Hagvöxturinn, atvinnuleysið, krónan og "Sambandið".

Það hefur mikið og margt verið rætt um krónuna, gengisfall hennar, hagvöxtinn, atvinnuleysið og Evrópusambandsaðild á undanförnum árum.

Núna er líka mikið í umræðunni hjá "stjórnarliðum" árangur þeirra í baráttunni við atvinnuleysi og árangur þeirra við að ná upp hagvexti.

En skyldi sá árangur hafa verið jafn mikill ef Ísland væri í "Sambandinu" eins og Samfylkingu og Vinstri græn dreymir um?   Hefði hagvöxturinn verið minni ef Ísland væri í  "Sambandinu"?  Hefði atvinnuleysi náð sömu hæðum á Íslandi og í þeim ríkum "Sambandsins" sem hafa lent í erfiðleikum, ef Ísland væri nú þegar meðlimur "Sambandsins"?

Það er að sjálfsögðu ekki til einhlýt svör við jafn stórum spurningum.

En lítum á atvinnuleysið.  Það er staðreynd að atvinnleysi í þeim euroríkjum sem hafa lent í erfiðleikum hefur verið mikið hærra en á Íslandi.  Hæst náði atvinnuleysi á Íslandi ekki meðaltali, hvorki hjá euroríkjunum, eða "Sambandinu" í heild.

En oft heyrist sú fullyrðing, að gengissig hafi lítið hjálpað.  Það hjálpi ekki til við að veiða meiri fisk, eða framleiða meira ál, sem eru jú tvær af stærstu útflutningsgreinum Íslendinga.

Það er rétt.  Eins langt og það nær. En þó að útflutningur sé mikilvægur, er hann ekki það eina sem skiptir máli.  Það skiptir líka máli það sem er framleitt innanlands, og samkeppnishæfi þess skiptir máli.

Það skiptir líka máli það sem við flytjum ekki inn.

Að frátöldum sjávarútvegi og áliðnaði, skipti ferðamannaþjónusta Íslendinga miklu máli, ekki síst þegar kreppti að.  Þar átti auðvitað krónan gríðarstóran þátt.  Þegar Ísland varð ódýrari valkostur, sáu mun fleiri sér fært að ferðast til Íslands.

En það er fleira sem krónan átti þátt í.

Þegar erlend kvikmyndafyrirtæki ákveða hvar myndir séu teknar upp skiptir kostnaður höfuðmáli.  Engin mynd hlýtur (enn að minnst kosti) meiri aðsókn þó að hún sé að hluta til tekin upp á Íslandi.  Gengisfall krónunar á líklega meiri hlutdeild í komu erlendra kvikmyndafyrirtækja en endurgreiðsluprógram stjórnvalda (þó ég geri ekki lítið úr því).  Saman vinna þau vel.

Skyldi gengisfall krónunnar hafa styrkt Íslenska sælgætisframleiðendur í samkeppni sinni við innflutning?

Skyldi gengisfall krónunnar hafa auðveldað Íslenskum bjórframleiðendum að keppa við erlenda starfsbræður sína? (og gert þeim kleyft að flytja örlítið út).

Skyldi  lækkandi gengi krónunnar hafa gert Íslenskum hönnuðum auðveldara að starfa? Þar á meðal gert þeim auðveldara með að ná til þess sívaxandi fjölda erlendra ferðamanna sem heimsækja Ísland?

Skyldi gengisfall krónunnar hafa auðveldað Íslenskum húsgagna og innréttingaframleiðendum að standast samkeppni?

Skyldi Íslenskur matvælaiðnaður eiga auðveldara með að standa sig í samkepnninni eftir að gengisfall krónunnar kom til sögunnar?

Þetta eru bara nokkur dæmi.  Áhrif gengis hefur áhrif yfir allt þjóðfélagið, bæði til góðs og ills.  Auðvitað vilja allir aukin stöðugleika, en stöðugleiki gengisins tryggir ekki stöðugleika á öðrum sviðum.  Stöðugleiki gengis tryggir ekki atvinnu, ekki húsnæðisverð, ekki kaupmátt.  Ekki hlutfall launa og lána. Ekki vaxtastig. 

Þessu hafa þær euroþjóðir sem lent hafa í efnahagserfiðleikum kynnst af eigin raun.  Það eina sem euroið hefur tryggt þeim er að íbúar þeirra hafa (að Kýpur undanskildu) getað flutt fjármuni sína úr landi, án þess að bera skarðan hlut frá borði.

Hvað skyldi gengisfall krónunnar hafa gert það að verkum að margir héldu vinnu á Íslandi undanfarin ár? 

Skyldu hagfræðingar ASÍ, hafa reynt að reikna það út?

Hvað skyldi gengisfall krónunnar hafa lagt mikið til þess hagvaxtar sem þó varð á Íslandi undanfarin ár? 

Skyldu spunameistarar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa reynt að reikna það út?

Og af því að við erum að tala um hagvöxtinn.  Hvað skyldu þeir 60 milljarðar sem útflutningur á makríl færði Íslendingum hafa átt mikinn þátt í hagvextinum?

Skyldu spunameistarar Samfylkingar og Vinstri grænna hafa reynt að reikna það út?

Skyldu einhver hafa reiknað það út hve mikið sjálfstæður gjaldmiðll og full yfirráð fyir fiskveiðilögunni hafa skapað miklar tekjur fyrir Íslendinga undanfarin ár? 

Vilja Samfylkingarmenn og Vinstri græn reyna að giska á það hvað Íslendingar hefðu fengið mikinn makrílkvóta ef Ísland væri meðlimur Evrópusambandsins eins og þeir stefna að?

Það er ekki að undra þó að Samfylkingunni og Vinstri grænum gangi illa að fóta sig í kosningabaráttunni.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Heyr heyr...gott blogg.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 21.4.2013 kl. 09:36

2 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ágætt blogg – en það er ekkert þarna sem fær mig til að efast um að aðild að „sambandinu“ sé ekki betri fyrir okkur

Rafn Guðmundsson, 21.4.2013 kl. 15:21

3 Smámynd: Sigurður Gunnarsson

Ef glæpagengið verður ekki stöðvað á næstu árum, þá er ég líklega sammála Rafni. Við erum of lítil þjóð til að þola frekari áföll af þeim toga. Vinstri maður að nafni Rúnar Kristjánsson bloggar um þetta, en leyfir engar athugasemdir á síðu sinni.

Hann biður menn um að kjósa ekki flokka sem bera ábyrgð á hruninu, en þá eru fáir eftir! nema VG, sem gengur að öllu atvinnulífi dauðu.

Ég segi hins vegar að það sé mannlegt að gera mistök, en slæmt að halda áfram á sömu braut. Þar má vitna í einn fjölhæfasta andans mann sem Danir hafa haft, hönnuður, stærðfræðingur og ljóðskáld, Piet Hein: "Den bedste kan begå en bommert.

Men bliver man ved er man en dummert" Því miður finnst mér, þrátt fyrir alla grósku í stjórnmálastarfi sem kemur fram í fjöld nýrra flokka og miklum sviptingum í fylgi flokka, þá finnst mér lítið benda til að seinni setning Piet Hein eigi ekki við. Sérstaklega er þögnin innan Sjálfstæðisflokksins alveg ærandi, manni verkjar í eyrun! Þetta er skylduverkefni hægri manna eins og niðurskurðurinn eftir hrun var óljúft verk vinstri manna. Ef menn ætla ekki að vinna vinnuna sína, þá eiga þeir ekkert gott skilið, hvorki nú né lengi síðar. Ef ég væri páfi, myndi ég lýsa yfir eilífri bannfæringu á liðinu ;o)

Sigurður Gunnarsson, 21.4.2013 kl. 19:43

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Rafn.  Tilgangur þessa greinastúfs var nú ekki að fá þig til að ganga af "Sambandstrúnni".  Ég trúi á að setja sér hófleg markmið. lol

@Sigurður.  Ég skil ekki hvert þú ert að fara, eða hver er "punkturinn" í því sem þú skrifar.

Hverjir eru "glæpagengið" sem þú heldur að "Sambandið" geti hugsanlega stöðvað?

Persónullega held ég að niðurskurðurinn sé langt frá því kominn á endastöð.  En það er frekar spurning hvort að hann hafi yfirleitt verið á réttu stöðunum, sem er jú allt annar handleggur, hvort sem vinstri mennirnar var hann óljúfur eður ei.

G. Tómas Gunnarsson, 21.4.2013 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband