Það bítur ekkert á Framsókn, Sjálfstæðisflokkur réttir lítillega úr kútnum og Píratar ræna fylgi

Það virðist ekkert bíta á Framsókn.  Ekkert.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að stoppa fylgistapið, en fylgisaukningin er ekki næg til að fullyrða að þvi hafi verið snúið við.  Píratar eru að ná athygliverðum árangri, komnir vel yfir Vinstri græna í fylgi og eru ekki langt frá Bjartri framtíð og Samfylkingu.

En Framsóknarflokkurinn virðist hafa þessar kosningar í hendi sér nú þegar tæpar 2. vikur eru til kosningar.  Ekkert nema stór mistök af þeirra hálfu gæti komið í veg fyrir sigur þeirra að virðist.  Þeir hafa náð til kjósenda.  

Það bítur ekkert á fylgi þeirra þó að hver "sérfræðingurinn" komi fram á fætur öðrum og segi tillögur þeirra hættulegar, óframkvæmanlegar eða loftbólur.  

Það skiptir heldur ekki neinu máli þó að margir haldi því fram að þeir sem séu í verulegum vandræðum, séu færri en flestir halda.  Kjósendur hafa ákveðið að "skuldavandi heimilana" sé aðalmál komandi kosninga og að Framsóknarflokkurinn sé "sympatískasti" flokkurinn í þeim málaflokki.

Sumir sem ég hef heyrt í vilja meina að innst inni viti kjósendur að Framsóknarflokkurinn komi til með að eiga erfitt með að efna loforðin, en þeir séu reiðubúnir til að taka viljan fyrir verkið og leyfa þeim að reyna.

Sjálfstæðisflokkur nær að lyfta sér aðeins, en of snemmt er að segja hvort að hann sé á raunverulegri uppleið.  Dramatík helgarinnar virðist ekki hafa haft veruleg áhrif, ekki enn sem komið er að minnsta kosti.

Samfylkingin heldur áfram að leita niður á við.  Ef úrslitin verða eitthvað í líkingu við kannanir, er ekki bara ástæða til að efast um pólítískt líf Árna Páls, heldur flokksins í heild. 

Björt framtíð sígur virðist hafa stoppað í ríflega 9%.  Þó að fylgistapið sé verulegt frá því sem mest var, er þó ekki hægt að segja annað en árangurinn sé góður fyrir nýjan flokk.

Píratar halda áfram að ræna fylgi, 9% er stórkostlegur árangur hjá þeim.  Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeim gengur að halda sér á floti, nú þegar þeir eru kominir í "djúpu laugina".  Ég er enn þeirrar skoðunar að þeir gætu komið á óvart í kosningunum.

Vinstri græn sökkva dýpra.   6.7% er á hættuslóðum.  Ef þeir fara mikið neðar fara kjósendur hugsanlega að velta því fyrir sér hvort þeir eigi á hættu að atkvæði greitt þeim falli dautt.

Ég hef persónulega enga trú á því að þau framboð sem eru fyrir neðan mörkin komi mönnum á þing.  

Ég hef velt því fyrir mér hvort að Regnboginn eigi einhverja möguleika á því að koma að manni, annnað hvort í NorðVestri, eða Suðri.  En í þessari könnun eru þeir með 0.  Engin hefur nefnt Regnbogann til sögunnar.  Það bendir því ekki margt til að svo verði.

Undanfarið hafa þrír flokkar fengið mesta athygli, þó hún hafi ekki verið í alla staði jákvæð.  Það hafa verið Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Píratar.   Það eru einmitt þeir þrír flokkar sem vinna á í þessari könnun.

En ég spái því að spjótin muni standa mest á Framsóknarflokki og Pírötum næstu dagana.  Þangað er atkvæði að sækja og líklega þá kjósendur að finna sem hvað líklegastir væru til að færa sig.  Aðrir flokkar eru líklega ekki langt frá kjarnafylgi sínu, þó að vissulega sé erfitt að gera sér grein fyrir því hvað það er mikið, t.d. hjá Bjartri framtíð.

Það er erfitt að spá um ríkisstjórn, en þó þarf ekki að fara lengra en í orð Höskuldar Þórhallssonar til að rökstyðja það að vinstri stjórn er enn líklegasti kosturinn.

Þó líklega frekar BAS en BSV, Vinstri græn eru það verulega löskuð, ef marka má þessa könnun.

Ef vinstra fylgið splundrast eins og þessi könnun sýnir er þó freistandi að segja að  ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks væri örlítið líklegri en áður.

Ef svo færi, spái ég að sameiningarviðræður hefjist fljótlega hjá Samfylkingunni, Bjartri framtíð og Vinstri grænum. 

Hér má svo finna niðurstöður könnunar MMR

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur bætir við sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband