4.9.2014 | 09:09
Ukraína undanfarinna áratuga heyrir sögunni til
Ukraína eins og ríkið hefur verið í ríflega 20 ár, heyrir sögunni til. Það er því sem næst engar líkur á að Ukraína endurheimti þau landsvæði sem það hefur misst í hendur Rússa (orðið aðskilnaðarsinnar, er eingöngu vel útfærður áróður af hendi Rússa).
Það er ekki víst að Ukraína hverfi alfarið af landakortinu, þó að á því sé vissulega hætta, en ríkið verður mun minna og kemur líklega til með að missa mikið af sínum bestu og verðmætustu svæðum.
Það er eflaust mörgum vonbrigði að enn og aftur skuli landamærum í Evrópu vera breytt með ofbeldi og vopnavaldi, eitthvað sem þeir töldu að heyrði sögunni til, en hervaldið og Rússar minna enn og aftur á sig með þessum hætti.
Þó að aðalástæðan fyrir þessum örlögum Ukraínu sé auðvitað ofbeldi og yfirgangur Rússa, eru skýringarnar auðvitað fleiri.
Ukraína hefur einfaldlega ekki notað síðustu áratugi af nægum krafti til að skilja á milli sín og Rússlands.
Efnahagur og að mörgu leyti stjórnmálalíf landanna hefur verið náið og með sterk tengsl. Það má enda segja að stærsta ógnin við Rússlands Pútins hefði verið "vestræn" og hagsæl Ukraína. Það var því mikið lagt í, til að halda glundroða og spillingu í Ukraínu.
En það er ljóst að sá tími að vopnavaldi sé beitt til að breyta landamærum í Evrópu er ekki liðinn.
Það er líka merkilegt að fylgjast með því hvað margir telja það eðlilegt að land eins og Ukraína "tilheyri", eða sé á "áhrifasvæði" annars ríkis. Að það sé bæði réttlátt og eðlilegt að Rússland ráði þar ríkjum, beint eða óbeint.
Auðvitað er það svo, og mun líklega verða um ókomna tíð, að ríki beita og eru beitt þrýstingi af nágrönnum sínum og öðrum ríkjum. En það þýðir ekki að það sé bæði sjálfsagt og eðlilegt.
Pútín hefur sýnt að hann fer sínu fram og lætur "aðvaranir" og "þvinganir" Bandaríkjanna og "Sambandsins" sér nokkuð í léttu rúmi liggja.
Það sýnir svo hver ræður ferðinni hjá svokölluðum "aðskilnaðarsinnum", að það er að sjálfsögðu Pútin sem er í samningaviðræðum við Ukraínuforseta um niðurstöðu í deilunni. Eftir því sem næst verður komist komas "aðskilnaðarsinnar" ekki að því borði.
En það er líka nauðsynlegt, að það sé fyrst og fremst Ukraína sem stendur í samningaviðræðum, þó að vissulega geti aðrir lagt sitt á vogarskálarnar.
En það er hætt við að samningar þar sem "Sambandið", undir forystu Þjóðverja spiluðu stórt hlutverk, á móti Rússum, myndu vekja upp óþægilegar minningar í mið og austur Evrópu.
Telur Úkraínuher sigraðan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.