Vandræði Sjálfstæðisflokks staðfest - stöðug fylgisaukning Framsóknar

Þessi könnun MMR bendir til þess að fylgistap Sjálfstæðisflokks haldi áfram og að Framsóknarflokkurinn vinni stöðugt á.

Með sama áframhaldi verður Framsóknarflokkurinn stærsti flokkur Íslands í komandi kosningum.  Það er líklega eitthvað sem fáir hefðu þorað að setja fram sem spá, jafnvel svo nýlega sem á Bóndadeginum.

Fylgi Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og VG er svo gott sem óbreytt frá síðustu könnun MMR.

Þó að það skipti ef til vill ekki miklu máli í "stóra samhenginu", vekur það þó athygli mína að Píratar eru sterkastir af nýju framboðunum.

Ef úrslit kosninganna yrðu nákvæmlega svona í apríl, væru áberandi tveir sigurvegarar. Framsóknarflokkurinn og Björt framtíð. 

Tapið er mest hjá Samfylkingu og Vinstri grænum, en þó að Sjálfstæðisflokkurinn vinni all nokkuð á yrði engin leið önnur en að líta á þessa niðurstöðu sem tap fyrir flokkinn.

Ef þessi yrði niðurstaðan yrði hún gríðarlegt áfall fyrir hina nýkjörnu formenn, Árna Pál og Katrínu Jakobsdóttur.  Ég leyfi mér að efast um að þau yrðu langlíf á formannsstóli.  Þessi úrslit yrðu einnig gríðarlegt áfall fyrir Bjarna Benediktsson og engin spurning í mínum huga að skipt yrði um formann á næsta landsfundi.

Formennirnir gætu þó bjargað stöðu sinni með því að koma flokkunum í ríkisstjórn, en ég held að það myndi þó ekki duga Bjarna, ef flokkurinn yrði ekki með meira fylgi í kosningum.  Ef þessi yrði niðurstaðan má reyndar efast um að flokkurinn hafi nokkuð í ríkisstjórn að gera.

Ef þessi yrði niðurstaðan í kosningum yrði Framsóknarflokkurinn sterki flokkurinn í Íslenskum stjórnmálum og varla nokkur efi á því að hann myndi leiða næstu ríkisstjórn.

En yrði sú ríkisstjórn mynduð til vinstri eða hægri?

Persónulega myndi ég spá því að Framsóknarflokkurinn myndi frekar vilja fara til vinstri.  Það gæti þó staðið í sumum framsóknarmönnum að leiða Guðmund Steingrímson og BF til valda, en ef hlutföllin breyttust og Vinstri græn gætu komið þar í staðinn þætti þeim það líklega mun vænlegri kostur.

Stjórn með Sjálfstæðisflokknum yrði Framsóknarflokknum líklega auðveldari, ég tala nú ekki um ef þeir gætu náð þeim sögulegu úrsltium að mynda stjórn þar sem Sjálfstæðisflokkurinn yrði minni aðilinn.  En það sem vinnur ef til vill sterkast gegn slíkri stjórn er sú hræðsla sem hefur byggst upp ínna flokksins að flokkurinn hafi farið illa út úr því samstarfi og megi ekki líta út fyrir að vinna eingöngu til hægri.

En enn er býsna langt til kosninga.  Nú er kosningabaráttan að hefjast fyrir alvöru.  Staðan er galopin þó að í augnablikinu sé hún lang sterkust hjá Framsóknarflokknum.

En eins og staða Framsóknarflokks sýnir nú, getur hún breyst á skömmum tíma.

P.S.  Það hefði verið fróðlegt að sjá aldursdreifingu í þessari könnun. 

Hér er svo hlekkur á könnunina.

 


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks dalar áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Greinilegt að fólk horfir til þess sem flokkarnir hafa aðhafst,langt aftur í seinustu öld. Þannig fékk ég alltaf ákúrur frá einum ágætum hreinskilnum bloggara,sem sá rautt er ég mærði Framsóknarflokkinn. Ég var óspör á lof og það er laukrétt, hann stóð sem klettur með okkur i Icesave-kúgunardeilunni. Það var ómetanlegt,en þar brast Bjarna kjarkur,úh! ,sem þjálfari get ég ekki útilokað menn sem brenna af víti,einu sinni,en aftur þá,:.Svo eftir allt ræð ég engu en er með hér í umræðu og það léttir á álaginu.

Helga Kristjánsdóttir, 15.3.2013 kl. 00:39

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má aldrei vanmeta söguna. 

Ég er sammála því að IceSave úrskurðurinn var vendipunktur fyrir Framsóknarflokking og Sigmund Davíð.

Vissulega brást Bjarni þar á endasprettinum, ef svo má að orði komast.  En hann hafði þó ekki básúnað í öllum fjölmiðlum um þann "fimbulvetur" sem skylli á ef samningurinn yrði felldur.  Hann hafði ekki neitað að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og Jóhanna og Steingrímur.

Þess vegna féll trúverðugleiki stjórnarliða og ýmissa "álitsgjafa" og fræðimanna eins og Baumgartner úr himinhvolfinu.

En það er gott að taka þátt í umræðunni, það ættu sem flestir að gera.

Hafi bankahrunið og IceSave kennt okkkur eitthvað, er það að umræðan er alltof mikilvæg til að láta hana eftir stjórnmálamönnum og fræðimönnum.

G. Tómas Gunnarsson, 15.3.2013 kl. 05:57

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Er þetta virkilega svona einfalt - bara spurning um IceSave?

Ef svo er, þá er þetta má of einfalt til að ég geti skilið það.

Kristján G. Arngrímsson, 17.3.2013 kl. 21:51

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Auðvitað spila fleiri þættir en IceSave inn í.  En ég er þó þeirrar skoðunar að IceSave hafi verið vendipunktur.

Allt í einu uppgötvuðu kjósendur að aðilar eins og InDefence, Advice or fleiri höfðu rétt fyrir sér.  Það sama gilti um Framsóknarflokkinn og Sigmund Davíð.

Skyldi það gilda um fleiri mál?  

Það á eftir að koma í ljós, en kjósendur uppgötvuðu að það væri eðlilegt og sjálfsagt að leggja við hlustir þegar Sigmundur og Framsóknaflokkurinn töluðu.  Að heyra hvað þeir voru að segja.

Að mörgu leyti virkar það öfugt gagnvart Samfylkinug, Vinstri grænum og öllum fræðimönnunum sem básúnuðu hér að allt færi fjandans til, ef IceSave samningurinn yrði ekki samþykktur.   Þeirra trúverðugleiki er að mestu horfinn og ég hygg býsna langt þangað til hann verður endurheimtur.

Auðvitað er þetta einföldun hér.  En veltu því fyrir þér Kristján, hver konar forsætisráðherra ákveður að taka ekki þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu?  Ákveður að sitja heima í fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu lýðveldisins sem hún stýrir.

Hvaða skilaboð eru það?

Persónulega þykir mér það nokkuð eðlilegt að slíkur einstaklingur sé rúinn trausti.

G. Tómas Gunnarsson, 18.3.2013 kl. 08:43

5 Smámynd: Gunnlaugur I.

En takið þið eftir því að svona fyrirvaralaus og einhliða eignaupptaka á bankainnistæðum almennings hefði aldrei orðið hjá stóru þjóðum EvrópuSovétSambandsins.

En valdaelítu EvrópuSovétSambandsins í Brussel finnst allt annað að ræna svona eignir smáþjóða eins og Kýpverja.

Reyndar fundaði elítan lengi um það hvort að yfirleitt ætti að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir svona smáþjóð eins og Kýpverja. Niðurstaðan varð að lokum sú að Kýpverjar skildu sæta verri afarkjörum en nokkrum öðrum EVRU ríkjum sem að þurft hafa á aðstoð að halda.

Við sem smáþjóð ættum að skoða þetta sérstakelga vel um leið og við ættum aldrei að gleyma hótunum og yfirgangi þessa sama EvrópuSovétSambands í ICESAVE málinu.

Gunnlaugur I., 18.3.2013 kl. 10:23

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eitt af því sem ég skil ekki í sambandi við IceSave málið er að það skuli vera evrópskur dómstóll sem getur einhvernvegin skorið úr um hvað er rétt og hvað rangt í því máli. Ég hefði haldið að Íslendingar ættu að vera nægilega sjálfstæðir til að ákveða það sjálfir.

Líklega hef ég aldrei áttað mig alveg á því um hvað málið snérist í hugum flestra Íslendinga. Mér skildist að það væri ekki um að ræða mikið af peningum því að heimtur úr þrotabúi gamla Landsbankans fari langt með að borga skuldina. Kannski var það misskilningur minn.

Mér fannst þetta vera spurning um að koma fram af heiðarleika og virðingu fyrir erlendum sparifjáreigendum, en líklega hefur fæstum fundist það. Kannski var þetta bara spurning um að "vinna" með öllum hugsanlegum leiðum.

En eg veit ekki enn hvað það var sem "við unnum".

Kristján G. Arngrímsson, 18.3.2013 kl. 20:05

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það var ekki Evrópskur dómstóll per se sem dæmdi í IceSave deilunni, nema að því leyti að allir dómstólar í Evrópu eru Evrópskir, ekki satt?  Þeir Íslensku líka.

EFTA dómstóllinn (hefur ekkert vald yfir Evrópuríkjum, en Íslendingar eru aðilar að EFTA) dæmdi í IceSave deilunni.  Hann var að dæma um hvort að aðgerðir Íslendinga hefðu brotið í bága við lög og reglugerðir sem gilda á EEA/EES svæðinu.  Hann dæmdi fyrst og fremst um hvort að samningar og lög þeim tengd hefðu verið brotin.

Hann komst að því að svo hefði ekki verið.

Íslendingar unnu fullan sigur í því máli.  Þeir höfðu komið fram af fullum heiðarleika og virðingu gegn erlendum sparifjáreigendum.  Í raun uku Íslendingar rétt þeirra og möguleika til að endurheimta fé sitt, langt umfram áður gildandi lög, með setningu neyðarlaganna.

Málið snerist ekki um það hvort að erlendir innistæðueigendur ættu rétt á peningum úr þrotabúi Landsbankans (sáluga) eður ei.

Málið snerist (í stuttu máli) um hvort að Íslenska ríkið bæri ótakmarkaða ábyrgði á greiðslum úr Innistæðutryggingasjóði.   Málið snerist að hluta til einnig um hvort Bretar og Hollendingar gætu einhliða ákveðið að "lána" Íslenska ríkinu fé, greitt út til sparifjáreigenda og komið svo af fullri hörku og krafið Íslendinga um endurgreiðslu og vexti.

Þó að nú sé staðan sú að Landsbankinn sálugi geti greitt svona mikið, var það alls ekki ljóst þegar deilan hófst.  Enginn vissi í raun hvað fengist fyrir eignirnar.  Það má líka halda því fram að mun meira hafi fengist fyrir eignirnar með því að fara þá leið sem Íslendingar völdu (þetta er vissulega umdeildanlegt eins og flest annað) vegna þess að þrýstingurinn var minni á það að reiða fram fé, sala eigna varð hægari og líklega tryggði það hærra verð.

Íslendingar unnu þann sigur að það var dæmt að þeir hefðu staðið rétt að málum. Sigurinn fólst í því að dómarar kváðu upp þann dómstól að Bretar og Hollendingar ættu engar kröfur á hendur Íslendingum, sem þeir höfðu þó sett fram og sótt af hörku, ef ekki grimmd.

Dómurinn kvað upp þann úrskurð að sú leið sem Íslendingar ákváðu, væri réttmæt, sanngjörn og innan ramma laganna.  Það er góður sigur.

Þú virðist, eins og stundum áður finnst mér, hafa gengið út frá því að Íslendingar hefðu rangt fyrir sér.  Þeir gætu ekki hafa vitað betur en "fínir menn" í útlöndum.  Útlendingarnir hljóta að hafa miklu meira vit á hlutunum (þar með talið lögunum) en Íslendingar.  Þú virðist telja það algera vitleysu af Íslendingum að vera eitthvað að standa uppi í hárinu á "virtum" útlendingum.  Eru Íslendingar ekki hvort sem er óhæfir til að stjórna sér sjálfir að þínu mati?

En á þessu máli misstu margir trúverðugleikann, vegna þess að þeir fóru offari í því að sverta og gera lítið úr málstað Íslendinga.  Þar á meðal voru Jóhanna Sigurðardóttir og allur þingflokkur Samfylkingarinnar, Steingrímur J. Sigfússon og mestur partur þingsflokkur Vinstri grænna.  Fjölmargir "vel menntaðir" fræðimenn og álitsgjafar.

Framsóknarflokkurinn og Sigmundur Davíð stóðu hins vegar í fæturna.

Síðan þegar sömu hópar og einstaklingar koma aftur fram fyrir kjósendur og halda fram hinu og þessu, hverjir finnst þá kjósendum eðlilegt að trúa?

Þetta er stór hluti af velgengni Framsóknarflokksins nú um stundir.

Hvort það heldur er önnur saga, sem við eigum eftir að sjá lok á. 

G. Tómas Gunnarsson, 19.3.2013 kl. 06:09

8 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég átti bara við að um væri að ræða útlendan dómstól, ég var ekki að tengja hann við Evrópu í merkingunni ESB.

En það sem þú segir: "Þú virðist, eins og stundum áður finnst mér, hafa gengið út frá því að Íslendingar hefðu rangt fyrir sér.  Þeir gætu ekki hafa vitað betur en "fínir menn" í útlöndum.  Útlendingarnir hljóta að hafa miklu meira vit á hlutunum (þar með talið lögunum) en Íslendingar.  Þú virðist telja það algera vitleysu af Íslendingum að vera eitthvað að standa uppi í hárinu á "virtum" útlendingum.  Eru Íslendingar ekki hvort sem er óhæfir til að stjórna sér sjálfir að þínu mati?" er tóm tjara.

Þetta snýst ekki um að lúffa fyrir fínum mönnum í útlöndum heldur að líta í eigin barm og gera ekki sjálfkrafa ráð fyrir að maður sjálfur hafi rétt fyrir sér en útlendingar rangt. Það er alveg án spurningar í mínum huga að íslensk stjórnvöld brutu siðferðilega á erlendum sparifjáreigendum í Landsbankanum með neyðarlögunum. (Þess vegna finnst mér svo fyndið þegar Íslendingar fornemast útaf hryðjuverkalögunum sem Bretar settu á).

Mér fannst eðlilegt að samið væri í málinu og held að EFTA dómstóllinn hafi ekki fellt réttan úrskurð, þótt sjálfsagt hafi dómstóllinn fellt lögmætan úrskurð. "Sigur" Íslendinga var áreiðanlega lögmætur, en mér finnst hann siðferðilega vafasamur. En það er eins og mörgum finnsti slíkt engu skipta, og aðalatriðið sé að fá sitt fram, með öllum ráðum, og að ef eitthvað sé löglegt þá sé það þarf með fullkomlega réttmætt.

Það er bara þetta sem böggar mig í þessu herjans IceSave máli.

Kristján G. Arngrímsson, 19.3.2013 kl. 06:26

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

ESB  er ekki Evrópa, Evrópa er ekki ESB.  Það er nokkuð sem "Sambandssinnar" ættu að temja að gera greinarmun á.

Það eru ekki til neinir  "Evrópusinnar", eingöngu Evrópusambandssinnar.  Á því er mikill munur.

En EFTA dómstóllinn er "erlendur dómstóll", sem Íslendingar eiga aðild að gegnum EFTA.  Það er eðlilegt að hann fjalli um mál þar sem vafi er um að reglum EFTA, eða reglum samninga sem tengjast EFTA, hafi verið fylgt.

Það var enginn sparifjáreigandi sem lagði inn fé sitt hjá Íslenskum stjórnvöldum. 

Enginn.

Það er ekkert samasemmerki á milli Íslensks einkabanka og Íslenskra stjórnvalda.

Íslensk stjórnvöld uku rétt sparifjáreigenda í Bretlandi og Hollandi með neyðarlögunum.  Þau færðu þá fram fyrir í kröfuhafaröðinni.  Það má því segja að með þeim jókst það hlutfall sem þeir fá af fé sínu (ef það verður ekki 100%).

Þetta snerist ekki um það að líta í eigin barm og álíta að maður sjálfur hljóti að hafa haft rétt fyrir sér.  

Það snýst um að fara í gegnum lögin og ákveða hvort að maður hafi verið brotlegur, eða hvort að farið hafi verið eftir lögunum.

Úrskurðurinn hljómaði upp á að Íslendingar hefðu starfað og framkvæmt innan ramma laganna..

Það var auðvitað eðliegt að reyna að semja í málinu, en samningaviðræður þurfa ekki nauðsynlega að enda með samningum (það er eitthvað sem Íslendinga ættu að hafa í huga í samningaviðræðum við ESB).

Þá enda málin oft fyrir dómstólum, eins og IceSave deilan gerði og þá fæst niðurstaða.

G. Tómas Gunnarsson, 19.3.2013 kl. 07:28

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ef útí það er farið er náttúrulega mjög kaldhæðnislegt að Framsóknarflokkurinn fái nú byr í seglin í ESB-andstöðu sinni vegna úrskurðar evrópsks dómstóls, sem byggir á evrópskum gildum og hefðum, einmitt þeim sömu gildum og hefðum sem Framsóknarflokkurinn berst svo hatrammlega gegn.

Líka kaldhæðnislegt að Íslendingar virðast almennt líta svo á að sigur hafi unnist í deilunni á grundvelli úrskurðar þessa sama evrópska dómstóls - sem mér finnst benda til að Íslendingar almennt taki mikið mark á evrópskum stofnunum (eða kannski er það bara þegar það hentar okkur).

Ég er ósammála því að gera skarpan greinarmun á Evrópu og ESB. Markmiðið með ESB er sameining Evrópu. ESB er ekki bara laga- og stofnanaumhverfi heldur einnig spurning um gildi og hefðir. Ég held að bæði fylgismenn og andstæðingar ESB aðildar séu margir á þessari sömu skoðun og ég. (T.d. dettur mér í hug einn einarðasti ESB-andstæðingur sem ég þekki, fyrir kannski utan þig, Styrmir Gunnarsson, hann er mér ábyggilega sammála um þetta).

Niðurstaðan sem fæst fyrir dómstólum er bara lagaleg niðurstaða. IceSave var ekki nema að hluta til lagaleg deila. Eða það fannst mér amk.

Kristján G. Arngrímsson, 19.3.2013 kl. 08:55

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta er ekki Evrópskur dómstóll, ekki nema að því marki að allir dómstólar í Evrópu eru Evrópskir.

 Þetta er EFTA dómstóll og ég minnist þess ekki að Framsóknarflokkurinn hafi barist fyrir því að Ísland segði sig úr EFTA.

EFTA og Evrópa og Evrópusambandið er ólíkir hlutir.  Skurðarpunktur EFTA og Evrrópusambandsins, er EEA/EES samningurinn.  Þar hafði EFTA dómstóllinn lögsögu, ekkert óeðlilegt við það.

Auðvitað er allur munur á ESB og Evrópu.  Markmiðið skiptir þar engu máli.  Það er ekki nema rétt helmingur ríkja Evrópu i Evrópussambandinu (27 of 50, ef ég man rétt).  Þess vegna er það ekkert annað en hroki þegar forvígismenn Evrópusambandsins tala oft eins og þeir tali fyrir Evrópu.

Það hefur reyndar komið á betur í ljós á undanförnum árum að það er varasamt að tala um sameiginleg gildi og hefðir í Evrópu, en skiptist meira að segja "Sambandið" á meiri í "tvo póla".  Þá erum við ekki byrjaðir að tala um önnur ríki í Evrópu.

Auðvitað má rökræða hluti út frá öðrum hlutum en lögum, en það eru þó lögin sem byggt er á og út frá þeim er úrskurðað.

Ég hygg að fæstir vilji breyta því og held reyndar að betri lausn sé ekki finnanleg.

G. Tómas Gunnarsson, 19.3.2013 kl. 09:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband