Órói í vændum - Almenningur hefur misst þolinmæðina gagnvart bændum og fyrirtækjum þeirra

Þó að MS eigi vissulega andmælarétt, þá virðist blasa við að fyrirtækið hefur hagað sér eins og fíll í postulínsbúð á mjólkurmarkaði.

Í raun kemur það fáum á óvart.  Það kemur ef til vill mest á óvart að Samkeppniseftirlitið skuli hafa dug til að komast að þeirri niðurstöðu.  En eins og stundum er sagt, lengi er von á einum.

Það sama má ef til vill segja um Framsóknarflokkinn.  Það mega vissulega teljast tíðindi að þingmaður Framsóknar höggvi með þessum hætti að Mjólkursamsölunni.   Betra seint en aldrei myndu líklega margir segja.

Í gegnum tíðina hefur almenningi verið hlýtt til Íslenskra bænda.  Kunnað að meta afurðir þeirra og sætt sig við að greiða fyrir þær mun hærra verð en þyrfti fyrir innfluttar í mörgum tilfellum.

En ekkert varir að eilífu.

Og eins og eins og þekkist frá eldfjöllunum, verður gosið oft öflugra eftir því sem erfiðarar er fyrir kvikuna að ná upp á yfirborðið.

Og það hefur lengi kraumað undir hjá almenningi.

En á undanförnum misserum hefur komið upp á yfirborðið mál sem eru til þess fallin að svifta bændur og afurðasölu fyrirtæki þeirra stuðningi almennings.

Það þykir sjálfsagt að fyrirtæki eins og MS flytji inn tugi tonna af erlendu smjöri, noti það í framleiðslu sína, án þess að upplýsa neytendur sérstaklega um. Þá er engin hætta búin, eða hvað?  Hættan er aðeins ef að almenningur fengi að kaupa það á lægra verði.

Svína og nautakjöt er flutt inn sem aldrei fyrr.  Breytt í beikon og hamborgara og flest það sem nöfnum tjáir að nefna. Stundum og stundum ekki fær almenningur að vita um uppruna.

Bændur og Framsóknarþingmenn básúna svo reglulega um hættuna af innflutningi.  En eina hættan sem þeir virðast berjast gegn, er hættan á að almenningur njóti betra verðs.

Því innflutningurinn er leyfður og er til staðar, en verðið má ekki lækka.

Eftir stendur grímulaus hagsmunagæsla, sem keyrir samkeppnisaðila í þrot, sama hve smáir þeir eru.

Það er nauðsynlegt að brjóta upp kerfið, afnema allar undanþágur frá samkeppnislögum og setja upp 5 til ára áætlun, um stóraukin innflutning, lækkun niðurgreiðsla og tollaafnám.

Því lengur sem það dregst, því meira dregur úr stuðningi við bændur og aðgerðirnar sársaukafyllri þegar þar að kemur.

Leiðin áfram getur ekki verið í óbreyttu kerfi.

P.S. Getur getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig stendur á því að aukin mjólkurframleiðsla velldur skorti á nautakjöti?

 

 

 


mbl.is Stjórnvöld ekki sinnt ábendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það fer mjólk í að ala nautkálfa, ef öll mjólk selst þá er heppilegra að selja hana en nota í kálfauppeldi því verð fyrir nautakjöt er svo lágt að það er eiginlega ekkert upp úr því að hafa (nema vinnuna) að ala naut.

Hefurðu velt fyrir þér hvað það táknar að splitta upp afurðasölufyrirtækjunum í mjólkuriðnaði?  Þá yrði Mjólkurbúið (fyrirtækið sem kærði M.S. fyrir að selja sér ekki hrjámjólk á kostnaðarverði) sjálft að safna mjólk frá bændunum.  Það yrðu þannig nokkur fyrirtæki í því  sem kepptu sín á milli. Bóndi á Suðurlandi gæti þannig á pappírnum valið um að selja mjólkina (sem er sótt annan og þriðja hvern dag) til Selfoss eða Sauðárkróks nú eða til Hafnafjarðar!    Allir væru síðan með flotta og margbreytta vörulínu.

Hefurðu velt fyrir þér hugtökum eins og sérhæfingu og stærðarhagkvæmni í þessu sambandi?

Þegar ástandið væri orðið þannig að hér væru 4 til 10 lítil fyrirtæki öll að baksa í því sama þá skulum við svo afnema tolla á innflutningi til að auka samkeppnina enn. Vegna þess að við Íslendingar viljum allta ganga fremstir í flokki þá gæfum við skít í það að verið væri að flytja inn vöru sem er niðurgreidd í dag en verður það kanski ekki á morgunn, en það væri alveg sama því við vildum ganga fremstir í að afnema öll höft og tolla og hafa frelsið í viðskiftum sem mest. (Enda ekki búnir að fá nóg af síðustu tilraun). 

               Íslensk mjólkurframleiðsla fengi við þetta algjört rothögg. Eflaust myndu einhverjir hjara við að framleiða neyslumjólk, kanski svona 5 til 10 stórbú fjármögnuð af  lífeyrissjóðunum eða einhverjum nútíma Thor Jensen (sem kæmi eins og nýhreinsaður hundur með afskrifaðar skuldir og stórgróða út úr útgerðinni).  Öll hin búin færu lóðbeint á hausinn með sínar stökkbreyttu skuldir.

Myndu skattgreiðendur og neytendur ekki græða rosalega á öllu þessu brambolti?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.9.2014 kl. 09:22

2 identicon

Smá viðbótarreifun á M.S. málinu

Var að skoða skýrslu samkeppniseftirlitsins um meint samkeppnisbrot M.S., þar benda þeir m.a. á að skv. 29. gr. búvörulaga ef mjólkursamlag taki við mjólk umfram kvóta þá verði að markaðssetja hana erlendis en ekki inn á íslenskan markað.
Af hverju í veröldinni gat Ólafur M. Magnusson stofnandi og þáverandi eigandi Mjólku tekið við umframmjólk af bændum og selt innanlands? Klárt lögbrot og ekkert gert!
Svo fór hann að vísu á hausinn, kanski vegan stökkbreytinga lána í hruninu og stofnaði svo Mjólkurbúið sem virðist vera aðalega í ostagerð en K.S. eignaðist Mjólku.
Í téðri skýrsu samkeppniseftirlitsins er lýst sjónarmiðum M.S. þar sem þeir benda á að Mjólka í núverandi eigu K.S. og þar með innan M.S. samstæðunnar sé að framleiða allt aðra vöru en Mjólkurbúið hans Ólafs M. en málið allt gengur jú út á að núverandi Mjólka fái hrámjólk á lægra verði en Mjólkurbú Ólafs og það skekki samkeppnina, en svo eru þau þá ekki einu sinni að framleiða vörur í samkeppni!!!!!!!!!!!
En fremur segir í skýrslunni um sjónarmið M.S. að þeir hafi hjálpað Mjólkurbúi Ólafs yfir greiðsluerfiðleika með því að hækka skuldaþak svo það gæti keypt hráefni fyrir jólavertíðina 2012, sama um páska það ár.
Lýsir miklum vilja að koma keppinautum fyrir kattarnef eða hitt þó. Ólafur þakkar svo pent fyrir sig með því að kæra!

Samkeppniseftirlitið hrósar Ólafi fyrir að hafa hækkað verð til bænda (meðan hann átti Mjólku) sem hann gerði með því að kaupa mjólk umfram kvóta og selja á innanlandsmarkaði sem er lögbrot ef marka má orð samkeppniseftirlitsins sjálfs í téðri skýrslu.   

Það er semsagt orðið hrósvert að fremja lögbrot en fyrirtæki eru kærð fyrir að fara að lögum!

Guð blessi Samkeppniseftirlitið ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.9.2014 kl. 09:33

3 identicon

Reifun 3.

Samkeppniseftirlitinu er ljóst skv. eigin skýrslu að verð hrámjólkur frá M.S. til Mjólku (í eigu K.S.) er kostnaðarverð þ.e. án nokkurrar álagningar.  Verðið til Mjólkurbús Ólafs M. er á hinn bóginn með álagningu (og afslætti frá lögboðnu hámarksverði). Hvernig dettur samkeppniseftirlitinu í hug að Mjólkurbúið hans Ólafs sé þannig að greiða of hátt verð og neytendur tapi?

     Erum við neytendur virkilega að sigla inn í þá nýju tíma að enginn leggi á vöru. Olíufélögin selji olíu á sama verði og þau kaupa hana, matvöruverslunin leggi ekkert á sína vöru (afsakaðu að ég hóstaði) enginn þurfi að skifta um sokka og við almennt komin inn í hið kommúníska sæluríki, þökk sé samkeppniseftirlitinu! 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.9.2014 kl. 09:42

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni Gunnlaugur  Bestu þakkir fyrir þessi innlegg.  Þannig að það hefur þá líklega orðið offramboð á kálfakjöti eða hvað, fyrst það borgar sig að slátra öllum nautkálfum stuttu eftir fæðingu, eða hvað?

Ég held að það sé ekkert að því að "splitta" upp afurðasölufyrirtækjum.  Stærðarhagkvæmnin hefur verið notuð sem afsökun fyrir einokun víða um lönd, en sú hagræðing hefur sjaldan eða aldrei skilað sér til neytenda.

Svo merkilegt sem það er hafa framfarir, hagræðing og verð og fjölbreytileika samkeppni verið best þar sem fjölbreytt samkeppni er, ekki við lögverndaða einokun í nafni stærðarhagkvæmni.

Persónulega myndi ég líta svo á að allar mjólkurvörur séu framleiddar í samkeppni við hvor aðra, eða í það minnsta að mestu leyti.

Það er alltaf spurningin með kostnaðarverð og ekki kostnaðarverð, en hví getur MS selt á kostnaðarverði til Mjólku nú, ef það gat það ekki áður.

Hvað innflutning varðar, þá virðist hann vera í góðu lagi, almenn séð, nema að stjórnvöld og samtök bænda virðast vilja koma í veg fyrir að almenningur geti notið lægra verðs.

Það er það sem eftir stendur, að koma með öllum ráðum í veg fyrir verð lækki til almennings.

Því lengur sem barist verður á móti breytingum á kerfinu, verður skellurinn stærri þegar loks verður breytt.

Ég held að ef eitthvað kerfi líkist hinu kommúníska, þá er það landbúnaðarkerfið. 
Aftengt á milli framboðs og eftirspurnar, miklar niðurgreiðslur, lítið sem ekkert hlustað á neytendur og reynt að sporna á móti breytingum.

Hann féll enda víða með hvelli og ef fram heldur sem horfir mun Íslenska landbúnaðarkerfið gera það sömuleiðis.

G. Tómas Gunnarsson, 26.9.2014 kl. 10:17

5 identicon

"Getur getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig stendur á því að aukin mjólkurframleiðsla velldur skorti á nautakjöti?"

Beljan er ekki bæði skotin og mjólkuð. Kjöt af kvígum er ekki síðra en af nautum, hljómar bara ekki eins vel í sölu og því allt látið heita nautakjöt.

ls.

ls (IP-tala skráð) 26.9.2014 kl. 10:23

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni Gunnlaugur   Ef það er svo að ekkert er fyrir bændur að hafa upp úr framleiðslu nautakjöts, er þá ekki upplagt að þeir hætti því og innflutningur verði aukinn?

G. Tómas Gunnarsson, 26.9.2014 kl. 10:41

7 identicon

Það er alveg sama hve mikill skortur er á íslensku nautakjötu (á meðan hægt er að flytja það inn erlendis frá þó tollað sé) verðið verður aldrei það hátt að borgi sig að framleiða nautakjöt. Það geta verið sérstakar aðstæður hjá mönnum sem valda því að þeir sjá sér hag í því en heilt yfir þá er verðið alltaf of lágt. Samkeppnin er nefnilega tekin úr sambandi í aðra áttina með innfluttningi.

Það er alveg rétt að landbúnaðarkerfið er sósíalískt í gerðinni(ekki kommúnískt, það hafa engir verið drepnir við að koma því á a.m.k.). Framleiðslan er ákvörðuð fyrirfram og mönnum er skamtað verð af nefndum. Í því sambandi er merkileg andúð margra vinstri manna á því. En það er misskilningur og rangt að þar ríki ekki samkeppni eða að t.d. í mjólkurvörum sé ekki fjölbreytt framboð. Það er einmitt bullandi samkeppni á mjólkurvörumarkaði frá öðrum matvælum. M.S. hefur tekist að halda ótrúlegri markaðshlutdeild (Það er enginn píndur til að éta smjör frekar en smjörva, skyr frekar en kornflex, drekka mjólk frekar en vatn eða öl). Verðið er svo heldur ekki hærra en svo að mun hagkvæmara er að innbyrða hitaeiningar og prótein í fromi mjólkur en t.d. fisks sem er þó vara í alþjóðlegri samkeppni.

Þegar Mjólka fór í eigu K.S. þá varð hún þar með hluti af fyrirtækjasamstæðunni M.S. og tók þátt í þeirri hagræðingu og verkskiftingu sem þar er viðhöfð m.a. til hagsbóta fyrir neytendur í lægra vöruverði en ella. Hvernig fyrirtæki innan samstæðunnar miðla milli sín mjólk og á hvaða verði er þar með innanhúsmál sem er ósamanburðarhæft við það mjólkurverð sem M.S. er lögbundið að selja á út fyrir samstæðuna.

Aðalatriðið í því máli er að skv. búvörulögum er þeim heimilt að skilgreinasig sem fyrirtækjasamstæðu í þessu hagræðingarskyni þrátt fyrir yfirburðamarkaðsstöðu. (Verða á móti að sætta sig við lögboðið hámarksverð)

Þetta hefur samkeppniseftirlitið viðurkent í annan tíma en vill nú endilega pikka upp eitthvert innanhúsverð (sem reyndar er kostnaðarverð án álagningar) væntanlega á þeirri forsendu að þetta séu ótengd fyrirtæki. Samkeppniseftirlitið virðist semsagt ekki viðurkenna réttmæti búvörulaganna og lendir væntanlega í þessum þversögnum vegna þess.

Það neyðarlega í málinu er að samkeppniseftirlitið álýtur neytendur tapa á því að M.S. skuli ekki selja frá sér mjólk án álagningar. Þar hljóta þeir að tala gegn betri vitund því þeir geta ekki verið svona vitlausir!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.9.2014 kl. 10:59

8 identicon

"smjör frekar en smjörva" ætti að vera svona:

"smjör frekar en smjörlíki eða bara sleppa smjörinu"

smjörvinn er nefnilega hluti of hinni fjölbreyttu vöruflóru M.S. ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.9.2014 kl. 11:02

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni  Þú mátt kalla mig sérvitring, en smjörlíki fer ekki inn fyrir mínar varir.  Smjörvi er ómeti sömuleiðis að mínu mati.

Ég nota smjör og olíu.  Það má vissulega segja að smjörið sé í samkeppni við olíuna.

Og vissulega keppa öll matvæli sín á milli, upp að vissu marki.

Þó að K.S. eigi í MS, getur Mjólka ekki talist til MS "Samsteypunnar", ekki frekar en önnur fyrirtæki K.S.

En eftir því sem fram hefur komið í fréttum, endurgreiddi MS, K.S. verðmun, niður að kostnaðarverði eftir að K.S. keypti Mjólku.  Það er líklega einn skrýtnasti gjörningurinn í þessu öllu.

En það á eftir að komast að niðurstöðu í þessu máli eins og öðru.  En það breytir því ekki að fyrirtæki bænda eru að rýja þá öllum stuðningi.

Því lengur sem beðið verður með breytingar, því meiri verður hvellurinn.

Það er þá best að flytja inn nautakjötið og láta bændur hætta þessari óarðbæru framleiðslu.

En auðvitað vilja bændur halda uppi verðinu á nautakjöti, því ef nautkjötið myndi lækka í verði, mynda sala á kindakjöti dragast saman, og nógu illa gengur víst að selja það sem er framleitt af því.

Á tyllidögum belgja bændur sig svo út yfir gæðum og segja eftirspurn erlendis frá sí vaxandi, en salan virðist láta á sér standa.

G. Tómas Gunnarsson, 26.9.2014 kl. 11:20

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni Gunnlaugur  Það af kerfinu sem snýr að bændum kann að vera sósíalískt, um það get ég ekki dæmt.

Það sem snýr að neytendum er hins vegar mun nær því að vera kommúnískt.  Þeir þurfa að borga fyrir kerfið, að stórum hluta óháð neyslu og með nauðung.

Svo hafa "feitu kettirnir" hreiðrað um sig og "kerfið sjálft" er orðið mikilvægara en bæði bændur og neytendur.

Það er einmitt því sem þarf að breyta.

G. Tómas Gunnarsson, 26.9.2014 kl. 13:21

11 identicon

Framleiðsla nautakjöts þarf ekkert að vera óarðbær ef eðlileg samkeppni ríkti. Það getur bara ekki talist eðlileg samkeppni að demba hér inn niðurgreiddu kjöti sem að auki er framleitt á mjög ósljálfbæran hátt upp í skuld við náttúruna og oft með ógætilegri notkin fúkkalyfja til að auka vöxt. Vandinn er bara sá að innfluttningurinn er látinn klippa ofan af framboðs/eftirspurnar kúrfunni þegar verð ætti að hækka vegna minna framboðs.

Þú segir: "Þó að K.S. eigi í MS, getur Mjólka ekki talist til MS "Samsteypunnar", ekki frekar en önnur fyrirtæki K.S."    Þetta er bara ekki rétt. Búvörulögin heimila samráð afurðasölufyrirtækja, þ.e. fyrirtækja sem taka við mjólk frá bændum en eftir því sem mér skilst þá er Mjólka slíkt fyrirtæki.  

Ég er samt hissa á K.S. að vera að kaupa þetta fyrirtæki á sínum tíma (Mjólku) og skil ekki hvaða þörf lá þar að baki.  Mögulega einhvert baktjaldamakk milli banka sem sá fram á að sitja uppi með verðlaust fyrirtæki og svo K.S. að fá einhver verðmæti fyrir lítið.  Eins finnst mér mjög skrýtin þessi endurgreiðsla á verðmismun og er sammála þér að það er kanski skrýtnast í þessu öllu.

Ég hef aldrei haldið því fram að M.S. eða mjólkursölukerfið sé hafið yfir gagnrýni og að þar geti ekki lúrt einhverjir smákóngar að ota sínum tota í skjóli samvinnuhugsunarinnar. Slíkt hefur jú gerst. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.9.2014 kl. 13:27

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni Gunnlaugur  Ef til vill er það einmitt málið, Búvörulögin eru úr takt við öll önur lög og eðlilega viðskiptahætti. 

Og þú útskýrir ekki hvers vegna MS endurgreiddi afturvirkt, eftir að Mjólka skipti um eigendur.  Það er eins og þú segir líklega það skrýtnasta og jaðrar líklega við að líkjast "skipulagðri glæpastarfsemi", eða því sem við köllum oft "mafía".

Þú talar um óeðlilega samkeppni, ef til vill gæti eitt af skrefunum í góðu 5 til 10 ára plani, verið að leyfa óheftan innflutning á kjöti, sem hefur lífræna vottun og niðurgreiðsla nær ekki hærra hlutfalli en á Íslandi.  Það kjöt yrði þá flutt inn tollalaust.

Það þýðir ekki að miða allt á Íslandi við það sem er gert erlendis til lengri tíma þó.

Sjávarútvegur er til dæmis stórlega niðurgreiddur víðast hvar, eiginlega á framfæri ríkisins.  Víðast hvar er ekki verið að rífast um hvað sjávarútvegur eigi að greiða til hins opinbera, heldur hvað hann eigi að fá frá því.

Það þýðir ekki að Íslendingar, eigi, eða megi haga sér eins.

Samvinnuhugsjónin dó, líklega um miðbik síðustu aldar.  Það þekki ég vel, sem ólst upp á Akureyri.  Landbúnaðarkerfið snýst um að mjólka neytendur og skattgreiðendur.  Það sorglegasta er að það býr ekki einu sinni bændum gott umhverfi.  En afurðastöðvar eins og MS og þeir sem stjórna þeim, þar safnast valdið og arðurinn.  Hvar í landbúnaðarkerfinu heldur þú að finnist hæstu laungreiðslurnar?

Flest það sem þú hefur sagt hér til varnar MS og landbúnaðarkerfinu, sýnir einmitt að það er nauðsyn að stokka það upp.

G. Tómas Gunnarsson, 26.9.2014 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband