8.3.2013 | 11:30
Vondu karlarnir og góðu konurnar. Hefnd og eignarhald
Hér og þar um netið hefur mátt sjá óánægju með nýlegar breytingar á ritstjórn Fréttablaðsins.
Bæði er fullyrt að um sé að ræða hefnd Jóns Ásgeirs og svo hitt líka að um sé að ræða að kynjamismunun eina ferðina enn.
Auðvitað veit ég ekki hvað býr að baki breytingunum á ritstjórn Fréttablaðsins frekar en flestir aðrir. Einhvern veginn leyfi ég mér þó að efa að um jafnréttismál sé að ræða. Auðvitað er það svo að ef vilji er fyrir því að hrista upp í ritstjórn þá liggur ekki beinast við að hækka þá í tign sem hafa starfað lengi. Að hafa unnið á fjölmiðli frá stofnun er ekki kostur í öllum tilfellum þó að stundum geti svo verið.
En hvað um "vondu kallana" sem stjórna 365 miðlum?
Staðreyndin er sú að "vondu köllunum" er stjórnað af konum. Meirihluti, eða 66.6% af stjórn fyrirtækisins er skipaður konum. Meirihlutaeigandi í fyrirtækinu er kona.
Auðvitað getur það verið að mörgum hafi fundist sá dagur þegar Ingibjörg Pálmadóttir tók við sem stjórnarformaður 365 miðla, af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, einn af merkisdögum Íslenskrar jafnréttisbaráttu, að þar hafi enn eitt "glerþakið" verið brotið. Ég er ekki einn af þeim.
Ég sá einfaldlega einn eiganda taka við af öðrum, eins og rétt og eðlilegt er. Það er einmitt þess vegna sem kynjakvóti í fyrirtækjum er ekki að óeðlilegur, heldur er verið að taka sjálfsagðan rétt af þeim sem hætta fé sínu í fyrirtækjarekstri. Það stríðir gegn lýðræði og á ekkert skylt við jafnrétti.
En hvað um hefndina?
Nú ætla ég ekki að fullyrða um hvort sé að ræða hefnd eður ei. Hitt er þó að þessar breytingar koma stuttu á eftir frægum greinaskrifum.
En er ekki nóg að setja lög um sjálfstæði ritstjórna? Hafa Íslenskir vinstrisinnaðir stjórnamálamenn klifað á því í allnokkur ár? Skyldi verða reynt að láta reyna á slíkt sjálfstæði í þessu tilfelli?
Svarið liggur í augum upp. Auðvitað ekki.
Það liggur í augum úti (svo vitnað sé sé í stjórnmálamann og músikkant) að eignarhald á fjölmiðlum skiptir máli og það er notað til áhrifa.
Íslenskir vinstrimenn hafa þó barist ötullega gegna því að slíku yrðu reistar skorður. Gjarna með þeim rökum að það sé þakkarvert að einhver skuli vilja reka blessaða fjölmiðlana.
En svo vitnað sé í annan músíkalskan stjórnmálamamann: "Kæri Jón, þú ræður þessu á endanum. Það vita allir."
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Áttu við að ef maður "hættir fé sínu" öðlist maður þar með tiltekinn rétt til að ráðstafa því sem maður hættir fé sínu í?
Það er viðtekin kenning að einungis þeir sem setja fé í fyrirtæki eigi hagsmuna að gæta. Aftur á móti er það nýrri kenning, sem er að ryðja sér til rúms, að hagsmunaaðilar séu mun fleiri, t.d. líka viðskiptavinir fyrirtækisins og jafnvel það samfélag sem fyrirtækið starfar í.
Það er að minnsta kosti alls ekki sjálfgefið að einungis þeir sem leggja fram hlutafé eigi hagsmuna að gæta. Hvort sem manni líkar betur eða verr er þetta miklu flóknara mál en svo.
Kristján G. Arngrímsson, 8.3.2013 kl. 20:41
Ég er auðvitað að tala um hluthafalýðræði, eins og þú réttilega talar um í upphafi.
Ég kann vissulega að hafa hagsmuni af því að eitthvað tiltekið fyrirtæki geri hitt eða þetta.
En það að hafa keypt Renault sendibíl (eða hvað sem er annað) gefur mér ekki rétt til þess að hlutast til um málefni fyrirtækisins, frá þeim sjónarhóli sem ég stend á. Það gefur mér heldur ekki rétt til þess að krefjast þess að umboðsaðili á Íslandi, haldi uppi ákveðnu atvinnustigi, eða flokki sorpið hjá sér.
En ég get vissulega greitt atvkæði "með veskinu" og geri það á hverjum degi. Ákveð hvaða fyrirtæki eru mér "þóknanleg" og hver ekki. Hvar mér er boðin þjónusta sem ég sætti mig við og hvar ekki.
Hitt er svo að almenningur í gegnum fulltrúa sína hjá ríkisvaldinu setur margvísleg skilyrði fyrir fyrirtækjarekstri. Og auðvitað hafa þeir vald til þess.
Fyrirtæki aðlaga sig að slíku.
En ytri og innri skilyrði eru að mínu mati tvennt ólíkt. Persónulega finnst mér algerlega óásættanlegt að sá lýðræðislegi réttur að mega kjósa hvern sem er á aðalfundi til að sitja í stjórn, sé tekin af hluthöfum. Rétt eins og mér finndist það óásættanlegt að hverju fyrirtæki yrði gert skylt að hafa tvo forstjóra. Einn karl og eina konu.
Það er ekkert nýtt að sósíalistar sætti sig ekki við að eigendur njóti eignarréttar síns.
P.S. Þú útskýrir ef til vill fyrir mér Kristján, hvaða hagsmunir það voru fyrir Íslenskan almenning að Ingibjörg Pálmadóttir tæki við af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem stjórnarformaður 365 miðla.
Það gerir það að verkum að meirihluti stjórnarinnar eru konur, en hvaða hagsmuni hefur "samfélagið" af því?
G. Tómas Gunnarsson, 9.3.2013 kl. 07:29
Sósíalistar?
Hvaða áratugur er hjá þér?
Jæja þá, kapítalistar hafa löngum litið svo á að lögmálið "ég á þetta, ég má þetta" gildi um fólk jafnt sem sendibíla. Þannig sé starfsfólk fyrirtækja í rauninni eign hluthafanna, rétt eins og tækin sem fyrirtækið á.
Segjum sem svo, að ég kaupi mat af einhverju fyriræki og borði hann. Nú vill svo til að maturinn var eitraður og ég dey. Þá á ég frekar litla möguleika á að hætta að skipta við fyrirtækið.
Ef nú fyrirtækinu tekst að hylma yfir þetta, til að vernda eign hluthafanna, gætu fleiri viðskiptavinir dáið áður en það verður ljóst að ekki er ráðlegt að versla hjá mér og fólk hættir því.
Þetta er ein ástæðan fyrir því, að rökin um að fólk hætti sjálfkrafa að versla við vond fyritæki standast ekki til lengdar.
Þess vegna þarf að hafa nákvæmt eftirlit með fyrirtækjum og til að hafa slíkt eftirlit þarf opinberar stofnanir. Ertu alveg búinn að gleyma íslenska "Fjármálaeftirlitinu" sem hann þarna vinur þinn úr SUS átti að heita settur yfir?
Kristján G. Arngrímsson, 11.3.2013 kl. 08:22
Er eitthvað að orðinu sósíalisti? Slíkt er notað víða um heim, veit ekki betur en að Parti socialiste sé ráðandi flokkur í Frakklandi um þessar mundir og Hollande forseti. Að vísu einhver sá óvinsælasti um langa hríð, en það breytir því ekki að hann kemur úr sósíalistaflokknum.
Eins og ég sagði hér að ofan setur ríkisvaldið setur ríkisvaldið ýmis ytri skilyrði fyrir því að fyrirtæki starfi og fyrirtæki aðlaga sig að því.
En nú nýverið er ríkisvaldið farið að setja "innri" skilyrði eins og um kynjahlutfall í stjórnum.
Þú gerir ekkert til að útskýra hvaða hagsmuni almenningur hefur af því? Hví er hinn lýðræðislegi réttur tekin af hluthöfum og hvernig þjónar það almannahagsmunum?
Hvaða almannahagsmunum var fullnægt þegar Ingibjjörg Pálmadóttir tók við sem stjórnarformaður af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni?
Íslenska fjármálaeftirlitið var í engan hátt í stakk búið til að hafa eftirlit með Íslenska fjármálakerfinu, sem undir reglum Evrópusambandsins hafði teygt arma sína víða um Evrópu.
Auðvitað voru lögin afspyrnuléleg og í raun hættuleg.
Mesta hættan var ef til vill fólgin í því að þau sköpuðu falskt öryggi og traust á fjármálastofnunum sem áttu það ekki skilið.
Það er því ef til vill ekki gott dæmi um eftirlit geri í raun mikið gagn.
Með því er ég ekki að halda því fram að allt eftirlit eigi að fella niður, en það er önnur saga
G. Tómas Gunnarsson, 11.3.2013 kl. 09:07
Krafan um kynjakvóta á sér flóknari forsendur en svo, að ég geti útskýrt þær hér en þú getur ef þú vilt fundið upplýsingar um það á netinu.
Ég tek fram að ég er enginn sérstakur stuðningsmaður kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, en mér finnst í alvörunni að ekki sé rétt að hafna rétt sisona því sem haldið hefur verið fram um tengsl hruns fjármálakerfis heimsins 2008 og karllægra gilda og markmiða.
Prófaðu að lesa eitthvað um karllæg gildi og gagnrýni á þau og gáðu hvort þú ferð að skilja aðeins þetta með kynjakvótakröfuna.
Kristján G. Arngrímsson, 11.3.2013 kl. 22:19
Ég hef lesið heilmikið um kynjakvóta og rökin fyrir þeim. Ekkert af því hefur mér fundist fullnægjandi eða skynsöm.
Það er hins vegar eins og ég sagði áður ekkert nýtt að sósíalistar (og aðrir) vilji stjórna eða taka yfir stjórn á eigum annara.
En ertu þá sammála því að fyrst þér finnst ekki hægt að hafna því sisona,að þá sé fyllilega eðlilegt að skella á lagasetningu og upræta það hluthafalýðræði sem hefur verið við lýði?
Ertu að segja að konur og karlar séu ekki "jafnir" einstaklingar, heldur sé grundvallarmunur á "gerð" þeirra og hegðun?
P.S. Endilega útskýrðu svo fyrir mér hvað er að því að nota orðið sósíalisti.
G. Tómas Gunnarsson, 12.3.2013 kl. 04:07
Það má svo bæta því við hér til gamans og þér til fróðleiks, að Íslenskri sósíalistar tala yfirleitt ekki lengur um kapítalista. Þeir tala um auðvaldið.
Ég reikna ekki með að þú þurfir að fara lengra aftur en til vantraustsumræðunnar á Alþingi í gær, til þess að finna það í notkun.
G. Tómas Gunnarsson, 12.3.2013 kl. 06:12
Mér er alveg sama hverjir nota ennþá orð eins og sósíalistar og auðvald. Þessi orð eru úrelt, finnst mér. Þeir sem nota þau enn eru fastir í fortíðinni. Kannski afþví að þeir vilja það, sumir kunna vel við sig í gömlum skotgröfum með vel skilgreindan óvin í sigtinu. Jafnvel þótt hann sé steindauður.
Konur og karlar geta alveg verið jafnir einstaklingar þótt eðli þeirra sé ólíkt. Femínistar hafna því alveg að eðlið sé ólíkt, en benda á að valdajafnvægið sé mjög ójafnt milli kynjanna. Ég held að þetta snúist um það.
Hver skilgreindi leikinn í upphafi? Það voru karlar, og þeir skilgreindu hann útfrá sínum gildum. Kíktu í Kynungabók (finnur það með þvi að Googla). Í inngangi þar segir m.a.:
"Talið er að rekja megi núverandi kynjamisrétti til þeirra tíma er eingöngu karlar úr valdastétt höfðu tækifæri til að móta samfélagið en það gerðu þeir út frá hagsmunum sínum. Gildismat þeirra varð undirliggjandi í trúarbrögðum, lögum, reglum, hefðum og siðum, eða í samfélaginu öllu."
Kristján G. Arngrímsson, 12.3.2013 kl. 18:41
Ég get reyndar ekki verið sammála því að orð eins og sósíalisti sé úrelt. Hví ætti það að vera það?
Hundruðir þúsunda manna (ef ekki milljónir) um allan heim vilja kalla sig sósíalista. Hví ætti að neita þeim um það?
Hvað er valdajafnvægi og hvernig verður það til?
Hvað er jafnrétti?
Persónulega lít ég svo á að það þýði að allir séu jafnir fyrir lögum og njóti sama réttar. Vantar mikið á það á Íslandi í dag?
Hitt er svo allt annað mál hvort að fullt jafnræði sé og jafnt skipað í allar stéttir. Að svo sé ekki lít ég ekki á sem misrétti.
Það verður þó ekki hjá því komist að nefna að sumar stéttir virðast vera"kynjafræðingum" mun hugleiknari en aðrar og virðist ójafnræði í sumum stéttum ekki valda neinum svefnlausum nóttum.
G. Tómas Gunnarsson, 12.3.2013 kl. 23:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.