi og Kýpurbúar.

Á Kýpur eru ekki gjaldeyrishöft heldur fjármagnshöft.

Ásmundur (IP-tala skráð) 27.9.2014 kl. 12:04

2 identicon

Rétt hjá Ásmundi. Pólitíkusarnir hefðu þurft að finna aðra leið en að velta vandanum á almenning. Auk þess sem vandinn hefði verið mun minni. Krónan sjálf var stór áhrifavaldur í að gera kreppuna dýpri og lengri en hún hefði þurft að vera. En hún hefur reynst mjög þægilegt tæki til eignaupptöku og launalækkana fyrir pólitíkusa sem vilja fara auðveldu leiðina frekar en að vinna vinnuna sína. Margir vina þeirra hafa þannig fengið skotleyfi á almenning og hagnast vel frá hruni.

Davíð12 (IP-tala skráð) 27.9.2014 kl. 13:13

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Skuldir einstaklinga hefðu ekki hækkað.  Fasteignaverð hefði hins vegar lækkað, kauptaxtar á Kýpur lækkuðu verulega, verkalýðsfélög sömdu um það.

Ofvöxtur bankanna hélt áfram á Kýpur, þó að skipt hefði verið í euro, það slá ekkert á, frekar í hina áttina.

Fasteignabólan Íslenska (og fjárfestingaræðið) hefði líklega orðið enn þá stærra ef að allir hefðu tekið lán á neikvæðum eurovöxtum (eins og gerðist til dæmis á Írlandi).

Þú talar um euroþjóðir og Norðurlöndin eins og eitt og hið sama.  Hvað eru mörg af Norðurlöndunum með euro?

Stöðnun hefur verið að leggjast yfir Eurosvæðið, opinberar skuldir að aukast.

Öll eurolönd í vanda geta sjálfum sér um kennt, segir þú, en Íslendingar eiga að kenna krónuninni um.  Ég held að flestir sjái í gegnum þann málflutning.

Krónan endurspeglar efnahagsstjórnunina, en vandamál margra af euroþjóðunum er að efnahaglíf þeirra endurspeglast ekki í gjaldmiðlinum.

Það er búið að afnema gjaldeyrishöft á Kýpur, en þeir þurftu að setja höft á innanlandsnotkun á eigin gjaldmiðli.   Það þurfti aldrei með krónuna.  Það er líka takmarkað hvað má flytja mikinn af euroum úr landi, rétt eins og á Íslandi.

Tæknilega heitir það annað, en afleiðingarnar eru nákvæmlega þær sömu.

IceSave hefði vissulega getað orðið, enda alltaf möguleiki að taka innlán t.d. í pundum, þó að euroið verið lögeyrir á Íslandi.

Eins og alltaf hefði skipt meginmáli í hvað þau innlán voru notuð.

G. Tómas Gunnarsson, 27.9.2014 kl. 13:23

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Davíð  Þegar fasteignaverð lækkar stórlega, kauptaxtar eru lækkaðir verulega, kallar þú það að hlutirnir bitni ekki á almenningi?

Það eina sem hefur að mestu leyti haldið verðgildi sínu á Eurosvæðinu eru peningar.  Það er ekki það sem skiptir almenning mestu máli.

þó að euroið haldi verðgildi sínu, er það lítils virði fyrir almenning, ef það er 15 til 30% minna af þeim í launaumslaginu.

Mjög víða lenti almenningur í því að eiga neikvætt eigið fé í húsnæði sínu, rétt eins og á Íslandi, og er ekki séð fyrir endann á því enn.

G. Tómas Gunnarsson, 27.9.2014 kl. 13:27

5 identicon

Almenningur hefði vissulega fundið fyrir kreppu. En það er stór munur á því að þurfa að fresta bílakaupum og fækka utanlandsferðum og því að missa aleiguna meðan útflutningsfyrirtæki og bankar hagnast um hundruði milljarða vegna veikingar krónunnar.

Og hver segir að verkalíðsfélögin hefðu samþykkt launalækkun? Að gefa sér það er fásinna. Auk þess sem þau 15-30% sem þú nefnir eru góðan spöl frá þeirri 50% rýrnun sem varð hér vegna gengisfalls.

Verð á fasteign sem þú býrð í og ert ekki að selja skiptir engu máli, nema hvað fasteignagjöld lækka. Og ef þú ert að selja og kaupa annað þá hefur sú fasteign einnig lækkað. Verðgildi peninganna er það eina sem skiptir máli, ekki hvers virði eitthvað er sem þú býrð í. Verðgildi peninganna í vasanum ráða hvað þú borðar en ekki verð íbúðarinnar þann daginn.

Hvergi lenti almenningur í því að eiga neikvætt eigið fé í húsnæði sínu samhliða hækkun lána og afborgana eins og á Íslandi. Í evrulöndunum lækkaði fasteignaverð og afborganir héldust í stað eða lækkuðu vegna lægri vaxta, hér tvöfölduðust þær. Hlutfallslega urðu hvergi fleiri nauðungarsölur og gjaldþrot en á Íslandi. Það má rekja beint og ótruflað til krónunnar.

Krónan er boð til stjórnmálamanna um að senda almenningi reikninginn frekar en að leysa vandamálin. Á því byggist hrifning þeirra á þessu veikburða örverpi.

Davíð12 (IP-tala skráð) 27.9.2014 kl. 17:01

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er alls ekki gefið að verkalýðsfélög hefðu samþykkt launalækkun, en ég sagð að það hefðu þau gert á Kýpur.  Annað var ekki í stöðunni, annað hefði einfaldlega þýtt enn meira atvinnuleysi.

Atvinnuleysi hefði því sem næst örugglega orðið meira á Íslandi, hefði landið verið með euro.  Hefðu laun undir þeim kringumstæðum ekki verið lækkuð verulega, hefði atvinnuleysið orðið enn meira.

Hefði euro verið á Íslandi, bendir margt til þess að bólan hefði orðið enn stærri, því vextir hefðu verið enn frekar neikvæðir en var.

Fjöldi fólks á Eurosvæðinu lenti í því að vera með neikvætt eigið fé í húseignum sínum, ekki vegna þess að lánin hækkuð, heldur vegna þess að fasteignaverð hrundi.  Margir búa við slíkt hlutskipti enn.  Það þarf ekki að fara lengra en til Írlands til að finna slíkt.

Lestu t.d. hér og  hér. Talið er að um það bil 400.000 Írar hafi flutt á brott síðan bankahrunið varð, íbúatalan er 4.5 milljónir.  Þeir sem flytja á brott upp til hópa ungt fólk, gjarna ágætlega menntað.  Samt hefur reyndar ekki orðið fólksfækkun, í það minnst ekki sem heitir getur, fólk frá A-Evrópu hefur komið í staðinn.

Á Spáni varð húsnæðisbólan ekki minni og sprengingin eftir því.  Nauðungarsölur þar hafa verið gríðar miklar og oft komist í fjölmiðla vegna sjálfsmorða.  

Það segir sig sjálft að það er erfitt að standa í skilum, þegar atvinna er ekki til staðar.  25% atvinnuleysi segir sína sögu.

Nú tíðkast hins vegar að segja að Spánverjar (og aðrir) geti sjálfum sér um kennt, og vissulega er nokkuð til í því.

En það stóð ekki á "Sambandssinnunum" að taka hrósið þegar "bólan" og "velmegunin" jókst og stækkaði á Spáni.   Þá var það allt "Sambandinu" og euroinu að þakka. 

En eins og víðar, þá var byggt á ódýru lánsfé og farið án mikillar fyrirhyggju.

G. Tómas Gunnarsson, 27.9.2014 kl. 17:55

7 identicon

G. Tómas, vegna þess að við vorum með krónu sem gjaldmiðil hækkuðu lán upp úr öllu valdi á sama tíma og föst mánaðarlaun lækkuðu verulega að raungildi og fasteignaverð snarlækkaði.

Þetta þýddi að margir sem höfðu lagt milljónir af eigin fé í kaup á íbúð sátu uppi með miklu hærri áhvílandi skuldir en sem nam markaðsverði íbúðarinnar.

Þetta hefði aldrei gerst ef við hefðum haft evru. Fasteignaverð hefði að vísu lækkað en föst mánaðarlaun og lánin staðið í stað.

Þá hefði ekki verið nein skuldakreppa og við hefðum algjörlega sloppið við allt þras um leiðréttingar lána sem hafa tröllriðið þjóðinni allt frá hruni. Með evru hefði verið komið í veg fyrir gjaldþrot margra og eins konar skuldafangelsi enn fleiri.

Hættum að tala um Kýpur. Ástandið þar hefur ekkert með evruna að gera nema þú viljir líta svo á að það sé sá annmarki á evrunni hve traustur gjaldmiðill hún er.

Ef þú vilt skoða reynsluna af evru væri nær að líta til þeirra landa sem við höfum borið okkur saman við.

Það hefði orðið hér kreppa 2008 þó að ekki hefði orðið hrun. Þá hefði komið sér vel að að vextir hefðu verið miklu lægri en þeir voru.

Það er auðleyst hagfræðilegt  úrlausnarefni hvernig á að koma í veg fyrir ofþenslu. Lægri vextir hefðu leitt til miklu færri vanskila og gjaldþrota.

Vandamál krónunnar byggjast á reynslu yfir nærri heila öld. Á síðustu fimmtíu árum hefur gengi hennar hrunið um meira en helming á árstímabili að minnsta kosti þrisvar.

Á sama tíma hefur gengi gömlu krónunnar gagnvart dönsku krónunni hrunið niður í 1/2000 af upprunalegu gengi eða í nánast ekki neitt. Krónan er ónýt.   

Efnahagsvandi í fáeinum evruríkjum eru hins vegar stök fyrrbæri sem ekki er hægt að kenna evru um á neinn hátt enda ljóst að vanræksla og spilling hafa komið þar við sögu.

Eins og Davíð bendir á er krónan þægilegt tæki til eignaupptöku og launalækkana. Með slíkan gjaldmiðil komast stjórnmálamenn upp með fúsk og spillingu í stað fagmennsku. Margir auðmenn geta líka makað krókinn á gengissveiflunum.

Með upptöku evru verður slíkt fúsk ekki lengur möguleiki. Þá munu skussar ekki lengur þrífast í stétt stjórnmálamanna og spilling mun snarminnka.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 27.9.2014 kl. 18:09

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég veit ekki hvaða euroríki þú ert alltaf að tala um sem samanburðarlönd.

Æ fleiri euroríki eru í hálfgerðum vandræðum.  Þó aðeins Írland, Portugal, Spánn, Grikkland og Kýpur hafi þurft á neyðaraðstoð að halda.

Ítalía og Frakkland eru í standandi vandræðum.  Húsnæðisverð í Hollandi hefur tekið skarpa dýfu, eftir heiftarlega bólu.  Þar er talað um að mikill fjöldi fólks sé fast í húsnæðisgildru og sé orðið með neikvætt eigið fé.

Finnland er líklega það land sem þú talar um sem samanburðarland sem notar euro.  Þar fer atvinnuleysi vaxandi og spáð er afar erfiðum vetri atvinnulega séð.  Miklar uppsagnir og von á fleirum.

Svíar forðast euroið eins og heitan eldinn og þakka sinni krónu.  Danmörk hefur heldur ekki viljað taka upp euroið, en er með krónuna fasta með vikmörkum.

Þar hefur reyndar sömuleiðis verið talað um vaxandi erfiðleika á húsnæðismarkaðnum og talað um að hrikti í kerfinu.

Lágir vextir leiddu ekki til færri vanskila og nauðungarsala á Írlandi og á Spáni, þvert á móti bjuggur þeir til heljarinnar bólu.  Þeir líklega óheppnir að hafa þig ekki til að ráðleggja sér hvernig forðast ætti þennsluna.

Það er efnahagsvandi í fleiri euroríkjum en færri.  Það að slíkt sé vanrækslu og spillingu að kenna eru þín orð en ekki mín.

En miðað við síðustu setningu þína, ætti euroið einmitt að útrýma slíku.  Það hefur þó ekki gerst, ef marka má þín eigin orð.  Flestir myndu líklega kalla þetta "talað í hring".

Sem heild er Eurosvæðið í standandi vandræðum.  Hátt atvinnuleysi, háar opinberar skuldir, stöðnun og hætta á verðhjöðnum.  Meira að segja prímusmótorinn Þýskaland er farinn að hiksta.

Draghi og Seðlabanki Evrópusambandsins hafa að mörgu leyti staðið sig vel, aðstæður eru erfiðar, en uppbygging og ákvarðanaferlið á Eurosvæðinu gera þeim verulega erfitt fyrir.

G. Tómas Gunnarsson, 27.9.2014 kl. 20:31

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Menn þekkja það úr Morfís-keppnum, að hægt er svo sem að færa rök að hverju sem er. Þ.e.a.s. að hægt er að setja orð og setningar saman þannig að virki trúverðugt við fyrstu sýn - en hrynji um leið og farið er að athuga mál betur eða kafa ofan í þau o.s.frv.

Krónusinnar hér uppi eru soldið í því sem að ofan er lýst. Og And-ESB sinnar reyndar líka. Fylgir þeim. Einhver svona morfísfílingur.

Röksemdin í upphafspistli gengur engavegin upp.

Vegna þess einfaldlega, að þar er því haldið fram að verra sé fyrir ríki og einstaklinga að hafa gjaldmiðil sem almennt er litið á í heiminum sem verðmæti í sjálfu sér og allstaðar tekið gilt sem slíkt og þau verðmæti eftirsótt etc. - að það sér verra en að hafa gjaldmiðil SEM ENGINN Í ÖLLUM HEIMINUM TEKUR MARK Á NEMA KANNSKI EINHVER 300 ÞÚSUND HRÆÐUR ÚTÍ BALLARHAFI Á MÖRGUM HINS BYGGILEGA HEIMS.

Þegar af feitletruðum sökum er allt upphafserindið bara rökfræðitrikk og eða rökfræði-afvegaleiðing.

Segir sig alveg sjálft að betra er að hafa verðmæti heldur en engin verðmæti. Bara einfaldur kommon sens.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 27.9.2014 kl. 22:20

10 identicon

Samanburðarlöndin eru þau lönd sem við helst bárum okkur saman við fyrir hrun.

Þetta eru norðurlöndin og Vesturevrópulöndin. Ég tel þó rétt að undanskilja Bretland, Þýskaland g Frakkland vegna þess að þau eru margfalt stærri en öll hin. Reyndar eru öll hin margfalt stærri en Ísland ef Lúxemborg er undanskilið.

Þessi lönd eru ýmist með eða án evru og er ekki að sjá að evrulöndin komi verr út úr samanburðinum nema síður sé. Evrulandið Lúxemborg kemur best út með Noreg án evru og utan ESB í öðru sæti.

Þar sem Lúxemborg er eina landið sem er af svipaðri stærðargráðu og Ísland væri fróðlegt að bera þessi tvö lönd saman ekki síst vegna þess að Lúxemborg er alþjóleg fjármálamiðstöð af því taginu sem Ísland stefndi á að verða fyrir hrun. Það var allavega draumur forsætisráðherrans Geirs Haarde. Hér eru niðurstöðurnar.

Kaupmáttur meðallauna í Lúxemborg er 68% hærri en á Íslandi.

Verg landsframleiðsla er 2.43 sinnum hærri í Lúxemborg en á Íslandi.

Opinberar skuldir Íslands eru 6.5 sinnum hærri en Lúxemborgar og bera miklu hærri vexti.

Ef við hefðum haft vit á að ganga í ESB og taka upp evru gætum við hugsanlega verið i sporum Lúxemborgar. Í staðinn verðum við að sætta okkur við að vera i flokki með aðþrengdum Suðurevrópulöndum. 

Ítalía er í næsta sæti fyrir ofan okkur varðandi kaupmátt launa. Spánn og Grikkland eru svo í næstu sætum fyrir neðan okkur. Kýpur er nokkru ofar og öll Norður- og Vesturevrópulöndin langtum ofar.

Heimildir eru frá Wikipedia. Ég sleppti hlekkjum vegna þess að þeir eru allt of langir.

Ásmundur (IP-tala skráð) 27.9.2014 kl. 23:08

11 Smámynd: Snorri Hansson

Hér er ágæt umræða menn rífast um mismun á ágæti  Evru og eigin myntar.

Auðvitað er það alveg ágætt. En þið minnist ekki á aðalatriði málsins.

Það sem ræður  velgengni þjóða er hvort góðir atvinnuvegir þrífast og græða eða ekki.

Og hvort sala afurða þeirra er meira verðmæti en það sem flutt er inn.

Hættum að níða niður atvinnuvegina okkar!!

 

Snorri Hansson, 28.9.2014 kl. 01:43

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Gjaldmiðill er í sjálfu sér ekki verðmæti, heldur ávísun á verðmæti.  Verðmæti á milli gjaldmiðla hefur alltaf sveiflast verulega, sérstaklega þegar litið er til lengri tíma.

Á ákveðnum tímapunkti hafði bandaríkjdollar misst u.þ.b. 80% af því verðgildi sem hann hafði gegn yeni árið 1970. Það þýðir ekki að bandaríkjadollar hafi verið ónýt mynt, eða ekki verðmæti.

Hér má sjá graf yfir euro vs. dollar.  Þar má sjá að verðmæti euro hefur verið frá því að kaupa u.þ.b. 85 cent og upp í að kaupa nærri því 160 cent.

Hvers vegna skyldi euroið hafa verið svona verðlítið á tímabili?  Ætli það megi ekki að stórum hluta rekja til Þýskalands, sem lengi var talað um sem "sjúka manninn í Evrópu"  Þá voru þær umbætur sem Þýskir fóru í ekki farnar að virka af fullum krafti.

Það sem gerðist hins vegar víða við upptöku euro, var það að breytingar á innviðum landanna voru óbreytt.  Gjaldmiðill breytir slíku ekki.

Það sem breyttist hins vegar var aðgangur að lánsfé.  Ekki bara vegna euros, heldur var líka á þeim tíma ofgnótt lánsfjár í heiminu.  Íslendingar ættu að vita eitthvað um það.

Þó hófst tími velmegunar, þennslu og allir veltu sér upp úr seðlum.  Þá var til siðs að benda á þessi lönd og segja:  Sjáið hvað euroið og "Sambandið" gerði fyrir þau.  Farið var að líta á euroið sem "kraftaverkagjaldmiðil" og "Sambandsaðild" sem "töfralausn", rétt eins og Árni Páll boðaði sællar minningar.

En auðvitað kom að "skuldadögunum" hjá þessum þjóðum (og Íslendingum og öðrum þeim sem höfðu gengið glaðir um lánsfjárdyrnar).

Þá er þetta auðvitað allt vanrækslu, spillingu og þeim sjálfum að kenna.  Sem er vissulega þó nokkuð til í.

Það er jú efnahagurinn og efnahagsstjórnunin sem skiptir mál og það er affarasælla að gjaldmiðillinn taki mið af honum.  Það er vissulega möguleiki að efnahagsstjórnunin taki fyrst og fremst mið af gjaldmiðlinum, en það hefur ekki mörgum tekist.

Lúxembourg er svolítið sérstakt tilfelli, þar er margt sem skekkir samanburðinn.  Ekki hvað síst sú staðreynd að talið er að meira an 150.000, einstaklingar komi og vinni í Lúxembourg (án þess að búa þar) frá "Stór Lúxemborgarsvæðinu" á hverjum virkum degi (og auðvitað stundum um helgar).  Hvað eru margir vinnandi einstaklingar á Íslandi?

Það voru nú aðrir en Geir Haarde sem töluðu hvað fjálglegast um fjármálamiðstöð, og aðrir landfundir sem bankamenn voru ræðumenn á, en það skiptir ekki meginmáli.

Ég á erfitt með að ímynda mér Ísland við hlið Luxembourgar, og tel það ekki raunhæft, hvorki með euro eða án. 

Ísland er ekki svo illa statt í alþjóðlegum samanburði, þó vissulega hafi leiðin legið niður á við, þó að landi sé ef til vill eitthvað rétta úr kútnum.  Hér og hér eru töflur.

Kaupmáttur á Íslandi þyrfti auðvitað að vera meiri, en það byggist frekar á því kerfi sem hefur verið byggt upp, en því hvað gjaldmiðill er.

Það er ekkert vandamál (og oft talin kurteisi) að setja inn hlekki.  Það er gert með copy/paste og síðan má tengja hlekkinn við eitt orð, eða fleiri með því að nota hlekkja táknið.  Mér dettur t.d. í hug að þú hafir ætlað að vitna til þessa töflu frá ILO, 2009.

Það er svo spurning hvort þarna er eingöngu miðað við laun, eða hvort atvinnulausir og þeir sem eru dottnir út af atvinnuleysisbótum eru þarna með?  Getur skipt meginmáli, sérstaklega í löndum sem eru með atvinnuleysi á bilinu 10 til 25%

@Snorri  Allt tengist þetta.  Auðvitað er deilt um hvaða gjaldmiðill er bestur fyrir atvinnuvegina.  Sitt sýnist hverjum í því eins og öðru.

Fall krónunnar (í samræmi við efnahaginn) skapaði útflutningsgreinum og ferðaþjónustu gríðarleg tækifæri.  Sömuleiðis þeim sem framleiða í samkeppni við innflutning.

Þess vegna varð atvinnuleysi á Íslandi aldrei sambærilegt við það sem finna má í þeim löndum Eurosvæðisins sem urðu illa úti.

En ég held að enginn sé að níða niður atvinnuvegina.

G. Tómas Gunnarsson, 28.9.2014 kl. 08:16

13 identicon

Ég nota oftast hlekki þegar ég vitna í heimildir. Í þetta skipti sleppti ég því vegna þess að hver hlekkur tók margar línur. Þetta voru nokkrir hlekkir með nýjustu tölum frá Wikipedia.

Að nota eitt orð í stað slóðans er nokkuð sem ég kann ekki. Ef þú útskýrir fyrir mér hvernig það er gert skal ég setja inn hlekkina.

Að sjálfsögðu sveiflast gengi allra gjaldmiðla gagnvart einstökum öðrum gjaldmiðlum. Vandinn með krónuna er hins vegar að sveiflurnar eru margfalt meiri og hraðari en sveiflur td evru. 

Á Íslandi virðast skattalækkanir auðmanna og tekjuhárra eiga mikinn hljómgrunn sem er stórundarlegt á sama tíma og heibrigðiskerfið er að hruni komið og fjárveitingar til menntamála eru linnulaust skertar svo að ekki sé minnst á miklar skuldir ríkissjóðs.

Það er því fróðlegt að sjá að hæsta skattprósentan í Lúxemborg er 52.45% meðan stefnt er að því að hún fari undir 40% á Íslandi. Áðurnefnd samanburðarlönd eru öll með miklu hærra hæsta skattþrep. Slík kjarajöfnun á stóran þátt í velmegun þeirra.

Með hóflegum auðlegðarskatti og hátekjuskatti væri hægt að byggja nýtt sjúkrahús, rétta við heilbrigðis- og menntakerfið og borga niður skuldir. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.9.2014 kl. 09:28

14 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Skattprósenta segir ekki nema hálfa söguna, "skattaleg samkeppnishæfi" skiptir ekki minna máli.  Þar kemur Luxembourg mun betur út en Ísland.

Hlekkirnir skipta ekki meginmáli, en t.d. hér að ofan, þá fer ég á síðuna þar sem taflan er.  Skyggi slóðina og ger "copy".  Síðan skyggi ég "skattaleg samkeppnishæfi" og klikka með músinni á "hlekkjatáknið" sem er hér fyrir ofan (ásamt brosköllunum og því).  

Þá opnast lítill gluggi, þar sem ég "paste" slóðinni inn í efstu línuna og vel svo hvort ég vil að opnist nýr gluggi eður ei.

Sveiflurnar í Íslensku efnahagslífi hafa að líkindum verið margfalt meiri og hraðari en í flestum eurolöndum og eru það að öllum líkindum enn.  Ef til vill lagast það með frekari iðnaðaruppbyggingu og þegar fleiri stoðum verður skotið undir efnahagslífið.

Í því sambandi, ef því að við vorum að tala um Luxembourg, þá er Luxembourg auðvitað fjármálamiðstöð, og hefur gríðarlegar tekjur sem slík, en það er sömuleiðis gríðars járn, stál og iðnaðarframleiðsla í landinu.  Sem að mörgu leyti má segja að hafi lagt grunninn.

G. Tómas Gunnarsson, 28.9.2014 kl. 09:41

15 identicon

Athyglisvert að Lúx skuli koma mun betur út en Ísland í skattalegu samkeppnishæfi þrátt fyrir miklu hærri skattprósentu á einstaklinga.

Hæsta skattprósenta á einstaklinga er enn hærri fyrir Svíþjóð 57%, Danmörku 61,03%, Finnland 61,96% og Belgíu 64%. Öll standa þau Íslandi framar í skattalegu samkeppnishæfi.

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_tax_rates

Ég held líka að það sé mjög hæpið að nokkur flytji úr landi eða til landsins þó að hæsta skattprósentan hækkaði úr 46% í 52% eins og í Lúx í stað þess að lækka niður fyrir 40% eins og nú stendur til.

Þessi 12% munur færi langt með að koma heilbrigðis-og menntakerfinu á réttan kjöl og greiða niður skuldir.

Slík tekjujöfnun er einnig sanngirnismál því að allir vita að margir bera minna úr býtum en þeir eiga skilið auk þess sem tekjur margra eru mun hærri en hægt er að réttlæta.

Takk fyrir leiðbeiningarnar. Ég skoða þær seinna.

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.9.2014 kl. 22:55

16 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er auðvitað svo að það dugir ekki að horfa eingöngu á %, heldur er það skattkerfið sem gildir.

En svo sýnist mér 52% á vikipediu ekki vera rétt, en ég er ekki það vel inn í skattamálum í Lux, að ég geti fullyrt um slíkt.

En samkvæmt upplýsingum hér, er 40% skattur í Lux, ef launin fara yfir 100.000 euro á ári.  Er það ekki um 15 milljónir, sem sé ríflega 2 milljónir á mánuði.

Hér er svo reiknivél frá skattinum í Lux, þar virðist skatturinn á milljón euro (eða 150.000 milljónir, vera tæplega 39%.

Mér sýnist hins vegar að misskilningurinn sé að skatturinn í Lux er 52% þegar "social security charges" eða "samfélagsgjöld" ef ég þýði það hér og nú.

Og í hvað er það notað?  Samkvæmt þessari síðu er það notað í: It covers family benefits, unemployment insurance, work accident insurance, health care, old age and invalidity pensions, and long-term care insurance.

Þetta er því sjúkratrygging, slysatrygging, lífeyrissjóður, og fleira. 

Ef það sem Íslenskri launþegar greiða í slíkt er tekið með, hver er þá skattprósentan á Íslandi?

 Nýleg frétt Viðskiptablaðsins snertir þetta mál.

Það er með þetta eins og margt annað, hráar tölur segja lítinn part sögunnar.

En háir skattar hafa sjaldnast reynst vel.  Það þarf ekki annað en að skoða nýleg dæmi frá Frakklandi og hvernig það hefur reynst þeim og Hollande.

G. Tómas Gunnarsson, 29.9.2014 kl. 05:08

17 identicon

Þegar Stefán Ólafsson birti gögn sem sýndu að skattar á Íslandi eru lágir í samanburði við önnur lönd svaraði Brynjar Níelsson á þann veg að það þyrfti að bæta við lífeyrisgreiðslum á Íslandi til að fá sambærilega tölu tölu vegna þess að lífeyrisgreiðslur í öðrum löndum væru fjármagnaðar af skattgreiðslum.

Þetta er einfaldlega rangt. Í fyrsta lagi greiða menn  í lífeyrissjóði í öðrum löndum. Munurinn er aðeins sá að oftast eru sjóðirnir ekki söfnunarsjóðir eins og hér heldur gegnumstreymissjóðir. Þessar lífeyrisgreiðslur eru því ekki hluti af skattgreiðslum.

Í öðru lagi eru lífeyrisgreiðslur á Íslandi fjármagnaðar að stórum hluta af ríkissjóði. Hér á ég við greiðslur Tryggingarstofnunar. Þær greiðslur eru álíka háar og þær sem koma frá lífeyrissjóðunum.

Lúxemborg skiptir því sem önnur lönd kalla skatt í tvennt, skatta og velferðargjöld. Það ber því að taka með hvorutveggja þegar borið er saman við skatta annarra landa eins og Wikipedia gerir. Þegar vélin reiknar út hámark 40% skatt þá vantar inn í það velferðargjöldin.

Hæsta skattþrep í Lúx miðast við 100.000 evrur sem er 15.27 milljónir króna á ári eða um 1.270.000 kr á mánuði (ekki rúmar tvær milljónir). Það vekur athygli að næsta skattþrep þar fyrir neðan er aðeins 1% lægra og miðast við tekjur fyrir ofan 530.000 kr eða þar um bil. 

Hluti af velferðargjöldum í Lúx er lífeyrisgreiðslur. Það er greinilega aðeins hluti lífeyrisgreiðslna eins og lífeyrisgreiðslur TR á Íslandi. Munurinn er hins vegar sá að Lúxemborg virðist hafa sérstaka tekjustofna fyrir velferðargjöldin sem væntanlega skýrir þessa skiptingu í skatta og velferðargjöld.

Hæsta skattprósenta á einstaklinga er lægst á Íslandi af þessum samanburðarlöndum. Í ljósi alvarlegrar stöðu og mikilla skulda ríkisins er það galið að lækka hana enn frekar. Í staðinn ætti að bæta við hærra þrepi og nálgast þannig samanburðarþjóðirnar. Ekki veitir af tekjunum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.9.2014 kl. 08:46

18 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Reikningur minn mánaðartekjum ber þess merki að ég hafi ekki verið almennilega vaknaður, ég biðst forláts á því. Þau mistök eru alfarið mín.

En það sem þú kallar velferðargjöld, eru að hluta til það sem á Íslandi kallast "launatengd" gjöld, þar þau m.a. renna til að borga atvinnuleysisbætur o.s.frv.

Það er því ekki rökrétt að ætla að taka það sem hreinan tekjuskatt.

Lífeyrissjóðir eru með ýmsum hætti, og ekki ætla ég að halda því fram að ég sé sérfræðingur í þeim, en í mörgum af þeim löndum sem leggja, eins og Luxembourg sérstakt gjald ofan á laun, fá þeir mismunandi greitt, eftir framlagi, en ætla ekki að fullyrða um hvernig það er í Luxembourg. Þó hefur mér skilist að hið opinbera greiði u.þ.b. 70 af þeim launum sem viðkomandi hafði. En þá að hámarki sem var í kringum 6000 euro á mánuði. Ef útlendingur hefur unnið það stutt í Luxembourg að hann á ekki rétt á eftirlaunum, þá fær hann það sem dregið var af honum til eftirlauna (og þori ekki að fullyrða hvað stór hluti það er af "velferðargjöldunum" endurgreitt.

Því er að stórum hluta, en ekki alfarið um "eign" að ræða, þó að vissulega byggi kerfið á gegnumstreymi.

Þeir sem borga meira, fá meira. Það er því tvennt ólíkt og lágamarksgreiðslurnar sem TR innir af hendi.

Année d'imposition 2014

Type et périodicité du revenu salaire annuel

Classe d'impôt 1 / 0

Montant soumis à l'impôt 1.000.000,00

Impôt suivant barème 389.314,00

Fonds pour l'emploi 34.043,00

Total dû 423.357,00

Taux moyen (compte non tenu du fonds pour l'emploi) 38,93 %

Hér setti ég inn í reiknivélina 1.000.000 euro tekjur. Eftir því sem reikinvélin kom með, væri heildarprósentan ca. 42.3%

En það er eins og ég sagði áður, skattkerfið sem skiptir mun meira máli en %.

G. Tómas Gunnarsson, 29.9.2014 kl. 09:12

19 identicon

Það eina í velferðargjöldum í Lúx sem er ekki innifalið í sköttum á Íslandi eru atvinnuleysistryggingargjöld sem fyrirtækin greiða hér. Þetta skiptir þó ekki máli varðandi samanburðinn úr því að íslenskir launþegar greiða ekki atvinnuleysistryggingargjöld annars staðar.

Ég held að ég geti fullyrt að öll þessi lönd séu með sérstaka lífeyrissjóði. Holland er með söfnunarsjóði eins og við en hin eru væntanlega öll með gegnumstreymissjóði.

Ég býst við að beinum greiðslum ríkjanna sé eins og hér fyrst og fremst ætlað að greiða þeim sem hafa engan eða takmarkaðan rétt í lífeyrissjóði. Annars væri enginn tilgangur með slíku tvöföldu kerfi.

Tölur Wikipedia eiga að vera sambærilegar. Þær sýna að hæsta skattprósentan á Íslandi er lægri en allra samanburðarlandanna þrátt fyrir að nú stendur til að lækka hana enn frekar með því að fella niður hæsta þrepið á Íslandi. Eftir það verður hæsta skattprósentan hér ekki bara lægst heldur langlægst.

Það kemur ekki á óvart að þau lönd þar sem velmegun er mest eru með hæstu tölur fyrir hæstu skattprósentu. Það telur drjúgt í að halda uppi velferðinni. Hér kjósa menn frekar laskað heilbrigðis- og menntakerfi.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.9.2014 kl. 11:06

20 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Eins og ég sagði áður, áttu rétt í Luxembourg eftir hvað greiðslurnar hafa verið háar, þó að hámarki 6000 euro á mánuði.  Er það ekki u.þ.b. 900.000 ISK?

Það er langur vegur frá því sem TR er að greiða út, eftir því sem mér hefur skilist.  Því eiga þessar greiðslur mikið sameiginlegt með Íslenska lífeyrisjóðakerfinu, eiginlega frekar en skattkerfinu.  Þó verður að taka tillit til hámarksins.

Því er ekki óeðlilegt að taka lífeyrisgreiðslur, í það minnsta að stórum hluta annað hvort inn í Íslensku tölurnar, eða taka þær út úr þeim Luxembourgsku.

Þetta er þeirra lífeyrissjóðskerfi, en svo borga sjálfsagt margir í sína eigin sjóði aukalega, rétt eins og tíðkast á Íslandi.

Síðan þarf að skoða skattkerfið.  Það þýðir ekki að einblína á %.  

G. Tómas Gunnarsson, 29.9.2014 kl. 11:23

21 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má bæta því við hér að þeir, t.d. útlendingar, sem ekki vinna nógu lengi í Lux, til að eiga rétt á eftirlaunum, fá sinn hluta endurgreiddan.  Hvernig er þá hægt að líta á þetta sem skatt?

G. Tómas Gunnarsson, 29.9.2014 kl. 11:37

22 identicon

Aðalatriðið er að við séum að tala um sambærilegar tölur i samanburði milli landa.

Þess vegna verður að bæta við skatta einstaklinga i Lúx það sem þeir telja ekki með en aðrar þjóðir telja með. Það breytir engu í því sambandi hvort útlendingar sem flytja úr landi fái endurgreitt því að þá tapa þeir rétti.

Annars væri kannski einfaldara að skoða hæstu skattprósentur í Danmörku, Finnlandi, Belgíu og Svíþjóð sem eru mun hærri en í Lúx án þess að þeim sé skipt í skatta og velferðargjöld.

Mér sýnist ljóst að 12-13% velferðargjöld geti ekki dekkað háar lífeyrisgreiðslur miðað við allt annað sem er innifalið í þessari prósentu.

Lífeyrisgreiðslur eru því bara brot af þessari prósentu. Íslendingar greiða 12% bara í lífeyrisgreiðslur og það hrekkur ekki til sérstaklega hjá ríki og sveitarfélögum sem greiða mismuninn.

Í ljósi þessa skil ég ekki hvernig einhver getur átt rétt á 900.000 í lífeyri frá ríkinu nema hugsanlega ef um ríkisstarfsmann sé að ræða. 

Ertu með hlekk þar sem kemur fram að þetta sé lífeyrir sem ríkið greiðir vegna starfa hjá einkafyrirtækjum?

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.9.2014 kl. 15:07

23 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

En það erum við ekki.  "Velgerðargjöldin" í Lux, mynda eign, og þeir greiða allt að 900.000 (eða 6000 euro á mánuði.).

Ég hafði þetta reyndar eingöngu eftir kunningja mínum, sem vann all nokkur ár í Lux, en var ekki vandræðum með að finna þetta á netinu (google er besti vinur minn).

Þarna kemur fram að fyrirtækin borgi einnig og svo er framlag frá hinu opinber (sem er þá innifalið í hinni hefðbundnu skattprósentu).

Það er því ljóst að 12% sem leggjast á mynda í raun eign.

Það er eins og ég sagði ekki hægt að einblína á %, það verður að skoða skattkerfið í heild.   Hversv vegna skyldi skattkerfið t.d. í Svíþjóð vera talið "samkeppnishæfara" en á Íslandi?

 

G. Tómas Gunnarsson, 29.9.2014 kl. 16:19

24 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

"Skattalegt samkeppnishæfi" Finnlands, Svíþjóðar, Danmerkur og Noregs er t.d. metið hærra en Íslands.

Hvernig skyldi standa á því?

Þurfa Íslendingar ef til vill "Norræna stjórn"?, sem stefnir að því að vera á skattalegu "leveli" við hin Norðurlöndin?

Ég veit, ekki en það væri vert að einhver rannsakaði það.

G. Tómas Gunnarsson, 29.9.2014 kl. 16:24

25 identicon

Samkvæmt þessu eru lífeyrisgreiðslur í Lúx fjármagnaðar af launþegum sjálfum, vinnuveitendum þeirra og ríkinu. Væntanlega er það aðeins hluti ríkisins sem er er talin með í hæstu skattprósentu upp á 52.45% rétt eins og hjá okkur.

Ég dreg þessa ályktun af því að hlutur lífeyrissjóðanna í sköttum í Lúx er augljóslega allt of lítill til að hann geti fjármagnað fullan lífeyri auk þess sem tölur Wikipedia eiga að vera sambærilegar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.9.2014 kl. 16:59

26 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það held ég ekki.  Lífeyrisgreiðslurnar eru fjármagnaðar 1/3 af launagreiðendum, 1/3 af 12% "velferðargjaldinu", sem við höfum verið að tala um og 1/3 af hinu opinber, sem er á innifalið í 40% skattinum..

Þannig skyldi ég þetta kerfi.

Það er síðan aðeins þessi 1/3 sem launþeginn greiðir, sem er endurgreiddur ef hann á ekki rétt á eftirlaunum.

En þetta fyrirkomulag, nær líka yfir t.d. löng veikindi, eða örorku (myndi þá bæta allt að 70% af launum, með 6000 euro hámarki), sem, þannig að þá kemur þetta eftirlaunakerfi inn, rétt eins og Íslenska lífeyrissjóðakerfið, ef ég hef skilið það Íslenska rétt.

Þessar greiðslur eru því mun nær Íslenska lífeyrissjóðakerfinu, en Íslenska skattkerfinu.

G. Tómas Gunnarsson, 29.9.2014 kl. 18:50

27 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Wikipedia er bara Wikipedia, gott framtak og þarft, en skrifað af þeim sem hafa áhuga á því að skrifa, og er langt í frá eitthvað sem hægt er að treysta, en það gildir reyndar um svo margt sem finna má á vefnum.

G. Tómas Gunnarsson, 29.9.2014 kl. 18:51

28 identicon

Það er útilokað að þessi 12% velferðargjöld nái yfir fullan lífeyri vegna þess að lífeyririnn er bara brot af þessari prósentu sem nær yfir margt annað. Þess vegna hlýtur meirihluti lífeyrisins að vera undanskilin í velferðargjöldum.

Það er því nærtækt og rökrétt að ætla að þetta sé aðeins hlutur ríkisins í lífeyrisgreiðslum. Þar sem Lúxemborg fær sérmeðferð hjá Wikipedia, þar sem þessum greiðslum er bætt við, verður að telja víst að það sé gert til að fá sambærilega prósentu og fyrir hin löndin.

Í ljósi þess að Holland er einnig með 52% í hæstu skattprósentu og öll hin samanburðarlöndin með enn hærri prósentu er langsótt að ætla  að Lúx skeri sig úr með miklu lægri tölu þvert gegn upplýsingum Wikipedia. Þegar við bætist að fullur lífeyrir rýmist greinilega ekki innan 12% velferðargjalda fer þetta varla neitt á milli mála.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.9.2014 kl. 23:53

29 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þú verður að lesa það sem ég skrifaði að ofan.  Velferðargjaldið stendur undir 1/3 af eftirlaununum.

En aðalmálið er að það myndar eign, og getur því ekki talist skattur.  Það er að segja eftirlaunin eru greidd eftir því sem þú hefur greitt inn, u.þ.b. 70% af tekjum, en þó hámark 6000 euro á mánuði.

Það er ekki flóknara en það.

G. Tómas Gunnarsson, 30.9.2014 kl. 06:43

30 identicon

"It covers family benefits, unemployment insurance, work accident insurance, health care, old age and invalidity pensions, and long-term care insurance."

Ég tók kannski fullmikið upp i mig með því að telja það útilokað að fullar lífeyrisgreiðslur væru innifaldar í þessu 12-15% velferðargjöldum því að þarna er auðvitað bara um að ræða hlut launþegans.

Það er þó allavega ljóst af ofangreindu að mest af þessu er innifalið í skattgreiðslum á Íslandi. Þetta eru td heilsugæsla, barnabætur, vaxtabætur, umönnunarbætur og hlutur TR í lífeyrisgreiðslum. Auk þess er ekki nákvæmlega sambærilegt hvað menn fá fyrir skattinn.

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.9.2014 kl. 07:24

31 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það sem skiptir mun meira máli en skattaprósentan, er skattkerfið.  Ég þekki ekki vel til í Hollandi.  Vissulega eru þar háir skattar.  Mér er sagt að af u.þ.b. 100.000 euroa árslaunum, greiði einstaklingur ca. 44% skatta.

En síðan eru alls konar "glufur", sérstaklega tengdar húsnæði og öðru slíku.  Húsnæðismarkaðurinn í Hollandi er reyndar sorgarsaga, en það er önnur ella.

Svo má minnast á eignaskatt.  Eignaskattur er í Hollandi, 1.2 eð 1.3%.  Hann leggst á bankainnistæður, hlutabréf og svoleiðis.  Eigið húsnæði er undanskilið og "eðlilegur" bíll.  Á móti er enginn fjármagnstekjuskattur í Hollandi. Núll.

En það eru stórir brestir í Hollenska efnahagslífinu, vaxandi atvinnuleysi, stöðnun í efnahagslífinu og  stórt vandamál á húsnæðismarkaðnum.

Ofan á allt hefur Holland glímt við verðhjöðnun upp á síðkastið.

Hér má lesa grein úr Spiegel, að vísu frá í fyrra, hvernig húsnæðisbólan var blásin upp (eins og svo víða).

En en enn og aftur er það skattkerfið sem skiptir máli, ekki einstakar prósentur.  

Hvers vegna skyldi Ísland vera álitið með lélegt "skattalegt samkeppnishæfi", þó að % séu oft lægri?

Atvinnuleysisbætur eru ekki inni Íslensku skattgreiðslunum, og sambærileg eftirlaun og örorkubætur og "velferðargjaldið" veitir í Lux eru að stærstum hluta hjá lífeyrissjóðum á Íslandi.  Ég þekki ekki nógu vel til með vinnuslysatryggingu á Íslandi, er það ekki í það minnsta að hluta hjá verkalýðsfélögum og greitt sérstaklega til þeirra fyrir það?

G. Tómas Gunnarsson, 30.9.2014 kl. 08:21

32 identicon

Hæsta skattprósenta á Íslandi er 46%. Það er ljóst að meira en helmingurinn af "velferðargjöldum í Lúx er innifalinn í sköttum á Íslandi. Hvernig sem á það er litið er því ljóst að sambærileg skattprósenta fyrir Lúx er hærri en á Íslandi áður en hún er lækkuð hér.

Í Lúx eru ótrúlega mörg skattþrep. Skattkerfið þar einkennist af viðleitni til tekjujöfnunar. Skattar eru lágir á lágar tekjur en hæsta skattprósentan er há.

Ef greiðslum launþega í lífeyrissjóð er sleppt er þar greiddur skattur einhvers staðar á bilinu 47-51% á tekjur yfir 530.000 (upp að ákveðnu marki) en hér innan við 40%.

Skattar í hinum samanburðarlöndunum í ESB virðast enn hærri. Það er því dapurlegt að hér standi til að fella niður hæsta skattþrepið og rýra þannig tekjur ríkissjóðs sem brýn þörf er fyrir til að bæta laskað heilbrigðis- og menntakerfi og borga niður skuldir. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.9.2014 kl. 10:54

33 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Tryggingagjald á Íslandi er 7.6% eða eitthvað svoleiðis er það ekki?

Hvert rennur það?  Skoðaðu lög um tryggingagjald 

Það fer til greiðslu atvinnuleysisbóta og ellilífeyris og slysabóta.  0,08 prósent til  Vinnueftirlitsins.

Aukagjaldið í Lux er ekki nema tæpum 5% umfram Tryggingagjald.  Í Lux tryggir það eftirlaun í hlutfalli við greiðslur.

G. Tómas Gunnarsson, 30.9.2014 kl. 12:09

34 identicon

Ég átta mig ekki alveg hvað þú ert að fara.

Á Íslandi greiða launþegar sjálfir 4% af sínum launum í lífeyrissjóði. Það gæti verið svipað í Lúx. Ef það er innifalið í þessum aukagjöldum í Lúx ber að draga það frá til að fá sambærilegar tölur. Annað í aukagjöldunum er hluti af sköttum launþega eða atvinnurekendagjöldum á Íslandi.

Hæsta skattprósenta á Íslandi er nú 46%. Sambærileg tala fyrir Lúx yrði því 48.5%. Með fyrirhugaðri lækkun á kjörtímabilinu lækkar hæsta skattprósentan á Íslandi niður fyrir 40%.

Við höfum ekki efni á þeirri tekjuskerðingu. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.9.2014 kl. 14:39

35 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Eins og ég hef marg oft sagt, verður að líta á heildarmyndina.  Á allt skattkerfið.  4. í lífeyrissjóð, það munar um það, að mörgu leyti er Íslenska tryggingagjaldið svipað "velferðargjaldinu", á að flokka tryggingagjaldið sem skatt?

Það verður að líta á heildarlaunakostnaða fyrirtækja og sjá hvað hið opinbera tekur og hvað launþeginn heldur eftir.  Síðan verður líka að líta til þess hvort að eitthvað af því sem launþeginn greiðir (eða atvinnurekandin, en það er nokkuð það sama) myndar eign.  Velferðargjaldið í Lux myndar eign, á þann hátt að því meira sem er greitt, því meira fæst til baka, þó með hámarki).  Ekkert af Íslenska skattkerfinu myndar þannig eign, nema ef skyldi vera tryggingagjaldið, sem að einhverju marki tryggir þeim sem fá atvinnleysisbætur og fæðingarorlof, hærri greiðslur (er það ekki með einhverju hámarki einnig?).

Síðan verður auðvitað að líta til undanþága og annars slíks, sem ég treysti mér ekki til að fullyrða um.  En einhverra hluta vegna er Íslenska kerfið, ekki metið hátt í "skattlegu samkeppnishæfi".  

Hvers vegna skyldi það vera?

G. Tómas Gunnarsson, 30.9.2014 kl. 15:07

36 identicon

"Velferðargjaldið" nær yfir miklu meira en íslenska tryggingargjaldið sem nær eingöngu yfir elli- og örorkulífeyri og slysatryggingar ásamt atvinnuleysistryggingum.

Heilsugæsla, fjölskyldubætur (barnabætur og vaxtabætur) og umönnunarbætur eru ekki í tryggingargjaldinu en eru hluti af sköttum á Íslandi. Auk þess greiða íslenskir launþegar ekki tryggingargjöld heldur atvinnurekendur.

Skattar fyrirtækja eru lágir á Íslandi aðeins 20%. En fyrirtæki á Íslandi greiða tryggingargjaldið. Í Lúx greiða launþegar það, allavega að hluta. Þetta gæti að hluta skýrt hvers vegna Ísland kemur ekki vel út í samkeppnishæfi fyrirtækja.

Annars á maður ekki að taka of mikið mark á svona stigagjöf sem virðist oft lítið henta íslenskum aðstæðum. Í aðdraganda hrunsins lækkuðu skattar á fyrirtæki um meira en helming. Fóru úr 30+ í 15%.

Ég varð ekki var við að það breytti neinu varðandi erlendar fjárfestingar en til þess var leikurinn gerður. Hins vegar átti það sinn þátt í ofvexti bankanna.

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.9.2014 kl. 16:32

37 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er blekking að halda að fyrirtæki greiði tryggingagjaldið, auðvitað er það hluti af launakostnaði.  Hvernig má annað vera?

Ef ég ætla að ráða starfskraft, reikna ég út hvað það kostar mig í heildina.

Það var m.a. vegna þess sem Þjóðverjar réðust í umbætur s.s. Harz IV.  Heildarkostnaður skiptir fyrirtæki máli, annað er bara hjóm.

Skattprósenta á fyrirtæki er eitt.  Skattar sem fyrirtæki greiða er annað.  Þeir sem ekki skilja það, dæma sig frá umræðunni.

Til dæmis í Eistlandi (sem er í fyrsta sæti í "skattlegu samkeppnishæfi", er skattprósenta á fyrirtæki hærri en á Íslandi.

En fyrirtæki í Eistlandi, greiða ekki skatta af hagnaði sem er um kyrrt í fyrirtækinu.  Aðeins þegar fyrirtækið greiðir út arð, er hagnaðurinn skattlagður.

Þannig greiddu hinir Sænsku bankar sem eru ráðandi á markaðnum í Eistlandi, svo gott sem engan skatt svo árum skipti, þrátt fyrir góðan hagnað.

Það var ekki fyrr en á þessu ári, og aðeins á hinu síðasta, þegar þeir byrjuðu að flytja gróðann heim til Svíþjóðar, að þeir fóru að greiða skatt svo einhverju nam.

Eins og ég hef reynt að hamra á við þig, er það heildarmyndin sem skiptir máli, ekki prósentan.

G. Tómas Gunnarsson, 30.9.2014 kl. 17:19

38 identicon

Fyrirtækin greiða tryggingargjaldið. Svo einfalt er það. Þetta er kosnaður fyrirtækjanna og hagnaður þeirra er minni vegna hans eða tapið meira.

Auðvitað er tryggingargjald allt annars eðlis en skattur á hagnað. Það breytir þó ekki því að hvorutveggja er kostnaður fyrir fyrirtækið.

Ef það er tilfellið að fyrirtæki í Eistlandi greiði engan skatt nema af útgreiddum arði þá er það skiljanlegt að Eistland standi Íslandi framar í samkeppnishæfi þrátt fyrir hærri prósentu.

Það er einmitt heildarmyndin sem verið er að sækjast eftir með því að draga frá þann lið í aukagjöldum launþega í Lúx sem íslenskir launþegar greiða ekki með sköttum. Þannig fæst sambærileg prósenta.

Hækkun á skattalegu samkeppnishæfi nær ekki tilgangi sínum ef önnur veigameiri atriði, td gjaldeyrishöft, koma í veg fyrir erlendar fjárrfestingar.

Meðan ekki er sýnt fram á að krónan sé á förum tel ég að það skili litlu öðru en tekjuskerðingu þó að skattalegt samkeppnishæfi lagist.

Hætt er við að samkeppnishæfi Íslands lagist ekki fyrr en upptaka evru er í sjónmáli með þeim stöðugleika sem henni fylgir.

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.9.2014 kl. 22:34

39 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Auðvitað greiða fyrirtækin tryggingagjaldið, en það er eigi af síður hluti af heildarmyndinni.  Af launakostnaði og hvernig hann skiptist á milli launþega og hins opinbera.

Nákvæmlega eins og talað er um atvinnurekendur greiði í lífeyrissjóð fyrir starfsmenn sína, sem er samt sem áður í raun þvættingur, því þetta eru auðvitað laun starfsmannsins.

Það er mikil erlend fjárfesting á Íslandi þessa dagana og ýmsum er farið að þykja nóg um hvað hröð uppbygging er á Íslandi þessa dagana.

Það er hins vegar á Eurosvæðinu sem stöðnunin ríkir, verðhjöðnum til staðar í mörgum ríkjum og Seðlabankinn í öngum sínum að reyna að koma hjólunum til að snúast, þó ekki nema örlítið.

Skuldastaða hins opinbera heldur einnig áfram að versna í flestum Eurosvæðis löndunum.

Dæmið með Eistland sýnir að það þýðir ekki að hengja sig á prósentur, heldur verður að líta til þess hvernig kerfið virkar og er uppbyggt.

G. Tómas Gunnarsson, 1.10.2014 kl. 04:13

40 identicon

Framlög vinnuveitenda í lífeyrissjóði launþega eru ekki laun frekar en tryggingargjaldið. En hvorutveggja er auðvitað hluti af kjörum launþegans. Ef laun eru borin saman á milli landa þarf að taka tillit til slíkra kjara sem geta verið með mismunandi hætti.

Erlend fjarfesting á Íslandi er að mestu tilkomin vegna kostakjara sem boðið er upp á til að bæta fyrir slæma samkeppnishæfni. Fyrir utan lágt orkuverð er boðið upp á að ríkið taki á sig kostnað upp á milljarða auk þess sem ýmsar undanþágur frá skattalögum eru veittar.

Fyrirtækin komast jafnvel upp með að skila litlum eða engum sköttum hér á landi með því að taka að láni frá móðurfélaginu stofnkostnaðinn. Þannig er fjárfestingin í raun engin.

Það er ljóst a við ríðum ekki feitum hesti frá slíkum samningum. Oft virðist tilgangurinn fyrst og fremst vera að hygla eigin kjördæmi án tillits til hagsmuna þjóðarinnar.

Stundum virðist það skipta mestu að keyra upp hagvöxtinn og gengi krónunnar tímabundið meðan á framkvæmdum stendur en lítt hugað því sem tekur við að þeim loknum.

Orkuverðið hefur ekki aðeins verið ótrúlega lágt heldur hafa samningar að öðru leyti einkennst af hagsmunagæslu fyrir kaupanda orkunnar á kostnað seljandans td með því að miða orkuverð við verð á áli.

Til vitnis um hve orkan er seld hér á ótrúlega lágu verði hefur komið fram frá ábyrgum aðila að við getum fengið allt að átta sinnum hærra verð með sæstreng.

Þau kjör sem Íslendingar þurfa að beygja sig undir vegna ónýts gjaldmiðils sýna betur en flest annað hve brýnt það er að hefja undirbúning að upptöku evru. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 08:08

41 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má kalla hlutina ýmsum nöfnum, en þegar upp er staðið eru lífeyrisgreiðslur eign launþegans og í raun hluti af launum hans.  Það er ekki flóknara en það.

Ég held að þurfi reyndar að endurskoða allt skattkerfið, og einmitt með það að leiðarljósi að það eigi að vera fyrir alla og undanþágur eigi ekki að þekkjast.

Það er af flestum talið sú breyting sem þyrfti að gera á skattalögum, ekki bara á Íslandi, heldur víðast um heiminn.

En það að hægt sé að fá svo hátt verð nú fyrir raforku í Evrópu, segir meira um orkustefnu "Sambandsins" sem hefur algerlega brugðist, en orkuverð til stóriðju á Íslandi.

Berðu til dæmis saman orkuverð í N-Ameríku (Bandaríkjunum og Kanada) og í Evrópu.  Enda eru "Sambandsmenn" loksins að uppgötva hvað þetta hefur gert fyrir samkeppnishæfi Evrópskra fyrirtækja.  Hjá sumum ríkjum virðist stefnan hafa verið sú að gera sig eins háða Rússum og mögulegt er.

Almenningur kyndir svo hús sín í vaxandi mæli með timbri (sem "Sambandið" flokkar sem "græna orku") með tilheyrandi mengun, en sparar sér stórfé.

Líttu nú yfir fréttirnar sem berast af Eurosvæðinu þessa dagana.  Þær eru flestar um skuldasúpu og vandræði.

G. Tómas Gunnarsson, 1.10.2014 kl. 09:28

42 identicon

Við erum í Evrópu og getum tengst orkunetinu þar með sæstreng. Þess vegna er það orkuverðið í Evrópu sem skiptir okkur mestu máli.

En jafnvel þótt borið sé saman við nýja samninga annars staðar í heiminum hafa nýlegir samningar á Íslandi verið með mjög lágt orkuverð.

Ástæðan er ekki síst krónan. Til hennar má rekja höft og óstöðugleika og jafnvel miklar skuldir sem urðu til vegna bankahrunsins eða hækkuðu upp úr öllu valdi vegna gengishruns krónunnar.  

Mikil leynd hvílir yfir samningum um orkuverð á Íslandi að kröfu kaupenda. Þeir vilja auðvitað ekki að það spyrjist út hve illa þeir hafa leikið Íslendinga.

Það er rangur samanburður, sem birtist öðru hvoru að taka meðalverð á orkusamningum í heiminum og bera saman við nýja samninga á Íslandi. Þeir eru margir mjög gamlir og orkuverð hefur farið mjög hækkandi.

Innganga Íslands í ESB breytir engu um áhrifin á Íslandi af kreppuástandi þar vegna þess að við erum í EES og finnum þess vegna hvort sem er fyrir þessum áhrifum. 

Auk þess er ástandið í samanburðarlöndunum miklu betra en á Íslandi. Framleiðni og landsframleiðsla er meiri, skuldir miklu minni, lánskjör miklu betri og laun og kaupmáttur hærri.

Kreppa í ESB breytir engu um ávinninginn sem fylgir aðild: Betri samkeppnishæfni með auknum stöðugleika og nýjum atvinnutækifærum. Lítil verðbólga, miklu lægri vextir og engin verðtrygging munu einnig eiga sinn þátt í aukinni velsæld Íslendinga.

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.10.2014 kl. 14:24

43 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það sem ég var nú fyrst og fremst að meina með orkuverðið í Evrópu er að það hlýtur að verða forgangsverkefni fyrir "Sambandið" að lækka orkuverð á næstu árum, til að halda í samkeppnishæfi fyrirtækja sem starfa innan þess.  

Þess vegna er varasamt að treysta á hátt orkuverð til framtíðar.

En auðvitað má vel vera að þetta breytist ekki, ef til vill líklegar en ekki ef litið er til sögunnar hjá "Sambandinu".

Vissulega standa samanburðarlöndin á mörgum sviðum betur en Ísland, en þannig hefur það reyndar yfirleitt verið í gegnum tíðina og vera þeirra í "Sambandinu" er ekki það sem skiptir þar máli.

"Sambandið" og euroið hefur reyndar valdið flestum vonbrigðum í því hver aukningin á millríkjaviðskiptum hefur verið á svæðinu.  

Hvað euroið varðar er t.d. meiri aukning á milli Þýskalands og Bretlands, en Þýskalands og Frakklands.

Bara til gamans er hér smá frétt úr Spiegel.  Ekki beint tengt umræðuefninu, en þó.

G. Tómas Gunnarsson, 2.10.2014 kl. 07:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband