13.5.2014 | 11:44
Er E-sprengjan áhrifaríkasta vopn samtímans?
Það er eignað Putin Rússlandsforseta (þó að ég hafi nú aldrei getað fundið beina tilvitnun) að hafa sagt að Rússar hafi lítið með kjarnorkusprengjur að gera lengur, þeir geti notað olíu og gas með mikið betri árangri.
En hvort sem sem það er rétt haft eftir eður ei, er ljóst að ráðamenn víða um heim hafa dálæti á E-sprengjunni (Efnahagssprengja, eða Economic bomb).
E-sprengjunni er hægt að beita frá skrifstofunni, það þarf hins vegar að vona að hún valdi andstæðingnum meira tjóni, en eigin þjóð.
Það má reyndar velta því fyrir sér hvort að markaðir hafi ekki orðið meiri áhrif en stjórnvöld, en þó verður að líta til þess að stjórnvöld hafa gríðarleg áhrif á markaði og líklega sjaldan eins og núna, þegar allir bíða spenntir eftir hvað seðlabankar hyggjast fyrir.
Opinberir aðilar eiga auðvelt með að gefa tilskipanir sem nær ómögulegt er fyrir aðila á markaði að ganga gegn.
Þannig hafa markaðir í Rússlandi farið hríðlækkandi, en það "trend" var þó byrjað fyrir Krímdeiluna. Bæði rúblan og Rússnesk hlutabréf hafa hríðfallið og "eignir" bæði einstaklinga og fyrirtækja skroppið saman.
Það er ljóst að áhrif refsiaðgerða Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hafa afar takmörkuð áhrif, en þó meiri en refsiaðgerðirnar sjálfar bera með sér. Sálrænu áhrifin eru einnig all nokkur og óvissan um hvort gripið verði til frekari aðgerða, gerir það að verkum að fjárfestingar í Rússlandi færast upp um áhættuflokk.
Þannig hafa ávöxtunarkröfur aukist og Rússar hafa þurft að hætta við skuldabréfaútgáfur.
En eins og áður sagði er ekki meiningin að refsiaðgerðirnar bitni svo neinu nemi á þeim sem beitir þeim. En það er einmitt það sem flækir málið.
Efnahagur Rússa byggir að stærstum hluta á útflutningi orkugjafa, og það eru einmitt þeir sömu orkugjafar sem Evrópa og "Sambandið" þarfnast svo mikið.
Stundum er allt að því eins og ríki hafi því sem næst lagt sig fram um að verða háð Rússneskri orku. Þau eru enda glæst í samræmi við það sjötugsafmælin.
En það er ekki hægt að sjá þess nein merki að refsiaðgerðir hafi á nokkurn hátt dregið úr spennu í Ukraínu, þvert á móti hefur óróinn farið vaxandi þrátt fyrir refsiaðgerðir Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.
Hvort þær nái að koma í veg fyrir styrjöld í Ukraínu er óljóst, en viðbrögð og liðsflutningar á vegum NATO til A-Evrópulanda hafa sýnt Rússum að NATO er virkt, og meðlimir þess styðja hvorn annan. NATO hefur styrkst við þessa raun og stendur líklega sterkar en um langa hríð.
En bit refsiaðgerðana hefur verið lítið og það hefur komið skýrt fram að vilji til frekari refsiaðgerða er lítill sem enginn, og er þá frekar vægt til orða tekið. Fátt virðist geta komið í veg fyrir frekari upplausn í Ukraínu og spurning hvort að borgarastyrjöld sé hafin þar.
Ný afstaðnar "sýndarkosningar" í A-Ukraínu hella olíu á eldinn og það er ekkert sem bendir til þess að boðaðar forsetakosningar muni greiða úr flækjunni, og óljóst hvort þær muni geta farið fram í landinu öllu.
E-sprengjur og refsiaðgerðir eru þrátt fyrir allt keimlík öðrum vopnum, þau duga skammt ef hvorki er vilji eða trú á að þeim verði beitt.
Það eru því mestar líkur á að "Vesturveldin" fari hallloka í Ukraínu.
En hvort að það tryggir "frið á okkar tímum", er önnur saga.
Segja engar kosningar verða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Evrópumál, Utanríkismál/alþjóðamál, Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.