1.6.2014 | 09:20
Högg á lýðræðið
Þó að úrslit falli all verulega frá þeim skoðanakönnunum sem birst hafa undanfarna daga (sem er ástæða til að velta fyrir sér) er stærstu og verstu tíðindin í þessum niðurstöðum afar slök kjörsókn.
Að aðeins 63% kjósenda sjái ástæðu til þess að nýta atkvæðisrétt sinn er högg á lýðræðið og er virkileg ástæða til að hafa ahyggjur af þróuninni.
Að kosningaþátttakan skuli falla um 10 %stig á milli kosninga undirstrikar hve alvarlegt málið er.
Að einhverju marki má segja ástæðuna að lítil spenna var í kosningunum, margir töldu úrslitin nokkuð ráðin og skoðanakannanir gáfu það til kynna.
Einnig virðist sem svo að frambjóðendur hafi ekki náð að koma því til skila hve mikilvæg sveitarstjórnarmál eru fyrir kjósendur og hve mjög þau snerta líf þeirra. Eflaust finnst einhverjum það ekki skipta máli hver það er sem mætir í "Star Wars búningi", eða stekkur alklæddur út í sundlaugar. Það sé varla þess virði að ómaka sig á kjörstað til að ákveða slíkt.
En sigurvegari kosninganna í Reykjavík er Samfylkingin og ef til vill enn frekar Dagur Eggertsson. Árangurinn i Reykjavík sker sig úr þegar litið er til árangurs Samfylkingarinnar víðast hvar annars staðar, og þó að meirihlutinn hafi fallið, er næsta ómögulegt annað en að Samfylkingin leiði næsta meirihluta og Dagur verði borgarstjóri.
Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærsti flokkurinn og má þokkalega við una, ef miðað er við skoðanakannanir, en á alla aðra mælikvarða er árangurinn hræðilegur. Sértaklega ef miðað er við stöðu flokksins í borginni í sögulegu samhengi og hvernig gengi Sjálfstæðisflokksins er í öðrum stórum þettbýlisstöðum. Flokkurinn hlýtur að fara í alvarlega sjálf(stæðisflokks)skoðun í Reykjavík
Björt framtíð tapar stórt í Reykjavík. Þeir gera þó einnig kröfu til þess að teljast sigurvegarar, þar sem BF hafi ekki boðið fram áður. En það þýðir ekki að koma fram sem framhald Besta flokksins fyrir kosningar, eins og Björn Blöndal gerði trekk í trekk og þykjast svo vera nýtt og ótengt framboð eftir kosningar. Björt framtíð tók upp listabókstaf Besta flokksins.
En það fer ekki hver sem er í "Star Wars" búninginn hans Jóns Gnarr og Björt framtíð seig hægt og rólega niður í skoðanakönnunum alla kosningabaráttuna. Að fara úr 6 borgarfulltrúum 2 er afhroð.
Framsóknarflokkurinn kemur enn og aftur á óvart. 2 borgarfultrúar fara líklega fram úr þeirra björtustu vonum og flokkurinn hlýtur að teljast til sigurvegara þessara kosninga. Þessi sigur Framsóknarmanna sýnir að það þarf að vera sýnilegur og í umræðunni. Fjölmiðlaumfjöllun (bæði góð og slæm) hefur skilað flokknum þessum árangri.
Vinstri græn hafa sloppið fyrir horn og halda sínum manni. Fyrir flokk í stjórnarandstöðu bæði í borg og á landsvísu og með vinsælan formann getur það ekki talist merkilegur árangur. En ef þau komast í meirihluta getur það breytt miklu.
Píratar unnu sigur á síðustu metrunum. Það er glæsilegur árangur þó að hann sé ekki jafn góður og skoðanakannanir gáfu til til kynna. Fyrsti sveitarstjórnarfulltrúi Pírata er staðreynd. Hugsanlegt er einnig að þeir komist í meirihluta og gefur þeim þá möguleika á að vekja frekar á sér athygli.
En hverjir verða þá í meirihluta?
Ég held að ekkert geti komið í veg fyrir að Samfylkingin og Björt framtíð verði í meirihlutasamstarfi. En hvaða flokk eða flokka taka þeir með sér?
Þá vakna spurningarnar um VG eða Pírata eða hvort sterkast væri að bjóða þeim báðum að taka þátt í meirihutanum?
Það getur verið traust að vera með 9 manna meirihluta, en það "kostar" líka. Ef ég ætti að spá þá myndi ég veðja á að annað hvort verði bæði VG og Píratar í meirihlutanum, eða eingöngu Píratar.
Slík spá byggir þó meira á tilfinningu, en pólítísku innsæi.
Meirihlutinn fallinn í borginni - lokatölur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Sveitarstjórnarkosningar | Facebook
Athugasemdir
Ég var einn af þeim sem kaus ekki, þar eð ég treysti engum af þessum flokkum, og ætla ekki að tíunda það.
En þeir sem halda að Dagur ætli sér að efna kosningaloforðin og byggja 2500 leiguíbúðir fyrir láglaunafólk, ætti að muna það, að Dagur var "de facto" borgarstjóri í fjögur ár og það voru ekki byggðar neinar leiguíbúðir, hvorki á vegum Félagsbústaða né annarra byggingafélaga fyrir tilstuðlan borgaryfirvalda.
Ég álít, að nú þegar kosningarnar eru yfirstaðnar, þá muni þetta loforð fara ofan í neðstu skúffu og fermetrafjöldi byggðra leiguíbúða mun verða sama sem log(1) næstu 4 árin.
Pétur D. (IP-tala skráð) 1.6.2014 kl. 12:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.