Skatturinn hækkar ríflega 50% meira á hina efnamestu, borið saman við hina efnaminnstu

Það er engin leið að ég tel til að halda því fram að virðisaukaskattur sé góður til að jafna tekjumun.  Þó virðast margir standa í þeirri meiningu ef marka má umræður á Íslandi.

Ef marka má það sem kemur fram í fréttinni, eykur það kostnað hinna tekjulægstu um u.þ.b. 33.000, að virðisaukaskattur á matvæli hækki úr 7% í 12.  Það eykur hins vegar kostnað þeirra tekjuhæstu um tæplega 53.000.

Þessi hækkun leggst því mun þyngra á hina tekjuhærri.

Það er því þarft að hefja umræðu um hvort að það megi ekki finna betri leið til að styðja við hina tekjulágu en lágan virðisaukaskatt.

Annar angi af hærri virðisaukaskatti á matvæli, er að ferðamenn, sem auðvitað kaupa meiri matvæli með sívaxandi fjölda þeirra skila þá hærri skatti í ríkiskassann.

Með lækkandi vörugjöldum og lækkun almenns virðisaukaskatts,  verður Íslensk verslun vonandi betur samkeppnishæf við útlönd og flytur verslun heim, ekki er vanþörf á.

Síðan er mikið rætt um þá hættu að lækkun á vörugjöldum og efra þrepi virðisaukaskatts muni ekki skila sér til neytenda.  Vissulega er sú hætta alltaf fyrir hendi.

En ef neytendur og hagsmunasamtök þeirra eru vel á verði, ætti að slíkt að gerast í flestum tilfellum. Fordæmi eru fyrir því.

En, allar skattahækkanir, sérstaklega á virðisaukaskatti, tollum og vörugjöldum, ættu að vera þeim sem þannig hugsa sérstakt íhugunarefni.

Allar slíkar skattahækkanir eru sérstaklega varhugaverðar, ef talið er að slíkt sé í raun óendurkræft.  Rétt er að hafa það í huga, næst þegar rætt er um skattahækkanir.

Vissulega er sinn siður í landi hverju, og víða, t.d. í N-Ameríku tíðkast að matvæli séu undanþegin sölusköttum.  Það er nokkuð sem sjálfsagt er að velta fyrir sér og rökræða.  En eins og kemur fram í fréttinni, kemur það þeim sem kaupa dýr matvæli mest til góða.

En það er öllum hollt að rökræða um skatta, hvernig þeir eru lagðir á, og ekki síður til hvers þeir eru notaðir.

En einföldun skattkerfa er af hinu góða og full þörf að stíga frekari skref í þá átt á Íslandi.  T.d. hefði mátt ganga mun lengra í því að afnema undanþágur frá virðisaukaskatti, og kemur þá sala á veiðileyfum fyrst upp í hugann.

 

 


mbl.is Matarútgjöldin aukast um 42 þúsund á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skattar reiknast sem hlutfall af tekjum. Ef skattar hinna tekjuhæstu hækka aðeins 60% meira en hinna tekjulægstu, þó að launamunurinn sé margfaldur, þá er þeim tekjuhæstu hyglað.

En þar fyrir utan eru hinir tekjuhæstu líklegir til að koma með hagnaði út úr þessum breytingum vegna afnáms vörugjalda sem hinir tekjulægstu munu njóta í litlum mæli.

Það er því nokkuð ljóst að hér er um breytingar að ræða í takt við annað af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Hinir best settu munu hagnast á kostnað hinna verst settu. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 12.9.2014 kl. 17:03

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ef hækkun VSK á matvæli kemur sér verst fyrir láglaunafólk og best hálaunafólki, þá hlýtur að mega álykta að algjör niðurfelling VSKs á matvæli komi sér best fyrir láglaunafólk og verst hálaunafólki.

Er ekki einhver þversögn í þessu?

Kolbrún Hilmars, 12.9.2014 kl. 23:34

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur.  Það er að ég tel engin leið til þess að virðisaukaskattur fylgi tekjum, en eftir því sem hann er lægri, spara þeir sem kaupa meira og dýrari matvæli hærri upphæðir.

Það er því skynsamlegra að finna aðrar leiðir til að aðstoða þá tekjulágu en lágur virðisaukaskattur.

Það er rétt að afnám vörugjalda mun gagnast þeim tekjuhærri í mörgum tilfellum, en vissulega gagnast lægra verð á hinum tekjulægri líka, en ekki í sömu upphæðum.  En þar þarf að líta til þess að það þarf að reyna að flytja sölu á mörgum dýrum tækjum, t.d. rafeindatækjum inn í landið.  Þau eru í allt of mörgum tilfellum keypt erlendis.

Og hverjir skildu nú ferðast meira, þeir tekuháu, eða þeir tekjulágu?

@Kolbrún.  Ef vsk á matvæli væri felldur niður, kæmi það öllum vel, en þeir tekjuháu sem kaupa dýr matvæli myndu að sjálfsögðu spara sér mun hærri upphæðir.  

Það er mun rökréttara að finna aðrar leiðir til að bæta hag láglaunafólks en lágan vsk.

Alger niðurfelling á vsk á matvæli eða lægri prósenta, kemur tekjulægri þó til góða, vegna þess að oft eru þeir að eyða háu hlutfalli tekna sinna í matvæli.  En það er þó betra að finna aðrar leiðir til að styðja þá.

G. Tómas Gunnarsson, 13.9.2014 kl. 04:07

4 identicon

Þetta blogg er rökleysa. Allir hlutfallstölur verður að reikna út frá ráðstöðunartekjum mismunandi tekjuhópa. Segjum að vsk hækki um 33 þúsund hjá þeim sem hefur 400 þús til ráðstöfunar á mánuði eða 4.8 milljónir á ári. Segjum að aannar hafi 900 þús í ráðstöfunatekjur á mánuði og borgar og borgar 53 þús í vsk á ári.Það er algjörlega augljóst á hvort aðilan hækkunin leggst þyngra.--Hitt er löngu vitað að neysluskattar eru ekki góð aðferð til að jafna tekjur.

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 13.9.2014 kl. 07:57

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Færslan er alls ekki rökleysa.  Það sem hún fyrst og fremst sýnir fram á, eins og þú réttilega tekur undir í lok þinnar athugasemdar, er að virðisaukaskattur (neysluskattar) er ekki góð leið til að jafna tekjur.

Það er mun betra að finna aðrir leiðir til að koma þessum hækkandi matarkostnaði til hinna lægstlaunuðu, en að halda lágum vsk.

Það væri því nær að hamra á stjórnvöldum að sýna hvernig þau hyggist standa að slíku, en að rífast um hækkaða vsk %stig.

G. Tómas Gunnarsson, 13.9.2014 kl. 08:39

6 identicon

Hvort neysluskattar séu rétt leið til tekjujöfnunar er aukaatriði í þessu sambandi. Aðalatriðið er að aðgerðirnar auka ójöfnuðinn þegar mótvægisaðgerðirnar eru teknar inn í dæmið.

Annars sé ég ekki betur en að lítill eða enginn vsk á mat sé góð leið til tekjujöfnunar og hef ekki séð nein rök gegn því. Þetta er leið sem 74% OECD landa hefur farið. Í aðeins 26% landa OECD er matur ekki með lækkaðan vsk.

Önnur leið til tekjujöfnunar er í gegnum skattkerfið, með hátekjuskatti, auðlegðarskatti og hærri skattleysismörkum.

Það stendur hins vegar til að leggja niður bæði hátekjuskatt og auðlegðarskatt í takt við þá óskrifuðu stefnu ríkisstjórnarinnar að bæta hag ríkra á kostnað almennings.

Það væri hægt að hækka skattleysismörkin til mótvægis við hækkaðan vsk og koma þannig í veg fyrir kjararýrnun almennings. En þá þyrftu skattleysismörkin að vera vísitölutryggð auk þess sem það mætti ekki vera auðveldara að breyta þeim en vsk-prósentunni.

Sannleikurinn er sá að hægri stjórnir hafa notað skattleysismörkin til að rýra kjör almennings með því að hækka þau ekki þrátt fyrir hækkandi verðlag. Á árunum fyrir hrun var þetta lengst af tilfellið.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.9.2014 kl. 11:12

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það að flestir stjórnvöld og stjórnmálamenn innan OECD hafi valið að hafa lægri virðis/söluskatt á matvæli, segir í sjálfu sér ekkert um hversu skynsamlegt það er.  Segir ef til vill meira um hversu líklegt til vinsælda og gott til atkvæðaveiða það er.

Tekjuhærri borga sjálfkrafa með persónufrádrætti hærri skattprósentu.  Það er eðilegt, en vissulega takmörk fyrir öllu, enda verður hvatinn til að afla sér tekna að vera til staðar.  Eignaskattur (auðlegðarskattur er ekkert nema ódýrt PR trikk) er í sjálfu sér óeðlilegur skattur, enda lagður á óháð því hvort eignir skila tekjum (arði) eður ei.  Dæmi um að hann hafi flæmt góð fyrirtæki burt af landinu og valdið eignaháum (en ekki samsvarandi tekjuháum) einstaklingum verulegum vandræðum.

Skattleysismörk lækkuð sem hluti af heildarlaunum, en það er eðilegt þegar laun eru almennt að hækka.  Ég þekki ekki hversu mikið persónufráttur rýrnaði til dæmis samanborið við framfærsluvísitölu, en þú setur það ef til vill inn hér Ásmundur.

G. Tómas Gunnarsson, 13.9.2014 kl. 12:32

8 identicon

Auðlegðarskatturinn er í raun eignaskattur eins og hann var hér lengst af.

Munurinn er þó sá að þá greiddi fólk eignaskatt jafnvel þó að það ætti ekkert annað en venjulega blokkaríbúð með með ekki of mikilli skuld. Gamalt fólk með litlar tekjur skuldaði oftast lítið og borgaði því upp til hópa eignaskatt og þótti engum mikið.

Í ljósi þessa er fáránlegt að sjá ofsjónum yfir því að hjón sem eiga yfir 100 milljónir í skuldlausri eign eða einstaklingar yfir 75 milljónir greiði 1 1/2% í eignaskatt á ári af eign umfram þessar upphæðir. Bjarni Ben gekk svo langt að kalla skattinn fátækragildru. Með öðrum orðum lítur hann á hjón sem eiga 100 milljónir eða einstaklinga sem eiga 75 milljónir sem fátæklinga.

Þó að almennt hafi mönnum ekki ofboðið eignaskatturinn gamli þá þótti það keyra um þverbak þegar hann fór yfir 2% í tíð Ólafs Ragnars Grímssonar sem fjármálaráðherra. Einnig þótti skjóta skökku við þegar eignaskatturinn hækkaði upp úr öllu valdi vegna andláts maka en þá lækkuðu eignaskattleysismörkin um helming.

Ég veit ekki hve mikið tekjuskattleysismörkin rýrnuðu að raungildi fyrir hrun en þau héldust óbreytt árum saman í krónum talið þrátt fyrir verðbólgu. Það var allavega umtalsvert. Skattleysismörkin voru þó hækkuð fyrir kosningarnar 2007 til að styggja ekki kjósendur. 

Hækkun launa er oft afleiðing verðbólgu og þjónar þá þeim tilgangi að vernda kaupmáttinn. Auk þess veldur launahækkun verðbólgu. Hækkun skattleysismarka eftir launahækkun er því nauðsynleg bara til að halda í horfinu. Sem mótvægi við hækkun vsk þurfa skattleysismörkin að hækka enn frekar.

Þegar hátekjuskatturinn hefur verið lagður af seinna á kjörtímabilinu er greidd sama skattprósenta af td 140.000 á mánuði og td 20 milljónum á mánuði. Slíkt fyrirkomulag eykur stöðugt ójöfnuðinn og endar að lokum með hruni eins og var reynsla Bandaríkjamanna um 1930 og 2008.

Ríkjum sem farnast vel vinna gegn auknum ójöfnuði með þrepaskiptum tekjuskatti þar sem hæsta skattprósentan er mun hærri en hér. Það var einnig tilfellið í Bandaríkjunum þegar þau þóttu fyrirmyndarríki.

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.9.2014 kl. 18:22

9 identicon

"Þegar hátekjuskatturinn hefur verið lagður af seinna á kjörtímabilinu er greidd sama skattprósenta af td 140.000 á mánuði og td 20 milljónum á mánuði."

Þetta er ekki rétt orðað hjá mér. Það sem ég á við er að með afnámi hátekjuskatts mun einstaklingur sem er með lágmarklaun og vill auka tekjur sínar greiða sömu skattprósentu af viðbótinni og maður sem er með 20 milljónir á mánuði og vill auka tekjur sínar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.9.2014 kl. 20:23

10 identicon

Þetta er reyndar ekki bara rangt orðað hjá mér heldur einnig efnislega rangt.

Með afnámi hátekjuskatts eru skattþrepin enn tvö en ekki eitt eins og það var í upphafi staðgreiðslunnar.

Það eru því skattar á tekjum yfir 290.000 sem fá sömu skattprósentu og td skattar á 20 milljónir á mánuði.

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.9.2014 kl. 20:36

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er auðvitað ekki rökrétt að taka hlut eins og persónufrádrátt út fyrir sviga, þegar rætt erum skatthlutfall.

Það er hins vegar svo að víða um lönd hefur "ofurskattlagning" verið reynd, nú síðast í Frakklandi.  Ég held að segja megi að hún hafi hvergi gefist vel.  Flestir þeir sem hún næði til, flytjast þá einfaldlega á brott, eða finna aðrar leiðir til að sleppa við að borga. 

Það er ekki tilviljun að skattalögfræðingar, endurskoðendur, og aðrir "skattasérfræðingar" hafa yfirleitt nóg að gera og hafa góðar tekjur.

P.S. Besta dæmið um ruglið hvað varðar eignaskatta (auðlegðarskatta) er líklega þegar Friðrik Skúlason seldi fyrirtækið sitt úr landi vegna þeirra.

Það var líklega stór sigur fyrir "jöfnuðinn" á Íslandi.

G. Tómas Gunnarsson, 16.9.2014 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband