Þeir sem "vita betur" og stinga höfðinu í sandinn

Sem eðlilegt er hefur sigur svokallaðra "Svíþjóðardemókrata" í nýafstöðunum þingkosningum í Svíþjóð vakið mikla athygli.

Þeir eru orðinn þriðji stærsti stjórnmálaflokkurinn á Sænska þinginu.

Það hefur einnig vakið athygli, að þingmenn þeirra virðast ekki "teljast með" þegar rætt er um stjórnarmyndun.

Hvoru tveggja, sigur "demókratanna" og hunsun hinnn hefðbundnu "valdaflokka", er þróun sem má sjá eiga sér stað víða um Evrópu, ekki síst í Evrópusambandinu.

Að sjálfsögðu er öllum flokkum frjálst að velja sér samstarfsflokka og hafna öðrum, það eru bæði eðlilegar og sjálfsagðar reglur stjórnmála og eftirleikur kosninga í lýðræðisríkjum.

En það sem vekur meiri áhyggjur, eru vaxandi tilhneygingar hinna "hefðbundnu valdaflokka" til þess að hlusta ekki á það sem kjósendur láta í ljósi í kosningum.

Þess vegna vex þeim flokkum sem svo vinsælt er að kalla "öfgaflokka" fiskur um hrygg í svo mörgum Evrópulöndum.

Sívaxandi fjöldi kjósenda finnst sem lítið sé á sig hlustað og ekkert tillit tekið til þeirra mála sem þeim vilji ræða.

Hvort að "Svíþjóðardemókratar" séu öfgaflokkur ætla ég ekki að dæma um, en um það eru vissulega skiptar skoðanir.

Það eitt að vilja draga úr fjölda innflytjenda, eða vera mótsnúinn "Sambandinu", dugar ekki til að stimpla flokka öfgaflokka í mínum huga.

En staðan í Evrópu og ekki síst Evrópusambandinu er erfið og brothætt.  Atvinnuleysi er víða mikið (það er þó ekki svo slæmt í Svíþjóð) og sumstaðar hreint skelfilegt á meðal ungs fólks. 

Fréttir af auknum núningi á milli ólíkra kynþátta eru nokkuð áberandi í fréttum og þúsundir ungra Evrópubúa hafa kosið að gerast sjálfboðaliðar í hernaði í Afríku og Mið austurlöndum undir merkjum trúarhreyfingar.

Margir óttast hvað gerist þegar og ef þetta unga fólk snýr heim.

Vandræðaástand hefur myndast vegna ólöglegra innflytjenda víða í Evrópu, má þar til dæmis nefna Ítalíu og Frakkland, þar sem hálfgert umsátursástand ríkir t.d. í hluta Calais.

Því ætti enginn að undrast að innflytjendamál komi æ meir til umræðu í kosningum í álfunni og þeir sem kjósa að stinga höfðinu í sandinn og tala eins og allt sé eins og best verður á kosið í þeim efnum, eru einfaldlega að senda kjósendur til annarra flokka.

Það sama gildir um umræðuna um Evrópusambandið og euroið.  Það er búið að leysa Eurokreppuna svo oft, að stjórnmálastéttin er búin að gera sig að athlægi.  

Það virkar sérstklega hjákátlega í eyrum þeirra milljóna sem enn eru atvinnulausir og sjá ekki fram á bjartari tíð í þeim efnum.

Það er auðvelt fyrir þá sem "vita betur" en kjósendur hvað þeir þarfnast og eiga að ræða um að stinga höfðinu í sandinn og afgreiða þessa flokka sem lýðskrumara og öfgamenn.

Á meðan stækka flokkarnir kosningar eftir kosningar, rétt eins og er að gerast með "Svíþjóðardemókratana", og er þegar farið að spá þeim meira fylgi í næstu kosningum.

Stjórnmálamenn og flokkar sem ekki hlusta á kjósendur, og tala við þá og til þeirra daga hægt og rólega uppi.

Ef til vill er lausnin að hlusta á pöpulinn, ef til vill er það sem þarf meiri populismi, eða ætti frekar að kalla það pöpulisma?

P.S. Þeir sem hæst tala af fyrirlitningu um populisma ættu ef til vill að "googla" orðiðog lesa um merkingu þess og uppruna.

 

 

 


mbl.is Stórsigur Svíþjóðardemókrata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Popúlismi er aldrei verjanlegur vegna þess að honum er beitt í þeim eina tilgangi að vinna atkvæði.

Popúlismi er skammtímalausn sem kemur í veg fyrir að raunverulega sé tekið á vandamálunum. Oft stendur ekki til að efna loforðin og ef það er gert veldur það tjóni.

Varðandi innflytjendamálin þá höfða popúlistar aðeins til minnihluta kjósenda. Það er af og frá að þeirra hugmyndir séu lausn á vandamálum. Þvert á móti vilja þeir loka augunum fyrir vandamálum flóttamanna og loka dyrunum á þá.

Ef popúlistar kæmust til valda er voðinn vís. Að láta sig engu skipta afdrif einstaklinga í stríðs hrjáðum löndum eða löndum þar sem vissir hópar njóta ekki mannréttinda lýsir hugarfari sem hlýtur að lokum að koma niður á samlöndunum.

Efnahagserfiðleikar í Evrópu hafa lítið með evru að gera. Þar sem atvinnuleysið er mest er það oftast ekkert meira en hefur verið fyrir upptöku evru, og jafnvel inngöngu í ESB, löngu áður en svokölluð evrukreppa byrjaði. Spánn og Írland eru dæmi um þetta.

Þær þjóðir ESB sem eru með minnst atvinnuleysi eru allar með evru. Þetta eru Austurríki, Þýskaland, Lúxemborg og Malta. Þær þjóðir Evrópu þar sem atvinnuleysi er mest, Boznia&Herzegovina, Kosovo og Macedonia, eru allar utan ESB.

Með inngöngu Íslands í ESB og upptöku evru skapast störf vegna aukinnar samkeppnishæfni. Atvinnutækifærum mun því fjölga. Lífskjör munu batna mikið ekki síst vegna miklu lægri vaxta á húsnæðislánum.     

Ásmundur (IP-tala skráð) 16.9.2014 kl. 15:38

2 Smámynd: Snorri Hansson

Flestir þessara nýju flokka sem hafa efasemdir um ágæti ESB samstarfssins virðast vera að átta sig á því að rassismi er ekki leiðin. Þeirra fyrirmynd er nú breski  UKIP  flokkurinn sem rekur umsvifalaust þá meðlimi sem sýna rasisma tilburði.

UKIP vill að fólkið kjósi um hvort Bretland verði afram í sambandinu og telja að þjóðin verði skilyrðislaust að hafa yfirráð yfir landamærum sýnum og því hvenær innflytjendur hafa rétt á félagslegri þjónustu til jafns við aðra íbúa.

Snorri Hansson, 16.9.2014 kl. 16:00

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur.  Ég mæli sterklega með því að þú "gúglir" orðið populism og lesir þér til um skilgreiningu þess og uppruna.

Hvað varðar innflytjendamálin, þá er t.d. u.þ.b. helmingur kjósenda í Svíþjóð þeirrar skoðunar að það þurfi að endurskoða innflytjendastefnuna.  En ekki allir þeirra láta það ráða atkvæði sínu.

Marine Le Pen myndi sigra Hollande Frakklandsforseta ef kosið væri á milli þeirra tveggja í dag, ef marka má skoðanakannanir.

Hvers vegna?

Ef til vill vegna þess að almenningur í Evrópusambandslöndunum hefur að stórum hluta misst trúna á "stjórnmálastéttina" og því að hún sé að vinna fyrir sig.

Hvað varðar atvinnuleysið, og þau lönd sem þú nefnir sem eru með lágt atvinnuleysi, er það vegna þess að miklu leyti, að euroið heldur niðri gengi gjaldmiðils "þeirra".  Þýska markið væri mun sterkara en euroið er í dag fyrir Þýskaland, svo dæmi sé tekið.  Hið gagnstæða gildir hins vegar fyrir mörg önnur lönd Eurosvæðisins.

Þeir sem halda að efnahagsörðugleikar í Eurosvæðinu hafi ekkert með euro að gera, lifa í sjálfsblekkingu.

@Snorri.  Rasismi er ekki leiðin fram á við til eins eða neins.  En að berjast fyrir takmörkunum á innflytjendastraumi, er ekki rasismi?

Er til eitthvert ríki sem hefur engin takmörk hvað varðar innflytjendur?  Í raun vilja allir takmörk, en það er vissulega deiluefni hvað þau eiga að liggja.

Hvers vegna er umsátursástand í hluta Calais?  Vegna þess að þar hafa ólöglegir innflytjendur safnast saman og reyna að komast yfir til Bretlands, sem er ekki aðili að Schengen og hefur enn fulla stjórn á landamærum sínum.  En allir þegnar "Sambandsins" og EEA/EES hafa umsamin rétt til að koma og leita sér að atvinnu og njóta bóta.  Um það er meðal annars deilt í Bretlandi.

En UKIP, AFD, FN, "Svíþjóðardemókratarnir", "Sannir Finnar", og ótal aðrir flokkar, sem eru ólíkir, en  sækja samt á svipuð mið, þ.e.a.s. þau að "stjórnmálaelítan" hlusti ekki á almenning, eiga eftir að styrkjast á næstu misserum og árum.

Því hvað hlustunina varðar eru æ fleiri að komast á þá skoðun að þeir hafi rétt fyrir sér.

Að ýmsu leiti spila sjálfstæðissinnar í Skotlandi, á þá sömu "sekkjapípu".

G. Tómas Gunnarsson, 16.9.2014 kl. 16:22

4 Smámynd: Snorri Hansson

"@Snorri.  Rasismi er ekki leiðin fram á við til eins eða neins.  En að berjast fyrir takmörkunum á innflytjendastraumi, er ekki rasismi?"

Ef reglurnar eru almennar og beinast ekki að litarhætti eða þjóðarbrotum eru þær ekki rasismi.

  Hugmynd UKIP er að hafa reglur Ástrala sem fyrirmynd.

Snorri Hansson, 17.9.2014 kl. 01:47

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Snorri, ég sé nú að ég hef óvart sett spurningmerki þarna á eftir, sem ekki átti að vera.  Ég var einfaldlega að lýsa minni skoðun.

En þú svarar þessu vel eigi að síður.

Það eru að mínu viti ekki margir sem eru á móti því að innflytjendur komi, enda þurfa mörg lönd Evrópu á innflytjendum að halda og vilja fá innflytjendur til sín.

En það er eðlilegt að deilt sé um fjölda og framkvæmd í innflytjendamálum, rétt eins og öðrum samfélagsmálum og í því fellst enginn rasismi.

Innflytjendastraumar innan ESB valda samfélagslegum vandamálum og deilum, og svo bætist við innflytjendur utan ESB.

En "Sambandið" hefur reyndar eytt stórum fjárhæðum til að "víggirða" hluta landamæra sinna.

Persónulega tel ég það ekki bera vott um rasisma, en sú kann að vera skoðun einhverra.

En persónulega finnst mér orðin, rasismi og rasisti vera ofnotuð, og þar með merking þeirra útþynnt, en það er önnur saga.

En sífellda upphrópanir um öfgar, rasisma og annað í þeim dúr, er sömuleiðis merkingarlítið í mínum huga og þeim sem nota það lítt til sóma, en það er önnur saga.

G. Tómas Gunnarsson, 17.9.2014 kl. 05:09

6 identicon

Sænskir demókratar og aðrir álíka flokkar eru í eðli sínu hægri öfgaflokkar. Ef það samræmist ekki skilgreiningu á popúlisma þá eru þeir einfaldlega ekki popúliskir flokkar. 

Það er tvennt ólíkt að vilja endurskoða innflytjendastefnu eða að kjósa hægri öfgaflokk jafnvel í Svíþjóð sem hefur verið frjálslyndara í innflytjendamálum en aðrar Evrópuþjóðir.

Að vera með innflytjendamál í stöðugri endurskoðun eins og önnur mál er ekki neitt sem einkennir sérstaklega hægri öfgaflokka. 

Ástæðan fyrir því að Le Penn myndi sigra Hollande í forsetakosningum er eingöngu óhemjumiklar óvinsældir Hollande. Skoðanakannanir sýna að Sarkozy myndi sigra Le Penn með yfirburðum þrátt fyrir að hann eigi undir högg að sækja vegna meintra spillingarmála.

Áróður ESB-andstæðinga hefur mikið gengið út á gera lítið úr evrunni. Þannig halda þeir á lofti vandræðum Grikkja og Spánverja en minnast ekki á að ástandið er harla gott í flestum evruríkjum, td miklu betra en á Íslandi.

Það eru ekki bara þessi fjögur lönd sem ég nefndi sem búa við gott ástand. Við þau má bæta flestum Norður- og Vesturevrópulöndum. Þýskaland með evru er td miklu betur statt en Bretland með pundið.

Evrulönd í vandræðum geta sjálfum sér um kennt. Það er eins og þau hafi látið allt reka á reiðanum eftir upptöku evru rétt eins og efnahagsmálin væru ekki lengur á þeirra könnu.  Að miklu leyti stafa vandræði þeirra af reynsluleysi. Þetta er fyrsta kreppan sem ríður yfir eftir tilkomu evrunnar.

Eftir hrun fullyrti Geir Haarde að Ísland hefði fylgt reglum ESB í efnahagsmálum í einu og öllu. Hann lét þess hins vegar ekki getið að hver þjóð í ESB ber ábyrgð á sínum efnahagsmálum og að reglur ESB sé aðeins grunnur til að byggja á.

Meðan aðrar þjóðir settu sér viðbótarlög og -reglur gerðu Íslendingar ekki neitt enda var það stefna ríkisstjórnarinnar að hafa allt eftirlit í algjöru lágmarki.

Evran hefur gífurlega kosti en einnig galla ef menn gera ekki ráðstafanir til að aðlagast þeim veruleika sem henni fylgir. Gallar við sveigjanlegan gjaldmiðil er skortur á stöðugleika og mikil spilling sem getur fylgt gengissveiflum og orsakað gengissveiflur með alvarlegum afleiðingum.

Evran væri mikill happafengur fyrir Ísland með sína ónýtu krónu. Við búum við þá einstöku aðstæður sem örríki að geta tekið upp stóran gjaldmiðil sem verður okkar eigin með öllu sem því fylgir.

Ásmundur (IP-tala skráð) 17.9.2014 kl. 08:12

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur  Hvað í eðli flokkanna gerir þá að "hægri öfgaflokkum"?  Ég gat ekki betur lesið í fréttinni sem ég "linkaði" á í upphaflegu færslunni að Sænskur stjórnmálaprófessor, teldi þá nokkurn veginn á miðjunni í flestum málum.

En þeir fá m.a. atkvæði vegna þess að hinir "hefðbundnu valdaflokkar" hafa að engu vilja stórs hóps kjósenda til breytinga á innflytjendastefnunni.  Þeir með öðrum orðum hlusta ekki á kjósendur - pöpulinn.

Hollande er með eindæmum óvinsæll, enda borið fátt á borð fyrir Frakka nema úreltar sósíalíaskar lausnir, sem hann hefur svo þurft að reyna að lappa upp á hálf lamað efnahagslíf, með heldur hægri miðaðri lausnum, og tekst þannig að fá alla upp á móti sér.

En það eru skoðanakannanir svo sem þessi sem s.s. segja líka sögu:

Þar kemur fram að 74% aðspurðra töldu Islam (sem trúarbrögð) skorta "umburðarlyndi" og vera á skjön við "Frönsk gildi".  70% aðspurðra töldu að það væru of margir "útlendingar" í Frakklandi og 67% töldu sig tæplega "heima" í Frakklandi lengur.

Þetta eru raddir "pöpulsins" sem  gera kröfu um að stjórnmálastéttin hlusti á sig, en oftast með takmörkuðum árangri.

Því miður er það því svo, að hinir "hefðbundnu" flokkar, hafa hafa fjarlægst kjósendur (hinn "Sambandslegi yfirfrakki" á sinn þátt í því, sem aftur opnar leiðir fyrir FN og aðra flokka sem eru á móti "the establisment", ef svo má að orði komast.

Það eru ekki bara Grikkir og Spánverjar sem hafa átt erfitt á Eurosvæðinu.  Spánverjar eru sem betur fer aðeins að rétta úr kútnum, en atvinnuleysi þar er þó ennþá um 25%.

En Ítalía, Frakkland, eiga í verulegum vandræðum, það hallar hratt undan fæti nú hjá Finnum, þar er spáð mikilli aukningu atvinnuleysis í vetur.

Portugalir, Kýpurbúar, hafa þurft á stórfelldri aðstoð að halda, sem og auvitað Grikkir, Spánverjar og Írar.  Írar hafa þó líklega staðið sig hvað best, en þar hefur atvinnuleysi verið hátt (hefur þó verið að rætast úr því) og gríðarfjöldi hefur einfaldlega flutt úr landi.

Það er rétt hjá þér að ríki í norður og vestur Evrópu standa betur, en jafnvel þar eru blikur á lofti og flestar spár fyrir Eurosvæðið hljóða upp á stöðnun fyrir næstu ár.  Jafnvel Þýskaland virðist vera að missa móðinn.

Bretar eiga vissulega við sín vandamál að stríða, en Pundið er ekki eitt þeirra.  

Reyndar hefur euroið valdið miklum vonbrigðum, hvað varðar innbyrðis viðskipta þeirra ríkja sem það nota, og virðist ekki vera sá hvati sem menn væntu.  Viðskipti á milli Breta og Þjóðverja hafa t.d. vaxið mun hraðar en viðskipti á milli Þjóðverja og Frakka.

Eins og euroið er uppbyggt nú, hefur það fleiri galla en kosti, þó hamast hafi verið við að berja í brestina, með ærnum tilkostnaði.

Það er næg reynsla til staðar á Eurosvæðinu í að fást við kreppur.  Vandamálið er að þarfirnar eru svo mismunandi land frá landi, að það er í raun ekki hægt að byggja upp neina heildstæða stefnu.

Þess vegna stefna löndin í sitt hverja áttina, efnahagslega.

Euroið hefur ekki reynst neinn happafengur, nema helst fyrir sterkari ríkin, sem "sígengisfella" í raun sína gjaldmiðla með þátttöku í því samstarfi, á kostnað hinna.

G. Tómas Gunnarsson, 17.9.2014 kl. 09:58

8 identicon

Af hverju kallast t.d. Svíþjóðardemókratarnir 'hægri' - öfgamenn en ekki 'vinstri' ?

Eru það kannski aðallega vinstri menn sem kalla þá 'hægri' - öfgamenn?

Og hvað er annars 'hægri' og 'vinstri' í pólitík ef út í það er farið?

Er mögulegt að þessar skilgreiningar séu talsvert ólíkar eftir því hvoru megin menn staðsetja sjálfa sig?

Það er rétt að taka fram að ég er ekki neitt nálægt því að vita svör við þessum spurningum (nema helst þessari síðustu) og hef satt að segja ekki stóran áhuga á að vita þau, enda sjálfsagt ekki til neitt eitt rétt svar. Finnst umræðan um þessi mál bara stundum frekar spaugileg.

Annars hefur mér sýnst að eina rétta skilgreiningin á öfgum vera: 'Hinir - ekki Við'. Skilgreiningin á t.d. fordómum er mjög svipuð hefur mér sýnst. Sem vísar svo aftur á svarið við síðustu spurningunni - menn hafa oftast ekki verið í vandræðum með að skilgreina hina hliðina sem eitthvað voðalega vont.

ls.

ls (IP-tala skráð) 17.9.2014 kl. 10:25

9 identicon

Margir hægri menn eiga erfitt með að sætta sig við að nasismi sé hægri stefna vegna þess slæma orðs sem fer af stefnunni.

Það sem einkennir hægri stjórnmál er sérgæska. Hægri menn vilja sem minnsta samneyslu og sem lægsta skatta og sömu skattprósentu á bæði lágar og háar tekjur. Hver á að sjá um sig óháð getu.

Andúð á útlendingum og samvinnu milli þjóða er slík sérgæska. Wikipedia skilgreinir Sænska demókrata sem hægri öfgaflokk. Sænskir demókratar eiga rætur að rekja til nýnasista.

Þegar Nasistaflokkurinn á Íslandi hætti gengu félagar hans upp til hópa í Sjálfstæðisflokkinn enda ljóst að sá flokkur stóð honum næst.

Það getur verið að sitthvað í kosningaloforðum Sænskra demókrata sé ekki öfga hægripólitík. En stefna flokka og loforð þeirra þjóna fyrst og fremst þeim tilgangi að afla atkvæða.

Hvort loforðin yrðu efnd kemur væntanlega aldrei í ljós því að enginn flokkur vill starfa með þeim. Ef tekið er mið af upprunanum tel ég fráleitt að treysta á loforð þessa flokks.

Þó að fylgi við þessa hægri öfgaflokka hafi aukist mikið er það ekki það mikið að hægt sé að tala um að þeir taki mið af vilja fólksins. Ef svo væri fengju þeir miklu meira.

Þegar kreppir að eykst fylgi við slíka flokka. Þá missa margir þolinmæðina og hafna langtímalausnum og vilja úrræði fyrir sig strax, hvað sem það kostar. Þetta er þó sem betur fer minnihluti kjósenda.

Það gefur augaleið að það er brýnt að áhrif slíkra flokka verði ekki mikil. Þá fer illa eins og reynslan sýnir.

Það er ljóst að ranghugmyndir um Íslam og múslima meðal almennings eru miklar. Þetta er vegna þess að fréttir af því sem miður fer yfirgnæfa allt annað.

Almenningur gerir sér heldur enga grein fyrir að margt af því sem biblían boðar er hryllingur og að saga kristinna er engu skárri en múslima.

Bandaríkjamenn og Bretar sjá ofsjónum yfir evru. Bandaríkjamenn óttast að evran eigi eftir að taka við af dollar sem helsti alþjóðlegi viðskiptagjaldmiðillinn og Bretar eiga í auknum vandræðum með pundið eftir tilkomu evru sem er miklu sterkari gjaldmiðill.

Það er því hagur þessara þjóða að tala evruna niður. Með ensku sem móðurmál stjórna þær umræðunni á alþjóðavettvangi.

Þess vegna hefur evran átt mjög undir högg að sækja í umræðunni án þess að nein raunveruleg rök séu færð fyrir annmörkum hennar. Ef eitthvað væri að marka umræðuna væri evran löngu dauð.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 17.9.2014 kl. 16:06

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls.  Það er mikið til í þessu.  Það er líka vaxandi tilhneyging til þess að kalla alla sem eru ekki sammála viðkomandi "öfga" eitthvað.  Sömuleiðis verður æ algengara að skilgreining á hugtökum og öðru tengdu, er svo ólík, að öll umræða fer út um víðan völl.

Gott dæmi um það er t.d. hið ofur gegnsæja orð jafnrétti.  Sem auvitað þýðir að allir hafi sama rétt.  Að lög halli ekki á neinn.

Ekki að kynjaskipting í stjórnum einkahlutafélaga sé 60/40.  Sem á auðvitað ekkert skylt við jafnrétti, en er hreint gamaldags stjórnlyndi.  En nóg um það.

@Ásmundur.  Bæði Íslenskir og erlendir fræði sem leikmenn hafa deilt um flokkun á nazisma svo áratugum skiptir.  Það er enda með naz/fasisma að hann sækir bæði stefnu og félaga víða og er oft nokkuð erfitt að henda reiður á honum.  Oft var sagt á árunum í kringum 1930, að Hitler tækist að bjóða öllum upp á eitthvað, að gyðingum undanskildum.

En Mussolini átti uppruna sinn í kommúnistaflokki, og hið sama gildir um marga nazista.  Margir nazistar áttu langan feril hjá kommúnistaflokkum eftir stríð, ekki síst auðvitað í austur og mið Evrópu og margir þeirra áttu eftir að leggja lýðræðisflokkum lið.  

Margir fyrrverandi kommúnistar hafa svo átt nokkuð farsælt starf með lýðræðisöflum eftri fall "járntjaldsins" og margir þeirra átt velgengni að fagna, t.d. hjá Evrópusambandinu.

Uppruni segir oft ekki mikið, enda þroskast bæði stjórnmálamenn og flokkar, oft til hins betra, þó að því sé þó ekki alltaf að treysta.

Bæði Samfylking og Vinstri græn, eiga til dæmis rætur í andlýðræðislegum hreyfingum kommúnista á Íslandi, en ég hef af því litlar áhyggjur, og tel engar líkur á því að slíkt sé að óttast.  Það er enda langt um liðið.

FN var stærsti flokkur Frakklands í kosningum til Evrópusambandsþingsins.  Vissulega ekki með meirihluta kjósenda, en með u.þ.b. 25% kjósenda og svo gott sem 1/3 af þingmönnum Frakka, hvað segir það þér?

Sjálfsagt eru ranghugmyndir um Islam útbreiddar, en alvarlegi hluturinn virðist vera að ranghugmyndir um hvað Islam er, virðast jafnvel útbreiddari á meðal fylgismanna heldur en andstæðinga þess, alla vegna ef marka má hvað margir virðast reiðubúnir til að fylkja sér undir merki og berjast fyrir það sem aðrir segja að sé ekki Islam.

En hverju á að trúa í þeim efnum?

Saga kristni er ekki falleg, það er alveg satt og satt best að segja prísa ég mig sælan með það að hafa afneitað öllum trúarbrögðum fyrir löngu síðan.  Það eru klúbbar sem ég kæri mig ekki um að vera meðlimur í.

Það eru engir sem sjá ofsjónum yfir euroinu, og líklega fáir meiri stuðningsmenn frekari samruna í Evrópu en Bandaríkjamenn.  

Bretum hefði auðvitað verið í lófa lagið að taka þátt í euroinu og er það í rauninni enn, ef þeir kærðu sig um það.

En þeir voru mýmargir fræðimennirnir sem spáðu illa fyrir euroinu, vegna þess hvernig staðið var að uppbyggingu þess.

Flest allir þeir spádómar hafa ræst.

Hins vegar hefur Seðlabanki Evrópusambandsins og Draghi, að flestu leyti staðið sig vel, við afar erfiðar aðstæður.  Það er fyrst og fremst það sem hefur bjargað euroinu.

En þeir eru ekki komnir fyrir horn ennþá.

G. Tómas Gunnarsson, 17.9.2014 kl. 18:46

11 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Var einhver búinn að nefna að menn sniðganga öfgaflokka (hvort þeir eru hægri eða vinstri skiptir ekki máli) ekki síst minnugir uppgangs Nasistaflokksins í Þýskalandi og afleiðinga þess?

Það má víst ekki gleymast að nasistar voru kosnir til valda.

Kristján G. Arngrímsson, 17.9.2014 kl. 22:23

12 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er alltaf spurningin hvað er öfgaflokkur, en eins og nefnt er í bloginu, velja flokkar og stjórnmálamenn sér samstarfsflokka, og er eðilegur fylgifiskur lýðræðis.

En það heyrist lítið talað um vinstri öfgaflokka, en það verður þó æ algengar að heyra talað um "öfga" eitthvað.  Oft virðist mér það þeim tamast í munni, sem telja sig hafa höndlað "sannleikann" og telja allt sem víkur frá honum "öfga".

En kommúnistar hafa verið samstarfsflokkar í ríkisstjórnum (og stutt þær beint og óbeint) víða um lönd.  Þannig var það t.d. í Frakklandi (t.d. í stjórn Mitterand) og mig minnir að kommúnistar hafi tekið þátt í stjórn á norðurlöndunum og jafnvel fleiri ríkjum, án þess að ég hafi haft fyrir því að fletta því upp.

Það var nú að mig minnir ekki fyrr en á "Blairárunum" sem Breski Verkamannaflokkurinn gafst endanlega upp á því að hafa þjóðnýtingu í stefnuskrá sinni.

En eru það öfgar?'

En ég hef ekki mikla trú á þeirri strategíu, að loka augunum og halda að hlutirnir hverfi.

Það sýna dæmin frá t.d. Frakklandi og nú í Svíþjóð.

G. Tómas Gunnarsson, 18.9.2014 kl. 05:04

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Hvað nazistana varðar, þá frömdu þeir valdarán í Þýskalandi, eftir að þeir voru löglega kosnir til valda.

Þeir eiga það sameiginlegt með kommúnistum t.d. í Sovétríkjunum, eins og margt annað, að hafa verið valdaræningjar.

Það má sjá sum merki þess sama hjá Putin nú, en er ekki að fullu sambærilegt.  Það er hins vegar erfiðara að spá hvernig það endar.

Það má líklega greina vaxandi uppgang markaðs-Lenínisma í heiminum og spurning hvort hann sé þegar farin að breytast, eða sé í breytingarferli yfir í markaðs-Stalínisma.  Sumir myndu reyndar halda því fram að hann hafi lengi verið við lýði í löndum eins og Kína.

G. Tómas Gunnarsson, 18.9.2014 kl. 05:16

14 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já, sporin hræða. Þess vegna vill skynsamt fólk ekki hafa saman við Svíþjóðardemókratana að sælda. Svo er líka bara hitt, að það er erfitt að ræða við öfgasinnað fólk yfirleitt, bæði í pólitík sem annarsstaðar. Öfgafullt fólk er lítið gefið fyrir málamiðlanir, sem eru jú svo nauðsynlegar í pólitík. Sumir myndu segja að hún gangi öll út á þær.

Kristján G. Arngrímsson, 18.9.2014 kl. 13:03

15 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það á engin að starfa með flokkum sem eru þeim verulega á móti skapi.  En það eiga allir rétt á því að rödd þeirra heyrist í lýðræðisamfélagi, líka þeir sem kusu "Svíþjóðardemokratana".

Þess vegna er t.d. verulega varhugavert að ætla sér að sniðganga hefðir sem hafa myndast á þjóðþingum, eins og Jafnaðarmannaflokkurinn Sænski virðist vilja, ef marka má þessa frétt RUV.

Það sýnir ákveðna tilhneygingu til þess að vilja hundsa þær niðurstöður sem kom úr lýðræðislegum kosningum og er ekki til fyrirmyndar að mínu mati.

Hitt er svo þeim í sjálfsvald sett hverjum þeir kjósa að vinna með, og ekkert að því að lýsa því yfir að þeir muni aldrei vinna með þessum eða hinum.  Það er síðan kjósenda að vinna úr slíkum yfirlýsingum.

En ég held að framkoma eins og vinstri fylkingin er að sýna af sér nú, ef marka má frétt RUV, geri ekkert annað en að styrkja "Svíþjóðardemokratana" í sessi, ýta undir þá skoðun að "establisheringin" sé ekki að hlusta of fari einfaldlega sínu fram.

G. Tómas Gunnarsson, 18.9.2014 kl. 14:48

16 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Kannski hefði NSDAP betur verið hunsaður á sínum tíma. Þá hefði mannkynssagan kannski orðið önnur - og betri. Kannski geta hefðbundnu flokkarnir tekið tillit til þeirra skilaboða sem kjósendur eru að senda með fylgi demókratanna og breyta eitthvað stefnunni í innflytjendamálum án þess að fá þessum flokki nokkur völd.

Kristján G. Arngrímsson, 18.9.2014 kl. 19:04

17 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Nazistarnir voru að mestu leyti hundsaðir, þangað til allt í einu þeir voru orðnir of stórir til að hundsa.

Það er einmitt það sem ég óttast að hluta til að sé að gerast aftur.

Valdarán nazistana fór svo fram þegar þeir voru í samsteypustjórn, en það er önnur saga og vel þekkt.

En hér í síðustu athugasemd þinni, ertu að mínu mati, að nálgast kjarna málsins.

Það er hægt hundsa flokka, en það þarf að hlusta á kjósendur.

G. Tómas Gunnarsson, 19.9.2014 kl. 05:00

18 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Gleymdi að bæta því við, að mér þykir þó rétt að þeir eigi í raun "kröfu" á þessu forsetaembætti.

Það kann ekki góðri lukku að stýra á þjóðþingum, ef breyta á rótgrónum hefðum vegna andúðar á milli flokka.

G. Tómas Gunnarsson, 19.9.2014 kl. 05:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband